Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um heilbrigðisstéttir

Sérlög um heilbrigðisstéttir falla niður verði frumvarp um heildarlög um heilbrigðisstarfsmenn að lögum.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpinu, en það var lagt fram á 137. löggjafarþingi í sumar til kynningar, og til að gefa hagsmunaaðilum kost á að gera athugasemdir við frumvarpið. Farið hefur verið yfir frumvarpið í heilbrigðisráðuneytinu m.a. með tilliti til umsagna sem bárust heilbrigðisnefnd Alþingis.

Í máli heilbrigðisráðherra kom fram að efnisbreytingar frá fyrra frumvarpi væru litlar og fælust einkum í því að gert er ráð fyrir að tannsmiðir bætist í hóp heilbrigðisstétta, sett væru skýrari ákvæði um veitingu starfsleyfa til umsækjenda frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, lagt væri til að áfram verði heimilt að veita nemum tímabundið starfsleyfi ef nauðsyn krefði og ákvæði fyrra frumvarps um kynningu og auglýsingar heilbrigðisþjónustu væri gert skýrara og kveðið væri á um heimild til að banna tilteknar kynningaraðferðir með reglugerð.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að löggiltar heilbrigðisstéttir séu nú 33 talsins. Sérlög gilda um 14 heilbrigðisstéttir en 19 stéttir hafa verið löggiltar með reglugerðum, sem settar eru með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.

Gildandi laga- og reglugerðaákvæði um heilbrigðisstéttir eru að ýmsu leyti úrelt og gætir talsverðs ósamræmis, t.d. varðandi það hvaða heilbrigðisstéttir geta starfað sjálfstætt og hverjar starfa á ábyrgð annarrar heilbrigðisstéttar, hvaða heilbrigðisstéttir mega hafa aðstoðarmenn og hverjar ekki, hvaða heilbrigðisstéttir þurfa að halda skýrslur um störf sín og hverjar ekki.

Megintilgangurinn með rammalöggjöf um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn, tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn eru gerð markvissari og hnitmiðaðri en áður, felldar brott ónauðsynlegar takmarkanir á starfssviði heilbrigðisstétta og þau færð til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfssvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan ramma löggjafar. Verði frumvarpið að lögum verða nýjar heilbrigðisstéttir framvegis ekki löggiltar nema með breytingu á lögunum.

Helstu breytingar og nýmæli sem felast í frumvarpinu eru þessar:

  1. Ein samræmd rammalög um heilbrigðisstarfsmenn í stað 13 sérlaga og laga um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.
  2. Heimild til að löggilda nýjar heilbrigðisstéttir með reglugerð fellur brott.
  3. Starfssvið heilbrigðisstétta verði ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni með tilliti til hagsmuna sjúklinga og úrelt ákvæði um takmarkanir á starfsréttindum felld brott.
  4. Kveðið á um að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns þegar við á.
  5. Undirstrikað að óheimilt sé að starfa undir áhrifum áfengis eða vímuefna og heilbrigðisstofnunum heimilað að setja reglur um bann við notkun áfengis og vímuefna í tiltekinn tíma áður en vinna hefst.
  6. Heilbrigðisstarfsmenn skulu sjá til þess að aðstoðarmenn þeirra hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að sinna störfum sem þeir fela þeim.
  7. Kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmenn skuli gæta þess að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.
  8. Í stað núgildandi ákvæða um auglýsingar kemur ákvæði um þær kröfur sem gera skal til kynningar heilbrigðisþjónustu og auglýsingar og heimild til takmörkunar í reglugerð.
  9. Ákvæði um hámarksaldur þeirra sem heimilt er að reka eigin starfsstofu er lækkaður úr 75 í 70 ár. Heimild landlæknis til að framlengja leyfi er takmarkað við 76 ára aldur.
  10. Ráðherra er heimilað að ákveða með reglugerð að tilgreindri meðferð sé aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum, nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum eða þeim sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi landlæknis. Jafnframt verði heimilt að banna tiltekna meðferð. Reglugerðir um slíkar takmarkanir skulu settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn viðkomandi fagfélags.

Hlusta á umræður um frumvarpið á vef Alþingis 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum