Hoppa yfir valmynd
12. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 259/2012

Miðvikudaginn 12. desember 2012

259/2012

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2012, kærir B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að Sjúkratryggingum Íslands barst umsókn frá kæranda, dags. 23. september 2011, um bætur vegna meðferðar við fingurbroti og afleiðinga af ísetningu æðaleggs. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst svo:

„Beinbrotið í löngutöng vinstri handar grær aldrei og komnar eru liðskemdir í fjærliðinn eftir sýkinguna. Í dag er ég með talsverða verki í fingrinum í hvert skipti sem ég hreyfi fingurinn eða kem við eitthvað, þ.a.l. er ég með hann í spelku við flest allt sem ég geri.

Eftir ísettningu á CVK. (æðaleggur sem settur var í bringuna hægra megin). Er ég með mikla og stanslausa verki hægra megin í háls, öxl og niður í handlegg. Ég get hreyft mig en með verki við allar hreyfingar. Ég er búin að vera á verkjalyfjum og í sjúkraþjálfun meira og minna síðan þetta gerðist og í dag er ég að taka 9 stk. af taugaverkjalyfjum á dag og fer í sjúkraþjálfun tvisvar í viku.

Ég er óvinnufær.“

Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 14. apríl 2012, á þeirri forsendu að kærandi hafi fengið hefðbundna og eðlilega meðferð og ekki hafi verið sýnt fram á alvarlegar og varanlegar afleiðingar fylgikvilla við ísetningu æðaleggs.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

Málsatvik og tilefni kæru:

Sunnudaginn X 2010 var kærandi að [...] fingur hennar með þeim afleiðingum að hann brotnaði. Kærandi áttaði sig þó ekki strax á því að fingurinn var brotinn, en það blæddi töluvert meðfram nöglinni og fingurinn varð fjólublár og bólginn. Næstu daga var henni illt í fingrinum og tók Ibufen en hélt að hann myndi jafna sig. Svo þann X leitaði kærandi strax um morguninn á Slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, enda taldi hún að sýking væri komin í fingurinn. Fingurinn var þá nánast tvöfaldur af bólgu, skakkur, eldrauður og storknað blóð meðfram nöglinni. Tekin var röntgenmynd af fingrinum þar sem í ljós kom brot. Kærandi spurði hvort ekki væri sýking í fingrinum og lýsti því fyrir læknum hvernig blætt hefði meðfram nöglinni auk þess sem fingurinn væri afar bólginn og rauður. Læknirinn taldi svo ekki vera og voru ekki tekin nein sýni til að athuga hvort sýking væri í sárinu. Næst var fingrinum komið í stóra álspelku. Kærandi fékk engar ráðleggingar um verkjalyf, bólgueyðandi lyf eða sýklalyf, enda ekki talin þörf á sýklalyfjum.

Næstu daga var kæranda mjög illt í fingrinum og mikill og viðvarandi æðasláttur í honum. Hún tók 400 mg Ibufen þessa daga. Þann X var lyktin af fingrinum orðin óbærileg og daginn eftir aðstoðaði móðir kæranda hana við að skipta um umbúðir utan um álspelkuna þar sem þær héldu að lyktin væri af umbúðunum. En svo var ekki, ólyktin var af fingrinum sjálfum.

Þann X fór kærandi aftur á Slysadeildina í eftirlit og myndatöku. Þar talaði hún við C lækni og spurði hana um lyktina af fingrinum og hvort ekki væri komin sýking í fingurinn, enda var fingurinn enn eldrauður, bólginn og í honum mikill æðasláttur. C sagið lyktina eðlilega og taldi sig geta sprittað hana af. Aftur spurði kærandi hvort ekki væri sýking í fingrinum. Læknirinn taldi svo ekki vera og lét taka aðra röntgenmynd. Þá kom í ljós að brotið hafði ekkert gróið frá síðustu heimsókn, heldur hreinlega versnað. Enn ítrekaði kærandi fyrirspurnir um sýkingu en fékk þau svör að svo væri ekki. C ráðfærði sig við annan lækni sem ráðlagði henni hvernig búa ætti um fingurinn. Sá læknir taldi að óhætt væri að taka spelkuna af þann X. Þá væri einnig gott að nota fingurinn eins mikið og kærandi gæti til að koma í veg fyrir að hann myndi stirðna. Um þetta voru báðir læknarnir sammála. Þegar kom að því að láta spelkuna á fingurinn minnti kærandi hjúkrunarkonuna á að það ætti að spritta fingurinn og reyna að ná lyktinni í burtu. Hún benti kæranda þá á vaskinn og sagði henni að þvo sér sjálf, það væri spritt við vaskinn.

Kærandi reyndi sjálf að skola fingurinn með spritti en það var afar sársaukafullt fyrir hana að láta vatnsbununa renna á fingurinn. Lyktin af fingrinum fór ekki. Spelka með tilheyrandi umbúðum var hins vegar látin á fingurinn.

Næstu daga skipti kærandi nánast daglega um umbúðir og reyndi að ná lyktinni í burtu. Í fingrinum var stanslaus æðasláttur og miklir verkir. Þann X mátti kærandi svo taka spelkuna af, að læknisráði, en ákvað þó að gera það ekki vegna mikilla verkja. Þann X hringdi hún á Slysadeild og spurði hvort eðlilegt væri að verkirnir væru enn svo sárir og hvort hún ætti að taka spelkuna af og nota fingurinn þrátt fyrir verkina. Hún fékk þau svör að læknarnir gætu ekki vitað hversu sárir verkirnir væru í raun. Eftir að læknirinn sem hún ræddi við hafði skoðað myndir af fingrinum og ráðfært sig við annan lækni var henni sagt að vera með spelkuna í 2-3 daga í viðbót. Hún ætti ekki að halda á innkaupapokum, en ætti samt að nota fingurinn eins mikið og hún gæti.

Kærandi prófaði að sofa án spelkunnar X en var með hana á daginn, vegna mikilla verkja. Þann X ákvað kærandi að taka spelkuna af og nota fingurinn eins og henni hafði verið sagt, þrátt fyrir stanslausa verki. Þann X svaf kærandi lítið fyrir verkjum en virtist skárri á daginn. X var fingurinn farinn að bólgna á ný og þann X var fingurinn orðinn mjög bólginn og erfitt að beygja hann.

Morguninn X ákvað kærandi að fara upp á Slysadeild vegna verkjanna og ræddi hún þar við D lækni sem lét taka röntgenmynd af fingrinum. Á myndunum sást að fingurinn hafði ekkert gróið. D leitaði ráða hjá öðrum læknum en þeir virtust allir ráðalausir uns hann leitaði til E læknis, sem skoðaði fingurinn. Hún vildi að það yrðu tekin tvö sýni úr fingrinum til að athuga hvort það væri sýking í beininu. Eitt sýni var tekið úr beininu og kæranda bent á að kaupa lyfið Staklox 500 mg þar sem allt benti til sýkingar í fingrinum. Einnig þurfti kærandi að kaupa mikið af steriles umbúðum því skipta þurfti um umbúðir daglega.

Þann X hringdi kærandi í D lækni og fékk staðfestingu á því að sýking væri í beininu. Hann sagði kæranda að halda áfram að taka sýklalyfið næstu 2-3 vikur.

Þann X ræddi kærandi við D lækni á Slysadeildinni. Honum leist þá ágætlega á fingurinn en sagðist sjá að sýkingin væri ekki farin því fingurinn var ennþá rauður og bólginn. Verkirnir voru sárir og mikill æðasláttur. Kærandi átti því að halda áfram að taka Staklox og koma aftur X 2011.

Þann X 2011 fannst kæranda bólgan vera farin að minnka en fingurinn var ennþá rauður. Það leið aðeins lengri tími á milli sárra verkja. Verkirnir voru verri í miklu frosti eins og var á þessum tíma.

Þann X 2011 skoðaði D læknir fingurinn og lét taka röntgenmynd. Í framhaldinu var kærandi lögð inn á spítalann að kröfu E. Fingurinn hafði ekkert gróið og Staklox lyfið hafði ekki virkað eins og vonast hafði verið til. Tekin var blóðprufa og æðalegg komið fyrir, það gekk ekki þrautalaust, en hafðist að lokum. Kærandi fékk lyfið Kefzol í æð frá kl. 13-14. Ekkert rúm var til á deildinni svo að kærandi var send heim og beðin að koma aftur kl. 18 og 24 sem hún og gerði. Unnið var að því að veita henni heimahjúkrun þannig að hún gæti fengið lyfið á átta tíma fresti næstu vikurnar.

Þann X ók móðir kæranda henni á spítalann og var hún mætt kl. 8 um morguninn. Þá fékk hún Kefzol í æð. Kæranda var sagt að það ætti að setja æðalegg/CVK í bringuna á henni. Eftir klukkutíma bið var kærandi færð á skurðstofu þar sem svæfingalæknir tók á móti henni ásamt aðstoðarkonu. Illa gekk að koma æðaleggnum fyrir. Kærandi fann vel fyrir öllu og virtist lítið deyfð. Ítrekað var leggurinn þræddur upp í háls, sársaukinn var óbærilegur og reyndi kærandi að tjá sig um að þetta væri ekki í lagi. Þau vildu endilega að kærandi segði þeim ef leggurinn færi upp í hálsinn því þangað ætti hann alls ekki að fara. En leggurinn fór alltaf upp í háls eða út í öxl. Ekkert gekk að koma leggnum niður í átt að lungum. Eftir ítrekaðar tilraunir var kallað eftir öðrum lækni til að ljúka verkinu en sá var ekki staddur inn á stofunni og þurfti því að fara fram að sækja hann. Á meðan beðið var eftir þeim lækni fann kærandi verkina magnast hægra megin frá hálsi og niður í öxl. Er leggurinn var kominn á sinn stað spurði kærandi út í verkina og var henni sagt að þeir myndu hverfa á hálftíma.

Það þurfti að taka röntgenmynd til að sjá hvort æðaleggurinn væri á réttum stað. Þar átti kærandi í miklum vandræðum að standa upp og lyfta höndum svo unnt væri að taka myndina. Verkirnir voru mjög sárir og héldu áfram að magnast.

Klukkan 16 fékk kærandi Kefzol í æð og fór heim kl. 17 þar sem ekkert pláss var fyrir hana nema frammi á gangi. Heima fyrir versnuðu verkirnir mikið. Kærandi gat ekkert notað hægri höndina við að borða og varð að nota vinstri hendina með brotna og sýkta fingrinum. Um kvöldið fór kærandi klukkutíma fyrr á spítalann í lyfjagjöf því verkirnir voru óbærilegir. Ákveðið var að taka röntgenmynd af lungnasvæðinu. Það virtist líta vel út og var kærandi send í sneiðmyndatöku. Læknarnir sögðu að þetta liti vel út, en að hún væri bólgin og æðarnar líklegast laskaðar eftir ísetninguna. Kærandi gat hvorki borðað né klætt sig hjálparlaust og grét af kvölum þegar hún neyddist til að hreyfa hægri hendina. Hún fékk verkjalyf sem gerðu lítið gagn og hún fékk ekki að fara heim þessa nótt heldur gisti frammi á gangi á deild X.

Þann X, morguninn eftir, fékk kærandi meira af verkjalyfjum og var farið að líða aðeins betur en samt með slæma verki. Svæfingalæknirinn og aðstoðarkona hans sem settu æðalegginn í kæranda komu að máli við hana og sögðu að ekki væri hægt að sjá neitt alvarlegt á myndunum en hún væri bólgin með innvortis blæðingar. Líklegast hefðu skaddast nokkrar æðar og taugar og að sennilega hefði læknirinn rekið legginn inn í beinmerg.

Kærandi var helaum og bólgin í kringum æðalegginn og það blæddi talsvert inn í umbúðirnar. Hún mátti fara heim í hádeginu því búið var að skipuleggja heimahjúkrun á 8 tíma fresti næstu vikurnar. Næstu vikur fékk kærandi heimahjúkrun á 8 tíma fresti allan sólarhringinn til að dæla sýklalyfjunum í gegnum æðalegginn. kærandi gat ekki ekið fyrir verkjum í hægir hlið, fyrr en X. Þá gat hún ekki sjálf þvegið sér um hárið, allan tímann sem hún var með æðalegginn.

Þann X var ákveðið að senda kæranda í sjúkraþjálfun, en konurnar í heimahjúkruninni töldu verkina alls ekki eðlilega.

Þann X mætti kærandi í sjúkraþjálfun til F sjúkraþjálfara. Kærandi gerði æfingar heima hjá sér.

Þann X sást á röntgenmynd að fingurinn hafði ekkert gróið og sýkingin var enn til staðar. E læknir bað G handaskurðlækni að líta á fingurinn. Hann gaf henni tíma síðar og vildi m.a. láta sérhanna spelku á fingurinn.

Þann X benti sjúkraþjálfarinn kæranda á að kaupa teygjur og gera ákveðnar æfingar sem kærandi gerði þrátt fyrir stanslausa verki.

Þann X var skipt um umbúðir á æðaleggnum, það blæddi talsvert, líklegast sprungin æð sagði hjúkrunarfræðingurinn sem sinnti heimahjúkruninni. Einnig hafði einn saumur losnað. Þennan morgun leið kæranda afar illa, var óglatt og leið nánast útaf er skipt var um umbúðir. Seinna um morguninn hitti hún G lækni og H iðjuþjálfa, en þeir höfðu sérhannað harða spelku á fingurinn. Þetta kvöld sveið kæranda meira en áður undan umbúðunum af æðaleggnum og var enn með verki hægra megin í hálsi og öxl.

Þann X var æðaleggurinn tekinn og kærandi hóf að taka Keflex í töfluformi. Húðin var orðin helaum eftir límið.

Þann X hitti kærandi E lækni. Kærandi kvartaði undan verkjunum eftir æðalegginn og ráðlagði E henni að halda áfram sjúkraþjálfuninni.

Þann X fann kærandi hvernig verkurinn jókst mikið frá háls/öxl og niður í hægri hendi þegar hún reyndi að nota hendina, t.d. við að sópa, slá á lyklaborð og setja teygju í hárið á sér.

Þann X var tekin röntgenmynd af fingrinum og sagði G að sýkingin virtist á undanhaldi. Fingurinn var ennþá rauður en leit þokkalega út. Læknirinn sagði að kærandi þyrfti að gera æfingar á tveggja tíma fresti en hafa fingurinn í spelku þess á milli. Fingurinn kæmi til með að bólgna við þessar æfingar og ætti hún því að bera á hann bólgueyðandi krem. E sagði að kærandi mætti hætta að taka Keflox X, en þá væri kærandi búin að taka Kefzol+Keflex í 6 vikur og Staklox í 2 og hálfa viku.

Þann X hætti kærandi að taka Keflex. Fingurinn var enn aðeins rauður en verkirnir voru nú farnir á meðan fingurinn var kyrr í spelkunni. Ennþá voru sárir verkir við fingraæfingar, auk þess sem kærandi var ennþá töluvert kvalin í hálsi, öxl og hendi. Á þessum tíma var hún í sjúkraþjálfun tvisvar í viku.

Þann X var kærandi enn með mikla verki og ákvað kærandi að reyna nálastungumeðferð að ráði sjúkraþjálfara. Allt var reynt næstu 2 vikur, nálastungur, laser, hljóðbylgjur, nudd, heitir bakstrar ofl.

Þann X var tekin röntgenmynd af fingrinum. G tjáði kæranda að nú væri öruggt að fingurinn myndi aldrei gróa. Sýkingin hefði étið hluta úr beininu og komnar voru liðskemmdir í fjærliðinn. Kærandi átti að ákveða hvort hún vildi fara í aðgerð og láta skera bein úr handleggnum og skrúfa í fingurinn til að laga brotið. Þrátt fyrir slíka aðgerð væri þó ekki víst að verkirnir hyrfu. Liðurinn var sagður svo skemmdur að sennilega þyrfti að spengja fingurinn síðar.

Þann X klippti kærandi nöglina af fingrinum og þá var skrýtin nögl undir. Kærandi var enn í sjúkraþjálfun til að reyna að vinna á verkjum í fingri og hálsi, öxl og hendi.

X ræddi kærandi við G lækni. Hann taldi réttast að spengja fingurinn en var samt ekki sannfærður um að það væri rétt meðferð. Hann taldi líklegt að pinnar sem settir yrðu í fingurinn gætu stungist út í átökum og mjög slæmt væri ef slíkt myndi gerast. Ákveðið var því að spengja ekki fingurinn. Verkir í hægri hlið voru enn miklir og var ákveðið að kærandi færi í segulómun.

Þann X fór kærandi í segulómun. X komu niðurstöðurnar og þar sáust segulskinbreytingar í supraspinatus sininni næst festunni og eitthvað fleira sem G taldi rétt að axlarsérfræðingur skoðaði nánar.

Þann X 2012 leitaði kærandi til J, taugalæknis, þar sem verkirnir í háls/öxl/hendi voru enn mjög slæmir eftir ísetningu æðaleggsins ári áður. Ekki var hægt að klára taugarannsóknina þar sem kærandi fann fyrir gríðarlegum verkjum við gerð hennar. Vöðvaritið framkallaði mikinn sársauka með leiðni upp í háls hægra megin og varð kærandi öll rauð í kringum nálina sem síðar fór er nálin var tekin úr. Í umsögn J, taugalæknis, eftir rannsóknina kemur fram að sennilega sé um að ræða plexus áverka sem er tilkominn vegna subclavia ísetningu annað hvort vegna beins áverka eða togáverka.

Í X 2012 hitti kærandi K, taugalækni. Var eingöngu um skoðun að ræða en hún á tíma hjá honum aftur X í nýtt taugaleiðnipróf.

Hún fer ennþá einu sinni í viku í sjúkraþjálfun og er með stanslausa verki í hálsi/öxl/hendi og er á leið á Reykjalund í X. Fingurinn er ágætur í spelkunni en þegar hann er ekki í spelku er kæranda illt í hvert skipti sem hún beygir hann eða kemur við eitthvað með honum.

Vegna þessara læknamistaka sendi kærandi erindi til Sjúkratrygginga Íslands og gerði kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu skv. lögum nr. 111/2000. Í svarbréfi Sjúkratrygginga, dags. 14. maí 2012 var ekki talið heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur vegna læknamistaka. Þeirri afstöðu getur kærandi ekki unað.

Rökstuðningur fyrir kæru:

Samkvæmt 1. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 á sjúklingur m.a. rétt á bótum ef hann verður fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsum hér á landi. Í 2. gr. sömu laga eru talin upp í fjórum töluliðum þau tjónstilvik sem lögin taka til. Segir þar í 1. mgr. að bætur skulu greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til tiltekinna atvika.

Í 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 segir að sjúklingur á rétt á bótum ef ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Í 4. tl. 2. gr. sömu laga segir að sjúklingur á rétt á bótum ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Kvörtun kæranda lýtur að tveimur atriðum varðandi læknismeðferð hennar þ.e. meðhöndlun eftir fingurbrot og síðar meðhöndlun vegna sýklalyfagjafar. Sjúkratryggingar Íslands hafna bótarétti hennar vegna beggja atriða.

Hvað varðar fyrra atriðið, fingurbrotið, vísa Sjúkratryggingar Íslands til þess í forsendum sínum að sérfræðingurinn sem sá um kæranda við komu á LSH minnist þess ekki að til staðar hafi verið sár á fingrinum og að hann man ekki hvert ástand naglarinnar hafi verið. Ekkert um þetta hafi verið í skrám slysadeildarinnar og að í ljósi þess að ekki voru gerðar athugasemdir í skoðun að um opið beinbrot hafi verið um að ræða verði ekki á því byggt án þess að gögn styðji það.

Þessari niðurstöðu getur kærandi ekki unað. Sönnunarreglur eru ekki þær sömu þegar kemur að bótaábyrgð úr sjúklingatryggingu og bótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir:

„Sjúklingur getur orðið fyrir heilsutjóni af ýmiskonar skakkaföllum í tengslum við læknismeðferð, rannsókn eða slíkt án þess að skilyrði bótaréttar eftir almennum skaðabótareglum séu fyrir hendi.“

Í sömu athugasemdum segir að helstu rökin að baki sjúklingatryggingu væri að „[…] tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann á samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná rétti sínum.“ Þá segir einnig: „Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum starfsmanni skal ekki nota sama mælikvarða og stuðst er við samkvæmt hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar heldur miða við hvað hefði gerst ef rannsókn eða ferðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið.“

Kærandi byggir á því að hafa ekki hlotið rétta meðferð við komu sína á slysadeild eftir fingurbrotið. Það liggur í augum uppi að ef meðhöndlun hefði verið rétt í upphafi hefðu afleiðingarnar ekki verið með þeim hætti sem raun bar vitni. Með vísan til framangreindra sönnunarreglna þegar kemur að sjúklingatryggingu er fráleitt að Sjúkratryggingar Íslands beri fyrir sig minnisleysi þess sérfræðings sem sá um kæranda við komu á slysadeild þar sem helstu rökin að baki sjúklingatryggingu er sönnunarvandi tjónþola þar sem hann er oft einn til frásagna. Minnisleysi starfsmanna heilbrigðisstofnanna geta ekki komið í veg fyrir bótasrétt sjúklinga vegna læknamistaka sbr. lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Embætti Landlæknis hefur gefið frá sér álit þess efnis að um mistök hafi verið að ræða við meðferð á fingurbroti kæranda sem fólust í því að hún var ekki meðhöndluð kröftuglega með sýklalyfjum þegar í stað eftir að brot löngutangarinnar var greint.

Hvað varðar seinna atriðið, meðhöndlun við sýklalyfjagjöf, byggir kærandi á því að mistök hafi átt sér stað við innsetningu æðaleggs. Læknir í starfsnámi reyndi að setja upp æðalegg í kæranda. Ísetningin gekk illa og var æðaleggurinn þræddur ítrekað í kæranda án árangurs. Að lokum fann kærandi fyrir gríðarlegum sársauka og var þá kallað til sérfræðings en hann var ekki staddur í herberginu. Í forsendur Sjúkratrygginga Íslands segir að „verkir við ísetningu æðaleggs geti varað í einhverja daga vegna smá blæðinga umhverfis stungur. Nálaroddur geti og rispað beinhimnu viðbeins og valdið þannig verkjum. Langvinn óþægindi geta komið fram ef áverki verður á taug við stungu. Ekki hafi þó komið fram neinn dofi eða máttleysi sem rekja mætti til áverka á sértæka taug.“ Kærandi hefur átt við langvinn óþægindi alveg frá því ísetning fór fram. Telur kærandi að kalla hefði átt eftir sérfræðingi löngu fyrr þar sem svo illa gekk að þræða æðalegginn þar sem hann leiddi ávallt upp í háls.

Kærandi telur að þrátt fyrir að hafa ekki kvartað yfir dofa eða máttleysi í hendinni sérstaklega geti það ekki haft grundvallaráhrif á niðurstöðuna þar sem hún gat ekki hreyft höndina yfir höfuð eftir stunguna vegna verkja. Þá gat kærandi ekki klætt sig sjálf né borðað. Kærandi hefur hins vegar verið að glíma við gríðarleg óþægindi og verki frá því ísetningin átti sér stað. Þá kemur fram í forsendum Sjúkratrygginga Íslands að ekkert hafi komið fram í þeim rannsóknum sem gerðar voru hvorki í segulómun né tauga- og vöðvaleiðniriti. Í rannsókn sem kærandi fór í hjá J, taugalækni, var ekki hægt að klára rannsóknina þar sem vöðvarit framkallaði svo mikinn sársauka hjá kæranda. Þá kemur fram í umsögn frá J að sjúklingur væri sennilega með plexus áverka hægra megin sem er tilkominn við subclavia ísetningu annað hvort vegna beinsáverka eða togáverka. Slíkan áverka á plexus er erfitt að sýna fram á með taugalífeðlislegum aðferðum og þó að niðurstöður þessar rannsóknar verði eðlilegar útilokar það alls ekki slíkan skyn/sársauka valdandi áverka. Getur kærandi því ekki tekið undir með Sjúkratryggingum Íslands að ekkert hafi komið út úr rannsóknum sem gerðar hafa verið þar sem til staðar er fyrrgreind umsögn taugasérfræðing um ástand kæranda. Þá segir einnig í niðurstöðu Sjúkratrygginga að ekkert hafi verið staðfest í segulómun sem bendir til þess að blæðing hafi orsakast við ísetningu æðaleggs. Þess má geta að segulómun fór fram hálfu ári eftir ísetningu æðaleggsins.

Telur kærandi það vera einsýnt að ef fyllstu varúðar hefði verið gætt hefði verið hægt að komast hjá því tjóni sem hún varð fyrir.

Í grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar sem birtist í Tímariti lögfræðinga árið 1995 vísar hann í grein danska lögfræðingsins Oliver Talveski um sönnunarbyrði á málum er varða skaðabótaábyrgð lækna. Meginniðurstöður Talevski orðar hann svo:

„Þess er krafist, að sjúklingurinn sanni eftir venjulegum mælikvarða, að um sé að ræða gáleysislega athöfn eða athafnarleysi við eitt eða fleiri læknisverk, að þessi athöfn eða athafnarfleysi sé til þess fallið að auka hættuna á tilteknum alvarlegum skaða og að slíkur skaði verði í raun og veru. Séu þessar sönnunarkröfur uppfylltar ber stefndi (læknir eða sjúkrastofnun) sönnunarbyrðina um að skaðinn verði ekki rakinn til gáleysisins (þ.e. skaðinn hefði orðið þó að fullri aðgæslu hefði verið gætt). Takist þessi sönnun ekki á sjúklingur kröfu á fullum bótum.“

Að lokum segir greinarhöfundur sjálfur um sönnunarbyrði um skaðabótaábyrgð lækna:

„Ef það sannast við beitingu almennra sönnunarreglna, að læknir, eða eftir atvikum annar starfsmaður sjúkrastofnunar, hefur sýnt af sér saknæma háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, og skaði verður, sem hugsanlega verður rakinn til hinnar saknæmu háttsemi, ber læknirinn eða sjúkrastofnunin fulla skaðabótaábyrgð, nema þau sanni að skaðinn hefði orðið þó að fullrar aðgæslu hefði verið gætt. Sönnunarbyrðinni um afleiðingarnar er m.ö.o. snúið við.“

Þetta var viðhorfið fyrir setningu laga 111/2000 um sjúklingatryggingu en með þeim átti að tryggja rétt sjúklinga enn frekar þar sem sönnunarstaða hans er mjög erfið í málum er varða læknamistök.

Með þetta í huga telur kærandi að hún eigi bótarétt úr sjúklingatryggingu vegna mistaka sem gerð voru við meðhöndlun fingurbrotsins og við ísetningu æðaleggsins vegna sýklalyfjagjafar.

Þá vísar kærandi á Hrd. 1992:2122 en þar reyndi á sönnun orsakatengsla milli mistaka og tjóns. Drengurinn K fæddist á sjúkrahúsinu A. Sýnist hann hafa skaddast á heila vegna súrefnis- og næringarskorts í fæðingu og á fyrstu mínútum eftir fæðingu. Ekki var talið, að sérstakir alvarlegir áhættuþættir tengdust móður drengsins og meðganga hennar var eðlileg. Tvær ljósmæður voru viðstaddar fæðingu. Talið var, að ástæða hefði verið til að sérfræðingur í fæðingarhjálp hefði verið viðstaddur fæðinguna, en svo var ekki. Þegar í ljós kom við fæðinguna, að ekki var allt með felldu, var reynt að boða aðstoðarlækni, en það sýnist hafa misfarist vegna galla í boðunarkerfi A. I áliti Læknaráðs kom fram, að margt hefði mátt betur fara við fæðinguna, og nærvera læknis myndi hafa aukið líkur á því, að K hefði fæðzt heilbrigður. Var því talið, að á hefði skort að fullnægjandi öryggisráðstafana hefði verið gætt við fæðinguna. Orsakasamhengi milli þess, sem fór úrskeiðis við fæðinguna, og heilaskaðans, var talið ósannað, en talið víst að sönnunarfærsla á því væri mjög erfið. Var talið, að læknisfræðileg gögn renndu stoðum undir, að um orsakatengsl gæti verið að ræða. Eftir atvikum var talið, að sönnunarreglur leiddu til þess, að A bæri hallann af óvissu í þeim efnum. Var því lögð bótaábyrgð á A.

Þá vísar kærandi einnig í Hrd. 1999, bls. 3196 (nr. 78/1998). Í því máli hafði maður hlotið varanlega örorku eftir aðgerð sem hafði verið framkvæmd í því skyni að fjarlægja æxli. Talið var að hluti af þeirri örorku sem hann hlaut stafaði af því að hann hefði ekki fengið fullnægjandi eftirmeðferð. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði:

„Eins og gögn málsins bera með sér kann að vera, að örorka áfrýjanda verði að einhverju leyti rakin til þessa, en lækna greinir á um það. Stefndi hefur ekki sýnt fram á það, að tjón áfrýjanda hefði allt eins orðið í þeim mæli sem varð, þótt fyllst aðgæsla hefði verið viðhöfð. Verður hann því látinn bera fébótaábyrgð á hluta þess örorkutjóns, sem áfrýjandi hefur orðið fyrir.“

Eftir fingurbrotið og ísetninguna hefur kærandi upplifað daglegan sársauka og verið óvinnufær. Hún á erfitt með að pikka á tölvu, sópa ryksuga, hengja upp þvott og allar aðrar daglegar athafnir sem fela í sér að lyfta upp hendinni. Verkir kæranda aukast við að keyra bíl og þá sérstaklega þegar skipt er um gír. Einnig þegar bílbelti liggur yfir axlarsvæði hennar. Kærandi getur ekki stundað þær íþróttir sem hún gerði áður en þær stundaði hún af miklum krafti. Hún spilaði m.a. [íþróttir]. Allt eru þetta athafnir sem kærandi getur ekki stundað í dag eftir mistökin sem gerð voru við meðhöndlun fingurbrotsins og ísetningu æðaleggsins.

Kærandi getur á engan hátt unað þeirri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að um eðlilega og hefðbundna meðferð hafi verið um að ræða og telur að ofangreindar afleiðingar séu á engan hátt hefðbundnar og eðlilegar við meðhöndlun á fingurbroti og ísetningu æðaleggs.

Telur kærandi að um fylgikvilla sé um að ræða sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að hún skuli þola bótalaust.

Er þess því farið á leit að úrskurðarnefndin endurskoði þessa niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Kærandi telur að unnt hefði verið að komast hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á umræddu sviði. Þá er ljóst að tjón hefur hlotist af umræddri meðferð, sem ætluð var til að greina sjúkdóm og ósanngjarnt er að kærandi þurfi að þola það tjón bótalaust.

Með vísan til framangreinds er kærð fyrrgreind afstaða Sjúkratrygginga Íslands.“

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands með bréfi, dags. 14. ágúst 2012. Í greinargerðinni, dags. 21. september 2012, segir m.a. svo:

„Vísað er til umsóknar kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 sem barst Sjúkratryggingum Íslands þann 27. september 2011. Sótt var um bætur þar sem kærandi taldi siga hafa orðið fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum sjúklingatryggingaratburðar þann x 2009. Kærandi rekur sjúklingatryggingaratburð sinn til tveggja atvika sem varða LSH.

· Annars vegar ranga meðhöndlun opins fingurbrots á löngutöng vinstri handar, en kærandi átelur að sýklalyf hafi ekki verið gefin þrátt fyrir mikla bólgu, roða og slæma lykt. Kærandi fékk sýkingu í fingur, þurfti sýklalyfjagjöf í æð og brot greri ekki og liður skemmdist.

· Hins vegar var kærandi að sögn með mikla verki og við í hálsi, öxl og handlegg hægra megin eftir að holæðarleggur var settur í kæranda við sýklalyfjagjöf. Segist hafa verki við allar hreyfingar og var óvinnufær þegar tilkynning var rituð dags. 23. september 2011.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fjölluðu um umsóknina og var kæranda tilkynnt ákvörðun með bréfi dagsettu þann 8. mars 2012, en SÍ synjuðu erindinu hvað varðar bæði umkvörtunarefnin. Sú ákvörðun hefur nú verið kærð, en rétt þykir að fara lauslega yfir málavöxtu og þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun. Þá verður kæru svarað efnislega þar sem við á í kaflanum Forsendur niðurstöðu.

I. Málavextir

a. Athugsemdir við málavexti

Málavöxtum er ítarlega lýst í kæru og hafa SÍ þegar lýst málavöxtum í hinni kærðu ákvörðun (42), en atvikalýsing sem lögð var til grundvallar var dregin af gögnum; tilkynningu frá kæranda (1) og læknabréfum (12,13,18,24), greinargerðum frá meðferðaraðilum (2,3,4), samantekt á atburðarrás (úr sjúkraskrá)(5), útprentun úr sögukerfi (8), vottorðum (16,17) og þeim fjölmörgu gögnum sem liggja til grundvallar (1-42). Greinargerðir meðferðaraðila (2,3,4) voru sendar kæranda og gerði hann athugasemdir við (42). Ætla má að glögg mynd hafi fengist af atburðarás og verður látið duga að vísa um afstöðu SÍ í þeim efnum til málsatvikalýsingar í hinni kærðu ákvörðun. Þó er ljóst að ýmsar óstaðfestar fullyrðingar um atburðarás koma fram í kæru og ber því eitthvað í milli. Skal lauslega vikið að því hér.

b. Vegna fingurbrots og meðhöndlunar

· Undir liðnum Málsatvik og tilefni kæru segir í inngangi að kærandi hafi leitað til læknis á SBD (slysa- og bráðadeild) LSH. Í greinargerð meðferðaraðila (3) segir læknir að hann geti ekki sagt nákvæmlega til um ástand húðar á fingrinum, en tekur fram að hans mat var að brotið væri lokað. Ágreiningur stendur með kæranda og meðferðaraðila um það hvort brot telst hafa verið opið eða lokað. Ósennilegt verður að telja að reyndum lækni hafi yfirsést slíkt, en í gögnum er hvergi staðfest opið brot.

· Flestar lýsingar á ástandi fingurs eru frá kæranda komnar og hníga allar að því að lýsa sýkingareinkennum. Meðferðaraðilum hefur ekki þótt slíkt tilefni til að gera eins mikið úr þeim lýsingum en staðfest er að fingur var rauður og bólginn svo sem kemur fram í gögnum. Það jafngildir því ekki að um hafi verið að ræða sýkingu enda um að ræða brotáverka sem verður undir átaki. Þann X var leitað til smitsjúkdómalæknis sem ráðlagði sýnatöku til ræktunar, niðurstaða þá var að komin væri sýking í fingurinn. Ólíklegt verður að teljast að þeim sérfræðingum og læknum sem að komu hafi með öllu yfirsést hugsanleg sýking ef lýsingar kæranda eru réttar, en líklegast hefur sýking komið til eftirá þó ekkert verði um það fullyrt.

· Fyrir liggur að Landlæknisembættið hefur tekið undir kvörtun kæranda hvað viðvíkur meðferð fingurbrotsins og því fallist að einhverju leyti á fullyrðingar kæranda. Hins vegar er ekkert nýtt í gögnum sem Landlæknir byggði álit sitt á. Að mati SÍ vantar algerlega staðfestingu á að brot hafi verið opið og blæðandi en álitsgerðin virðist taka undir fullyrðingar kæranda og frásögn án þess að byggja það á gögnum. c. Vegna lagningar æðaleggs í vena subclavia (holæðarleggs til lyfjagjafar)

Samkvæmt tjónstilkynningu hefur kærandi verið mjög slæm af verkjum í hálsi, öxl og handlegg hægra megin allt frá því að æðaleggur var settur inn.

· Gert var tauga- og vöðvarit þann X 2012 og var taugarit eðlilegt, bæði hvað varðar skyntaugar og hreyfitaugar. Vöðvaritið var einnig eðlilegt en aðeins náðist að prófa axlarvöðva og ofankambsvöðva vöðva í hægri öxl, varð að hætta sökum mikilla verkja. Taugasérfræðingur taldi líklegast að einkenni umsækjanda væru vegna plexus (armflækju) skaða og tóku fram að eðlilegt tauga- og vöðvarit í handlegg útiloki ekki að um plexus skaða gæti verið að ræða. Ekki er dregið í efa að lýsingar kæranda á verkjum eigi sér stoð, en af fyrirliggjandi gögnum hefur ekki verið sýnt fram á ástæður verkjanna. Slíkt ályktun verður ekki dregin af því að taugsérfræðingur útiloki ekki plexus skaða.

· Varðandi skoðun í L hjá M þann X 2011 er það að segja að tölvusneiðmyndir og segulómmyndir á LSH höfðu ekki sýnt neitt athugavert á þeim stað þar sem æðaleggur lá. Það sáust vægar segulskynbreytingar í supraspinatus sin nálægt festu en enginn rofi í sinum eða annað athugavert. Bæklunarlæknir í L sagði að slitbreytingar sæjust í hægri öxl á lungnamynd frá 2008. Hann sá ekki neitt sem þarfnaðist meðferðar í axlarlið eða umgjörð hans og ráðlagði helst æfingar.

· Vert er að geta samantektar yfirlæknis á Svæfinga- og gjörgæsludeild (N) sbr. samantekt á atburðarás dags. X 2011. Lýsingar fara þar ekki að öllu leyti saman við það sem fram kemur í greinargerð í kæru. Undir liðnum Athugasemdir við umkvörtunarefni er að finna útskýringar læknisins á því sem kærandi lýsir. Skal ekki sagt um það hér varðandi það sem í milli ber, en minnt skal á að Sí geta einungis byggt á fyrirliggjandi gögnum.

II. Um ákvæði 2. gr. sjúklingatryggingarlaga nr. 111/2000

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu er tilgreint til hvaða tjónsatvika lögin taka. Skilyrði er að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum sem nánar eru rakin í 1.-4. tölulið 2. gr. laganna. 1. tl. lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð, 2. tl. fjallar um bilun eða galla í tækjum eða áhöldum, 3. tl. um hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni og 4. tl. tekur til heilsutjóns sem hlýst af sýkingu eða öðrum fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Eins og hér stendur á eiga 2. og 3. tl. 2. gr. ekki við og því koma 1. og 4. tl. 2. gr. til nánari skoðunar, en mál kæranda er tvíþætt og lítur annað umkvörtunarefnið að rangri meðhöndlun sbr. 1. tl. en ganga verður út frá því að síðara tilvikið sé rekið á grundvelli 1. og 4. tl. Segir enda í kæru að kærandi byggi á því að mistök hafi átt sér stað við innsetningu æðaleggs.

Með orðalaginu „að öllum líkindum” er átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á að tjónið megi rekja til einhverra þessara atvika. Það er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar eða rannsóknar sem hann gekkst undir. Sjúklingatrygging bætir ekki tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms sjúklings eða er af öðrum völdum, svo sem vegna heilsufars sjúklings fyrir umrædda meðferð. Ef engu verður slegið föstu um orsök tjóns verður að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. ,,Ef niðurstaðan verður sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildir ef ekkert verður sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns.”

III. Forsendur niðurstöðu

a. Það sem byggja má á fyrirliggjandi gögnum

Kærandi segist hafa verið mjög slæm af verkjum í hálsi, öxl og handlegg hægra megin allt frá því að æðaleggur var settur inn. Fyrir liggur að gerð voru tauga- og vöðvarit þann X 2012 og var taugarit eðlilegt, bæði hvað varðar skyntaugar og hreyfitaugar. Vöðvaritið var einnig eðlilegt en aðeins náðist að prófa axlarvöðva og ofankambsvöðva vöðva í hægri öxl, varð að hætta sökum mikilla verkja. Taugasérfræðingur taldi líklegast að einkenni væru vegna plexus skaða og tók fram að eðlilegt tauga- og vöðvarit í handlegg útiloki ekki að um plexus skaða gæti verið að ræða. Jafnframt er upplýst að kærandi átti að undirgangast slíka rannsókn í ágúst nýliðinn.

Kærandi á jafnframt að baki skoðun í L hjá M þann X 2011 auk ýmissa rannsókna á LSH. Ekkert framangreint hefur sýnt fram á orsakasamband við lagningu æðaleggs í subclacvia (viðbeinsbláæð).

Svo sem fram kemur í greinargerð meðferðaraðila (P dags. X.2011) skiptir í raun ekki öllu varðandi meðferð hvort brot kann að hafa verið opið eða lokað. Er það einkum með vísan til þess að kærandi kom ekki fyrr en fimm dögum eftir áverka á slysa- og bráðadeild og var þá liðinn sá tími sem skiptir sköpum varðandi fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð. Ekkert í gögnum staðfestir að brot hafi verið opið þannig að tilefni hafi verið til sýklalyfjagjafar frá byrjun, en langur vegur er frá margúl undir nærenda naglar til opins brots með rof í húð.

b. Ekkert skjalfest um opið fingurbrot

Lýsingar sérfræðings í fyrstu skoðun á slysa- og bráðadeild LSH þann X 2010 bera þann veg að ekki hafi verið lýst í sjúkraskrá hvernig ástand húðar hafi verið. Hann tekur fram að þó hann muni ekki eftir þessu tilviki í smáatriðum þá muni hann ekki eftir sjáanlegu sári á fingrinum eða umbúðum á honum. Hann man ekki ástand naglar, hvort þar var blæðing undir og treystir sér ekki til að fullyrða neitt þar um. Af því verður ekki ályktað að um blæðingu frá nögl eða naglabeð hafi verið að ræða.

Samkvæmt greinargerð yfirlæknis slysadeildar (P dags. X.2011) segir að ráða megi af bréfi kæranda að um blóðugan áverka hafi verið að ræða, þ.e. tæknilega séð opið beinbrot. Venja sé að setja slíka sjúklinga á sýklalyf vegna aukinnar sýkingarhættu. Bent er á að umsækjandi hafi fyrst komið á slysadeild 5 dögum eftir áverkann og ekki sé útilokað að grunnt sár hafi jafnvel verið gróið á þeim tíma. Bent er á að bólga, roði og verkir geti skýrst af brotinu og það hafi verið álit sérfræðings sem var á vakt þennan dag.

Í greinargerð smitsjúkdómalæknis segir að kærandi hafi komið á slysadeild í eftirlit en ekki verið sett á sýklalyf þrátt fyrir að hún væri með opið brot. Fram kemur þó einnig að smitsjúkdómalæknir sá ekki kærandi eða heyrði af honum fyrr en þann X 2010. Fullyrðingar byggja á lýsingu kæranda sjálfs en ekki gögnum eða skoðun.

Þrátt fyrir fullyrðingar í kæru um sönnunarreglur í sjúklingatryggingu verður ekki fallist á að hér sé einungis byggt á minnisleysi heilbrigðisstarfsmanna; sérfræðinga eða annarra. Vangaveltur um sönnunarreglur falla ekki að þeirri túlkun sem jafnan er lögð til grundvallar við skýringu ákvæða hinna fjögurra töluliða 2. gr. laga nr. 111/20008 um sjúklingatryggingu. Hafa ber í huga að ákvæðin ber að skýra eftir orðanna hljóðan auk þess áskilnaðar að meiri líkur en minni séu fyrir því að um sé að ræða orsakasamband milli einkenna og tilurða þeirra með vísan til meints sjúklingatryggingaratviks. Er óhjákvæmilegt að leiðrétta þann misskilning enn sem virðist ríkjandi um sönnunarþátt í sjúklingatryggingu.

Hvað viðvíkur áliti Landlæknis sem fylgir með kærugögnum skal á það bent að Sjúkratryggingar Íslands taka sjálfstæða ákvörðun og afstöðu í sérhverju máli. Ekkert nýtt er meðal gagna sem skýra niðurstöðu Landlæknis og því ekki unnt að fallast á þá niðurstöðu að mistök hafi átt sér stað við meðhöndlun brots. Ef því áliti væri fylgt í blindni yrði ekki tekin afstaða til umkvörtunar vegna lagningar holæðaleggs sem getið er í kæru. Álit virðist einungis byggja á frásögn kæranda um opið brot sem ekki er studd gögnum.

c. Engin gögn sem tengja einkenni frá öxl og hálsi áverka af völdum mistaka við lagningu æðaleggs

Fyrir liggja gögn frá nokkrum deildum LSH, heilsugæslu kæranda sjálfum, sérfræðingum í L sem og frá sjúkraþjálfara. Í skýrslu (greinargerð) sjúkraþjálfara kemur fram að kærandi hafi verið í meðferð hjá honum í 45 skipti og sé enn slæm í hægra axlarsvæði.

Einnig liggja fyrir í máli þessu nokkrar greinargerðir meðferðaraðila á LSH.

Greinargerð svæfingarlæknis (N dags. X.2011) er ítarleg, en hann fylgdist með kæranda vegna æðaleggs fyrsta sólarhringinn eftir ísetningu. Þar kemur fram að ísetning hafi gengið illa, aðgerð í heild hafi tekið 50 mínútur sem sé þó innan eðlilegra marka. Þurft hafi 3 ástungur á subclavia bláæðina og í þrjú skipti hafi leggurinn farið upp í hálsæðar áður en tókst að koma honum á réttan stað. Vegna verkjakvartana var kærandi skoðaður síðdegis þennan dag og um miðnætti voru fengnar tölvusneiðmyndir af hægra axlarsvæðinu. Engin blæðing sást, engar fyrirferðir og engar breytingar í brjóstholi. Svæfingarlæknir benti á að kærandi hafi ekki kvartað yfir dofa eða máttleysi í handlegg, en fyrst og fremst undan verkjum.

Svæfingarlækir ræddi við kæranda að morgni X 2011, fyrir heimferð. Ákveðið hafði verið kvöldið áður að sjá til yfir nóttina, endurmeta að morgni og ef verkir hefðu ekki dvínað, skipta þá um æðalegg. Kærandi baðst undan nýjum æðalegg, taldi sig betri af verkjum og varð að samkomulagi að hún fær heim. Tekið er fram að hjúkrunarfræðingar í heimaþjónustu sem gáfu lyf hafi fylgst með æðaleggnum allt þar til hann var tekinn þann X 2011.

d. Afstaða Sjúkratrygginga Íslands

I. Meðhöndlun brots á löngutöng vinstri handar

Varðandi fyrra kvörtunarefnið þ.e. að sýklalyf hafi ekki verið gefið þrátt fyrir að hér hafi verið um opið brot að ræða þá liggur þetta atriði ekki nógu ljóst fyrir. Kærandi lýsti blæðingu frá fingri en hún kom ekki til skoðunar á slysa- og bráðadeild LSH fyrr en fimm dögum eftir áverka. Sérfræðingur minnist þess ekki að til staðar hafi verið sár á fingri eða umbúðir en telur sig ekki getað vitnað um ástand naglar. Ekkert er um þetta skráð í skoðun kæranda á slysadeild.

Í eftirliti á göngudeild bæklunar, nokkrum dögum síðar, var lýst margúl undir nögl. Vel gæti verið að áverkinn hafi valdið blæðingu undir nögl og jafnvel blæðingu frá naglbeð en blæðing því verið hætt við skoðun 5 dögum síðar. Ef vísbendingar hefðu verið til staðar um opið sár liggur ljóst fyrir að rétt hefði verið að gefa sýklalyf frá upphafi. Hér verður þó að hafa í huga að kærandi kom ekki til skoðunar fyrr en fimm dögum eftir áverka og er því áverkinn ekki ferskur. Þar sem ekki voru gerðar athugasemdir í skoðun um opið brot verður ekki á því byggt án þess að önnur gögn styðji það. Hugsanlegt er, eins og áður hefur komið fram, að blætt hafi frá nögl eða naglabeð en þó verður ekkert um það fullyrt.

II. Verkjakvartanir frá öxl- og hálsi

Segulómun af æxlar-svæði var gerð þann X2011 og sagði þar að ekki sæjust neinar leifar hematoms eða aðrar fyrirferðir í axlarsvæði en vægar segulskynsbreytingar í supraspinatus sin, næst festunni. Svæfingarlæknir bendir á að við setningu æðaleggs sé um djúpar stungur að ræða og erfitt að deyfa fyllilega. Auk þess sem deyfingin sjálf orsakar verki meðan hún fer fram. Verkir eftir ísetningu æðaleggs geti varað einhverja daga vegna smá blæðinga umhverfis stungur. Nálaroddur geti og rispað beinhimnu viðbeins og valdið þannig verkjum. Langvinn óþægindi geti komið fram ef áverki verður á taug við stungu. Ekki hafi þó komið fram neinn dofi eða máttleysi sem rekja mætti til áverka á sértæka taug. Megin kvörtun hafi verið verkir í hálsi og axlarsvæði. Hann telur að atburðarás við ísetningu leggjar hafi verið eðlileg, strax hafi verið brugðist við kvörtunum og þeim fylgt eftir. Myndrannsóknir hafi verið framkvæmdar samdægurs til að útiloka greinanlega fylgikvilla. Eftirlit með leggnum hafi verið daglegt á meðan hann var til staðar.

Hvað síðara atriði varðar þ.e. verkjakvartanir frá hægra axlarsvæði eftir ísetningu á holæðalegg þá er hugsanlegt að áverki hafi orðið á taugum. Þetta er þó erfitt að fullyrða þar sem tauga- og vöðvarit sýna engin merki truflunar. Það verður hinsvegar að taka undir það sjónarmið svæfingarlæknis að brugðist var strax við kvörtunum umsækjanda, hún skoðuð samdægurs, tölvusneiðmyndir fengnar af svæðinu og málinu fylgt eftir allan tímann. Þannig verður ekki séð að um neina vanrækslu hafi verið að ræða en hvort hér er um fylgikvilla æðaleggs ísetningar að ræða eða ekki getur verið erfitt að meta. Það er þó ljóst að ekki hefði farið milli mála ef stungið hefði verið í plexus því umsækjandi hefði sýnt þess augljós merki strax. Allt er óljóst varðandi það af hverju verkir stafa eftir ísetningu æðarleggsins og ekkert hefur komið fram í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið, hvorki segulómun né tauga – og vöðvaleiðniriti. Hefur því ekki leitt af meðferðinni mælanlegt tjón.

IV. Niðurstaða

Niðurstaðan varðar tvö umkvörtunarefni og skal vikið að hvoru um sig í sömu röð og lagt er upp með í kæru og eftir atvikaröð, þ.e. fyrst meðhöndlun á fingurbroti og svo umkvartanir vegna verkja frá öxl eftir lagningu holæðarleggsins.

Ákvæði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu felur í sér áskilnað um að meiri líkur en minni þurfi að vera fyrir því að atvik sé að rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Áskilnaður 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu um að meiri líkur en minni þurfi að vera fyrir því að atvik sé að rekja til sjúklingatryggingaratburðar valda því að atvik kæranda hvað viðvíkur meðferð á brotáverka á löngutöng vinstri handar fellur utan við bótasvið ákvæðisins. Ekkert hefur fram komið um það að meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og hægt var.

Ekkert í gögnum bendir til þess að mistök hafi átt sér stað við lagningu holæðarleggs vegna sýklalyfjagjafar. Kærandi hefur lýst verkjum frá öxl, handlegg og hálsi sem hann tengir lagningu holæðarleggjarins. Ekkert í gögnum hefur sýnt fram á að skaði hafi orðið vegna þess að rangt hafi verið staðið að lagningu leggjarins.

Þegar af þeirri ástæðu fellur atvikið utan við 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Þá eiga 2. og 3. tl. ekki við um atvik, en það leiðir til skoðunar 4. tl., en hann tekur til fylgikvilla af völdum læknismeðferðar. Samkvæmt ákvæðinu er áskilið að saman fari tíðni slíkra fylgikvilla og alvarleiki afleiðinga. Felur ákvæði þannig í sér kröfu um sjaldgæfan fylgikvilla og/eða það alvarlegan að ekki sé rétt að sjúklingur þoli bótalaust afleiðingar hans. Umfjöllun um atvikið er að finna í ítarlegri samantekt (dags. X.2011).

Þá má geta þess að öll meðferð sem laut að ísetningu holæðarleggsins var hefðbundin og eðlileg. Þá hefur ekki verði sýnt fram á að læknir hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, athöfn eða athafnaleysi svo sem kærandi víkur að á miðri bls. 7 í kæru og verður ekki með nokkru móti fallist á það sem lagt er fram um sönnun með vísan í grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson í TL frá 1995. Það á einfaldlega ekki við hér.

Ekkert er fram komið hvers eðlis sá áverki er sem kærandi telur sig hafa orðið fyrir, en vöðva- og taugaleiðnirit hafa ekki sýnt skaða. Þá hefur ekkert verið staðfest í segulómun sem bendi til þess að blæðing hafi orsakast við ísetningu æðaleggsins. Upplýst er að algengt sé að talsverð óþægindi fylgi ísetningu holæðarleggs til langs tíma. Hugsanlegur fylgikvilli er þannig algengur þó ekki hafi verið sýnt fram á hann með gögnum. Fellur atvik þannig utan við bótasvið ákvæðisins, enda liggur ekkert fyrir sem sýnir fram á alvarlegar og varanlegar afleiðingar fylgikvillans. Útilokar það bótaskyldu vegna sjúklingatryggingaratviks.

Ekkert er með vissu sagt til um að atvik vegna meðhöndlunar brots eða eftirfylgni teljist þess eðlist að þau falli undir bótasvið eftir 2. gr. sjúklingatryggingarlaga nr. 111/2000, hvorki 1. né 4. tl. eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir bótaskyldu. Því ber að staðfesta ákvörðun SÍ dags. 8. mars 2012.“

Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Þann 9. október 2012 bárust úrskurðarnefnd viðbótargögn frá umboðsmanni kæranda og voru þau send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 10. október 2012. Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 11. október 2012, segir meðal annars:

Gögn með viðbótarathugasemdum:

I. Læknisvottorð, Q dags. 14.09.2012:

Vottorð þetta staðfestir að kærandi hefur verið til meðferðar á Reykjalundi frá X og er óvíst með framhald. Þetta er ekki dregið í efa, en vandséð hversu það hefur áhrif á það mál sem hér er til úrlausnar fyrir Úrskurðarnefnd almannatrygginga.

II. Stofunóta, R dags. 14.08.2012:

Stofunóta staðfestir skoðun R á kæranda, ekkert nýtt kemur þó fram í þeirri skoðun sem ekki lá þegar fyrir. R telur ekki útilokað að eitthvað kunni að hafa „snert brachial plexusinn.“ Þessi fullyrðing hefur áður komið fram, en rannsókn leiðir ekkert í ljós varðandi taugaskaða, en niðurstaðan er sú að skoðun telst eðlileg. Slæm festumein staðfest.

III. Læknisvottorð, R dags. 02.10.2012:

Athygli vekur að R , sem starfar á sviði heila- og taugasjúkdóma, staðhæfi í vottorði að hann sé algerlega sammála því að um læknamistök hafi verið að ræða hvað viðvíkur að „beinsýkingu í vinstri löngutöng var greind seint“, en staðfesti jafnframt í sömu setningu að uppsetningu holæðarleggs verði að flokka sem „leiðinlegt óhapp“.

Þá kemur fram nýr vinkill á málið þar sem festumein eru talin orsakavaldur verkja og festumein tengt þeirri meðferð sem leiddi af beinsýkingunni. Verður vart hjá því litið að vottorðið styrkir enn þá skoðun sem þegar hefur komið fram í ákvörðun SÍ dags. 8. mars 2012 og greinargerð dags. 21. september 2012.

Ekkert er fram komið í þessum gögnum sem breytir afstöðu SÍ, en gögn styrkja heldur það sem áður hefur komið fram í ákvörðun og greinargerð. Því ber að staðfesta ákvörðun SÍ dags. 8. mars 2012.“

Viðbótargreinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. október 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, vegna meðferðar við fingurbroti og afleiðinga af ísetningu æðaleggs á Landspítala.

Í rökstuðningi fyrir kæru er byggt á því að kærandi hafi ekki hlotið rétta meðferð við komu á slysadeild eftir fingurbrot. Greint er frá því að samkvæmt áliti landlæknis hafi verið um mistök að ræða við meðferð á fingurbroti kæranda sem hafi falist í því að hún hafi ekki verið meðhöndluð kröftuglega með sýklalyfjum þegar í stað eftir að brot löngutangar hafi verið greint. Þá byggir kærandi á því að mistök hafi átt sér stað við innsetningu æðaleggs. Læknir í starfsnámi hafi ítrekað reynt að setja upp æðalegg án árangurs og hafi kærandi að lokum fundið fyrir gríðarlegum sársauka og þá hafi verið kallað til sérfræðings en hann hafi ekki verið staddur í herberginu. Telji kærandi að kalla hefði átt eftir sérfræðingi löngu fyrr þar sem svo illa hafi gengið að þræða æðalegginn. Þá er tekið fram að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki kvartað yfir dofa eða máttleysi í hendinni sérstaklega geti það ekki haft grundvallaráhrif á niðurstöðuna þar sem hún hafi ekki getað hreyft höndina yfir höfuð, klætt sig eða borðað eftir stunguna vegna verkja. Vísað er í umsögn J taugalæknis þar sem fram komi að kærandi sé sennilega með plexus áverka hægra megin sem sé tilkominn við subclavia ísetningu annað hvort vegna beináverka eða togáverka. Erfitt sé að sýna fram á slíkan áverka með taugalífeðlisfræðilegum aðferðum og þó að niðurstöður rannsóknar verði eðlilegar útiloki það alls ekki slíkan áverka. Telur kærandi að um fylgikvilla sé að ræða sem sé meiri en svo að sanngjarnt sé að hún skuli þola bótalaust.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að það liggi ekki nógu ljóst fyrir að sýklalyf hafi ekki verið gefið þrátt fyrir að um opið brot hafi verið að ræða. Kærandi hafi lýst blæðingu í fingri en ekki komið til skoðunar á slysa- og bráðadeild Landspítala fyrr en fimm dögum eftir áverka. Sérfræðingur minnist þess ekki að til staðar hafi verið sár á fingri eða umbúðir en telji sig ekki getað vitnað um ástand naglar. Vel gæti verið að áverki hafi valdið blæðingu undir nögl og frá naglabeði en blæðingu hefði verið hætt við skoðun fimm dögum síðar. Ef vísbendingar hefðu verið um opið sár hefði verið rétt að gefa sýklalyf frá upphafi en kærandi hafi ekki komið til skoðunar fyrr en fimm dögum eftir áverka og hann því ekki ferskur. Þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir í skoðun um opið brot verði ekki á því byggt án þess að önnur gögn styðji það. Hvað varði verkjakvartanir frá hægra axlarsvæði eftir ísetningu holæðaleggs sé hugsanlegt að áverki hafi orðið á taugum. Erfitt sé þó að fullyrða það þar sem tauga- og vöðvarit sýni engin merki truflunar. Ekki verði séð að um vanrækslu hafi verið að ræða og erfitt geti verið að meta hvort um fylgikvilla ísetningar æðaleggs sé að ræða. Óljóst sé af hverju verkir stafi og ekkert hafi komið fram í rannsóknum og hafi því ekki leitt mælanlegt tjón af meðferðinni. Þá kemur fram að algengt sé að talsverð óþægindi fylgi ísetningu holæðarleggs til langs tíma. Hugsanlegur fylgikvilli sé því algengur og falli þannig utan við bótasvið ákvæðisins enda liggi ekkert fyrir sem sýni fram á alvarlegar og varanlegar afleiðingar fylgikvillans.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingarlögum að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir eða slysi sem sjúklingur verður fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð.

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 er að finna líkindareglu sem ætlað er að auðvelda þeim sem sækir um bætur að sýna fram á orsakasamband milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar. Þannig segir: ,,... enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika ...“ Þannig skal bæta tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af t.d. rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Þessi lögskýringasjónarmið eru áréttuð í greinargerð með lögunum.

Ákvæði 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð o.s.frv. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé m.a. við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tl. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að skv. 1. tl. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut átti að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika, sem m.a. eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til t.d. mistaka þá skal að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum. Líkurnar verða að vera meiri en 50%, sbr. greinargerð með frumvarpi að lögunum.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi á bráða- og göngudeild Landspítala þann X 2010 vegna áverka á vinstri löngutöng sem hún hafði hlotið þann X 2010. Við skoðun var fingurinn rauður, þrútinn og bólginn og sýndi röntgenmynd brot í fjærkjúku. Kærandi fékk spelku á fingurinn og var vísað í endurkomu hjá handaskurðlæknum. Þann X 2010 kom kærandi í endurkomu og var þá enn bólgin og aum en var ekki talin vera með sýkingu frekar en í fyrstu komu. Þann X 2010 leitaði kærandi á bráðadeild vegna verkja í fingrinum og var þá tekið sýni sem leiddi í ljós sýkingu. Kærandi var sett á sýklalyf en þar sem bati var hægur var kærandi lögð inn á smitsjúkdómadeild þann X 2011 og settur upp æðaleggur til sýklalyfjagjafar. Illa gekk að leggja æðalegginn og segist kærandi hafa fengið mikla verki í háls og öxl hægra megin og hafi enn óþægindi sem rekja megi til ísetningar æðaleggsins. Kærandi var á sýklalyfjum til X 2011 en brotið greri ekki og er kærandi með töluverð einkenni frá fingri.

Í gögnum málsins liggur fyrir álitsgerð landlæknisembættisins, dags. 21. júní 2012, vegna kvörtunar kæranda um meint mistök við meðferð á fingurbroti. Í álitsgerðinni er vísað í minnisblað S smitsjúkdómalæknis, dags. 12. október 2011, en í minnisblaði hans segir m.a. svo:

„Ekki er ljóst hvort um opið beinbrot var í upphafi. Mikil bólga og blóðsöfnun undir nögl sem trúlega hefur sýkst með þeim afleiðingum að fékk beinsýkingu. Það stingur í augu sjúklingur var með linnulítil óþægindi og eftir endurkomu X.2010 var endurmat ráðlagt 4 vikum síðar. Vakti að sögn athygli á stöðugum óþægindum í símtölum við spítalann en ekki ver talin þörf á sértækum aðgerðum. Hún ákvað sjálf að mæta á spítalann X.2010 vegna stöðugra verkja og vondrar lyktar. Rétt greining um sýkingu í beini fékkst þá.“

Niðurstaða landlæknis um það atriði hvort mistök hafi orðið við upphaflega greiningu og meðferð brots á löngutöng er að mistök hafi orðið sem hafi falist í því að hún hafi ekki verið meðhöndluð kröftuglega með sýklalyfjum þegar í stað eftir að brot löngutangarinnar var greint. Í umfjöllun landlæknis segir m.a. svo:

„Af gögnum málsins má ljóst vera að ekki var gætt varfærni í meðferð áverka A þegar hún kom á slysa- og bráðadeild Landspítala Fossvogi fjórum dögum eftir að hafa hlotið áverka. Ljóst hefði mátt vera að aðstæður þær sem til staðar voru, þegar hún hlaut áverkann af [...], gátu vera mengaðar af [...]og fleiru innihaldandi sýkingarhæfar bakteríur. Ennfremur mátti vera ljóst að af lýsingu A á áverkanum, með blæðingum meðfram nögl, átti að leiða til þeirrar ályktunar að um gæti verið að ræða opið beinbrot. Þess vegna átti, eftir að greint var beinbrot af völdum áverkans fjórum dögum síður, að meðhöndla sjúklinginn kröftuglega með sýklalyfjum í æð.“

Ljóst er af gögnum málsins að seinkun varð á greiningu á sýkingu kæranda. Þar sem líkur voru á að um opið beinbrot væri að ræða og hætta væri á sýkingu hefði að mati úrskurðarnefndar átt að hefja sýklalyfjameðferð þegar við fyrstu komu kæranda á slysa- og bráðadeild Landspítala. Þá telur nefndin að meðferð kæranda í endurkomu þann X 2010 hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið en þá var ekki enn talin ástæða til sýklalyfjagjafar og endurmat ráðlagt fjórum vikum síðar. Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að kærandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, vegna meðferðar á fingurbroti. Ísetning æðaleggs og einkenni sem rekja má til ísetningarinnar eru afleiðingar hins bótaskylda sjúklingatryggingaratviks. Eins og málið er upplýst liggur ekki nægilega fyrir hvert tjón kæranda er vegna sjúklingatryggingaratburðarins og er því málinu vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að bótaskylda í málinu sé viðurkennd. Málinu er vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Viðurkennd er bótaskylda í máli A, samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, vegna meðferðar við fingurbroti á Landspítala. Málinu er vísað til frekari meðferðar hjá Sjúkratryggingum Íslands.

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum