Hoppa yfir valmynd
2. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 642/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 2. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 642/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110004

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 1. nóvember 2021 kærði einstaklingur sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Marokkós (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2021, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 10. maí 2016. Kæranda var synjað um efnismeðferð með ákvörðun Útlendingastofnunar hinn 3. ágúst 2016. Ákvörðunin var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála hinn 4. október 2016. Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi af landi brott áður en tókst að birta úrskurð kærunefndar fyrir honum en kærandi var skráður horfinn frá og með 7. nóvember 2016.

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hinn 9. júní 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2021, var umsókninni hafnað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 1. nóvember 2021 og hinn 17. nóvember 2021 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 22. nóvember 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi ekki haft heimild til dvalar þegar hann lagði dvalarleyfisumsókn sína fram, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar og uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að beiting undantekningarheimildar 3. mgr. 51. gr. ætti við. Var umsókn kæranda því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að í máli hans séu ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í fyrsta lagi hafi Útlendingastofnun komist ranglega að þeirri niðurstöðu að frávísun hans frá Íslandi muni ekki hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu maka hans, sem glími við mjög alvarlegan heilsubrest. Bendir kærandi á að stöðugleiki hafi jákvæð áhrif á heilsu hennar og þar spili kærandi stóran þátt. Hafi stofnunin við mat sitt brotið í bága við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, enda hafi málið ekki verið nægjanlega upplýst m.a. um alvarleika heilsufarsvanda maka hans. Í öðru lagi byggir kærandi á því að við mat á því hvort 3. mgr. 51. gr. eigi við í máli hans hafi Útlendingastofnun stuðst við ómálefnaleg sjónarmið. Í þriðja lagi byggir kærandi á því að jafnræðisreglan hafi verið brotin auk sjónarmiða um réttmætar væntingar og vísar í því samhengi til tilgreindrar ákvörðunar Útlendingastofnunar þar sem 3. mgr. 51. gr. hafi verið beitt. Í fjórða lagi byggir kærandi á því að rökstuðningur Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga sem og 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en ákvörðunin byggi á upplýsingum sem hvergi sé að finna í málinu. Loks telur kærandi að ef stofnunin hefði framkvæmt heildstætt mat á aðstæðum kæranda hefðu hún komist að þeirri niðurstöðu að beita 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga vegna ríkra sanngirnisástæðna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi er maki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga en samkvæmt gögnum málsins gengu þau í hjúskap á Íslandi hinn 5. júní 2021. Þegar kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði síðastnefnds ákvæðis og á undantekningarákvæði a-liðar 1. mgr. 51. gr. því ekki við í máli hans.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að almennt beri að túlka ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og. 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Kærandi kveðst í dvalarleyfisumsókn sinni hafa dvalið samfellt á Íslandi frá því í ágúst 2017. Í greinargerð og fylgigögnum er byggt á því að kærandi og maki hans hafi kynnst árið 2018 í gegnum stefnumótaforritið Tinder og verið í ástarsambandi frá þeim tíma. Í fylgigögnum með greinargerð er að finna undirritaðar yfirlýsingar frá maka kæranda, ættingjum hennar og vinum þar sem sambandi þeirra er lýst nánar. Kemur þar m.a. fram að þau séu búin að vera saman í ástarsambandi frá því síðla árs 2018. Þá liggur fyrir sálfræðivottorð, dags. 15. september 2021, þar sem andlegri heilsu maka kæranda er lýst nánar, þeirri meðferð sem hún hefur verið í og stuðningi kæranda í því ferli. Þá voru jafnframt lagðar fram ljósmyndir af kæranda og maka sem bera með sér að vera teknar við ýmis tilefni.

Jafnvel þótt kærandi hafi dvalið á Íslandi um langa hríð í ólögmætri dvöl og að hann hafi ekki stofnað til fjölskyldutengsla í lögmætri dvöl, sjá t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003, verður að mati kærunefndar að vega það atriði á móti lengd sambands hans við maka sinn, sem stutt er með framlögðum gögnum. Þá bera framlögð gögn eindregið með sér að kærandi hafi verið maka sínum til halds og trausts í þeim andlegu veikindum sem hún hefur glímt við. Er það mat kærunefndar, með vísan til framangreinds, gagna málsins og eins og hér sérstaklega háttar, að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga þannig að dvalarleyfisumsókn hans skuli hljóta efnislega skoðun hjá stjórnvöldum. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Þorsteinn Gunnarsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum