Hoppa yfir valmynd
1. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skipulögð vöktun á tugum náttúruverndarsvæða hafin

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands og Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti sér í dag átaksverkefni í vöktun á náttúruverndarsvæðum um allt land. Vöktunin er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofanna átta og umsjónarstofnana friðlýstra svæða. Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um verkefnið og er ábyrgðaraðili þess, en þetta er annað sumarið sem vöktunin fer fram.

Frá árinu 2019 hefur verið unnið að því að þróa aðferðafræði, skilgreina vöktunarverkefni og afla grunngagna á mismunandi svæðum en vöktunin fer fram frá vori til hausts. Áhersla er lögð á að vakta áhrif ferðamanna á vistgerðir og plöntur, fugla, spendýr og jarðminjar. Þetta er í fyrsta sinn sem svo margar stofnanir koma saman að þróun og mótun heildrænnar vöktunaráætlunar á landsvísu. Um 100 m.kr. fara til verkefnisins árlega.

Í sumar mun vöktun fara fram á um 80 svæðum og 32 svæði til viðbótar verða kortlögð fyrir vöktun í framtíðinni. Sérfræðingar náttúrustofu í hverjum landshluta ásamt sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands og starfsfólki friðlýstra svæða koma að vinnunni. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur opnað vefsíðu um verkefnið.

Í dag kynnti Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, eitt af þeim fjölmörgu vöktunarverkefnum sem fara munu fram í sumar fyrir ráðherra og forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í friðlandinu við Vífilsstaðavatn verða settar upp myndavélar til þess að vakta hreiður flórgoða á vatninu, en hið sama verður gert á tveimur stöðum við Ástjörn í Jökulsárgljúfrum. Markmiðið með þessu tiltekna verkefni er að rannsaka hvort umferð manna hafi áhrif á varp flórgoðans.

,,Vöktun náttúrufarslegra þátta er mikilvæg til þess að skilja hvaða áhrif maðurinn hefur á umhverfi sitt. Náttúra landsins er meginaðdráttarafl gesta okkar og við höfum lagt okkur fram um að taka vel á móti þeim með uppbyggingu innviða og landvörslu en meginmarkmið hennar er að verja perlurnar okkar ágangi. Við verðum að gæta þess að ganga ekki á gæðin. Ég taldi því mikilvægt að tryggja umtalsverða fjármuni svo hægt yrði að beita þeim aðferðum sem við þekkjum við vöktun lykilþátta í náttúrunni, sérstaklega á þeim svæðum þar sem mannlegra umsvifa gætir og nýta jafnframt krafta alls okkar færa fólks, vítt og breitt um landið, til þess að afla þessara gagna,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

  • Flórgoði - mynd
  • Flórgoðahreiður á Norðausturlandi - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum