Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 484/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 484/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. desember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. október 2017 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og endurkrefja hana um ofgreitt meðlag.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. október 2017, var kæranda tilkynnt um stöðvun milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum með barni hennar og endurkröfu ofgreidds meðlags frá 20. júní 2017 til 31. október 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. janúar 2018. Með bréfi, dags. 9. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. janúar 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með tölvupósti, dagsettum sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun meðlags verði endurskoðuð og að ákvörðun um endurkröfu ofgreidds meðlags verði felld niður.

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun hafi tilkynnt henni um stöðvun milligöngu meðlags og innheimtu ofgreidds meðlags með bréfum, dags. 4. október 2017. Bréfin hafi einungis verið aðgengileg á Mínum síðum stofnunarinnar en hún hafi ekki fengið tilkynningu um það í tölvupósti eða neitt slíkt. Kærandi hafi því ekki séð þessi bréf fyrr en 24. nóvember 2017 en þá hafi hún gert athugasemd við að hafa ekki fengið greitt meðlag 1. nóvember 2018. Í seinna bréfinu komi fram að henni hafi verið veittur frestur til að kæra til 18. október en þar sem hún hafi ekki fengið tilkynningu um bréfið hafi sá frestur runnið út án vitneskju kæranda.

Kærandi sé afar ósátt við að fá kröfu um endurgreiðslu vegna ofgreiðslu meðlags. Greiðslur hefðu þá átt að stöðvast um leið og lögheimili þeirra hafi verið flutt út. Í staðinn hafi greiðslur haldið áfram að berast til 1. október 2017, greiðslur sem hún sé nú krafin um að endurgreiða. Hún hafi engin tök á því að endurgreiða Tryggingastofnun þessa upphæð þar sem hún sé atvinnulaus í B. Jafnframt hafi hún engan rétt til að sækja um meðlagsgreiðslur frá B. Þrátt fyrir skyldu foreldra til að greiða meðlag með barni sínu neiti barnsfaðir hennar að greiða henni beint. Vegna framangreindra ástæðna óski hún eftir því að þessi krafa um endurgreiðslu verði felld niður.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna frá 20. júní 2017.

Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um meðlagsgreiðslur með […] kæranda frá X. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi flutt úr landi X. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um flutninginn úr landi þá hafi stofnuninni ekki borist neinar upplýsingar um flutninginn fyrr en lögheimilinu hafi verið breytt hjá Þjóðskrá 21. september sama ár.

Með bréfi, dags. 4. október 2017, hafi Tryggingastofnun stöðvað milligöngu á meðlagsgreiðslum með […] kæranda þar sem kærandi væri flutt til B. Þar sem Tryggingastofnun hafi ekki haft heimilisfang kæranda í B hafi bréfið verið birt á Mínum síðum kæranda.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Þá segi í 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga að Tryggingastofnun sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Í 2. mgr. greinarinnar segi að stofnuninni sé heimilt, samkvæmt umsókn, að hafa milligöngu um meðlag í þeim tilvikum að staðfest sé að meðlagsmóttakandi teljist falla áfram undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga, enda séu önnur skilyrði reglugerðarinnar uppfyllt.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda eða greiðsluþega rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá sé kærandi með skráð lögheimili í B frá og með X. Þær upplýsingar hafi verið staðfestar af kæranda, meðal annars í kæru þar sem fram komi að hún sé búsett þar. Ekki sé því deilt um búsetu kæranda.

Tryggingastofnun sé einungis heimilt að hafa milligöngu um meðlag til þeirra sem séu búsettir hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Þá gildi undanþága 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ekki um kæranda þar sem hún falli ekki lengur undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga. Tryggingastofnun hafi því ekki heimild til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda með […] hennar frá þeim tíma sem hún hafi flutt til B.

Kærandi geri nokkrar athugasemdir við stöðvun greiðslna meðlags í kæru sinni. Sé því rétt að svara þeim hér sérstaklega.

Varðandi þær athugasemdir er snúi að birtingu ákvörðunar Tryggingastofnunar og hvenær sú ákvörðun hafi verið tekin þá vilji stofnunin taka fram eftirfarandi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi flutt til B [þann] X. Lögheimili kæranda hafi þó ekki verið breytt hjá Þjóðskrá fyrr en 21. september 2017. Tryggingastofnun hafi því ekki vitað um flutning kæranda úr landi fyrr en með breyttri skráningu í Þjóðskrá.

Þegar Tryggingastofnun hafi fengið upplýsingar um flutning kæranda úr landi hafi henni verið sent bréf við fyrsta tækifæri, dags. 4. október 2017, þar sem henni hafi verið tilkynnt um væntanlega stöðvun greiðslna. Í því bréfi hafi kæranda meðal annars verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við ákvörðun stofnunarinnar.

Þar sem kærandi hafi hvorki tilkynnt Tryggingastofnun um nýtt heimilisfang sitt né skráð aðsetur sitt hjá Þjóðskrá þá hafi Tryggingastofnun ekki haft neinar upplýsingar um heimilisfang hennar í B. Stöðvunarbréf stofnunarinnar hafi því verið birt á Mínum síðum kæranda, enda stofnuninni ómögulegt að birta kæranda það á annan hátt. Tilkynning um bréf á Mínum síðum sé send í tölvupósti til þeirra sem hafa skráð netfang hjá Tryggingastofnun en upplýsingar um netfang kæranda hafi ekki legið fyrir hjá stofnuninni.

Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið birt kæranda um leið og hægt var og á þann eina hátt sem mögulegt hafi verið að birta hana. Tryggingastofnun vilji ítreka það að hefði kærandi tilkynnt stofnuninni um flutning sinn úr landi, eins og henni hafi borið að gera samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar, þá hefði engin krafa myndast. Rétt sé að taka það fram að Tryggingastofnun hafi enn ekki upplýsingar um heimilisfang kæranda í B, en tölvupóstfangi hennar hafi verið bætt við á Mínar síður.

Kærandi geri athugasemdir við að kærufrestur hafi verið runninn út þegar hún hafi komist að ákvörðun stofnunarinnar. Það sé ekki rétt, frestur hennar til að skila inn athugasemdum við ákvörðun stofnunarinnar hafi runnið út 18. október 2017. Kærufrestur hafi hins vegar ekki liðið fyrr en þremur mánuðum eftir móttöku bréfsins, dags. 4. október 2017.

IV. Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda og krefja hana um endurgreiðslu vegna milligöngu meðlagsgreiðslna á tímabilinu X til 31. október 2017.

Fyrst kemur til skoðunar ákvörðun stofnunarinnar að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildi þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 6. mgr. sömu lagagreinar segir að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun inni af hendi.

Með framangreindri lagastoð hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að stofnuninni sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli stofnunin hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur sé utan Íslands, mæli ákvæði milliríkjasamninga fyrir um það.

Með hliðsjón af framangreindu er meginreglan sú að Tryggingastofnun hefur eingöngu milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakenda sem eru búsettir hér á landi. Þó er stofnuninni heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakanda sem búsettur er utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæla fyrir um það.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags á milli samningsríkja, sbr. 63. gr., eins og um bætur almannatrygginga sé að ræða. Enginn slíkur samningur er í gildi á milli Íslands og B.

Fyrir liggur samkvæmt yfirliti Þjóðskrár um skráningu lögheimilis kæranda að það er skráð í B frá X. Þá greinir kærandi frá því í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála að hún sé búsett þar. Að mati úrskurðarnefndar liggur því fyrir að skilyrði fyrir því að fá meðlagsgreiðslur greiddar fyrir milligöngu Tryggingastofnunar voru ekki uppfyllt í tilviki kæranda frá X.

Kærandi gerir athugasemdir við upphafstíma stöðvunar milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins og hvernig staðið hafi verið að stöðvuninni. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um flutninginn úr landi hafi stofnunin ekki vitað um hann fyrr Þjóðskrá hafi breytt skráningu á lögheimili kæranda 21. september 2017. Tryggingastofnun hafi ekki haft neinar upplýsingar um heimilisfang kæranda í B og stöðvunarbréf stofnunarinnar hafi því verið birt á Mínum síðum kæranda, enda stofnuninni ómögulegt að birta kæranda það á annan hátt. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við framangreinda framkvæmd Tryggingastofnunar með hliðsjón af skýringum stofnunarinnar, enda hafði stofnunin einungis takmarkaðar upplýsingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda frá 20. júní 2017. Sú niðurstaða hefur þó engin áhrif á skyldu meðlagsgreiðanda til greiðslu meðlagsins beint til kæranda.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um meðlag sem stofnunin hafði milligöngu um að greiða til hennar á tímabilinu X til 31. október 2017.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Þar segir svo:

„Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála að því er varðar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Ákvæðið hljóðar svo:

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.“

Í 13. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvaða ágreiningsefni verða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna. Úrskurðarnefndinni er því ekki heimilt að úrskurða um önnur ágreiningsefni en þau sem falla undir framangreint ákvæði.

Úrskurðarnefndin hefur samkvæmt framangreindri 1. mgr. 13 gr. heimild til þess að kveða upp úrskurð þegar ágreiningur varðar endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu bóta samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Í fyrrgreindri 55. gr. laga nr. 100/2007 er eingöngu verið að fjalla um þau tilvik þegar aðilar fá ofgreiddar eða vangreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem meðlag telst ekki til bóta, tekur ákvæðið ekki til endurkröfuréttar vegna ofgreidds eða vangreidds meðlags.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um ágreining um endurkröfurétt vegna ofgreidds meðlags.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er velferðarráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 84/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til velferðarráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. október 2017, um endurkröfu ofgreidds meðlags vegna tímabilsins X til 31. október 2017, er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til velferðarráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreidds meðlags því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend velferðarráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til A, er staðfest. Kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreidds meðlags er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend velferðarráðuneytinu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum