Hoppa yfir valmynd
29. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 369/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 369/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070021

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júlí 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Egyptalands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt réttarstaða flóttamanns, , sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. desember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 26. og 28. febrúar ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 7. júlí sl. og þann 21. júlí 2020 var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. ágúst 2020 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 15. október 2020 ásamt talsmanni sínum. Þá bárust frekari fylgigögn frá kæranda þann 21. október 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd vegna þess að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki auk þess sem að lífi hans hafi verið ógnað. Umrædda ógn megi m.a. rekja til þátttöku bróður hans í stjórnmálum, flugskeytaárásar hryðjuverkasamtaka af landbúnaðarlandi hans og ofsókna í kjölfarið af því auk þess sem að kærandi hafi neitað að aðstoða egypska herinn. Vísar kærandi til málavaxta í greinargerð hans til Útlendingastofnunar, dags. 8. apríl sl., er varðar aðstæður í heimaríki, frekari rökstuðnings og gagna. Frá komu kæranda til Íslands hafi hann verið fyrirmyndarborgari sem hafi lagt sitt af mörkum til að aðlagast samfélaginu. Kærandi hafi t.a.m. sótt íslenskunámskeið hér á landi og eignast marga vini. Kærandi hefur lagt fram stuðningsbréf máli sínu til stuðnings. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann hafi verið greindur með einkenni áfallastreituröskunar af sálfræðingum erlendis vegna þess sem hann hafi upplifað auk þess sem að í skimun um andlega heilsu hans komi fram að hann upplifi hjálparleysi, hræðslu og líkamleg einkenni. Þá kemur fram í sálfræðivottorði, dags. 19. október sl., að svör kæranda uppfylli greiningarskilmerki fyrir alvarlega geðlægð og áfallastreituröskun. Bendi niðurstöður sjálfsmatskvarða til þess að kærandi hafi töluverða þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu vegna sálræns vanda.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi m.a. greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í Norður-Sínaí í Egyptalandi. Eftir að hafa lokið námi hafi kærandi stofnað fyrirtæki og hafið rekstur á kjúklingabúi árið 2014. Í viðtölunum hafi komið fram að kærandi óttist ofsóknir af hálfu egypska hersins og að hann hafi nú þegar sætt slíkum ofsóknum. Kærandi hafi neitað að bera vopn fyrir herinn og aðstoða herinn í aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum á svæðinu. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hafi verið fangelsaður vegna þessa ásamt bróður sínum og honum hafi verið haldið á herstöð í 26 daga og sætt þar pyndingum og illri meðferð. Herinn hafi jafnframt hótað kæranda að herskylda hans yrði virkjuð ef hann myndi ekki veita hernum aðstoð. Kærandi greindi jafnframt frá því að [...] hafi hann ásamt bróður sínum, [...], orðið fyrir árás af hálfu egypska hersins sem hafi orðið til þess að bróðir hans hafi látið lífið. Eftir árásina hafi kærandi verið á flótta víðsvegar um Egyptaland. Þá hafi kærandi greint frá því að í kjölfar hryðjuverkaárásar þann [...] hafi kærandi verið eftirlýstur af hernum vegna gruns um aðild að árásinni. Að sögn kæranda hafi flugskeyti verið skotið af landi hans af hryðjuverkasamtökum [...]. Hafi herinn tekið yfir öll lönd kæranda og fyrir herdómstól hafi kærandi verið settur á lista þeirra sem væru grunaðir um aðild að árásinni. Þá hafi kæranda verið rænt af þremur vopnuðum mönnum þann [...] og honum verið haldið föngnum í viku án matar og drykkjar. Mannræningjarnir hafi kúgað fé út úr bróður hans og hann hafi verið látinn laus. Þann 10. febrúar 2018 hafi kærandi yfirgefið Norður-Sínaí og Egyptaland og farið til Tyrklands þar sem hann hafi dvalið í 15 mánuði áður en hann hafi komið til Íslands.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi í skilningi A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji ljóst að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir og byggir á því stjórnvöld hafi ekki fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins við meðferð umsóknar hans. Í greinargerð kæranda eru gerðar fjölmargar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Mat Útlendingastofnunar á umsókn hans hafi verið byggt á röngum og ófullnægjandi upplýsingum sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu auk þess sem að ekki hafi verið gætt að andmælarétti kæranda. Þá telji kærandi að mat stjórnvalda á trúverðugleika hans sé ófullnægjandi er varði frásögn hans og gagnaframlagningu og vísar hann í því samhengi til handbókar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna og dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu. Stjórnvöld hafi með þessu brotið gegn réttmætum væntingum hans og meginreglunni um að umsækjandi skuli njóta vafans í tengslum við gagnaframlagningu. Þá gagnrýni kærandi að stjórnvöld virðist nú setja það sem meginreglu frekar undantekningu að umsækjandi um alþjóðlega vernd geti stutt framburð sinn með gögnum en slíkt sé í ósamræmi við áðurnefnda handbók Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Þá telji kærandi mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í heimaríki hans vera mótsagnakennt auk þess sem að stofnunin hafi ekki tekið núverandi aðstæður í heimaríki kæranda til skoðunar, einkum í Norður-Sínaí, sem hafi versnað gífurlega síðan 2013. Þá telji kærandi að mat Útlendingastofnunar á því hvort hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé rangt. Kærandi vísar til þess að hann hafi orðið fyrir pyndingum og líkamlegu ofbeldi af hálfu egypskra yfirvalda og sé því einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, en ekki hafi verið tekið tillit til þess við ákvörðunartöku í máli hans.

Varakrafa kæranda er reist á því að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hans bíði ómannúðlegar aðstæður í heimaríki sínu auk þess að persónubundnar aðstæður hans séu afar slæmar. Þá telur kærandi að það mat sem liggi til grundvallar hinnar kærðu ákvörðunar sé í mörgum atriðum rangt og byggi á upplýsingum sem hafi verið teknar úr samhengi. Kærandi telji að hann eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimaríkis og vísar í þeim efnum sérstaklega til þeirrar árásar sem hann og bróðir hans hafi orðið fyrir þar sem bróðir hans hafi verið myrtur. Til stuðnings kröfu sinnar vísar kærandi til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu er varða túlkun á ákvæðinu. Kærandi telji að endursending hans til heimaríkis myndi fela í sér brot gagnvart 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að heildarmat á almennum aðstæðum kæranda geri það að verkum að alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé náð.

Þrautavarakrafa kæranda er reist á því að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til alvarlegrar andlegrar líðan hans auk þess sem að mat stofnunarinnar á aðstæðum í heimaríki kæranda sé rangt. Þegar litið sé heildstætt á aðstæður í heimaríki kæranda og þeirra atvika sem hann hafi upplifað þar þá uppfylli hann skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi ekki framvísað neinu sem hafi verið til þess fallið að sanna á honum deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að ekki væri ástæða til að draga í efa að kærandi sé egypskur ríkisborgari. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærandi lagt fram afrit af vegabréfi og fæðingarvottorð. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé ríkisborgari Egyptalands.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Egyptalandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 - Egypt (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Report on Human rights 2019 – Egypt (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Report on Terrorism 2019 – Egypt (United States Department of State, 24. júní 2020);
  • Country Policy and Information Note – Egypt: Background Information, including actors of protection, and internal relocation (United Kingdom: Home Office, 24. júlí 2017);
  • Country Policy and Information Note – Egypt: Military service (United Kingdom: Home Of-fice, nóvember 2019);
  • DFAT Country Information Report Egypt (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. júní 2019);
  • Egypt Country Report – 2018 (Bertelmann Stiftung, 2018);• Freedom in the World 2020 – Egypt (Freedom House, 11. mars 2020);
  • “If You Are Afraid for Your Lives, Leave Sinai!” Egyptian Security Forces and ISIS-Affiliate Abuses in North Sinai (Human Rights Watch, maí 2019);
  • Mental Health Atlas 2017. Egypt/WHO 2018 (WHO, 6. júní 2018)
  • Social Security Programs Throughout the World: Africa, 2019, Egypt (US Social Security Ad-ministration, september 2019);
  • The World Factbook – Egypt (Central Intelligence Agency, vefsíða uppfærð 19. ágúst 2020);
  • World Report 2020 - Egypt (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 8. september 2020);• Upplýsingar af vef National Council for Human Rights í Egyptalandi http://www.nchregypt.org/index.php/en/ (sótt 5. nóvember 2019) og
  • Upplýsingar af vef Arabic Network for Human Rights Information https://www.anhri.info/?lang=en (sótt 5. nóvember 2019).

Egyptaland er fjölflokka, stjórnarskrárbundið lýðveldi í Norður-Afríku með rúmlega 104 milljónir íbúa. Egyptaland gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1981, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1986 og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1982. Ný stjórnarskrá ríkisins, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2014, kveður á um vernd grundvallarmannréttinda, þar á meðal trúfrelsi, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og jafnræði borgaranna.

Ljóst er af ofangreindum gögnum, s.s. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að ástandið í landinu hafi einkennst af pólitískri ólgu undanfarinn áratug og að umbreyting til lýðræðis hafi reynst landinu áskorun þar sem stjórnvöld og almennir borgarar hafi m.a. þurft að kljást við spillingu, niðurnítt stjórnkerfi, pyndingar og hryðjuverk. Í skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að uppreisn hafi verið gerð í landinu árið 2011 og þáverandi forseta landsins, Hosni Mubarak, steypt af stóli. Í júní 2012 hafi Mohamed Morsi kosinn forseti landsins. Mikil mótmæli og óeirðir hafi átt sér stað í kjölfar þess forsetakjörs og hafi komið til nokkurra átaka milli lögreglu og mótmælenda. Mohamed Morsi hafi verið steypt af stóli árið 2013 þegar herinn hafi tekið völd í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 sigraði núverandi forseti Egyptalands Abdel Fattah Al-Sisi forsetakosningarnar árið 2014 og var hann endurkjörinn árið 2018 í kosningum sem samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins hafi verið að miklu leyti ófrjálsar og ósanngjarnar. Þá má af framangreindum gögnum, s.s. ofangreindri skýrslu samtakanna Freedom House frá árinu 2020, ráða að stjórnunarstíll Al-Sisi hafi í æ meira mæli einkennst af einræði, valdníðslu og óeðlilegum afskiptum af dómstólum og fjölmiðlum.

Samkvæmt framangreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna hafa egypsk yfirvöld gengið hart fram gegn mótmælendum og fjölmiðlafólki í ríkinu, m.a. handtekið fólk, hneppt í varðhald og pyndað. Þá kemur fram að helstu vandamál í Egyptalandi séu óhófleg valdbeiting öryggissveita ríkisins, þar á meðal handahófskenndar handtökur, varðhöld og pyndingar, takmörkun stjórnvalda á tjáningar- og fundafrelsi.

Af ofangreindum gögnum má ráða að aðstæður í Egyptalandi og málsmeðferð þarlendra stjórnvalda sé engu að síður almennt til þess fallin að tryggja mannréttindi einstaklinga, að undanskildum tilteknum málum sem snúi að andstæðingum ríkisstjórnarinnar, svo sem mótmælendum og fjölmiðlafólki. Dómstólar í Egyptalandi séu almennt sjálfstæðir, fyrir utan ákveðin afskipti ríkisstjórnar landsins af málum stjórnarandstæðinga sem hafi verið til meðferðar hjá dómstólum. Egypsk stjórnvöld virði almennt niðurstöður dómstóla í ópólitískum málum. Innanríkisráðuneytið hafi yfirumsjón með löggæslu og innra öryggi í landinu, þ. á m. lögreglunni (e. the Public Police), öryggissveitinni (e. the Central Security Force) og þjóðaröryggissveitinni (e. the National Security Sector). Þjóðaröryggissveitin beri ábyrgð á ógnum innanlands og baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi. Samkvæmt skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 beri egypska lögreglan ábyrgð á því að lögum sé framfylgt í landinu. Fagmennska sé misjöfn innan lögreglunnar og vantraust á lögreglunni nokkurt. Egypsk stjórnvöld viðhaldi almennt góðri stjórn á öryggissveitum landsins en refsileysi viðgangist þó innan egypsku lögreglunnar. Þá kemur fram að egypska ríkið sé almennt reiðubúið og fært um að vernda þá einstaklinga sem óttist aðila sem eru ekki tengdir stjórnvöldum þótt að sú vernd geti að einverju leiti verið takmörkuð vegna veikleika í egypska réttarkerfinu.

Samkvæmt ofangreindum skýrslum bandarísku og áströlsku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2019 er starfsemi hryðjuverkahópa vandamál í Egyptalandi, þ. á m. í Sínaí héraði. Byltingin árið 2011 hafi haft í för með sér aukningu á glæpum, ofbeldi, borgaralegum óróa og hryðjuverkaárásum en með aukinni áherslu á innra öryggi landsins hafi egypsk stjórnvöld náð að bæta öryggismál landsins. Frá árinu 2014 hafi ríkt neyðarástand í Norður-Sínaí en átök hafa geisað milli öryggissveita, stjórnvalda, hryðjuverkahópa og annarra vopnaðra hópa á svæðinu. Þrátt fyrir að flestar árásir hryðjuverkahópa hafi beinst gegn stjórnvöldum og hernum þá séu dæmi um að árásir geti beinst að almennum borgurum sem grunaðir séu um að starfa með stjórnvöldum. Þá kemur fram að egypsk stjórnvöld hafi gripið til hertra aðgerða í Norður-Sínaí til þess að sporna gegn hryðjuverkastarfsemi á svæðinu. Í febrúar 2018 hafi stjórnvöld hrint af stað aðgerðinni Operation Sinai 2018 sem hafi m.a. haft í för með sér að komið hafi verið upp ákveðnum öryggissvæðum (e. buffer zones) í Norður-Sínaí til þess að koma í veg fyrir smygl á vopnum og innrásir frá Gasa-svæðinu í Palestínu. Samkvæmt upplýsingum frá egypskum stjórnvöldum hafi þau m.a. eyðilagt ýmis húsnæði, s.s. íbúðar- og atvinnuhúnsæði, í tengslum við aðgerðina en stjórnvöld hafi lýst því yfir að þau myndu greiða viðeigandi bætur til þeirra sem yrðu fyrir eignarmissi. Alþjóðleg hjálparsamtök hafi þó greint frá því að stjórnvöld hafi ekki greitt íbúum sem orðið hafi fyrir eignarmissi fullnægjandi bætur.

Í skýrslum áströlsku utanríkisþjónustunnar og breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að í Egyptalandi sé herskylda en allir karlmenn eldri en 18 ára þurfi að sinna herskyldu í allt að þrjú ár. Ef einstaklingur leitar að atvinnu í Egyptalandi án þess að hafa lokið herskyldu þá þurfi hann að geta sýnt fram á að hann hafi fengið undanþágu frá innanríkisráðuneytinu frá því að gegna herskyldu. Þá gefi persónuskilríki til kynna hvort viðkomandi einstaklingur hafi lokið herskyldu eða fengið undanþágu og einstaklingur sem hafi ekki lokið herskyldu sé ekki heimilt að ferðast erlendis. Í skýrslunni kemur fram að undanþágur frá herskyldu séu algengar af ýmsum ástæðum, s.s. vegna þess að einstaklingur stundi nám eða vegna fjölskyldu- eða heilsufarsástæðna. Undanþágan sé endurmetin á þriggja ára fresti allt þar til viðkomandi einstaklingur sé orðinn þrítugur en frá þeim tímapunkti fái hann varanlega undanþágu. Ef einstaklingur lýkur ekki herskyldu þá geti hann fengið sekt eða verið gert að sæta fangelsi í að minnsta kosti eitt ár. Samkvæmt framangreindum skýrslum áströlsku utanríkisþjónustunnar frá árinu 2019 og bandarísku utanríkisþjónustunnar frá árinu 2020 mælir stjórnarskrá Egyptalands fyrir um það að sér hver borgari eigi rétt á alhliða heilbrigðisþjónustu. Þá ber skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 með sér að öllum borgurum Egyptalands sé tryggð ókeypis heilbrigðisþjónusta þótt að gæðum þjónustunnar hafi oft á tíðum verið ábótavant. Þó bera heimildirnar með sér að aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu sé takmarkaður.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandi með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína m.a. á því að hann óttist ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu egypska hersins í heimaríki og að hann óttist áframhaldandi ofsóknir af þeirra hálfu. Þá óttist kærandi einnig ofsóknir af hálfu hryðjuverkasamtaka í heimaríki og annarra vopnaðra hópa frá Norður-Sínaí í Egyptalandi.

Mat á trúverðugleika kæranda er byggt á endurriti af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 15. október 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd hefur kærandi lagt fram umtalsvert gagn magna sem hann kveður tengjast m.a. atvinnu hans í heimaríki, bróður hans, fyrrnefndri flugskeytaárás sem og afleiðingum hennar.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefur kærandi haldið því staðfastlega fram að hann hafi starfrækt fyrirtæki í Norður-Sínaí, sem hafi falist í rekstri á kjúklingabúum, m.a. í [...]. Útlendingastofnun mat framburð kæranda er þetta varðar ótrúverðugan og því var ekki lagt til grundvallar í ákvörðun stofnunarinnar að hann hafi starfrækt fyrirtæki á svæðinu. Fyrir kærunefnd lagði kærandi fram ný skjöl, þ.e. tvö rekstrarleyfi fyrirtækisins, til stuðnings framburði sínum. Í viðbótarathugasemdum sem bárust kærunefnd 22. október sl. kemur fram að talsmaður telji að gögn frá yfirvöldum þarlendis geti verið óáreiðanleg. Kærunefnd telur ekki ljóst hvaða ályktanir eigi að draga af þessari staðhæfingu talsmanns en þær styðja ekki málsástæður kæranda sem að miklu leyti byggjast á gögnum frá yfirvöldum í heimaríki kæranda. Þá var kæranda í viðtali hjá kærunefnd engu að síður spurður nánar út í fyrirtækjarekstur sinn og tiltekið misræmi í frásögn sinni er það varðar og á milli þeirra gagna sem hann lagði fram. Að mati kærunefndar gaf kærandi fullnægjandi skýringar á meintu misræmi er varðar fyrirtækjarekstur hans auk þess sem að svör kæranda báru með sér að hann hafi góða þekkingu á staðháttum þar sem kjúklingabú hans eiga að hafa verið staðsett. Eftir heildarmat á framlögðum gögnum og viðtali kæranda hjá kærunefnd þá er það mat kærunefndar að kærandi hafi, þrátt fyrir staðhæfingar talsmanns, lagt nægan grunn að því að hann hafi rekið fyrirtæki í Norður-Sínaí.

Kærandi hefur greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að hann hafi orðið fyrir áreiti og ofbeldi af hálfu hersins í heimaríki. Greindi kærandi m.a. frá því að hann hafi neitað að aðstoða egypska herinn sem hafi leitt til þess að hann hafi verið handtekinn ásamt bróður sínum og þeir vistaðir í varðhaldi. Kærandi hafi verið í haldi í 26 daga og beittur pyndingum og sætt illri meðferð á meðan hann hafi verið í haldi. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðji frásögn hans af handtöku og varðhaldi egypska hersins. Þá kveður kærandi að hann og bróðir hans orðið fyrir árás í [...] fyrir utan heimili þeirra í borginni [...] með þeim afleiðingum að bróðir hans hafi látið lífið. Kærandi hefur staðfastlega haldið því fram í viðtölum hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd að egypski herinn hafi staðið að baki árásinni. Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram gögn, s.s. vitnaskýrslur, og vísað til fréttaflutnings af árásinni sem bera með sér að hún hafi sannanlega átt sér stað og að bróðir hans hafi látið lífið. Að mati Útlendingastofnunar var ekki talin ástæða til að draga í efa að kærandi hafi átt fjölskyldutengsl við þann mann sem lét lífið í árásinni og af hálfu kærunefndar er ekki tilefni til að hnekkja því mati. Framlagðar vitnaskýrslur bera ekki með sér að vitnin sem þar sé rætt við hafi verið sjónvarvottar að atvikinu en þar kemur þó fram að vitnin telji öfgahóp hafa borið ábyrgð á tilræðinu. Af þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að óþekktur hópur eða hryðjuverkahópur hafi staðið að baki árásinni. Þær upplýsingar sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að yfirleitt hafi hryðjuverkahópar á svæðinu lýst yfir ábyrgð á þeim verknaði sem þeir hafi framið og má sem dæmi nefna að í fjölmiðlaumfjöllun sem kærandi hefur vísað til í greinargerðum sínum kemur fram að daginn fyrir árásina hafi hryðjuverkasamtök lýst yfir ábyrgð á morði á fjórum lögreglumönnum í borginni [...]. Ekki er þó að sjá að nokkur aðili hafi lýst yfir ábyrgð á umræddri árás. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd var hann spurður nánar út í árásina og atriði tengd henni. Kærandi var að mati nefndarinnar stöðugur í frásögn sinni og skýringar hans varðandi einstök atriði voru til þess fallnar að auka trúverðugleika frásagnar hans. Þegar frásögn kæranda, gögn málsins og almennar upplýsingar um árásina eru metin heildstætt telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar að kærandi og bróðir hans hafi orðið fyrir umræddri árás þar sem bróðir hans hafi látist. Það er þó mat nefndarinnar að uppi sé vafi um hverjir hafi staðið að baki verknaðinum en að óvarlegt sé að útiloka að herinn hafi staðið að baki árásinni.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi verið á flótta undan yfirvöldum eftir árásina í [...]. Þá hefur kærandi byggt á því að [...] hafi hryðjuverkasamtök gert flugskeytaárás af landi kæranda á [...]. Í kjölfar árásarinnar hafi grunur beinst að kæranda og hafi herinn hafið leitað að honum auk þess að taka yfir allar eignir hans í Norður-Sínaí og jafna þær við jörðu. Kærandi hefur við meðferð málsins vísað til frétta af atvikinu og lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni, s.s. myndskeið af árásinni og gervihnattamyndir sem sýni staðsetningu kjúklingabúa kæranda og ástand þeirra fyrir og eftir að herinn hafi jafnað þau við jörðu. Þegar myndskeiðið af árásinni er borið saman við loftmyndir af svæðinu þá er að mati kærunefndar ljóst að skotið hafi ekki komið af landi kæranda sem var staðsett [...] heldur af jörð sem sé staðsett [...].

Í viðtali hjá kærunefnd var þetta atriði borið undir kæranda en hann tók fram að hann hafi ekki verið staddur á svæðinu þegar að árásin hafi átt sér stað enda hafi hann verið á flótta á þessum tíma. Kærandi greindi frá því að hann hafi fengið upplýsingarnar frá starfsfólki sínu en samkvæmt þeim hafi herinn komið í kjölfar árásarinnar á jörð kæranda, leitað að honum og tekið yfir kjúklingabú hans. Þær upplýsingar sem kærunefnd hefur kynnt sér, s.s. skýrslur bandaríska og ástralska utanríkisráðuneytisins, bera með sér að frá árinu 2013 hafi egypskar öryggissveitir átt í baráttu við hryðjuverkahópa í Norður-Sínaí og staðið í ýmsum hernaðargerðum á svæðinu. Hluti af aðgerðum yfirvalda hafi verið að koma upp öryggissvæðum í Norður-Sínaí (e. buffer zone) í því skyni að koma í veg fyrir smygl á vopnum og innrásir frá Gaza svæðinu. Til þess að koma upp öryggissvæðunum hafi egypsk yfirvöld jafnað fjölda bygginga sem séu í eigu almennra borgara við jörðu. Þá hafi öryggissveitir eyðilagt heimili grunaðra hryðjuverkamanna, andófsmanna og fjölskyldna þeirra. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins og umfjöllun af vefsíðu samtakanna Human Rights Watch var í kjölfar árásarinnar [...]. Áðurnefndar heimildir og skýrsla samtakanna Human Rights Watch bera með sér að lögreglan og herinn í Norður-Sínaí séu almennt tortryggin gagnvart almennum borgurum. Þá hafa ýmis mannúðarsamtök haldið því fram að yfirvöld hafi skotið almenna borgara fyrir að fylgja ekki leiðbeiningum öryggissveita eða af öðrum óþekktum ástæðum. Samkvæmt skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins hafa aðgerðir yfirvalda í Egyptalandi frá árinu 2011 haft í för með sér dauða fjölda almennra borgara án dóms og laga. Þá séu fjölmörg dæmi þess að herinn handtaki fólk af handahófi og haldi þeim í lengri tíma.

Í viðtali kæranda hjá kærunefnd var hann spurður nánar út í gervihnattamyndir af [...] og gat hann með skilmerkilegum hætti gert grein fyrir því hvar kjúklingabú hans voru staðsett og sýnt að þau hafi verið jöfnuð við jörðu í kjölfar árásarinnar. Eins og áður segir telur kærunefnd ljóst af fyrirliggjandi gögnum og framburði kæranda í viðtali hjá kærunefnd að flugskeytinu hafi ekki verið skotið af jörð kæranda. Hins vegar er að mati kærunefndar ekki hægt að líta framhjá því að jörð kæranda er í næsta nágrenni við [...] og að byggingar sem kærandi kveður hafa hýst kjúklingabú hans hafi verið jöfnuð við jörðu í kjölfar árásarinnar, en gervihnattamyndir fyrir og eftir árásina sem kærunefnd hefur skoðað sýna greinilega umrædda eyðileggingu. Þegar litið er til framangreindra aðgerða egypskra yfirvalda í Norður-Sínaí og þá sérstaklega þess að þau hafi jafnað eignir grunaðra hryðjuverkamanna og andófsmanna við jörðu þá telur kærunefnd, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi leitt líkur að því hann eigi á hættu að sæta frekari aðgerðum af hálfu hersins vegna baráttu við þá sem hann telji ógna öryggi á svæðinu. Frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hefur verið stöðug og skýr og þá fær frásögn hans stoð í þeim gögnum sem hann hefur lagt fram. Þá er frásögn hans samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir og varða aðstæður á heimasvæði kæranda samkvæmt þeim gögnum er ljóst er að öryggisástand á Sínaí-skaga er óstöðugt og að átök hafi verið á milli hersins og vopnaðra hópa undanfarin ár.

Frásögn kæranda ber með sér að herinn hafi haft afskipti af honum vegna hernaðaraðgerða á svæðinu í [...], en kærandi kveður að hann hafi synjað hernum um aðstoð og verið færður í varðhald ásamt bróður sínum þar sem hann hafi verið í haldi í 26 daga. Þá telur kærunefnd eins og áður segir óvarlegt að útiloka að egypski herinn hafi staðið að baki árás þar sem bróðir kæranda hafi látið lífið. Kærandi hafi sloppið lifandi frá árásinni en í kjölfarið lagt á flótta innan heimaríkis. Loks telur kærunefnd að kærandi hafi leitt nokkrar líkur að því að hann eigi á hættu að sæta aðgerðum af hálfu hersins vegna erfiðs öryggisástands og almennrar tortryggni hersins í garð íbúa á svæðinu. Er það mat kærunefndar, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þá sérstaklega árásarinnar í [...] og þeirra atburða sem hafi átt sér stað í kringum hryðjuverkaárásina í [...], að kærandi hafi rennt nægilegum stoðum undir þá málsástæðu að egypsk yfirvöld telji hann mótfallinn yfirvöldum. Að því virtu, með vísan til þess sem kærunefnd hefur lagt til grundvallar í máli kæranda, þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður og aðgerðir yfirvalda á Norður-Sínaí skaga og þeirrar spennu sem þar ríkir er það mat kærunefndar að kærandi hafi á nægilega skýran hátt sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga.

Í ljósi þess að ofsóknir á hendur kæranda í heimaríki felast í aðgerðum yfirvalda er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess að af kæranda að hann setjist að annars staðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Athugasemdir við sönnunarfærslu talsmanns kæranda

Af hálfu kæranda var lagður fram mikill fjöldi stuðningsbréfa einstaklinga sem þekki til kæranda hér á landi án þess að grein væri gerð fyrir þýðingu þeirra í greinargerð talsmanns. Framlagning slíkra gagna hefur ekki lögfræðilega þýðingu fyrir kröfur kæranda og er því að mati kærunefndar með öllu óþörf. Kærunefnd beinir því til talsmanns að miða framlagningu gagna við það sem hefur lagalega þýðingu fyrir kröfugerð kæranda.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Artible 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Sandra Hlíf Ocares                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum