Hoppa yfir valmynd
7. júní 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland undirritar fjölþjóðasamning gegn skattundandrætti og skattsvikum

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritar í dag fyrir hönd Íslands fjölþjóðasamning sem miðar að því að stemma stigu við skattundandrætti og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga. Yfir 100 ríki hafa gerst aðilar að samningnum og undirrita 68 þeirra hann í dag í tengslum við ráðherrafund Efnahags- og framafarastofnunarinnar (OECD) sem haldinn er í París.

Fjölþjóðasamningurinn (Multilateral Instrument, MLI) tengist aðgerðaáætluninni gegn skattundandrætti skattsvikum og skattaflótta sem unnið hefur verið að frá árinu 2014 (Base Erosion and Profit Shifting, BEPS). Að baki áætluninni stóðu aðildarríki OECD ásamt G20-ríkjunum. Ísland tók virkan þátt í mótun og samþykkt BEPS aðgerðaáætlunarinnar. Hún felst í 15 aðgerðum, m.a. að vinna gegn þróun hjá alþjóðafyrirtækjum að komast hjá skattgreiðslum, t.d. með því að nýta glufur vegna mismunandi skattareglna í ríkjum sem gert hafa tvísköttunarsamning sín á milli.

Nýi samningurinn felst annars vegar í því að eldri tvísköttunarsamningum verður breytt og ákvæði MLI ganga framar tilgreindum ákvæðum í gildandi tvísköttunarsamningi þátttökuríkja. Í farvatninu eru ýmsar afleiddar breytingar af BEPS og MLI sem rata munu inn í tvísköttunarsamningsfyrirmynd OECD. Meginmarkmið breytinganna er að taka af öll tvímæli um að tvísköttunarsamningum sé hvorki ætlað að ná fram lítilli eða engri skattlagningu né tvískattlagningu heldur standa gegn misnotkun og skattasniðgöngu.

Undanfarið hafa ýmis skref verið stigin hér á landi í baráttunni gegn skattundandrætti og skattsvikum, svo sem með löggjöf um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum og starfshópi sem lagði mat á umfang eigna og umsvif Íslendinga á aflandssvæðum, sem og mögulegt tekjutap hins opinbera sem af slíku leiðir.

Í febrúar sl. skipaði fjármála- og efnahagsráðherra tvo starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum til úrbóta vegna ábendinga sem fram komu í skýrslu starfshóps um umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu Íslendinga á aflandssvæðum. Starfshóparnir skila niðurstöðum sínum á allra næstu dögum og er þess að vænta að þær leiði til lagabreytinga sem lagðar verði fyrir komandi haustþing í tengslum við framlagningu frumvarps til fjárlaga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira