Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2017

Mál nr. 3/2017

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Rio Tinto á Íslandi hf.

 

Launakjör. Sératkvæði.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að henni hefðu verið greidd lægri laun en karli sem gegndi sama eða jafnverðmætu starfi og hún. Kærði taldi launamuninn skýrast annars vegar af breyttu launakerfi og hins vegar af starfsaldri karlsins hjá fyrirtækinu. Kærunefnd óskaði eftir tilteknum gögnum frá kærða er vörðuðu launakjör annarra starfsmanna en kærði varð ekki að öllu leyti við þeirri beiðni. Meirihluti kærunefndar taldi að kærði hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeim mun sem var á launum kæranda og þess starfsmanns sem hún bar sig saman við. Því hefði kærði brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laganna. Í sératkvæði var fallist á að kærði hefði lagt fram trúverðugar og málefnalegar skýringar á launamuni kæranda og þess starfsmanns sem hún bar sig saman við og var því ekki fallist á að brotið hefði verið gegn ákvæðum laganna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 17. ágúst 2017 er tekið fyrir mál nr. 3/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 23. janúar 2017, kærði A ætlaðan mismun á launakjörum sínum og karlmanns í sambærilegu starfi. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun launa og kjara samkvæmt 19. gr. laganna.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 6. febrúar 2017. Kærði fékk frest til að skila greinargerð, en hún barst með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2017. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.

  4. Með tölvupósti 14. mars 2017 óskaði kærandi eftir fresti til að gera athugasemdir og bárust þær með tölvupósti 28. mars 2017. Athugasemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. mars 2017.

  5. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 11. apríl 2017, og voru sendar kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar sama dag. Kærandi sendi athugasemdir í tölvupósti 21. apríl 2017.

  6. Með bréfi kærunefndar til kærða, dagsettu 4. maí 2017, var óskað eftir tilteknum gögnum og upplýsingum, sem bárust með bréfi kærða, dagsettu 11. maí 2017.

  7. Með öðru bréfi kærunefndar til kærða, dagsettu 15. maí 2017, var óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum í málinu. Upplýsingar og gögn bárust með bréfi kærða, dagsettu 22. maí 2017.

  8. Þá óskaði kærunefndin á ný eftir enn frekari gögnum og upplýsingum með bréfi til kærða, dagsettu 1. júní 2017, sem bárust með bréfi kærða, dagsettu 15. júní 2017.

  9. Með bréfi kærunefndar til kæranda, dagsettu 4. júlí 2017, voru henni send afrit af bréfum kærða, dagsettum 11. maí 2017, 22. maí 2017 og 15. júní 2017, og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þau. Með tölvupósti kæranda 18. júlí 2017 gerði hún athugasemdir við framangreind bréf og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.

  10. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  11. Við meðferð málsins voru lögð fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun tiltekinna starfsmanna kærða. Í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, tilkynnti kærunefndin umræddum einstaklingum bréflega að upplýsingar sem þá varða hefðu verið veittar nefndinni og að fyllsta trúnaðar yrði gætt við meðferð upplýsinganna.

    MÁLAVEXTIR

  12. Kærandi telur að hún hafi orðið fyrir mismunun í launum og kjörum vegna kyns þegar hún og karl sem hún ber sig saman við störfuðu sem sérfræðingar í framleiðsluskipulagi hjá kærða. Stuttu áður en kærandi hætti störfum hjá kærða í lok ágúst 2016 hafi hún orðið þess áskynja að samstarfsmaður hennar hafi verið með um 186.000 krónum hærri mánaðarlaun en hún. Hluti af starfi hans hafi verið að vera gagnafulltrúi, en það feli ekki í sér neina stjórnun. Kærandi telji það ekki geta útskýrt þennan mikla launamun. Þau hafi bæði verið með sambærilega háskólamenntun og svipaðan starfsaldur hjá fyrirtækinu. Hún telji að störf þeirra hjá fyrirtækinu hafi verið þau sömu eða jafnverðmæt í skilningi laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þau hafi því átt að njóta sömu launa og sambærilegra kjara skv. 19. gr. laganna.

  13. Kærði hafnar því að launamunur hafi verið vegna kynferðis og telur að munurinn skýrist af öðrum málefnalegum ástæðum. Annars vegar af því að þegar núverandi launakerfi hafi tekið gildi á árinu 2010 hafi laun karlsins verið hærri en laun sem hann hefði átt að fá samkvæmt því kerfi. Ekki hafi þótt forsendur til, meðal annars á grundvelli almennra reglna vinnuréttar, að lækka laun karlsins einhliða til að þau féllu innan kerfisins heldur hafi hann haldið áfram óbreyttum launum. Hins vegar skýrist launamunurinn af starfsaldri karlsins hjá fyrirtækinu sem leiði til þess að laun hans séu nú nálægt þeim launum sem séu efst í „launabandi“ K sem bæði störf hans og kæranda hafi tilheyrt. Mismunur á launum karlsins og kæranda á þeim tíma sem þau hafi bæði starfað sem sérfræðingar hjá kærða hafi því ekki verið á grundvelli sjónarmiða er varði kynferði, sbr. 2. mgr. 25. gr. jafnréttislaga, heldur hafi málefnalegar ástæður verið því að baki sem hafi ekkert með kyn haft að gera.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  14. Kærandi greinir frá því að hún hafi leitaði til Jafnréttisstofu til að fá aðstoð við að afla gagna og upplýsinga til þess að geta metið hvort grunur hennar væri á rökum reistur. Jafnréttisstofa hafi beint erindi til kærða og hafi svör borist í janúar 2017. Í framhaldinu hafi Jafnréttisstofa og kærandi farið yfir svörin, sem hún geri athugasemdir við.

  15. Kærandi bendir á að þegar starfslýsingar kæranda og karlsins sem hún beri sig saman við séu bornar saman séu töluverð líkindi með þeim. Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við skýringar kærða í bréfinu til Jafnréttisstofu. Þar segir að hann hafi verið helsti sérfræðingur kærða í framleiðsluskipulagi. Kærandi bendir á að það séu aðeins þrjú sérfræðistörf í framleiðsluskipulagi og að ekkert eitt sé mikilvægara en annað.

  16. Þá komi fram í bréfi kærða að sá sem kærandi beri sig saman við hafi haft umsjón með því að innleiða nýtt tölvukerfi á tímum breytinga. Um þetta segir kærandi að mjög stór hluti starfs hennar á árunum 2012–2015 hafi verið að vinna með verktökunum við þróun nýs tölvukerfis. Sá sem kærandi beri sig saman við hafi ekki verið stjórnandi/yfirmaður, yfirmaður tölvudeildar hafi verið það, þótt hann hafi boðað fundi og haldið utan um þá.

  17. Í bréfinu greini frá því að í kjölfar breytinganna hafi verið ákveðið að bæta við nýju stöðugildi og hafi kærandi verið ráðin í það. Kærandi kveður þetta ekki rétt. Hún hafi hafið störf fyrir breytingarnar og hún hafi ekki unnið minna við þær en sá sem hún beri sig saman við.

  18. Jafnframt segi í bréfinu að sá sem kærandi beri sig saman við hafi leiðbeint henni þegar hún hafi hafið störf sem sérfræðingur hjá kærða árið 2011. Kærandi kveður það vera, en hann hafi ekki verið sá eini. Einnig bendir kærandi á að hún hafi þjálfað hann þegar hann hafi komið í framleiðsluskipulagið árið 2006.

  19. Því hafi verið lýst að starf þess sem kærandi beri sig saman við hafi verið að hafa eftirlit með framleiddri vöru, tryggja að skráningar væru í lagi, gæði væru uppfyllt og að rétt vara færi um borð í skip til útflutnings. Kærandi kveðst hafa séð um þetta allt líka, ekki minna en karlmaðurinn.

  20. Kærandi bendir á að hún hafi fengið betra frammistöðumat en sá sem hún beri sig saman við árið 2014 og það ætti að skýra launahækkun hennar.

  21. Kærandi telur að meira sé gert úr verkefnum karlsins og ábyrgð, en minna sé gert úr verkefnum hennar og ábyrgð. Störfin hafi í raun og veru verið þau sömu eða jafnverðmæt og því hafi átt að greiða jöfn laun og veita sömu kjör fyrir störf þeirra beggja.

  22. Kærandi telur ljóst að störfin séu þau sömu eða jafnverðmæt í skilningi 19. gr. jafnréttislaga og þeim hefðu því átt að vera greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir þessi störf, sbr. einnig 1. mgr. 25. gr. jafnréttislaga. Vísar hún í því samhengi til þess að starfslýsingar kæranda og þess starfsmanns sem hún ber sig saman við hafi verið svipaðar, að þau hafi þjálfað hvort annað á mismunandi tímum og geti að mestu leyst hvort annað af.

  23. Kærandi hafnar því að sá munur sem hafi verið á starfsaldri hennar og þess sem hún beri sig saman við geti skýrt þann mikla launamun sem hafi verið á þeim um lengri tíma.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  24. Kærði tekur fram að það álitaefni sem hér sé til umfjöllunar afmarkist við það tímabil sem bæði kærandi og sá sem hún beri sig saman við hafi starfað saman sem sérfræðingar hjá kærða í framleiðsluskipulagi steypuskála, þ.e. það tímabil sem kærandi hafi starfað sem sérfræðingur hjá kærða, frá 3. október 2011 til ágústloka 2016.

  25. Af hálfu kærða er því hafnað að sá munur sem hafi verið á launum kæranda og þess sem hún beri sig saman við sé tilkominn vegna kynferðis og með því brotið gegn 1. mgr. 25. gr. jafnréttislaga. Þvert á móti telur kærði að launamunur sem hafi verið til staðar skýrist af öðrum ástæðum en kyni og sé um málefnaleg atriði að ræða.

  26. Hvað varði almennt launakjör hjá kærða greinir kærði frá því að álverið í Straumsvík þar sem kærandi hafi starfað sé rekið af Rio Tinto á Íslandi hf. og sé hluti af alþjóðlega fyrirtækinu Rio Tinto sem sé með höfuðstöðvar í London.

  27. Launakjör sérfræðinga og stjórnenda hjá kærða séu ákveðin eftir sérstöku kerfi sem komið hafi verið á hjá Rio Tinto árið 2010, þar á meðal á Íslandi. Með því kerfi hafi öll störf sem hið nýja kerfi tók til verið endurmetin og gerðar nýjar starfslýsingar.

  28. Launakerfið sé þannig uppbyggt að öll störf sérfræðinga séu metin í svokallað launaband og þar með til tiltekinna launa. Hvert launaband hafi afmarkað lágmark og hámark launa fyrir það starf sem um ræði, enginn byrji með lægri laun en lágmarkið og hækki starfsmenn eftir ákveðnum leiðum þar til hámarkinu sé náð. Starfsmenn raðist mismunandi innan launabands, meðal annars vegna starfsaldurs en auk þess hafi frammistaða í starfi áhrif. Laun í launabandi, eins og hér á landi, taki einnig hækkunum sem ákveðnar séu hjá höfuðstöðvum fyrirtækisins í London.

  29. Vegna upptöku hins nýja launakerfis hafi þurft að meta störf inn í tiltekin launabönd. Við það hafi getað komið upp sú staða að starfsmenn væru með lægri laun en tilheyrandi launaband og staða innan þess hafi mælt fyrir um. En einnig hafi getað komið til þess að starfsmenn væru þegar með laun sambærileg eða hærri en hæstu laun launabandsins sem þeir hafi tilheyrt. Því hafi verið ákveðið innan samsteypunnar að kæmi sú staða upp að starfsmenn myndu lækka í launum eftir endurmat og röðun í launaband, skyldi frekar en lækka launin leitast við að tryggja áfram óbreytt laun.

  30. Af lýsingu kærða á launauppbyggingu og því sem að framan er rakið megi sjá að launakerfi kærða sé að öllu leyti óháð kyni starfsmanna heldur ráðist af eðli starfsins í hvaða launaband starfsmaður raðist. Þá ráðist það einkum af starfsaldri og frammistöðu í starfi hvar innan einstakra launabanda starfsmaður lendi og hvernig hann hækki þar. Sérhver mismunur sem kunni að vera á launum þeirra sem vinni sambærileg störf, og séu innan sama launabands, sé því vegna málefnalegra ástæðna sem hafi ekki neitt með kyn að gera.

  31. Kærði greinir frá því að kærandi hafi hafið störf hjá kærða 18. maí 1996 og starfað hjá fyrirtækinu til 31. júlí 2006 eða í rúmlega tíu ár. Á þeim tíma hafi hún starfað að mestu sem verkamaður í steypuskála en verið í um eitt ár á rafmagnsverkstæði og tvö ár sem almennur skrifstofumaður í framleiðsluskipulagi. Þessi störf hafi ekki verið sérfræðistörf eins og það sé skilgreint hjá kærða.

  32. Árið 2010 hafi verið ákveðið að ráðast í stórt verkefni hjá kærða sem hafi falist í að umbreyta steypuskálanum og breyta um framleiðslu. Á þeim tíma þegar þetta hafi verið ákveðið hafi kærandi ekki starfað hjá kærða en karlinn sem hún beri sig saman við hafi starfað hjá fyrirtækinu og meðal annars að þessu verkefni. Vegna fyrirhugaðra breytinga hafi verið talið nauðsynlegt að bæta við nýju stöðugildi í framleiðsluskipulag og kærandi verið ráðin í það starf í október 2011.

  33. Kærandi hafi því aftur hafið störf hjá kærða 3. október 2011 og þá sem sérfræðingur í framleiðsluskipulagi sem sé deild sem tilheyri steypuskálanum, (starfsheiti „Homogenizing Furnace Planner“). Hún hafi gegnt því starfi til loka ágúst 2016, eða í tæp fimm ár. Starfsaldur kæranda hjá fyrirtækinu sé því samtals 14 ár, þar af rétt tæp fimm ár sem sérfræðingur.

  34. Þegar kærandi hafi hafið störf á ný sem sérfræðingur hafi það launakerfi sem lýst sé að framan verið tekið í notkun og hafi laun hennar sem sérfræðingur því frá upphafi verið ákveðin eftir því kerfi.

  35. Það starf sem hún hafi verið ráðin í hafi verið metið í launaband K og byrjunarlaun hennar verið nálægt því að vera um miðbik launabandsins. Til samanburðar séu upplýsingar veittar um aðra sérfræðinga sem ráðnir hafi verið sama ár og hafi einnig raðast í launaband K eins og kærandi. Megi til að mynda benda á að karlmaður sem ráðinn hafi verið sama dag, einnig sem sérfræðingur í steypuskála og með sambærilega menntun, hafi verið ráðinn á sömu byrjunarlaunum og kærandi.

  36. Karlinn sem kærandi beri sig saman við hafi hafið störf hjá kærða 22. maí 1990 og starfað þá sem verkamaður, bæði sem starfsmaður fyrirtækisins en einnig sem verktaki. Hafi hann til að mynda verið ráðinn sem verktaki árið 1995 til að vinna að uppfærslu á gæðastaðli og síðar til innleiðingar á umhverfisstaðli.

  37. Karlinn hafi verið fastráðinn hjá kærða 15. október 1998 sem sérfræðingur í gæðastjórnun og starfað við það til ársloka 2005. Þá hafi hann verið ráðinn sem sérfræðingur í framleiðsluskipulag, meðal annars til að sjá um tölvumál steypuskála, og starfi hann enn sem sérfræðingur hjá fyrirtækinu í deildinni framleiðsluskipulag, (starfsheiti „Production Planner“). Starfsaldur þess sem kærandi beri sig saman við hjá fyrirtækinu sé því samtals tæp 27 ár, þar af hafi hann verið fastráðinn í rúmlega 18 ár, allan þann tíma sem sérfræðingur.

  38. Þegar sá sem kærandi beri sig saman við hafi hafið störf sem sérfræðingur árið 1998 hafi núverandi launakerfi ekki verið í gildi. Laun hans hafi því verið ákveðin samkvæmt samkomulagi við fyrirtækið og hafi verið svo allt þar til núgildandi launakerfi hafi verið tekið upp árið 2010. Þá hafi hann starfað sem sérfræðingur hjá kærða í um 13 ár.

  39. Starf þess sem kærandi beri sig saman við hafi, eins og önnur störf, verið metið í launaband og raðast í launaband K, eða það sama og það starf sem kærandi hafi síðar verið ráðin til.

  40. Þegar nýja launakerfið hafi verið tekið upp hafi nokkrir starfsmenn verið með laun sem hafi verið nálægt þeim sem voru efst í launabandi, eða jafnvel hærri. Þannig hafi einmitt verið ástatt með laun þess sem kærandi beri sig saman við. Laun hans, þegar þessar breytingar hafi átt sér stað, hafi verið nálægt því að vera þau sömu og efstu laun í launabandi K þar sem starfi hans var raðað.

  41. Laun þess sem kærandi beri sig saman við hafi verið 1.239 krónum lægri en laun efst í launabandi K (Band Maximum). Til samanburðar séu dæmi um starfsmenn sem hafi verið í sömu stöðu og hann, þar á meðal í sama launabandi. Sá sem kærandi beri sig saman við hafi því engan veginn verið eini starfmaðurinn sem þetta hafi átt við um.

  42. Sá sem kærandi beri sig saman við hafi hafið störf hjá kærða sem sérfræðingur mun fyrr en kærandi, eða árið 1998. Á þeim tíma hafi ekki verið til staðar það launakerfi sem nú gildi og sem kærandi hafi þegið laun eftir allan þann tíma sem hún hafi starfað sem sérfræðingur. Launakjör hans hafi því í upphafi verið ákveðin með allt öðrum hætti og farið eftir samkomulagi við fyrirtækið, eins og hafi tíðkast á þeim tíma hjá kærða.

  43. Í hinu nýja launakerfi sem tekið hafi verið upp 2010 hafi störf þeirra beggja verið metin í sama launaband eða launaband K. Eitt af því sem hafi áhrif á laun starfsmanna, og þar með hvar þeir raðist innan launabands, sé starfsaldur.

  44. Fyrir liggi og sé óumdeilt að starfsaldur þess sem kærandi beri sig saman við sé mun lengri en starfsaldur kæranda en hann hafði starfað hjá kærða í um 13 ár sem sérfræðingur þegar kærandi hafi hafið störf sem slíkur. Gefi augaleið að sá starfsaldur telji við ákvörðun um það hvar innan launabands starfsmaður raðist, og þar með fjárhæð launa, og hafi ekkert með kyn starfsmanns að gera.

  45. Eitt af því sem skýri launamun kæranda og þess sem hún beri sig saman við sé því verulega lengri starfsaldur hans sem sérfræðingur hjá kærða. Sé sú ástæða að mati kærða málefnalegt sjónarmið enda sé mismunur af þeim sökum alfarið óháður kyni.

  46. Kærði tilgreinir einnig aðra ástæðu launamunarins sem sé málefnaleg og að öllu leyti óháð kyni. Þegar nýju kerfi hafi verið komið á hafi þurft að setja störf þeirra sem þá hafi starfað hjá fyrirtækinu í tiltekin launabönd. Samhliða hafi þurft að skoða launakjör hvers og eins og hvernig þágildandi kjör hafi samræmst þeim launum sem ákveðin höfðu verið í hverju launabandi fyrir sig með tilliti til starfsaldurs og annarra þátta sem skipt hafi máli.

  47. Eins og fyrr hafi verið lýst hafi í tilviki þess sem kærandi beri sig saman við komið í ljós að laun hans hafi á þessum tíma verið nálægt því að vera jafn há þeim launum sem hæst hafi verið í launabandi K. Það hafi þýtt að laun hans hafi verið hærri en þau laun sem launabandið hafi mælt fyrir um að hann skyldi hafa. Af hálfu kærða hafi hins vegar ekki þótt rétt að laun hans væru lækkuð í þeim eina tilgangi að láta þau rúmast innan launabandsins. Kærði hafi ekki talið sig hafa heimild til að ákveða einhliða slíka launalækkun. Hafi því kærði talið rétt að hann héldi óbreyttum launum enda í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hafi verið við innleiðingu kerfisins.

  48. Í staðinn hafi verið ákveðið að haga hækkun launa til þess sem kærandi beri sig saman við þannig að bilið milli launa, sem hann hefði annars haft samkvæmt launabandinu, og launa hans myndi minnka smám saman. Hafi sú framkvæmd leitt til þess að laun hans séu nú nálægt því að vera þau sömu og launin efst í launabandinu. Til skýringa hafi laun efst í launabandi K verið 2.304 krónum hærri í ágúst 2016 en laun þess sem kærandi beri sig saman við.

  49. Tekið skal fram að þessi staða hafi ekki eingöngu átt við um þann sem kærandi beri sig saman við heldur aðra sem hafi verið í sömu stöðu. Hafi allir þeir starfsmenn verið meðhöndlaðir með sambærilegum hætti.

  50. Eins og sjá megi af launaseðlum kæranda hafi föst mánaðarlaun hennar er hún hafi hætt störfum í ágúst 2016 verið X krónur. Hún hafi verið í launabandi K og launin verið nálægt því að vera um miðbik launabandsins. Samanburður við mánaðarlaun í janúar 2014 sýni að laun hafi hækkað á tímabilinu.

  51. Launaseðlar sýni að laun þess sem kærandi beri sig saman við í janúar 2016 hafi verið lítillega hærri en hámark launabands K. Samanburður við mánaðarlaun sýni að launin hafi verið þau sömu í janúar 2014 og því engin hækkun á tímabilinu sem skýrist af því að leitast hafi verið við að færa laun hans nær launum í launabandi.

  52. Kærði bendir á að sérfræðistörf séu nú þrjú en hafi áður verið tvö. Því sé ekki haldið fram að eitthvað eitt þeirra sé merkilegra en hin. Það að kærði telji þann sem kærandi beri sig saman við helsta sérfræðing fyrirtækisins á tilteknu sviði hafi ekkert með kynferði að gera. Með því sé á engan hátt verið að reyna að halla á kæranda heldur eingöngu lýsa mati fyrirtækisins á störfum hans í heild sem og langri starfsreynslu.

  53. Hvað varði innleiðingu tölvukerfis bendir kærði á að sá sem kærandi beri sig saman við hafi haft yfirumsjón með þessum þætti verksins, óháð aðkomu annarra að þeirri vinnu.

  54. Í kæru hafi kærandi sagt að hún teldi starf þess sem hún beri sig saman við „talað upp“ en starf hennar „talað niður“. Því hafnar kærði alfarið, á engan hátt sé verið að gera lítið úr öðru eða upphefja hitt, eða gefa til kynna að eitt verkefni sé merkilegra en annað. Þvert á móti hafi verið leitast við að lýsa störfum beggja á sem hlutlausastan hátt og í samræmi við starfslýsingar.

  55. Að öllu framangreindu virtu telur kærði aðalástæðu launamunar kæranda og þess sem hún beri sig saman við vera tvíþætta. Annars vegar að þegar launakerfið sem kærandi hafi tekið laun eftir hafi tekið gildi hafi laun karlsins þegar verið hærri en laun sem hann hefði átt að fá samkvæmt því kerfi. Ekki hafi þótt forsendur til, meðal annars á grundvelli almennra reglna vinnuréttar, að lækka laun hans einhliða til að þau féllu innan kerfisins heldur hafi hann haldið áfram óbreyttum launum. Hins vegar skýrist launamunurinn af starfsaldri hans hjá fyrirtækinu sem, ásamt því sem fyrr greini, leiði til þess að laun hans séu nú nálægt þeim sem séu efst í launabandi K sem bæði störf hans og kæranda hafi tilheyrt.

  56. Mismunur á launum starfsmannanna á þeim tíma sem þau hafi bæði starfað sem sérfræðingar hjá kærða hafi því ekki verið á grundvelli sjónarmiða er varði kynferði, sbr. 2. mgr. 25. gr. jafnréttislaga, heldur hafi málefnalegar ástæður verið því að baki sem hafi ekkert með kyn haft að gera.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  57. Í athugasemdum kæranda bendir hún á að fram komi á launaseðlum að sá sem hún beri sig saman við hafi ekki fengið launahækkanir á meðan kærandi hafi fengið mjög væga hækkun að hennar mati. Áður hafi komið fram hjá kærða að sá sem kærandi beri sig saman við hafi fengið eingreiðslur í staðinn. Einnig hafi komið fram í gögnum málsins að sá sem kærandi beri sig saman við hafi ekki verið með betra frammistöðumat en kærandi þessi ár og að einhverju leyti lakara og því eðlilegast að líta á þær eingreiðslur sem laun, sem auki muninn á þeim tveimur.

  58. Kærandi bendir einnig á að launaband réttlæti aldrei launamun eitt og sér. Telur kærandi að miðað við frammistöðumat og fyrri reynslu hennar í steypuskála hafi verið bæði tækifæri og ástæða til að hækka launin nær karlinum sem hún beri sig saman við. Að auki megi benda á að vegna fyrri reynslu, bæði af gólfi steypuskála og sem sérfræðingur í framleiðsluskipulagi árin 2004–2006 hafi hún nánast enga þjálfun þurft þegar hún hafi hafið störf aftur 1. október 2011.

  59. Hafi kærði verið að leitast við að leiðrétta launin óski kærandi eftir að sjá áætlun þar að lútandi. Kærandi hafi leitað eftir skólastyrk tvisvar á nokkurra mánaða tímabili fyrri hluta árs 2016 og fengið þau svör að ekki hafi verið svigrúm til þess. Það telji kærandi vera dæmi um að kærði hafi ekki verið að leitast við að jafna launin.

  60. Í nýju framleiðslukerfi hafi allir verið á sama stað, þ.e. byrjunarreit, og hafi sá sem kærandi miði sig við ekkert forskot þar á. Þau bæði sem og samstarfskona þeirra í framleiðsluskipulagi hafi unnið tugi og hundruði tíma í sjálfboðavinnu, þ.e. ógreiddri yfirvinnu, sumarið og haustið 2012 vegna nýja kerfisins. Þar hafi í engu sést að sá sem kærandi beri sig saman við væri hæfari í þeim störfum en kærandi og samstarfskona þeirra, enda hafi það verið verktakinn sem hafi séð um þjálfun allra þriggja á sama tíma. Þetta nefni kærandi til að fyrirbyggja þann misskilning að sá sem kærandi miðar sig við hafi unnið meira í nýju kerfi en aðrir.

  61. Kærandi bendir á að auðvelt ætti að vera fyrir kærða að sýna fram á að ekki hafi verið um kynbundinn launamun að ræða með því að kærði leggi einnig fram launaseðla samstarfskonunnar þar sem kærandi sé nær þeim, sem hún miðar sig við, í starfsaldri sem sérfræðingur og sé einnig með háan starfsaldur hjá kærða.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  62. Kærði bendir á að kærandi hafi talið launahækkanir sínar árin 2014 og 2015 vægar. Í því sambandi skuli upplýst að launahækkanir til hennar hafi bæði árin verið hærri en meðalhækkun launa hjá kærða. Meðalhækkun launa árið 2014 hafi verið 3,10%, en laun kæranda hafi hækkað um 6,05%. Þá hafi meðalhækkun launa árið 2015 verið 2,95%, en laun kæranda hafi hækkað um 3,72%. Ljóst megi því vera að fullyrðing kæranda um væga launahækkun sé ekki á rökum reist.

  63. Þá hafi kærandi vísað til þess að eingreiðslur til þess sem hún beri sig saman við hafi komið í stað launahækkana þessi árin og þar með aukið enn á launamuninn. Í því sambandi skuli bent á að slík eingreiðsla hækki ekki launagrunninn enda komi hún eingöngu til greiðslu í eitt skipti og séu mánaðarlaun óbreytt. Eingreiðsla sé því ekki launahækkun og hafi til að mynda ekki áhrif á orlofs- eða desemberuppbót til hækkunar.

  64. Eins og fyrr hafi verið lýst gildi ákveðið launakerfi hjá kærða sem hafi verið búið að innleiða þegar kærandi hafi hafið störf. Beri að greiða laun eftir því kerfi og sé í raun innbyggt í kerfið að ekki sé unnt að mismuna starfsmönnum enda sé stjórnendum hvorki heimilt né mögulegt að fara út fyrir kerfið og reikna laun með einhverjum öðrum hætti en þar sé mælt fyrir um. Það að starfsmaður raðist í tiltekið launaband mismuni ekki starfsmönnum, hvorki eftir kyni eða öðru.

  65. Starfsmenn sem séu ráðnir til starfa raðist í tiltekið launaband sem starfslýsing falli undir. Hvar starfsmaður byrji byggi meðal annars á starfsreynslu og menntun og svo hafi verið í tilviki kæranda. Frammistöðumat geti síðan haft bein áhrif á launahækkanir, komi starfsmenn vel út úr því. Frammistöðumat hafi haft áhrif á launahækkanir til kæranda.

  66. Vegna vísunar kæranda til starfsreynslu er bent á að tveir starfsmenn hafi verið ráðnir sem sérfræðingar í steypuskála í október 2011 á sömu launum. Annar þeirra hafi verið kærandi með BS gráðu í viðskiptafræði en hinn karlmaður með meistaragráðu í verkfræði. Að öllu jöfnu hefði sá sem var með meiri menntun átt að vera ráðinn á hærri launum. Vegna starfsreynslu kæranda hafi laun þeirra verið jöfn. Starfsreynsla hennar hafi þannig haft bein áhrif á það hver laun hennar voru í byrjun.

  67. Að mati kærða gætir misskilnings hjá kæranda um að sérstök áætlun hafi verið í gangi um leiðréttingu launa hennar. Kærandi hafi fengið laun eftir því launakerfi sem hafi verið í gildi hjá kærða þegar hún hafi hafið störf. Því hafi fyrr verið lýst hvernig launakerfið sé og að launahækkanir hafi fylgt ákveðnu kerfi sem stjórnendum félagsins beri að fara eftir. Þá hafi því einnig verið lýst hvað hafi orðið til þess að sá sem kærandi beri sig saman við hafi ekki fallið innan þess kerfis.

  68. Þegar rætt sé um að launamunur myndi jafnast út sé eingöngu verið að skýra að sá sem kærandi beri sig saman við hafi ekki fengið launahækkanir þar sem laun hans hafi verið það há að hann hafi nánast verið efst í viðeigandi launabandi. Kærandi hafi hins vegar fengið launahækkanir sem þá hafi orðið til þess að hún hafi hækkað í launabandinu.

  69. Kærði fái ekki séð hvernig skólastyrkur geti talist mismuna í launum eins og skilja megi af athugasemdum kæranda. Ástæða þess að umsókn kæranda um skólastyrk hafi verið hafnað sé sú að árið 2016 hafi verið mælt fyrir um mikinn niðurskurð á kostnaði á öllum sviðum hjá Rio Tinto. Meðal þess sem hafi verið skorið niður hafi verið fræðslumál og hafi Stóriðjuskólinn verið lokaður allt árið 2016, en sá skóli gangi að jafnaði fyrir í fræðslustarfi hjá fyrirtækinu. Það ár hafi einnig verið mælt fyrir um launafrystingu hjá sérfræðingum og yfirmönnum félagsins. Höfnun á skólastyrk hafi þannig verið af málefnalegum ástæðum sem hafi tengst beint rekstri félagsins en ekkert haft með launakjör eða kyn starfsmanns að gera. Það sama hafi átt við um alla sem hafi sótt um slíkan styrk árið 2016.

  70. Til að samanburður á launum starfsmanna sé raunhæfur verði að bera saman starfsmenn sem sinna sambærilegum störfum. Samstarfskona kæranda í framleiðsluskipulagi sem kærandi hafi vísað til að nota mætti til samanburðar hafi vissulega starfað í sömu deild og kærandi. Hins vegar hafi hún ekki gegnt sambærilegu starfi heldur haft allt aðra starfslýsingu. Samanburður við laun hennar sé því ekki raunhæfur og máli þessu óviðkomandi.

    VIÐBÓTARATHUGASEMDIR KÆRANDA

  71. Í viðbótarathugasemdum sínum ítrekaði kærandi þá beiðni sína, ef vafi lægi á um að um kynbundinn launamun væri að ræða, að skoðuð yrðu laun þeirrar konu sem hún hafi vísað til í athugasemdum sínum. Þrátt fyrir að starfslýsing hafi hugsanlega verið frábrugðin hennar og starfslýsing hinna starfsmannanna hafi hugsanlega komið meira inn á fjármál og reikninga, hafi hún verið í sama launabandi.

    FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ KÆRÐA

  72. Kærunefndin óskaði í þrígang eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kærða, þar á meðal launaseðlum tiltekinna starfsmanna, starfslýsingum, frammistöðumati, launatöflu og öðrum upplýsingum.

  73. Vegna fyrirspurnar kærunefndar um starfsmann D, sem er karl, kemur fram af hálfu kærða að sá starfsmaður hafi verið ráðinn sem sérfræðingur í deildina málmfræði og framleiðslueftirlit og tilheyri sú deild steypuskála. Við þá ráðningu hafi starfsmaðurinn raðast í launaband K, það sama og kærandi er hún hafi hafið störf. Kærði vakti athygli á því að í október 2013 hafi starfsmaðurinn D verið ráðinn í nýtt starf hjá kærða. Við þá breytingu hafi hann flust yfir í launaband J. Laun hans frá þeim tíma hafi því tekið mið af launum í því launabandi sem séu hærri en laun í launabandi K. Hærri laun hans frá þeim tíma skýrist af þeirri ástæðu.

  74. Vegna fyrirspurnar kærunefndar um afrit af launaseðlum kæranda áréttar kærði það sem fyrr hafi komið fram, þ.e. að frammistöðumat sem starfsmenn undirgangist hafi áhrif á launahækkanir starfsmanna. Mismunandi launahækkun hjá kæranda og starfsmanni D í mars 2013 skýrist af mismunandi frammistöðumati þeirra á þeim tíma. Frammistöðumat hafi haft að geyma persónulegar upplýsingar sem eingöngu viðkomandi starfsmaður og yfirmaður hans hafi aðgang að, á þeim tíma sem matið lá fyrir. Ekki sé því til staðar miðlægur aðgangur að þeim upplýsingum sem þar sé að finna. Eingöngu heildarniðurstaða fyrir hvern og einn starfsmann sé aðgengileg fyrir launadeild. Að auki hafi breytingar á tölvukerfum fyrirtækisins gert það að verkum að upplýsingar vegna frammistöðumata fyrir árið 2012 séu ekki lengur aðgengilegar. Heildarniðurstaða frammistöðumats kæranda og starfsmannsins D vegna ársins 2012 hafi verið þannig að kærandi hafi verið með 3 (góð frammistaða) en D með 4 (mjög góð frammistaða). Betra frammistöðumat D hafi sjálfkrafa leitt til þess að hann hafi á þessum tíma fengið hærri launahækkun en kærandi.

  75. Vegna beiðni kærunefndar um upplýsingar um það hvort rétt sé að þegar starfsmaðurinn D hafi verið ráðinn hafi hann ekki haft neina starfsreynslu, greinir kærði frá því að þegar starfsmaðurinn hafi verið ráðinn til starfa í október 2011 hafi hann ekki áður unnið hjá kærða og hafi því ekki haft starfsreynslu þar. Hann hafi útskrifast frá Háskóla Íslands með B.Sc. í vélaverkfræði árið 2007 og starfað frá því hjá verkfræðistofu, á orku- og veitusviði, þar til hann hafi haldið utan í meistaranám árið 2009.

  76. Vegna fyrirspurnar kærunefndar um launaseðla sérfræðings sem er kona og hafi starfað í framleiðsluskipulagi með kæranda og þeim sem hún beri sig saman við, frá október 2011 til þess dags er kærandi hafi lokið störfum í ágúst 2016, áréttar kærði það sem fyrr hafi komið fram að til að samanburður launa sé raunhæfur verði að vera um sambærileg störf að ræða.

  77. Í tilefni af beiðni kærunefndar um upplýsingar um það hvort unnt sé að leggja til grundvallar að störf sem séu í sama launabandi séu metin jafnverðmæt bendir kærði á að það að segja að öll störf í sama launabandi séu jafnverðmæt sé of mikil einföldun. Ástæðan sé sú að ýmsir þættir geti gert það að verkum að störfin teljist misverðmæt. Þá kunni það að fara eftir eðli starfsins, og á hvaða sviði það sé, hvort starf teljist verðmætara en annað á hverjum tíma þótt launabandið sé það sama, enda séu launaböndin tiltölulega fá og svið hvers þeirra vítt.

  78. Starfsmenn sem séu tiltölulega nýútskrifaðir úr háskóla og ráðnir sem sérfræðingar, til dæmis í launaband K, án sérstakrar starfsreynslu sem nýtist í starfi, séu almennt ráðnir á sambærilegum launum. Ákveðinn ábyrgðarþáttur í einni starfslýsingu sérfræðings, sem ekki sé í starfslýsingum annarra sérfræðinga innan launabands, geti leitt til að það tiltekna starf sé metið verðmætara en hin, þótt öll séu þau innan sama launabands. Sem dæmi um þetta bendir kærði á að innan launabands J sé að finna þrjú ólík stöðuheiti sem leiði til mismunar á störfum og ábyrgð sem þeim fylgi, en þau séu sérfræðingur, leiðtogi án mannaforráða og leiðtogi með mannaforráð. Þetta sé dæmi um mismunandi ábyrgðarþátt sem fylgi störfum og leiði til að störfin séu metin með mismunandi hætti og teljist misverðmæt, þótt þau séu innan sama launabands.

  79. Þá hafi kærunefndin beðið um upplýsingar um það hvenær kærandi hafi hafið störf sem sérfræðingur hjá kærða, en samkvæmt kæru hafi hún starfað sem slíkur árin 2004–2006. Kærði kveður um misskilning að ræða þar sem kærandi hafi fyrst verið ráðin sem sérfræðingur 3. október 2011. Áður hafi hún starfað sem verkamaður í steypuskála, á rafmagnsverkstæði og sem almennur skrifstofumaður, en þau störf séu ekki sérfræðistörf eins og það sé skilgreint hjá kærða. Kærandi hafi hafið störf hjá kærða 18. maí 1996 og verið fastráðin 22. október 2000. Á árunum 2004–2006 hafi hún starfað sem verkamaður/iðnaðarmaður og sem skrifstofumaður. Kærandi hafi hætt í fimm ár og verið ráðin aftur til starfa 3. október 2011, þá fyrst sem sérfræðingur. Fyrri starfsreynsla kæranda hjá kærða hafi leitt til þess að hún hafi verið metin til hærri launa er hún hafi verið ráðin sem sérfræðingur en ef hún hefði verið með öllu reynslulaus, eða með litla starfsreynslu, á því sviði.

  80. Þegar kærandi hafi verið ráðin í október 2011 hafi hún verið með BS-próf í viðskiptafræði og hafi auk þess haft starfsreynslu bæði í steypuskála og við framleiðsluskipulag á árunum 2004–2006, þó ekki sem sérfræðingur. Samkvæmt viðmiðum megi sjá að byrjunarlaun kæranda hefðu miðað við menntun átt að vera á bilinu [Y‒Z] krónur. Starfsreynsla hennar hafi hins vegar leitt til þess að hún hafi færst í viðmiðunarflokk ofar, eða á bilinu [Z‒W] krónur.

  81. Einnig hafi kærunefndin óskað eftir upplýsingum um þætti sem legið hafi til grundvallar ákvörðun launa innan launabands í október 2011, þ.e. matsviðmiðum um það hvernig starfsreynsla og menntun séu metin við upphaf ráðningarsambands. Kærði greinir frá því að ekki sé um að ræða ákveðna stigatöflu sem gefi annars vegar menntun og hins vegar starfsreynslu tiltekin stig. Eðli málsins samkvæmt sé það mismunandi og sé ákvörðun launa innan launabands, við ráðningu, ávallt háð mati hverju sinni og miðist við það að hvaða leyti starfsreynsla og eða menntun nýtist í því starfi sem starfsmaður raðast til. Almennt sé litið svo á að menntun á viðkomandi sviði vegi þyngra við ákvörðun launa en menntun á alls óskyldu sviði og það sama eigi við um starfsreynslu. Að endingu hafi kærunefnd óskað upplýsinga um menntun, starfsreynslu og starfsferil starfsmannsins E, konu, hjá kærða. Af því tilefni bendir kærði á að kæran varði meintan launamun milli kæranda og þess sem hún beri sig saman við. Af þeim sökum verði ekki séð að hvaða leyti umbeðnar upplýsingar geti skipt máli um kæruefnið. Tekið er fram að kærði hafi þegar sent nefndinni starfslýsingu umrædds starfsmanns.

    LOKAATHUGASEMDIR KÆRANDA

  82. Í lokaathugasemdum kæranda greinir hún frá því að sig minni að í frammistöðumati fyrir árið 2012 hafi hún fengið matið „mjög góð frammistaða“, en ekki „góð frammistaða“, enda hafi árið 2012 verið mjög krefjandi við að taka inn nýja framleiðslu.

  83. Kærandi kveðst hafa verið fastráðin haustið 1997. Þrátt fyrir að hún hafi ekki verið titluð sérfræðingur frá ágúst 2004 til ágúst 2006, hafi starf hennar verið sambærilegt starf við það sem hún hafi svo verið ráðin til árið 2011 og því mikil reynsla fyrir það starf.

  84. Að lokum bendir kærandi á að framleiðsluskipulag og málmfræði og framleiðslueftirlit, sem báðar séu deildir undir steypuskála, séu alveg sambærilegar deildir og vinni mjög mikið saman.

    NIÐURSTAÐA

  85. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

  86. Kærandi hóf fyrst störf hjá kærða í maí 1996 og starfaði þar til ágústmánaðar 2006. Verður að miða við að störf hennar á þessu tímabili sem verkamaður í steypuskála, á rafmagnsverkstæði og sem almennur skrifstofumaður hafi samkvæmt skilgreiningum fyrirtækisins þá ekki flokkast sem sérfræðistörf. Á árinu 2009 lauk kærandi BS námi í viðskiptafræði. Hún hóf aftur störf hjá kærða í október 2011, þá sem sérfræðingur. Kærandi lauk störfum hjá kærða í ágúst 2016.

  87. Karlmaðurinn sem kærandi ber sig saman við í launum (B) hóf störf hjá kærða í maí 1990. Hann starfaði í fyrstu sem verkamaður, var fastráðinn í október 1998 sem sérfræðingur og hefur starfað sem slíkur frá þeim tíma. Kærandi og sá er hún ber sig saman við störfuðu, frá því hún hóf störf á árinu 2011 og þar til hún lauk störfum á síðasta ári, bæði sem sérfræðingar í deildinni framleiðsluskipulag, sem tilheyrir steypuskála. Hefur kærði ekki andmælt því að störf þessi hafi verið jafnverðmæt.

  88. Kærði hefur greint frá því að á árinu 2010 hafi verið tekið upp nýtt launakerfi sem sé enn notað hjá fyrirtækinu. Samkvæmt því sé sérfræðistörfum hjá kærða raðað í tiltekin launabönd sem hvert um sig skilgreini tiltekið lágmark og hámark launa.

  89. Athugun kærunefndar hefur leitt í ljós að við upptöku hins nýja launakerfis raðaðist sá er kærandi ber sig saman við nálægt efstu mörkum í launabandi K. Þegar kærandi var ráðin til starfa hjá kærða árið eftir raðaðist hún fyrir neðan miðbik launabandsins.

  90. Þegar kærandi hóf störf hjá kærða á árinu 2011 hafði starfsmaðurinn er hún bar sig saman við langa starfsreynslu sem sérfræðingur hjá kærða. Kjör þessara starfsmanna voru því ekki að öllu leyti samanburðarhæf. Kærunefnd var þó nauðsynlegt að taka til athugunar hvort röðun starfsmanns B sem næst efri mörkum í launabandi K væri tilkomin vegna kynbundins launamunar eða vegna annarra ástæðna. Í þessu skyni taldi kærunefndin nauðsynlegt, með vísan til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að óska eftir gögnum frá kærða um launakjör annarra tiltekinna sérfræðinga.

  91. Hefur kærunefndin að fengnum upplýsingum frá kærða staðreynt að launakjör sérfræðings D, karlmanns sem hóf störf á sama tíma og kærandi og hafði BS próf í vélaverkfræði, voru þau sömu og launakjör kæranda við ráðningu þeirra. Sérfræðingur D fór síðan í annað starf hjá kærða og veitir frekari samanburður á launakjörum hans og kæranda ekki upplýsingar um hvort um mismunun í launum á grundvelli kyns sé að ræða hjá kærða.

  92. Í því skyni að staðreyna hvort röðun starfsmanns B í launabandi K væri tilkomin vegna kynbundins launamunar eða vegna annarra ástæðna óskaði kærunefndin einnig upplýsinga um röðun starfsmannsins E í launaband, en sá starfsmaður er kona sem hefur að sögn kæranda langan starfsaldur sem sérfræðingur hjá kærða. Kærði lét í té launaseðla og starfslýsingu þessa starfsmanns með bréfi 11. maí 2017. Kærði hefur hins vegar neitað að afhenda nefndinni upplýsingar um menntun, starfsreynslu og starfsferil þessa starfsmanns. Er nefndinni því ekki unnt að bera kjör hans saman við kjör starfsmanns B.

  93. Af framansögðu er ljóst að starfsmaður B, er kærandi ber sig saman við, hafði er kærandi sagði upp starfi sínu hjá kærða umtalsvert hærri laun en kærandi. Sá launamunur kann að hluta til að skýrast af lengri starfsreynslu þess starfsmanns sem sérfræðingur hjá kærða. Hér ber þó að hafa í huga að kærandi hafði, er hún lauk störfum, gegnt starfinu í nærfellt fimm ár. Til að leysa úr því hvort umræddur launamunur skýrist að öðru leyti af öðrum ástæðum en kynferði var nauðsynlegt að bera launakjör starfsmannsins B saman við kvenkyns starfsmenn er hafa sambærilega starfsreynslu og gegna sambærilegu starfi. Verður kærði að bera hallann af því að hafa synjað kærunefndinni um aðgang að gögnum er voru til þess fallin að gera slíkan samanburð mögulegan.

  94. Með vísan til þess sem að framan greinir telur kærunefndin að leiddar hafi verið líkur að því að ástæða þess að starfsmaður B hafði umtalsvert hærri launakjör en kærandi hafi ekki eingöngu verið lengri starfsreynsla heldur einnig bundin kynferði. Hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að launamunurinn skýrist alfarið af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008. Kærði hefur þannig brotið gegn banni 1. mgr. 25. gr. sömu laga, sem kveður á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun launakjara kæranda á tímabilinu 3. október 2011 til loka ágústmánaðar 2016.

Erla S. Árnadóttir

Þórey S. Þórðardóttir

 

Sératkvæði Arnars Þórs Jónssonar

Kæra sú sem hér er til meðferðar grundvallast ákvæðum 19. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en kærandi telur kærða hafa brotið gegn lögum þessum með því að greiða kæranda lægri laun en karli sem gegnt hafi sama eða jafnverðmætu starfi og kærandi.

Undir rekstri málsins hafa verið lagðar fram ítarlegar upplýsingar um launakjör kæranda og greinds karls, auk lýsinga á störfum viðkomandi og launaþróun. Af hálfu kærða hefur jafnframt verið gerð grein fyrir forsögu málsins og bakgrunnsupplýsingum um þá starfsmenn sem í hlut eiga.

Af hálfu kærða hefur ekki verið gerður ágreiningur um fjárhæð launa kæranda og þess starfsmanns sem hún ber sig saman við. Launamunur sá sem kærandi vísar til í kæru sinni telst því óumdeildur. Viðfangsefni kærunefndarinnar er einungis að skera úr um það hvort kærði hafi sýnt fram á að launamunurinn „skýrist af öðrum þáttum en kyni“, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008.

Kærði hefur byggt varnir sínar á því að téður launamunur milli kæranda og títtnefnds karls hafi grundvallast á málefnalegum forsendum. Nánar tiltekið hefur kærði vísað til þess að launamunurinn skýrist af forsögu málsins, en karlinn hafði þegar öðlast mikla starfsreynslu hjá kærða og hafði starfað lengi sem sérfræðingur þar þegar kærandi var ráðin til starfa sem sérfræðingur hjá kærða í október 2011. Gögn málsins bera með sér að dregið hafi saman með þessum starfsmönnum eftir því sem leið á tímabilið sem hér um ræðir. Fram hefur komið af hálfu kærða að launamunurinn hafi endurspeglað heildarmat fyrirtækisins á störfum karlsins og auk þess byggt á langri reynslu hans. Að mati undirritaðs eru þetta fyllilega málefnaleg sjónarmið og veigamikil rök mæla með því að kærunefndin stígi varlega til jarðar þegar slíkt er metið úr fjarlægð og gæti alls hófs við hugsanlegt endurmat.

Fyrir liggur að starfsaldur mannsins sem kærandi ber sig saman við telst samtals um 27 ár, en þar af mun hann hafa verið fastráðinn sem sérfræðingur í rúm 18 ár. Til samanburðar var starfsaldur kæranda hjá fyrirtækinu samtals um 14 ár, þar af starfaði hún í tæplega fimm ár sem sérfræðingur. Undirritaður telur að slíkur munur á starfsreynslu geti skýrt þann launamun sem hér liggur fyrir. Kærunefnd á bágt með að endurmeta slík atriði, þar sem þau snerta við margvíslegum þáttum daglegs rekstrar. Nægir þar að nefna mat á fagþekkingu, hæfni, tengslum og heildarframlagi starfsmanna. Í þessu ljósi tel ég viðurhlutamikið að slá því föstu að launamunurinn skýrist af kynferði þeirra starfsmanna sem hér um ræðir. Ég tel með öðrum orðum að kærði hafi lagt fram trúverðugar og málefnalegar skýringar á téðum launamun, sem kærunefndin hefur ekki forsendur til að endurmeta. Af almennum sönnunarreglum leiðir að lögum nr. 10/2008 er ekki ætlað að leggja svo þunga sönnunarbyrði á málsaðila í stöðu kærða að undir henni megi ekki rísa.

Vinnuveitandi getur haft fyllilega lögmætar og skynsamlegar ástæður fyrir því að meta langa starfsreynslu og sérþekkingu starfsmanni til tekna. Endurmat á slíkum rekstrarlegum ákvörðunum felur að mati undirritaðs í sér verulegt inngrip í það lögverndaða svigrúm sem íslenskur réttur veitir atvinnurekendum til frjáls atvinnurekstrar. Meginreglan um samningsfrelsi leiðir jafnframt til þess að viðsjárvert og viðurhlutamikið er fyrir stjórnvöld að raska löggerningum og endurmeta samningsstöðu með afturvirkum hætti. Kjósi stjórnvöld engu að síður að beita slíkum aðgerðum þarf það að byggja á bjargföstum grunni. Með vísan til þeirra efnisatriða málsins sem áður hafa verið reifuð get ég ekki fallist á að svo traustur grunnur liggi hér fyrir. Í því samhengi ber jafnframt að horfa til þess að rúmt orðalag 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 raskar ekki grundvallarreglu íslensks stjórnsýsluréttar um nauðsyn þess að gæta meðalhófs við stjórnsýsluákvarðanir. Með hliðsjón af framangreindu tel ég að hafna beri kröfum kæranda.

Engu breytir um þessa niðurstöðu þótt kærði hafi ekki lagt fram upplýsingar um tilgreinda þriðju menn, enda snýst málið ekki um samanburð á launum í því samhengi. Auk þess er ekki sýnt að þar sé um að ræða sambærileg störf. Sé hugsanlegt að hallað hafi á þriðju menn sem ekki eiga aðild að máli þessu má reka sjálfstætt mál um það álitaefni með tilheyrandi rannsókn, gagnaöflun, svörum og andsvörum.

Arnar Þór Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum