Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 7/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 7/2017

Miðvikudaginn 16. ágúst 2017

A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 4. janúar 2017, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 6. október 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyss sem hann varð fyrir þann X 2010.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu þann X 2010 þegar hann féll [...]. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. október 2015, byggðri á tillögu C læknis að örorkumati, var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 10%. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga með kæru, dags. 21. desember 2015. Í kjölfar kærunnar ákváðu Sjúkratryggingar Íslands að endurupptaka ákvörðun sína. Með endurákvörðun, dags. 6. október 2016, var varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins metin 10% á grundvelli tillögu D læknis að örorkumati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. janúar 2017. Með bréfi, dags. 10. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 17. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði mat á varanlegum afleiðingum slyssins þann X 2010 og hækki matið í samræmi við mat E læknis og F hdl., dags. 28. ágúst 2012, sem hafi metið einkennin til 20% læknisfræðilegrar örorku.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann X 2010 í G. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi fallið [...]. Hann hafi lent illa á hægri fæti og orðið fyrir meiðslum.

Kærandi geti ekki fallist á hina kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands því að hann telji varanlegar afleiðingar slyssins vera vanmetnar en E matslæknir og F hdl. hafi metið varanlegan miska kæranda 20 stig (varanlega læknisfræðilega örorku 20%) í matsgerð, dags. 28. ágúst 2012.

Kærandi geti ekki fallist á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og telji að afleiðingar slyssins hafi verið mun meiri. Hann telji að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki tekið nægilegt tillit til varanlegra afleiðinga slyssins og að byggja eigi frekar á niðurstöðu matsgerðar E læknis og F hdl.

Þá segir að við mat á varanlegum miska hafi E læknir og F hdl. lagt til grundvallar að um væri að ræða „eftirstöðvar fremur alvarlegs brotáverka á hægri rist sem valdið hefur verkjum og hreyfiskerðingu og einkennum fram í tær. Búast má við því að nauðsynlegt verði að gera staurliðsaðgerð á komandi árum og er tekið tillit til þess við mat á miska.“ Með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar hafi matsmennirnir talið varanlegan miska kæranda vegna slyssins hæfilega metinn 20 stig.

Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi gagna geti kærandi ekki fallist á að hann hafi aðeins hlotið 10% varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins og telji hana vera meira í samræmi við matsgerð E læknis og F hdl., dags. 28. ágúst 2012.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 1. júlí 2010 hafi stofnuninni borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi varð fyrir þann X 2010, sem var síðar leiðrétt í X 2010. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 29. júlí 2010, að um bótaskylt slys væri að ræða en hvorki kæmi þó til greiðslu dagpeninga né slysaörorku þar sem kærandi hefði verið metinn til 75% örorku og fengi greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, en þessar bætur hafi ekki greiðst saman, sbr. þágildandi 2. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Sjúkratryggingar Íslands hafi einnig sent bréf um þetta til umboðsmanns kæranda, dags. 15. október 2013.

Fram kemur að greiðslu örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins til kæranda hafi lokið 30. september 2015. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. október 2015 hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda síðan verið metin 10% vegna umrædds slyss. Sjúkratryggingar Íslands hafi því sent kæranda bréf, dags. 7. október 2015, þar sem honum hafi verið tilkynnt um að hann fengi eingreiðslu örorkubóta, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015, sbr. áður 5. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, þar sem segi að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að greiða örorkubætur í einu lagi sé orkutap minna en 50%. Í kjölfarið hafi verið reiknuð og greidd út eingreiðsla að fjárhæð kr. X. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 7. október 2015 um 10% mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda hafi verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga í desember 2015, sbr. kærumál nr. 371/2015, þar sem kærandi hafi talið að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar. Í kjölfarið hafi Sjúkratryggingar Íslands ákveðið að endurupptaka ákvörðunina þar sem öruggara hafi verið talið að ákvörðun stofnunarinnar byggði á tillögu að örorkumati þar sem fram hefði farið viðtal og læknisskoðun matslæknis á matsþola, en umrædd ákvörðun hafði byggt á tillögu C læknis að örorkumati kæranda, dags. 10. október 2013, sem gerð hafi verið á grundvelli matsgerðar E læknis og F hdl., dags. 28. desember 2012.

Með endurákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 6. október 2016, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin að nýju 10% vegna umrædds slyss. Þessi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar.

Greint er frá því að slys kæranda þann X 2010 hafi orðið með þeim hætti að hann hafi fallið [...] við vinnu sína í G og lent illa á hægri fæti. Afrifubrot hafi greinst í ristarbeinum á Heilbrigðisstofnun H sama dag og nokkrum dögum síðar hafi hann gengist undir aðgerð á Landspítala vegna Lisfrancs áverka af völdum slyssins.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda að nýju verið metin 10%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu D læknis, dags. 25. maí 2016, byggðri á þágildandi 34. gr. laga nr. 100/2007. Tillagan hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar frá 2006, lið VII.B.c., sbr. dönsku miskatöflurnar frá 2012, liði D.2.1.12. og D.2.1.13. svo og með vísan til snemmkominna slitbreytinga. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 10%.

Bent er á að C læknir hafi komist að sömu niðurstöðu og D, þ.e. 10%, í tillögu sinni að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 10. október 2013, vegna slyssins þann X 2010. Mat C sé beinlínis byggt á þeirri lýsingu einkenna og skoðunar sem lýst sé í matsgerð þeirra E læknis og F hdl., dags. 28. desember 2012. Hér séu því komnar fram tvær tillögur að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyssins þann X 2010 þar sem niðurstaðan sé í senn samhljóða, þ.e. 10%, rökstudd og færð undir tilheyrandi liði miskataflna.

Að öllu virtu telja Sjúkratryggingar Íslands að staðfesta beri þá afstöðu sem gerð hafi verið grein fyrir í greinargerð stofnunarinnar og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 10% varanlega læknisfræðilega örorku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2010. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku kæranda 10%.

Í læknisvottorði J heilsugæslulæknis, dags. 5. mars 2011, segir svo um slysið:

„A leitaði á slysa og bráðadeild HSS þann X 2010. Í komunótu kom meðal annars fram að hann hafi fallið um 2m á vinnustað og lent á fótum. Við lendingu fann hann strax fyrir verkjum í hæ rist.

Skoðun: Bólginn og aumur allan hringinn um miðja rist við þreifingu.

Rannsóknir:

RTG HÆGRI FÓTUR:

Brot greinast ekki á þessari rannsókn. Nokkrar osteophytamyndir eru að sjá dorsalt í tarsalliðum, sést best á hliðarmyndinni. Einnig er sporamyndun í sinafestu Achilles-sinar.

TS FÓTUR:

Tölvusneiðmynd af hægri fæti. Töluverð mjúkpartabólga er bæði medialt og lateralt á fætinum á móts við os naviculare. Síðan kemur í ljós afrifubrot á superior og lateralkanntinum af os cuneformi mediale við MTT-liðinn. Samsskonar afrifubrot er á superior medial kanntinum á os cuneforme intermediale og svolitlar skellaga beinflísar hafa flísast lateralt út úr basis á metatarsal beini 2 og 3 og svolítil beinflís liggur við superior lateralkanntinn á os cuneforme laterale og samsskonar beinflís er við superior lateral kanntinn á os cuboidea. Calcaneus, navicularbeinið og talus eru að sjá innan eðlilegra marka.

NIÐURSTAÐA:

Brot við meta-taral-liðina, stæsta brotið er í os cuneforme mediale.

Greining og meðferð: Fracture of foot, except ankle S92.0. Því var sett dorsal spelka án ástigs og svo ráðgerð endurmat í heimabyggð. Hann fékk einnig Parkdoin verkjalyf.“

Í örorkumatstillögu D læknis, dags. 25. maí 2016, segir svo um skoðun á kæranda þann 14. apríl 2016:

„Tjónþoli hreyfir sig eðlilega. Gefur skýra og greinargóða sögu. Göngulag er eðlilegt og það eru engar stöðuskekkjur eru sjáanlegar. Hann getur staðið á tám og hælum. Fullur styrkur í fótleggjum til að standa á öðrum fæti. Ör liggur innanvert á fætinum ca. 5 cm langt. Eymsli eru við þreifingu yfir háristinni bæði innanvert og utanvert og fram eftir ristarbeinum aðallega MT-1 fram að stóru tá. Einnig talsverð eymsli í plantar fasciu miðlægt. Við skoðun hreyfiferla er skerðing og engin hreyfing í háristinni. Hreyfiferlar um ökkla í hæ. og vi. fæti er sambærileg og metin innan eðlilegra marka.“

Niðurstaða matsins er 10% og í samantekt segir svo:

„Afleiðingar slysins þann [X] 2010 var brot á ristarbeinum í hægri fæti. Liscfranc‘s áverki. Aðgerð til að minnka óstöðugleika og festa brotið fór fram X 2010. Festingar voru fjarlægðar X 2010. Slitbreytingar í liðum hæ. fótar greindust í X 2011. Eftirstöðvar eru viðvarandi daglegir verkir sem versna við álag og hreyfiskerðing.

Í töflum örorkunefndar frá 2006 kafla VII.B.c. sem fjallar um miskamat eftir áverka á ökkla og fæti kemur fram að eftirstöðvar áverka á fót, með stífun í neðri völulið megi jafna við <10% varanlegan miska. Við skerta hreyfigetu án stífunar í neðanvölulið (articulatio subtalaris), og óþægindi megi að öllu jöfn meta til 5% varanlegs miska. Í dönsku miskatöflunum frá 1. janúar 2012 er kveðið sértækar á um eftirstöðvar ristarbeinsbrota og Liscfranc‘s áverka sbr. Méntable (ask.dk), lið D.2.1.12 og D.2.1.13 en þar kemur fram að eftirstöðvar brot á ristarbeinum eða Lisfrancs áverka með daglegum verkjum og hreyfiskerðingu í fæti eða aflögun megi jafna við 5-8% varanlegs miska.

Fram kemur í mati meðhöndlandi bæklunarlæknis að til greina gæti komið að gera frekari stífun á liðum hæ. fótar vegna slitbreytingar, en árangur af slíku væri óviss. Skv. miskatöflum örorkunefndar kemur fram að stífun á ökkla í góðri stöðu (0-15%) megi jafna á við 10% varanlegan miska.

Með hliðsjón af töflum örorkunefndar frá 2006 og dönsku miskatöflunum frá 2012 á er gerð tillaga um að eftirstöðvar áverka sem tjónþoli hlaut í slysinu megi jafna við afleiðingar Lisfrancs áverka eins og líst er og metið er í dönsku miskatöflunum (Méntable), en jafnframt að tekið skuli að tillit til snemmkominna slitbreytingar og því sé varanleg læknisfræðileg örorka rétt metin 10% þar sem til frekari stífunar á liðum í ökkla og fæti gæti komið síðar.

Niðurstaða: Gerð tillaga um að varanlega læknisfræðileg örorka A í kjölfar slyssins þann [X] 2010 sé hæfilega metin 10% (tíu af hundraði).“

Lögmaður kæranda hefur lagt fram örorkumatsgerð E læknis og F hdl., dags. 28. ágúst 2012, en matsgerðina unnu þeir að ósk lögmannsins og vinnuveitanda kæranda. Um skoðun á kæranda þann 8. ágúst 2012 segir svo í matsgerðinni:

„Tjónþoli gengur haltur inn gang að skoðunarstofu. Almennt hreyfir hann sig þannig að hann stingur við á hægra fæti við gang. Hann getur ekki gengið á tám og hælum og kemst ekki nema hálfa leið niður á hækjur sér því ef hann ætlar alla leið verður hann að rétta úr hægri fætinum aftur á bak.

Við skoðun á hægri ristinni kemur fram að hún er fixeruð þ.e.a.s. í föstum skorðum og engin hreyfing er í háristinni. Það er 5 cm ör yfir háristinni innanvert vegna aðgerðarinnar. Þreifieymsli eru yfir alla háristina en þó mest innanvert, niður og fram eftir ristarbeini I (MT1) og alveg niður að stórutáarliðnum (MTP1), hreyfing í hægri ökkla er 75-145° borið saman við 70-150° vinstra megin. Við skoðun á hnjám kemur í ljós að þau eru eðlileg.“

Niðurstaða framangreindrar örorkumatsgerðar E læknis og F hdl. er sú að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins teljist vera 20%. Í forsendum mats og niðurstöðum segir:

„Tjónþoli lenti í því þann X.2010 að detta [...] þar sem hann var við vinnu sína sem [...]í G. Fallið mun hafa verið um 2 metrar. Hann lenti í standandi stöðu á steingólfi, með hægri fótinn á undan og fékk högg á hægri rist og upp líkamann. Hann var greindur með ristarbrot sem gert var að í aðgerð. Afleiðingar slyssins hafa valdið varanlegu líkamstjóni, bæði hreyfiskerðingu og verkjum. Úr því sem komið er bendir flest til þess að gera þurfi staurliðsaðgerð þar sem tjónþoli er í dag kominn með svokallaðar hamarstær vegna aukinnar spennu í þeim sem er afleitt af ristarbrotinu. Staurliðsaðgerð hefur ekki verið tímasett, en hún verður sennilega gerð þegar tjónþoli hefur gefist upp á núverandi ástandi.

[…]

Mat á varanlegum miska er læknisfræðilegt mat. Við matið er fyrst og fremst höfð til hliðsjónar miskatafla Örorkunefndar útgefin 21. febrúar 2006 en einnig bandaríska miskataflan (Guides to the evaluation of permanent impairment, 5. útgáfa, útgefin af bandarísku læknasamtökunum árið 2000) og danska miskataflan (Mentabell, arbejdskadestyrelsen útgefin 1. janúar 2004). Litið er til líkamlegrar og andlegrar færnisskerðingar sem slys getur hafa valdið, og einnig er litið til þess hvort sú færnisskerðing geti valdið viðkomandi sérstökum erfiðleikum í lífi sínu í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993 umfram það sem felst í því mati sem fram fer út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Þegar um fyrri áverka eða sjúkdóma er að ræða er miðað við núverandi ástand að teknu tilliti til fyrra heilsufars og fæst þá miski sem rekja má til núverandi slyss (apportionment). Þess ber að geta að miskatöflur eru leiðbeinandi og ekki tæmandi.

Við miskamat er lagt til grundvallar að um er að ræða eftirstöðvar fremur alvarlegs brotáverka á hægri rist sem valdið hefur verkjum og hreyfiskerðingu og einkennum fram í tær. Búast má við því að nauðsynlegt verði að gera staurliðsaðgerð á komandi árum og er tekið tillit til þess við mat á miska. Ekki er talið að afleiðingar slyssins valdi tjónþola sérstökum erfiðleikum í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga.

Með hliðsjón af miskatöflum Örorkunefndar telst varanlegur miski hæfilega metinn 20 stig.“

Þá liggur fyrir tillaga C læknis á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda vegna slyssins, dags. 10. október 2013, þar sem segir meðal annars:

„Tjónþoli er enn með verki í hægri fæti og gengur haltur. Verkir versna við álag og áreynslu. Þegar eru komnar fram byrjandi slitbreytingar í Lisfrancs lið. Hann er með upphafna hreyfigetu í háristarliðum.

Litið er svo á að áðurnefnd einkenni beri að rekja til umrædds slyss. Líklegt verður að telja að slitgigt í Lisfrancs lið muni geta leitt til staurliðsaðgerðar síðar meir Tjónþoli hefur gengist undir aftari spengingu í hálsi vegna afleiðinga umferðarslyss 1999 er hann hlaut hálsbrot.

Við mat á læknisfræðilegri örorku er miðað við miskatöflu Örorkunefndar (2006) og þegar áverka er ekki getið þar er litið til hliðsjónarrita svo sem til dönsku miskataflnanna (Méntabel). Litið er til ofangreindra atriða. Lisfrancs-áverka er ekki getið í íslensku miskatöflunum en í þeim dönsku eru afleiðingar hans metnar til 5-8% í lið D.2.1.13. Litið er til þess að þegar eru komnar fram slitbreytingar hjá tjónþola og tafla VII.B.c. í íslensku miskatöflunum höfð til hliðsjónar. Að öllu virtu telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 10% (tíu af hundraði).“

C skoðaði ekki kæranda en byggði matsgerð sína á framangreindri matgerð E læknis og F hdl. og öðrum gögnum.

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins féll kærandi [...] með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á ristarbeinum í hægri fæti. Samkvæmt örorkumatstillögu D læknis, dags. 25. maí 2016, eru varanlegar afleiðingar slyssins viðvarandi daglegir verkir sem versna við álag og hreyfiskerðing. Í örorkumatsgerð E læknis og F hdl., dags. 28. ágúst 2012, kemur fram að varanlegar afleiðingar slyssins séu eftirstöðvar fremur alvarlegs brotáverka á hægri rist sem valdið hafi verkjum og hreyfiskerðingum og einkennum fram í tær. Einnig er gert ráð fyrir að staurliðsaðgerð verði nauðsynleg á komandi árum. Samkvæmt hinu kærða örorkumati var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 10%.

Ekki er grundvallarmunur á lýsingum matsmanna á einkennum og ástandi kæranda. Í miskatöflum örorkunefndar frá árinu 2006 fjallar liður VII.B.c. um afleiðingar áverka á ökkla og fót. Enginn undirliðanna fjallar um áverka á háristar- og framristarliði (tarsometatarsal liði) eins og þann sem kærandi hlaut og þurfti skurðaðgerðar við. Í dönsku örorkumatstöflunum, Méntabel, sem gefnar voru út af Arbejdsskadestyrelsen árið 2012, fjallar liður D.2.1.12. um brot á einu eða fleiri ristarbeinum með daglegum álagsverkjum og hreyfiskerðingu í rist og/eða hárist eða aflögun (brud på en eller flere mellemfodsknogler med daglige belastningssmerter og nedsat bevægelighed i mellemfod og/eller bagfod eller deformitet). Þessi liður á við um ástand kæranda eins og því er lýst í fyrirliggjandi gögnum nema hvað kærandi býr við stöðuga verki, ekki aðeins álagsverki, eins og um er talað í skýringum við þennan lið. Sama má raunar segja um lið D.2.1.13. sem fjallar meðal annars um áverka á háristar- og framristarliði eins og þann sem kærandi hlaut (brud på fodrodsknogler andre end hælben og rulleben eller ledskred i Lis Francs led eller Choparts led med daglige belastningssmerter og nedsat bevægelighed i mellemfod/bagfod eller deformitet). Hvort sem valinn er liður D.2.1.12. eða 13. er matið samkvæmt þeim 5–8% varanleg örorka en að álitum verður að telja réttmætt að hækka mat kæranda í 10% vegna þeirra stöðugu einkenna sem hann býr við. Ekki þykir grundvöllur til að hækka það mat frekar og má til samanburðar benda á lið VII.B.c.4. í töflum örorkunefndar þar sem „mjög óstöðugur ökkli og mikil einkenni“ eru metin til minna en 10% varanlegrar örorku. Í örorkumatsgerð E læknis og F hdl. er gert ráð fyrir að staurliðsaðgerð verði nauðsynleg á komandi árum. Úrskurðarnefnd telur rétt að miða mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku við núverandi stöðu, en bendir kæranda á að hann geti farið fram á endurupptöku málsins ef einkenni versna í framtíðinni og til að mynda leiða til aðgerðar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna afleiðinga slyssins X 2010 teljist hæfilega metin 10%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í máli kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir X 2010, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum