Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráðherra Norðurlanda ávarpaði vísindaráðstefnu í Bandaríkjunum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, ávarpar norræna málstofu á vísindaráðstefnu AAAS í Washington D.C. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, ávarpaði fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar, um síðastliðna helgi annars vegar hringborðsumræður og hins vegar Norræna málstofu sem NordForsk og norrænu sendiráðin í Washington D.C. stóðu fyrir í tengslum við vísindaráðstefnuna AAAS. Í ræðu ráðherra kom fram að Norðurlöndin væru meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að rannsóknum á tengslum erfðafræði og algengra sjúkdóma. Norðurlöndin hafa umfram önnur lönd ítarlegra gagnasafn og erfðaupplýsingar sem geta nýst í fyrirbyggjandi læknisfræði og til að fyrirbyggja sjúkdóma. Sem dæmi um slíka sjúkdóma má nefna krabbamein og sykursýki.

Markmið viðburðanna var að vekja athygli á norrænu rannsóknarsamstarfi og möguleikum bandarískra vísindamanna, rannsóknarstofnana og fyrirtækja á samstarfi við Norðurlönd, og er sérstök áhersla á norrænt samstarf gagnabanka er geyma heilsufarsupplýsingar, erfðaupplýsingar og velferðargögn, svokölluð Nordic Registers and Biobanks.

NordForsk er norræn stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um menntun og vísindi (MR-U). Hlutverk NordForsk er að hafa umsjón með samstarfi á sviði rannsókna og rannsóknamenntunar á Norðurlöndunum. Starfið snýr að samþættingu, samfjármögnun og ráðgjöf í tengslum við verkefnin.

Ráðstefnan er á vegum alþjóðlegra samtaka vísindamanna og vísindastofnana, The American Association for the Advancement of Science, AAAS, sem vilja efla vísindalegt samstarf, standa vörð um vísindalegt frelsi, hvetja til vísindalegrar ábyrgðar og auka vísindamenntun og útbreiðslu vísinda um allan heim. Ráðstefnan í Washington D.C. er árlegur fundur samtakanna. Þema fundarins í ár er Science Transcending Boundaries (vísindi þvert á landamæri) – er þar vísað bæði til landfræðilegra landamæra, en einnig þverfagleika og vísinda er spanna mismunandi hugmyndafræði eða aðferðir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira