Hoppa yfir valmynd
9. desember 2014 Utanríkisráðuneytið

Norðmenn gjalda gjöf við gjöf

Gunnar Pálsson.

Eitt merkasta framlag Íslendings til söguþekkingar á Norðurlöndum er nú í fyrsta skipti komið út á norrænni tungu. Bókaforlagið Sagabok hefur gefið út á norsku Noregssögu Þormóðs Torfasonar, sem skrifuð var á latínu og prentuð 1711. Ritverkið, sem er meira en 4000 blaðsíður að lengd, er í sjö bindum og birtist hið fyrsta þeirra á norsku 2008. Verkið geymir m.a. sameiginlegan söguarf Íslands og Noregs frá upphafi, en það var fyrsta samfellda Noregssagan sem tekin hafði verið saman frá því Snorri Sturluson skrifaði Heimskringlu á þrettándu öld.

Þormóður TorfasonÞormóður Torfason fæddist í Engey 1636. Hann var ungur settur til náms við latínuskólann í Skálholti og hélt átján ára til náms í klassískum fræðum við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann snéri aftur til Íslands að námi loknu, en bauðst staða sem konunglegur þýðandi íslenskra handrita í Kaupmannahöfn 1659. Þar vakti hann athygli Friðriks III. Danakonungs, sem sendi hann til Íslands til að safna norrænum handritum fyrir konunglegu þjóðarbókhlöðuna. Hann var tilnefndur konunglegur fornritavörður 1667, en þurfti að láta það starf af hendi við fráfall Friðriks III. Hann var síðar skipaður konunglegur söguritari við hirð Kristjáns V.

Þormóður, sem notaði höfundarnafnið Tormod Torfæus á latínu, giftist norskri ekkju 1665 og fluttist síðar með henni til Karmøy á vesturströnd Noregs, en þar skrifaði hann m.a. sögu Noregs, Historia Rerum Norvegicarum. Hann vann að verkinu í 30 ár og var 75 ár að aldri þegar það kom út.

Næsta lítið hefur verið fjallað um Þormóð Torfason á Íslandi til þessa, en landi hans og embættismaður við dönsku hirðina, Jón Eiríksson, ritaði stutta ævisögu hans á átjándu öld. Ein skýringin fyrir fálæti Íslendinga gagnvart þessum mikilvirka lærdómsmanni er vafalítið sú að hann skrifaði á latínu og var því ekki aðgengilegur, hvorki almenningi né fjölda fræðimanna. Meginástæðan kann þó að vera að orðspor Þormóðs sem fræðimanns var lengi málum blandið, þar sem hann þótt ekki umgangast heimildir sínar á nægilega gagnrýnan hátt. Hér kann samtíðamaður Þormóðs, handritasafnarinn Árni Magnússon, að bera nokkra ábyrgð, en ummæli hans þess efnis "að sumir hjálpi erroribus (latína: villum) á gang, og aðrir leitist síðan við að uppræta aftur þá sömu erroribus" hafa síðan verið heimfærð upp á iðju sitt hvors þessarra heiðursmanna. 

Seinni tíma fræðimenn, ekki síst í Noregi, hafa á hinn bóginn farið mýkri höndum um söguritun Þormóðs og m.a. bent á að þar sem hann beri fyrir sig arfsagnir og goðsagnir ætlist hann að jafnaði ekki til þess að lesandinn taki þær bókstaflega. Á hinn bóginn hefur hann einnig tamið sér persónulegri og litríkari stíl en títt er um sagnfræðinga samtímans. Á móti má e.t.v. færa rök fyrir því að Þormóður komi til dyranna eins og hann er klæddur og fari ekki í grafgötur með þær forsendur sem hann gefur sér.

Það hefur oft verið á það bent að það hafi verið íslenskir sagnaritarar sem færðu frændum sínum í Noregi sögu þeirra í letri. En með útgáfu Noregssögu Þormóðs og Flateyjarbók fyrir skemmstu má e.t.v. til sanns vegar færa að Norðmenn hafi gefið Íslendingum nokkuð til baka. Þeir hafa fært Íslendingum aftur þessi höfuðrit lærdómsmanna sinna í formi sem gerir þau mörgum, ekki einungis á Íslandi, heldur einnig á öðrum Norðurlöndum, í fyrsta skipti aðgengileg og þar með goldið gjöf við gjöf. Fyrir það eiga frændur okkar í Noregi þakkir skildar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum