Hoppa yfir valmynd
14. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19, landamæri: Ný auglýsing um svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði

Keflavíkurflugvöllur - mynd

Þann 18. maí nk. tekur gildi ný auglýsing um svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði vegna COVID-19. Skilgreining hááhættusvæða hefur áhrif á hverjir þurfa að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi við komuna til Íslands í samræmi við reglugerð nr. 435/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Rétt er að árétta að viðmiðin eru áfram þau sömu, eingöngu er um að ræða breytingu á þeim löndum og svæðum sem teljast til hááhættusvæða vegna COVID-19. 

Skilyrðislaus krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi: Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta á einnig við ef nýgengi smita er á bilinu 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra, eða ef nýgengi er yfir 500 en fullnægjandi upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Einungis er vikið frá þessari kröfu ef veigamiklar ástæður mæla með því, svo sem fötlun, þroski eða sambærilegar aðstæður þess sem hlut á að máli.

Krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi með möguleika á undanþágu: Farþegar sem koma frá landi þar sem nýgengi smita er 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 5% skulu sæta sóttkví í sóttvarnahúsi en eiga þess kost að sækja um undanþágu frá því skilyrði. Sama máli gegnir um þá sem koma þaðan sem nýgengi smita er undir 500 en hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra eða upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Sá sem sækir um undanþágu þarf að sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Hægt er að skrá ósk um undanþágu við forskráningu á heimkoma.covid.is 48-72 klst. fyrir komuna til landsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum