Hoppa yfir valmynd
18. júní 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2020 - Úrskurður

Mál nr. 3/2020

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

dómstólasýslunni

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Kærandi sótti um starf skjalastjóra sem dómstólasýslan auglýsti laust til umsóknar. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari til að gegna starfinu en konan sem ráðin var. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála kom fram að ákvörðun kærða um ráðningu í starfið hefði verið matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það yrði almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skyldu lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur féllu að slíkum sjónarmiðum, enda væri að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hefðu legið fyrir til að slíkt mat gæti farið fram. Að mati nefndarinnar hafði kærði ekki farið út fyrir það svigrúm í mati sínu. Var það því niðurstaða kærunefndarinnar að við ráðninguna hefði kærði ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 18. júní 2020 er tekið fyrir mál nr. 3/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 14. febrúar 2020, kærði A, ákvörðun dómstólasýslunnar um að ráða konu í starf skjalastjóra. Kærandi telur að með ráðningunni hafi dómstólasýslan brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 4. mars 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 25. mars 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 31. mars 2020.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 15. apríl 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. apríl 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 27. apríl 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. apríl 2020. Með bréfi kærunefndar til málsaðila, dagsettu 30. apríl 2020, var þeim tilkynnt um að málið væri tekið til úrskurðar.
 5. Með bréfi, dagsettu 14. maí 2020, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum frá kærða og bárust umbeðnar upplýsingar frá kærða með bréfi, dagsettu 19. maí 2020. Kæranda voru kynntar fyrrgreindar upplýsingar með bréfi, dagsettu 20. maí 2020.
 6. Úrlausn máls þessa hefur tafist hjá kærunefnd jafnréttismála. Er sú töf meðal annars tilkomin vegna þess að bæði formaður og varaformaður nefndarinnar viku sæti og þurfti því að leita tilnefningar nýs formanns ad hoc frá Hæstarétti Íslands.

  MÁLAVEXTIR

 7. Kærandi sótti um starf skjalastjóra hjá dómstólasýslunni sem auglýst var laust til umsóknar 6. desember 2019. Í auglýsingunni kom fram að leitað væri að öflugum skjalastjóra í fullt starf til þess að taka þátt í uppbyggingu og þróun skjalamála hjá stofnuninni ásamt því að styðja við þróun rafræns upplýsingakerfis dómstólasýslunnar og dómstólanna. Helstu verkefni skjalastjóra voru talin: Þróun og kerfisstjórn rafræns upplýsingakerfis dómstólasýslunnar og dómstólanna; Ábyrgð og umsjón með þróun skjalastefnu og verklags við skjalastjórnun; Eftirfylgni við samræmda skráningu og frágang mála hjá dómstólunum; Umsjón með skráningu og frágangi mála hjá dómstólasýslunni; Ráðgjöf, stuðningur og fræðsla fyrir stjórnendur og starfsmenn dómstólanna. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur skilgreindar í auglýsingunni: Háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða; Þekking og reynsla af skjala- og upplýsingakerfinu GoPro Foris; Reynsla af innleiðingu skjalastjórnunarkerfis væri kostur; Reynsla af störfum í stjórnsýslu væri nauðsynleg; Mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti væri skilyrði; Mjög gott vald á einu Norðurlandamáli og ensku væri kostur; Almenn og góð tölvufærni væri skilyrði; Frumkvæði, drifkraftur og jákvæðni; Skilvirkni, sveigjanleiki og nákvæmni í vinnubrögðum; Mjög góð samvinnu- og samskiptahæfni. Í auglýsingunni var jafnframt tekið fram að umsóknum skyldi fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem umsækjendur gerðu grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu.
 8. Alls bárust fimm umsóknir um starfið. Þrír umsækjendur voru taldir uppfylla hæfnisviðmið samkvæmt auglýsingu og var þeim boðið að mæta í starfsviðtal. Viðtölin voru tekin af starfsmanni ráðgjafafyrirtækis ásamt framkvæmdastjóra kærða. Að viðtölunum afstöðnum veitti ráðgjafafyrirtækið kærða ráðgefandi álit á umsækjendum og samkvæmt því voru tveir þeirra taldir uppfylla tilgreind menntunar- og hæfniskröfur vel og stæðu þeim þriðja, kæranda, framar. Að því loknu lagði framkvæmdastjóri kærða sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda og að því loknu var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, konu, starfið sem hún þáði.
 9. Með bréfi, dagsettu 10. janúar 2020, voru umsækjendur upplýstir um ráðninguna og samhliða því var veittur rökstuðningur fyrir ráðningunni. Með tölvubréfi, sendu 20. janúar 2020, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Umbeðinn rökstuðningur var veittur með bréfi kærða, dagsettu 27. janúar 2020.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 10. Kærandi telur að hann hafi bæði meiri menntun, þekkingu og reynslu í starfið en sá umsækjandi sem hafi verið valinn. Sá umsækjandi sem hafi verið ráðinn, hafi verið valinn á sínum tíma í starfið án auglýsingar og hæfnismats og hér hafi verið að fastráða viðkomandi. Röksemdafærsla kærða lúti að því að tryggja þessa ráðningu.
 11. Kærandi bendir á að hjá kærða starfi eingöngu konur og um það bil 80% allra skjalastjóra hjá hinu opinbera séu konur, samkvæmt upplýsingum sem byggi á skoðun á fjölmörgum heimasíðum og á lista yfir þátttakendur í SOPI, þ.e. skjalastjórar opinberra stofnana innanlands. Í stjórn og stjórnarnefndum Félags um skjalastjórn hafi að jafnaði á undanförnum árum verið einn karlmaður af 14 manna hópi.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 12. Kærði er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna, sbr. 5. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Kærði hóf starfsemi sína þann 1. janúar 2018 við gildistöku laga nr. 50/2016. Stjórn kærða skipar framkvæmdastjóra hennar sem ræður aðra starfsmenn kærða, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga.
 13. Framkvæmdastjóri kærða hafi verið skipaður til starfa 1. október 2017 til þess að hefja undirbúning starfseminnar. Stjórn kærða hafi farið í umfangsmikla stefnumótunarvinnu á grundvelli ákvæða dómstólalaga, meðal annars til þess að skilgreina hlutverk og verkefni kærða og aðgerðir til þess að ná þeim fram. Í stefnu kærða sé lögð áhersla á samræmda skráningu mála hjá dómstólunum ásamt því að leiða vinnu við nýsmíði málaskrárkerfis héraðsdómstólannna. Þessi stefna kalli á þekkingu innan kærða í skjalastjórnun. Framkvæmdastjóri kærða hafi ákveðið við mótun skipulags kærða að fá sjálfstætt starfandi skjalastjóra til aðstoðar við þróun og innleiðingu málaskrárkerfis Landsréttar sem hóf störf samhliða stofnun kærða í upphafi árs 2018. Starf sérfræðings í skjalastjórnun hafi fljótt orðið mjög umfangsmikið, ekki síst í kjölfar ákvörðunar um innleiðingu nýs málaskrárkerfis fyrir héraðsdómstólana. Eftir því hafi verið kallað að ráðinn yrði til starfa tímabundinn starfsmaður til aðstoðar við verkefnið, enda engum skjalastjórum fyrir að fara hjá héraðsdómstólunum. Að tillögu sérfræðings hafi starfsmaður verið ráðinn tímabundið til aðstoðar framkvæmdastjóra kærða við innleiðingaferli málaskrárinnar. Þegar starfsemi kærða hafi þróast og verkefnum fjölgað hafi verið tekin ákvörðun um að fjölga stöðugildum hjá kærða um eitt, þ.e. starf skjalastjóra sem byggði á fyrir fram skilgreindri starfs- og hæfnilýsingu. Starf skjalastjóra hafi í framhaldinu verið auglýst. Kærði hafi ákveðið að leita liðsinnis ráðgjafafyrirtækis við ráðningarferlið. Fimm umsóknir hafi borist um starfið og hafi þrír umsækjendur verið taldir uppfylla hæfisviðmið samkvæmt auglýsingu.
 14. Í auglýsingu um starf skjalastjóra hafi almenn og góð tölvufærni verið skilgreind sem hæfisskilyrði. Þar sem kærandi hafi hvorki gert grein fyrir þeirri hæfni sinni í umsókn né ferilskrá hafi sérstaklega verið kallað eftir þeim upplýsingum frá honum með tölvupósti, sem hann hafi veitt. Í kjölfarið hafi verið lagt lokamat á umsækjendur og hafi það mat byggst á umsóknargögnum og þeim viðbótargögnum sem óskað hafi verið eftir. Í kjölfarið hafi kæranda og tveimur öðrum umsækjendum verið boðið að koma til viðtals.
 15. Við fyrrgreind viðtöl hafi verið stuðst við staðlað spurningablað og skilgreind matsviðmið og við það miðað að hvert viðtal tæki 30 mínútur. Markmið viðtalanna hafi verið að upplýsa betur um og leggja frekara mat á þær upplýsingar sem fram hafi komið í umsóknargögnum með lýsingu umsækjenda á eigin þekkingu og færni út frá auglýsingu um starfið sem og að leggja mat á þá persónubundnu þætti sem tilgreindir voru í auglýsingu og erfitt sé að meta út frá umsóknargögnum. Auglýsingin um starfið hafi legið frammi í viðtölunum og var umsækjendum bent á að kynna sér efni hennar og hafa til hliðsjónar við svör sín. Sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir alla þrjá umsækjendurna og voru svör þeirra skráð niður. Í upphafi viðtalanna hafi framkvæmdastjóri kærða gert grein fyrir helstu þáttum í lögbundinni starfsemi kærða, starfinu og verkefnum framundan. Að því loknu hafi sérfræðingur ráðgjafafyrirtækisins spurt spurninga eftir spurningalista og skráð svör umsækjenda. Í kjölfar viðtalanna hafi verið lagt mat á hæfni umsækjenda og frammistöðu þeirra í viðtalinu. Við það mat hafi verið horft til tilgreindra verkefna og hæfniskrafna sem hafi komið fram í auglýsingu og sem endurspegli þarfir kærða. Ráðgjafafyrirtækið hafi veitt kærða ráðgefandi álit í kjölfar viðtalanna þar sem fram hafi komið að tveir af þeim þremur umsækjendum, sem boðið var að koma í viðtal, uppfylltu tilgreind skilyrði vel og stæðu þriðja umsækjandanum, kæranda, framar.
 16. Framkvæmdastjóri kærða hafi að því búnu lagt sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda og hafi það mat byggst á umsóknargögnum, viðtölum og handritum úr viðtölum og mati ráðgjafafyrirtækisins. Allir þeir þættir sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun, en þar hafi vegið mest; menntun, þekking og reynsla af GoPro Foris, reynsla af innleiðingu kerfa, tölvufærni, viðhorf til starfsins og verkefnanna og persónulegir eiginleikar.
 17. Kærði kveður markmið ráðningarferilsins hafa verið að tryggja ráðningu hæfasta sérfræðingsins úr hópi umsækjenda. Unnið hafi verið að því markmiði samkvæmt framansögðu ráðningarferli. Niðurstaðan hafi verið sú að einn umsækjandi hafi verið talinn hæfastur til að gegna starfinu og borið hafi að ráða þann umsækjanda samkvæmt lögum.
 18. Kærði bendir á að samkvæmt dómaframkvæmd hafi jafnréttislög verið skýrð svo að ef á viðkomandi starfssviði séu fáir einstaklingar af öðru kyninu skuli ráða umsækjanda af því kyni sem sé í minnihluta, sé hann að minnsta kosti jafnt að því kominn að því er varði menntun og annað sem máli skipti og umsækjandi af hinu kyninu.
 19. Kærði telur að við mat á hæfni í ráðningarferlinu hafi að öllu leyti verið farið að ákvæðum jafnréttislaga og aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í starfið. Við hæfnismatið hafi verið litið til menntunar, starfsreynslu, sérþekkingar og annarra sérstakra hæfileika sem krafa hafi verið gerð um eða talið að gæti komið að gagni í starfinu. Niðurstaða þessa mats hafi verið sú að kona hafi verið metin hæfust til starfans og kærandi hafi ekki verið talinn jafn hæfur henni. Því hafi ekki verið hægt út frá ákvæðum laga og dómaframkvæmd að bjóða kæranda starfið umfram aðra umsækjendur sem hafi verið metnir hæfari. Hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn samkvæmt faglegu og málefnalegu mati á öllum umsækjendum og með engum hætti hafi verið brotið á rétti kæranda við ráðninguna. Málefnalegar ástæður hafi legið að baki mati á hæfni umsækjenda um starfið.
 20. Við mat á umsækjendum hafi verið horft til þeirra verkefna sem og þeirra hæfnisviðmiða sem tilgreind voru í auglýsingu um starfið. Framkvæmdastjóri kærða, hafi með aðstoð ráðgjafa, tilgreint helstu forsendur fyrir hvern matsþátt. Jafnframt hafi verið ákveðið að hver matsþáttur fengi tilgreint vægi með það að markmiði að vinna tölulegt mat á umsækjendum til að hafa til hliðsjónar við heildarmat á þeim í kjölfar viðtala.
 21. Krafa hafi verið gerð um háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Talið hafi verið mikilvægt að skjalastjóri byggi yfir faglegri þekkingu á bókasafns- og upplýsingafræðum, enda kærða ætlað að leiða vinnu sem meðal annars lúti að innleiðingu á rafrænu skjalakerfi og rafrænni skjalavörslu hjá dómstólum landsins. Ekki hafi verið gerðar frekari menntunarkröfur en miðað hafi verið við það í forsendum að meistaragráða á sviði bókasafns- og upplýsingafræða gæfi fullt hús stiga.
 22. Sú sem hafi verið ráðin í starfið sé með MIS-nám í upplýsingafræði, námsleið upplýsinga- og skjalastjórnunar og rafræn samskipti hjá skipulagsheildum, og sé auk þess með BA-gráðu í almennum málvísindum með íslensku sem aukagrein. Kærandi sé með MLIS í bókasafns- og upplýsingafræði, auk diplómu í opinberri stjórnsýslu og BA og MA í sagnfræði/hagsögu.
 23. Kærandi og sú sem hafi verið ráðin hafi því uppfyllt menntunarkröfuna vel. Þau séu bæði með meistaragráðu á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og uppfylli því bæði skilyrði varðandi menntun og því hafi ekki verið talin ástæða til að gera greinarmun á þeim hvað þennan matsþátt varðaði.
 24. Gerð var krafa um að umsækjendur hefðu þekkingu og reynslu af skjala- og upplýsingakerfinu GroPro Foris. Innleiðing skjalastjórnunarkerfisins GoPro Foris hafi þegar verið hafin þegar starfið hafi verið auglýst en þróun, ráðgjöf og innleiðing sé meðal verkefna skjalastjóra kærða. Það hafi því verið talið mikilvægt að sá einstaklingur sem yrði fyrir valinu hefði yfir að ráða haldgóðri þekkingu á kerfinu og verkefnið gæti því haldið áfram á skilvirkan hátt.
 25. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi búið yfir góðri þekkingu á GoPro Foris kerfinu í gegnum störf sín hjá kærða við innleiðingu á kerfinu. Hún hafi einnig verið hluti af innleiðingarteymi hjá héraðsdómstólunum og jafnframt kerfisstjóri á fyrrgreindu kerfi. Kærandi hafi ekki gert grein fyrir færni sinni í GoPro Foris kerfinu í umsóknargögnum og ekki heldur þegar sérstaklega hafi verið kallað eftir upplýsingum frá honum varðandi tölvufærni, þrátt fyrir að um væri að ræða hæfniskröfu samkvæmt auglýsingu um starfið. Í viðtali við kæranda hafi hins vegar komið fram að hann hafi komið að innleiðingu á GoPro Foris kerfinu hjá Embætti skattrannsóknarstjóra og jafnframt komið að kennslu á því kerfi. Ekki hafi verið talin ástæða til að gera greinarmun á kæranda og þeim umsækjanda sem hafi verið ráðinn í starfið hvað þennan matsþátt varðaði.
 26. Það hafi verið talinn mikill kostur að þekkja til og hafa reynslu af innleiðingu skjalastjórnarkerfis. Litið hafi verið svo á að vel undirbúin innleiðing, eftirfylgni, fræðsla og stuðningur væri forsenda þess að vel takist til við innleiðingu. Innsýn í slíkt ferli og það að átta sig á því í hverju það felist og þeirri þrautseigju og þolinmæði sem því fylgi hafi verið talin mikilvæg. Kærandi og sú sem ráðin var í starfið hafi bæði komið að innleiðingu skjalastjórnunarkerfa og því hafi ekki verið talin ástæða til að gera greinarmun á reynslu þeirra tveggja varðandi þennan matsþátt.
 27. Þá hafi verið talið nauðsynlegt að hafa reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, ekki síst til að átta sig á þeirri formfestu sem þar ríki. Starfið kalli ekki á djúpa þekkingu á stjórnsýslurétti heldur því að viðkomandi átti sig á stjórnsýsluumhverfinu og þeim áskorunum sem því fylgi.
 28. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi búið að reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar sem skjalastjóri hjá kærða frá árinu 2018 en kærandi hafi lengri reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar með störfum sínum hjá Alþingi, dómsmálaráðuneyti og Embætti skattrannsóknarstjóra. Kærandi hafi því verið talinn standa framar þeim umsækjanda sem var ráðinn í starfið í þessum matsþætti.
 29. Talið sé mikilvægt að texti sem fari frá kærða sé vandaður og því nauðsynlegt að skjalastjóri kærða geti komið málefnum á framfæri við starfsmenn dómstóla landsins á skýran og skilmerkilegan hátt, bæði í ræðu og riti, auk þess að geta skrifað verkferla, annast kynningar og annað það sem starfið krefjist. Því hafi verið gert að skilyrði að umsækjendur hefðu yfir að ráða mjög góðu valdi á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.
 30. Sú sem hafi verið ráðin í starfið sé með BA gráðu í málvísindum með íslensku sem aukagrein og hafi reynt á íslenskukunnáttu hennar í námi og störfum. Kærandi sé reyndur rithöfundur sem hafi skrifað fjölda bóka og greina. Kærandi hafi því þótt standa framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið í þessum matsþætti.
 31. Þá hafi verið talinn kostur að umsækjendur hefðu mjög gott vald á einu Norðurlandamáli og ensku. Við mat á forsendum vegna tungumálakunnáttu hafi verið litið til þess að ekki reyni mikið á enskukunnáttu í starfinu en þó sé mikilvægt að hafa góðan skilning á ensku, til dæmis vegna námskeiða sem skjalastjóri kunni að þurfa að sækja og fari fram á ensku eða upplýsinga sem hann þurfi að afla sér en mikið magn tæknilegra upplýsinga séu á ensku. Sama eigi við um Norðurlandamál, mikilvægt sé að geta lesið sér til gagns á slíku tungumáli. Samstarf við hin Norðurlöndin geti kallað á samskipti og gagnlegar upplýsingar vegna starfsins geti verið á Norðurlandamáli. Þá fari enn fram norrænir fundir á Norðurlandamálum.
 32. Sú sem hafi verið ráðin í starfið búi yfir almennri þekkingu á ensku og hafi reynt á þá þekkingu í fyrra starfi hennar. Hún hafi að eigin sögn góð tök á Norðurlandamáli og hugðist sækja námskeið til þjálfunar á talmáli. Kærandi búi einnig yfir almennri hæfni í ensku og hafi jafnframt reynt á þá þekkingu í fyrri störfum hans. Sama eigi við um þekkingu kæranda á Norðurlandamáli. Kærandi hafi að sögn flutt erindi á ensku og Norðurlandamálum. Kærandi hafi þótt standa framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið í þessum matsþætti þar sem meira hafi reynt á talmál hans á Norðurlandamáli.
 33. Starf skjalavarðar kærða krefjist góðrar tölvufærni og ljóst sé að örar breytingar verði áfram á sviði tæknimála. Mikilvægt sé að kærði búi yfir færni til að leiða ýmis verkefni sem lúti að tölvuhugbúnaði og tækni. Í þessum efnum hafi verið horft til þeirrar færni sem umsækjendur hafi til að bera, viðhorfs þeirra til tæknibreytinga og nýjunga, auk vilja þeirra til að tileinka sér þær. Því hafi verið gert að skilyrði að umsækjendur um starfið hefðu yfir að ráða almennri og góðri tölvufærni.
 34. Sú sem hafi verið ráðin í starfið búi yfir góðri almennri tölvufærni og hafi mátt ráða af viðtali við hana að viðhorf hennar til tækni og nýtingar hennar sé jákvætt. Hún sé opin fyrir nýjungum og hafi vilja og getu til að kynna sér forrit og virkni þeirra til hlítar. Af framkomnum upplýsingum hafi einnig mátt ráða að hún hafi gott vald á Office hugbúnaðinum, verkefnastjórnunarkerfinu Jira, GoPro Foris og grunnþekkingu á Coredata og Sharepoint skýjalausninni. Óljóst hafi verið af umsóknargögnum kæranda hver tölvufærni hans væri og því hafi hann verið beðinn um að gera grein fyrir henni. Í svari hans hafi komið fram að hann hafi þekkingu á öllum kerfum Office 365, auk helstu umbrotsforrita, Wordpress. Ekki hafi þótt ástæða til að gera upp á milli þeirra tveggja í mati á þessum matsþætti þar sem báðir umsækjendur hafi þótt mæta skilyrðinu vel.
 35. Við mat á frumkvæði hafi verið horft til þess hvort umsækjendur hafi sýnt frumkvæði í störfum sínum. Í þeim efnum hafi fyrst og fremst verið litið til viðtalsins og þeirra dæma sem þar voru gefin.
 36. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi gefið dæmi um eigið frumkvæði sem hafi lotið að skjalavörslu og nýtingu rafrænnar lausnar. Kærandi hafi jafnframt gert grein fyrir frumkvæði sínu með því að nefna dæmi um frumkvæði sem hafi varðað rafræn skil innan stjórnsýslunnar. Ekki hafi verið talin ástæða til að gera upp á milli þeirra tveggja í þessum matsþætti.
 37. Við mat á drifkrafti umsækjenda hafi komið fram að það mæði mikið á kærða. Stöðugildi hjá kærða séu fá og því hafi verið lagt upp úr því að allir starfsmenn kærða séu virkir og sinni sínu starfi af krafti, auk þess sem verkefnin, svo sem innleiðing og eftirfylgni, kalli á drifkraft. Lagt hafi verið mat á þennan matsþátt í viðtölum við umsækjendur.
 38. Sá umsækjandi sem var ráðinn hafi í svörum sínum gefið til kynna að búa yfir drifkrafti með lýsingum á löngun sinni til að vita, kunna og geta hlutina og laga það sem honum þyki ábótavant. Kærandi hafi nefnt í viðtalinu að hann vilji klára verkefni, fara á fjöll og gefa út bók. Báðir umsækjendur hafi borið það með sér að búa yfir drifkrafti og því hafi ekki þótt ástæða til að gera upp á milli þeirra í þessum matsþætti.
 39. Við mat á jákvæðni umsækjenda hafi viðhorf þeirra skipt sköpum, bæði hvað varði nálgun á verkefni sem og hvaða áhrif einstaklingar hafi á fólkið í kringum sig. Um lítinn vinnustað sé að ræða og því mikilvægt að viðhorf til verkefna og annarra hluta sé jákvætt sem og í öllu samstarfi við dómstólana. Lagt hafi verið mat á þennan matsþátt í viðtölum.
 40. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi í svörum sínum borið það með sér að líta á menn og málefni sem og verkefni með jákvæðum augum. Þannig hafi hún talað um fyrrum vinnustaði og verkefni á jákvæðan máta og lýst nálgun sinni á verkefni. Í svörum hennar varðandi umrætt starf hafi jafnframt borið á almennri jákvæðni gagnvart verkefnum. Þá hafi hún lýst jákvæðri upplifun sinni af því að starfa innan stjórnsýslunnar.Af svörum kæranda hafi aftur á móti mátt ráða að viðhorf hans væri ekki eins jákvætt, hvorki gagnvart fyrri vinnustöðum og störfum né umræddu starfi eða stjórnsýsluumhverfinu. Samkvæmt framansögðu var sú sem ráðin var í starfið talin standa mun framar kæranda í þessum matsþætti.
 41. Skilvirkni í störfum hafi verið talinn mikilvægur þáttur í starfi skjalastjóra, ekki síst hvað varði mótun verklags, kerfisstjórn, eftirfylgni og innleiðingu kerfa. Lagt hafi verið mat á þennan matsþátt í viðtölum við umsækjendur. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi í svörum sínum borið með sér að hún legði upp úr skilvirkni og virtist hafa leitað leiða til að auka skilvirkni í störfum sínum. Sama hafi mátt segja um kæranda en af svörum hans að dæma, virtist hann búa yfir nokkurri óþolinmæði gagnvart óskilvirkni. Ekki hafi þótt ástæða til að gera upp á milli þeirra í þessum matsþætti.
 42. Sveigjanleiki í starfi skipti einnig miklu máli í starfi skjalastjóra, svo sem við þróun og innleiðingu tölvukerfa, þróun verklags við skjalastjórnun, sem og við mótun nýrra verkferla. Þá sé mikilvægt að hlusta á tillögur og ábendingar, vega og meta og vera reiðubúinn til að taka nýja ákvörðun, standi efni til þess. Lagt hafi verið mat á þennan matsþátt í viðtölum.
 43. Af svörum þeirrar sem ráðin hafi verið í starfið hafi mátt ráða að hún leggi upp úr því að hlusta eftir athugasemdum og ábendingum notenda og sé tilbúin að taka tillit til þeirra eftir því sem við eigi. Í viðtali kæranda hafi meðal annars komið fram að hann hefði nokkurt óþol gagnvart mótstöðu við breytingum og hafi svör hans ekki gefið tilefni til að ætla að hann byggi yfir miklum sveigjanleika. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi því verið talin standa kæranda framar í þessum matsþætti.
 44. Starf skjalastjóra krefjist nákvæmni í vinnubrögðum, meðal annars í þróun og skráningum, og því hafi verið gerð krafa um slíkt í auglýsingu um starfið. Við mat á þessum þætti hafi verið horft til umsóknargagna og þess sem fram kom í viðtölum við umsækjendur.
 45. Umsóknargögn þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið hafi almennt verið vel úr garði gerð en þó hafi borið á innsláttarvillum í texta, sem geti gefið vísbendingu um að eitthvað skorti upp á nákvæmni. Fram hafi komið í viðtali við umsækjandann að hún hafi fengið þjálfun í nákvæmni í gegnum fyrra starf og það hafi fylgt henni. Kærandi hafi talið sig hæfilega nákvæman og hafi umsóknargögn hans verið villulaus eftir því sem best verði séð. Kærandi hafi því verið talinn standa nokkuð framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í þessum þætti matsins.
 46. Samvinnu- og samskiptahæfni séu þættir sem vegi mjög þungt þegar komi að vinnu við verklag og innleiðingu, sem og eftirfylgni með því að verkferlum sé fylgt. Eigi það ekki síður við í veitingu ráðgjafar, stuðnings og fræðslu. Í slíkum verkefnum reyni mikið á samskiptaþáttinn og að öðlast virðingu fólks með orðum sínum og athöfnum. Það sé mat kærða að viðeigandi árangur náist ekki í verkefnum eins og eftirfylgni með að verklagi sé fylgt, innleiðingu á breyttu verklagi, stuðningi og fræðslu, nema traust og virðing sé til staðar. Slíkt byggi ekki einungis á faglegri færni heldur að stórum hluta einnig á samskiptafærni og færni til að fá fólk með sér í þá vegferð að læra á nýtt kerfi og breyta verklagi sem fólki sé tamt.
 47. Af svörum þeirrar sem ráðin hafi verið í starfið virtist ljóst að hún legði upp úr góðum samskiptum og því að nálgast fólk á forsendum þess. Hún virtist gera sér góða grein fyrir því að fólk nálgist hlutina á ólíkan hátt þar sem það hafi mismunandi forsendur, samanber eftirfarandi svar hennar í viðtali: „Reynslan af þjálfuninni, finn hvar ég þarf að mæta fólki, hverja ég þarf að nálgast varlegar, hverja ég get leitt hraðar áfram.“ Lýsingar hennar á því hvernig hún nálgist fólk sem sýni mótspyrnu við breytingum hafi verið eftirtektarverðar og styðji vel það mat að hún búi yfir góðri samvinnu- og samskiptahæfni, samanber eftirfarandi svör hennar: „Mæti fólki þar sem það er statt, fólk sem er ekki tölvufært, fer í mikla vörn, skiptir máli að fólki líði vel, finnist ekki að ég sé einhver sérfræðingur sem ætli að kenna. Leyfi þeim að finnast að ég ætlast ekki til að þau læri þetta einn, tveir og þrír.“ Kærandi hafi sjálfur sagt um samskiptafærni sína að hún væri ágæt þegar um fólk væri að ræða sem vildi fara sömu leið og hann en ekki endilega gagnvart fólki sem vilji ekki fylgja með. Auk þess hafi verið ljóst af svörum kæranda að hann legði sig ekki fram um eða hefði ekki færni til að finna leiðir til að nálgast fólk og fá það með í þá vegferð sem lagt væri upp með, samanber eftirfarandi orð hans: „Verst að eiga við, fólk sem ætlar sér ekki að breyta neinu. Maður getur eiginlega ekkert gert, setur bara hausinn undir sig.“
 48. Þar sem í umræddu starfi skjalastjóra kærða felist að fá starfsmenn dómstólanna til að gera hlutina á ákveðinn samræmdan hátt, samanber lögbundið samræmingarhlutverk kærða, og þá um leið að breyta frá því sem áður hafi verið, hafi verið ljóst að gera yrði ríkar kröfur til þess einstaklings sem sinni starfi skjalastjóra að hann búi yfir mikilli færni í mannlegum samskiptum. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi verið talin standa kæranda mun framar í þessum matsþætti.
 49. Að öðru leyti hafi við mat á umsækjendum verið litið til frágangs umsóknargagna og áhuga þeirra á starfinu. Svör þeirrar sem ráðin var í starfið hafi gefið til kynna að hún hafi áhuga á að takast á við þær áskoranir sem fylgi starfinu, samanber eftirfarandi svör hennar: „… að kafa ofan í hlutina, finna út úr hlutunum, finna lausn sem virkar fyrir fólk sem er að vinna eftir þeim“ sem og: „Krefjandi, skemmtilegt og spennandi starf.Mjög áhugavert að vinna hjá dómstólum“ og: „… tók gæðastjórnun, þekki hugmyndafræðina, verkefnastjórnun, breytingastjórnun – fjallaði um breytingastjórnun í lokaverkefninu. Áhuga á breytingastjórnun.“ Hvað kæranda varði hafi komið skýrt fram í viðtalinu að hann ætli ekki að vera: „… í frontinum fyrir breytingum“ og „Hef ekki áhuga á að vera í forsvari fyrir breytingum, það er stjórnenda.“ Kærði bendi á að ljóst sé að stór hluti starfsins felist í innleiðingu á nýju kerfi, eftirfylgni með því að fólk vinni eftir nýju verklagi, þróun kerfis og eftirfylgni verkefna sem feli í sér að vera í fyrirsvari fyrir ákveðnum breytingum. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi verið talin standa kæranda mun framar í þessum matsþætti.
 50. Heildarmat hafi verið lagt á umsækjendur í 16 matsþáttum út frá tilgreindum verkefnum í auglýsingu um starfið sem og þeim hæfnisþáttum sem þar hafi verið tilgreindir. Horft hafi verið til eðlis starfsins og verkefnanna, mikilvægi faglegrar þekkingar og færni, sem og mikilvægra persónulegra eiginleika sem tilgreindir hafi verið. Við heildarmatið hafi vinnuskjal með stigagjöf verið haft til hliðsjónar. Kærandi hafi verið metinn framar þeim umsækjanda sem ráðinn hafi verið í starfið í 4 af 16 matsþáttum, þau hafi verið metin jöfn í 7 þáttum og sá umsækjandi sem hafi verið ráðinn var metinn hæfari í 5 þáttum. Matsþáttunum hafi verið gefið mismikið vægi.
 51. Eftir viðtöl við umsækjendur hafi ráðgjafafyrirtækið skilað inn sínu mati á umsækjendum. Samkvæmt því mati hafi tveir umsækjendur staðið þeim þriðja, kæranda, framar. Framkvæmdastjóri kærða hafi síðan lagt sjálfstætt mat á umsækjendur og byggt það mat á umsóknargögnum, viðtölum og mati ráðgjafafyrirtækisins. Niðurstaða framkvæmdastjórans hafi jafnframt verið sú að kærandi stæði hinum tveimur umsækjendunum að baki.
 52. Kærði tekur fram að mat á umsækjendum hafi gefið til kynna að kærandi hafi staðið tveimur öðrum umsækjendum að baki og því hafi endanlegt val ekki staðið á milli hans og þess umsækjenda sem síðan var ráðinn í starf skjalastjóra kærða.
 53. Eins og að framan greinir telur kærði að fagleg rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun og andmælir kærði því að ráðningin hafi falið í sér brot gegn 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 54. Kærandi bendir á að samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga skuli ráða einstakling af því kyni sem sé í minnihluta, sé viðkomandi að minnsta kosti jafnhæfur er varði menntun og annað sem skipti máli. Að öllu samanlögðu hafi hann staðið mun framar í menntun, hæfni og reynslu til að takast á við starfið en sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið.Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eigi því sannanlega við. Af þeim ástæðum einum hefði átt að ráða hann í starfið og þess þá sérstaklega þar sem mikill meirihluti skjalastjóra hjá hinu opinbera séu konur, eins og fram hafi komið í kæru. Allur málflutningur um annað séu undanbrögð. Við mat á hæfni og fyrri störfum hans hafi ekki verið haft samband við núverandi eða fyrrverandi yfirmenn hans heldur notast við dylgjur og útúrsnúninga, byggðum á tæplega 30 mínútna samtali sem séu að engu hafandi.
 55. Kærandi kveðst hafa sótt um starf skjalastjóra hjá kærða í þeirri vissu að verið væri að leita að hæfum einstaklingi til að taka að sér starfið. Í ljós hafi komið að framkvæmdastjóri kærða hafi upphaflega ráðið samstarfskonu sína í starfið án auglýsingar. Þegar tveggja ára ráðningartími hennar hafi verið á enda, og lög bjóði að auglýsa verði starfið, hafi það verið gert. Að sjálfsögðu hafi starfandi skjalastjóri kærða verið ráðinn í starfið og skipti þá engu hverjir aðrir hafi sótt um starfið. Allur málatilbúnaður og röksemdafærsla framkvæmdastjóra kærða miði að því að sýna fram á að faglega hafi verið staðið að ráðningunni. Vísað sé til umsagnar ráðgjafafyrirtækisins sem eigi að styðja mat framkvæmdastjórans en sameiginlegt álit þeirra geti aldrei orðið að sjálfstæðu mati, þ.e. handhafi ráðningarvaldsins geti ekki skýlt sér á bak við aðkeyptan ráðgjafa heldur verði að leggja sjálfstætt mat á málið.
 56. Það sé að sjálfsögðu ekki hlutverk kærunefndarinnar að leggja mat á klíkuskap, útúrsnúninga, þvælu og ómerkilegheit framkvæmdastjóra kærða og það sé miður að framkvæmdastjórinn skuli kjósa að nota þessa aðferð til þess að þurfa ekki að hlíta ákvæðum jafnréttislaga.
 57. Sérkennilegt sé að við mat á menntun umsækjenda sé kærandi og sú sem ráðin var í starfið bæði talin uppfylla skilyrði og ekki sé gerður greinarmunur þar á. Ekkert sé vikið að námskeiðum sem kærandi hafi lokið og tengist skjalastjórn, til dæmis „Rafræn skjalavarsla“ og „Afhending rafrænna gagna“ og önnur námskeið sem komi að gagni í svona starfi, til dæmis „Verkefnastjórnun“. Sú sem ráðin hafi verið hafi hins vegar ekki lokið neinum námskeiðum, hvorki á sviði skjalavörslu né öðru. Varðandi þekkingu á skjalakerfinu komi fram vísvitandi rangfærslur hjá kærða. Vissulega hafi það verið ónákvæmni hjá kæranda að telja ekki nákvæmlega upp tölvukunnáttu og þekkingu á skjalakerfum en þar sem hann starfi sem skjalastjóri og hafi unnið við útgáfu og miðlun þá hafi hann haldið að það segði sig sjálft að hann hefði þekkingu á skjalakerfum og tölvum. Gerð hafi verið nákvæm grein fyrir þessari þekkingu í tölvupóstum kæranda til kærða. Þessi atriði hafi einnig komið fram undir liðnum „Almenn og góð tölvufærni er skilyrði“ en þar sé því ranglega haldið fram að sú sem ráðin hafi verið hafi gott vald á ,,SharePoint” kerfinu þegar sérstaklega hafi verið tekið fram í umsókn hennar að hún hafi takmarkaða þekkingu á því kerfi.
 58. Þá veki athygli áherslur kærða við mat á menntun umsækjenda. Lítið sé gert úr menntun kæranda í opinberri stjórnsýslu og sagt að starfið „kalli ekki á djúpa þekkingu á stjórnsýslurétti heldur að átta sig á stjórnsýsluumhverfinu“, eins og námið hafi eingöngu snúist um stjórnsýslurétt og önnur námskeið skipti þar engu máli. Varðandi tungumálakunnáttuna sé tekið fram að sú sem hafi verið ráðin hafi haft í hyggju að sækja námskeið í Norðurlandamáli. Ekkert hafi verið gert til að sannreyna kunnáttu umsækjenda í tungumálum. Þá sé menntun þeirrar sem hafi verið ráðin í almennum málvísindum talin henni til framdráttar í íslensku máli en eins og kunnugt sé fjalli námsgreinin „almenn málvísindi“ ekki um málfræði, málfar og stíl íslensks máls. Að öllu samanlögðu sé ljóst að kærandi hafi mun meiri og víðtækari menntun svo og meiri og víðtækari reynslu af þeim störfum sem tengist skjalastjórn en sá umsækjandi sem hafi verið ráðinn í starfið.
 59. Til þess að þurfa ekki að fara að lögum hafi kærði tekið sig til við að gera lítið úr kæranda og telja honum flest til foráttu á meðan sú sem ráðin hafi verið í starfið sé mærð fyrir jákvæðni og hæfni. Erfitt sé fyrir kæranda að bera hönd fyrir höfuð sér en þó ætli hann að skýra út ýmis ummæli sem féllu í því viðtali sem framkvæmdastjóri kærða og starfsmaður ráðgjafafyrirtækisins tóku við hann.
 60. Kærandi hafi langa reynslu af ritstörfum og ritstjórn en þar vinni oft margir einstaklingar saman til þess að ná árangri. Markmið í slíkum störfum sé skýrt, þ.e. að koma verkinu út og það verði öllum til sóma. Til þess að það gangi eftir verði að vera hægt að skiptast á skoðunum og fylgja reglum á þessu sviði, til dæmis um málfar, tilvísanir í heimildir og þess háttar. Kærandi hafi sérstaklega tekið fram í viðtalinu, til marks um hæfni sína við að leita lausna og láta mál fá farsæl endalok, erfiðleika við að gefa út tiltekna bók en handritið hafði verið „fast“ í háskólakerfinu í nokkur ár áður en kærandi hafi fylgt því til útgáfu á nokkrum mánuðum. Bókin hafi síðan eftir útgáfu verið tilnefnd til fjölda verðlauna.
 61. Kærandi hafi starfað sem skjalastjóri í afleysingum, og síðar sem gæðastjóri í dómsmálaráðuneytinu frá 1. júní 2017 til 31. desember 2018. Í upphafi þess starfs hafi verið afráðið eftir samræður við nýráðinn ráðuneytisstjóra að hefja innleiðingu á breyttu verklagi við skjalastjórn og taka meðal annars upp rafræn samskipti við aðrar stofnanir. Þetta hafi verið undanfari „rafrænnar réttarvörslugáttar“ sem nú sé verið að innleiða hjá réttarvörslukerfinu og dómstólum. Í erindisbréfi sem kærandi hafi skrifað og sent var undirstofnunum ráðuneytisins, hafi þess verið farið á leit að öll gögn og erindi yrðu send ráðuneytinu með rafrænum hætti væri þess kostur. Þessum tilmælum hafi almennt verið vel tekið en töluverð andstaða hafi verið meðal nokkurra starfsmanna ráðuneytisins og einnig hafi borið á óánægju hjá einstaka starfsmönnum stofnana, þótt yfirmenn þeirra hafi tekið vel í erindið. Kærandi hafi ítrekað farið þess á leit við ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneytisins að þessi fyrirætlan og síðan framkvæmd yrði kynnt betur fyrir starfsfólki. Því miður hafi það ekki verið gert og þeir starfsmenn sem hafi verið á móti þessum breytingum hafi látið kæranda finna fyrir því með ýmsum hætti.
 62. Skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu hafi verið mjög kunnugur öllu þessu ferli en framkvæmdastjóra kærða hafi ekki þótt ástæða til að hafa samband við hann og spyrjast fyrir um kæranda og hans störf. Sýnt hafi verið fram á að innleiðing skjalakerfa og annarra breytinga nái ekki tilætluðum árangri, nema þær hafi fullan stuðning yfirmanna sem tryggi að þær skili sér til allra starfsmanna. Töluvert hafi skort á að þetta hafi verið gert í dómsmálaráðuneytinu en aftur á móti hafi kærandi áréttað í viðtalinu að vinnustaðurinn hafi að öðru leyti verið góður. Staðhæfing um annað séu ósannindi.
 63. Kærandi hafi sérstaklega tekið fram að hann vildi ekki lenda í svipuðum aðstæðum aftur, þ.e. að fara út í breytingar sem í orðu kveðnu njóti stuðnings yfirmanna, en sem síðan fylgi þeim ekki eftir. Kærandi hafi tekið dæmi um skipulagðar gönguferðir þar sem sett sé sameiginlegt markmið sem öllum beri að fylgja undir öruggri forystu leiðsögumanns. Þá gangi ekki að leiðsögumaðurinn sé óviss um hvert eigi að fara og einstakir göngumenn fari eitthvað annað. Í stjórnsýslunni, sem og í skipulögðum ferðum, sé mikilvægt að farið sé að reglum og engar undanþágur veittar. Sé áhugi á að breyta til sé nauðsynlegt að breyta fyrst reglunum og síðan verklaginu en ekki að hætta að fara eftir reglum séu þær óþægilegar. Kærandi hafi réttilega tekið fram að hann hafi lítið þol fyrir opinberum starfsmönnum sem fari ekki eftir verklagsreglum og sýni þeim stjórnendum sem láti slíkt viðgangast lítinn skilning.
 64. Um ýmsa persónubundna þætti í fari kæranda skuli ekki fullyrt en kærandi hafi vísað til tveggja meðmælenda sem þekki hann og störf hans, en ekki hafi verið haft samband við þá í ráðningarferlinu. Ekki hafi verið leitað álits hjá neinum öðrum, enda telji kærandi að ákvörðun um ráðningu í starfið hafi legið fyrir áður en starfið hafi verið auglýst. Þá hafi ekki heldur verið leitað umsagna vinnuveitanda annars umsækjanda um starfið, sem einnig hafi verið talinn hæfur, og auk þess hæfari en kærandi. Ekki hafi þurft að leita umsagnar um þann umsækjanda sem ráðinn var í starfið þar sem hann hafi starfað hjá kærða í tvö ár áður en til ráðningarinnar kom.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 65. Vegna fullyrðinga kæranda um að í umsókn þeirrar sem ráðin var í starfið hafi komið fram að hún hefði takmarkaða þekkingu á ,,SharePoint” forritinu en ekki að hún hafi gott vald á því eins og kærandi segi að haldið sé fram af kærða, skuli það áréttað að í greinargerð kærða komi fram að hún hafi grunnþekkingu á Coredata og SharePoint. Ekki sé því ljóst við hvað kærandi eigi, en kærandi og sú sem ráðin var í starfið hafi bæði þótt fullnægja skilyrðum um almenna tölvufærni og hafi þannig verið metin jafn hæf í þessum matsþætti.
 66. Í athugasemdum kæranda komi fram að við mat á menntun hafi verið gert lítið úr menntun hans þar sem sagt hafi verið í greinargerð kærða að starf skjalastjóra „kalli ekki á djúpa þekkingu á stjórnsýslurétti heldur að átta sig á stjórnsýsluumhverfinu“. Á það sé bent að hin tilvitnaða setning úr greinargerð kærða sé úr mati á reynslu af störfum í stjórnsýslunni en ekki úr mati á menntun. Gerð hafi verið krafa um reynslu innan stjórnsýslunnar og hafi verið gerð grein fyrir forsendum þess í greinargerð kærða. Því sé hafnað að gert hafi verið lítið úr menntun kæranda í opinberri stjórnsýslu og rétt að benda á að í greinargerð kærða hafi verið að fjalla um forsendur þess að krafist hafi verið reynslu af störfum í stjórnsýslu og hafi það ekki varðað einn umsækjanda umfram aðra heldur séu þetta forsendur fyrir þeirri kröfu sem hafi verið sett fram í auglýsingu um starfið. Þá sé einnig rétt að benda á að kærandi hafi verið talinn standa framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í þessum þætti matsins sökum langrar reynslu sinnar af störfum innan stjórnsýslunnar.
 67. Varðandi menntun hafi sama mælistika verið notuð við mat á menntun allra umsækjenda. Kærði kveður það ekki rétt að tekið hafi verið fram að sú sem ráðin hafi verið í starfið hafi haft í hyggju að sækja námskeið í Norðurlandamáli. Hið rétta sé að fram hafi komið í greinargerð kærða að hún hygðist sækja námskeið til þjálfunar í talmáli.
 68. Vegna athugasemdar kæranda varðandi mat á íslenskukunnáttu umsækjenda sé rétt að taka fram að í greinargerð kærða komi fram að sú sem hafi verið ráðin í starfið sé með BA gráðu í málvísindum með íslensku sem aukagrein og að reynt hafi á íslenskukunnáttu hennar í námi og störfum. Þá hafi kærandi verið talinn standa henni framar í þessum matsþætti.
 69. Kærði áréttar jafnframt að kærandi hafi við mat á umsækjendum þótt standa tveimur öðrum umsækjendum að baki og því hafi endanlegt val í starfið ekki staðið á milli hans og þess umsækjanda sem síðan var ráðinn í starfið.

  NIÐURSTAÐA

 70. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 71. Kærði auglýsti starf skjalavarðar 6. desember 2019 með auglýsingu sem birtist á vefsíðunni www.starfatorg.is. Frestur til að sækja um starfið var nokkuð skammur, eða til 16. desember 2019. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að leitað væri eftir öflugum skjalastjóra í fullt starf til þess að taka þátt í uppbyggingu og þróun skjalamála hjá kærða ásamt því að styðja við þróun rafræns upplýsingakerfis kærða og dómstólanna.
 72. Í auglýsingu um starfið voru tilgreind helstu verkefni og ábyrgð skjalastjóra kærða. Þar kom fram að skjalastjóri hefði með höndum þróun og kerfisstjórn rafræns upplýsingakerfis kærða og dómstólanna, auk þess sem hann bæri ábyrgð á og hefði umsjón með þróun skjalastefnu og verklags við skjalastjórnun. Skjalastjóri hefði jafnframt umsjón með skráningu og frágangi mála hjá kærða og eftirfylgni við samræmda skráningu og frágangi mála hjá dómstólunum. Auk þess hefði skjalastjóri með höndum ráðgjöf, stuðning og fræðslu fyrir stjórnendur og starfsmenn dómstólanna í landinu.
 73. Menntunar- og hæfniskröfur til starfsins voru sérstaklega skilgreindar í auglýsingu um starfið. Þar kom fram að gerð væri krafa um að umsækjendur hefðu háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Þá var áskilið að umsækjendur hefðu yfir að ráða þekkingu og reynslu af skjala- og upplýsingakerfinu GoPro Foris, auk þess sem reynsla af störfum í stjórnsýslunni var talin nauðsynleg. Skilyrði var að umsækjendur hefðu almenna og góða tölvufærni og mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Þá var talinn kostur að umsækjendur hefðu reynslu af innleiðingu skjalastjórnunarkerfis svo og mjög gott vald á ensku og einu Norðurlandamáli. Þá var jafnframt tekið fram að umsækjendur þyrftu að hafa frumkvæði, drifkraft, jákvæðni, skilvirkni, sveigjanleika og nákvæmni í vinnubrögðum, auk mjög góðrar samvinnu- og samskiptahæfni. Með umsóknum skyldi fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem umsækjendur gerðu grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni sinni til að gegna starfinu.
 74. Umsækjendur um starf skjalastjóra kærða voru fimm. Kærði leitaði liðsinnis hjá ráðgjafafyrirtæki við ráðningarferlið. Verkefni ráðgjafafyrirtækisins voru, að sögn kærða, fólgin í því að ráðgjafar fyrirtækisins önnuðust samskipti við umsækjendur, liðsinntu kærða við að undirbúa mat á umsóknum miðað við tilgreinda menntunar- og hæfniskröfur, veittu ráðgefandi álit um val á umsækjendum sem skyldu teknir til viðtals og tóku ásamt framkvæmdastjóra kærða viðtöl við þá umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal. Auk þess lögðu ráðgjafar fyrirtækisins mat á upplýsingar og frammistöðu þeirra þriggja umsækjenda sem teknir voru í viðtöl. Framkvæmdastjóri kærða bar aftur á móti ábyrgð á ráðningarferlinu og lagði meðal annars sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda og tók að endingu ákvörðun um hver yrði ráðinn til starfans.
 75. Framkvæmdastjóri kærða kveðst hafa byggt lokamat sitt á umsækjendum á umsóknargögnum, viðtölum og handritum úr viðtölunum frá ráðgjafafyrirtækinu.Lagt hafi verið mat á umsóknirnar út frá þeim menntunar- og hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu um starfið og með tilliti til þeirra upplýsinga og frammistöðu er fram komu í viðtölum við umsækjendur. Þar munu hafa vegið þyngst menntun, þekking og reynsla af GoPro Foris skjalastjórnunarkerfinu, reynsla af innleiðingu kerfa, tölvufærni, viðhorf til starfsins og verkefnanna og persónulegir eiginleikar umsækjenda.
 76. Fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að við mat kærða á umsækjendum hafi þeim menntunar- og hæfniskröfum, sem fram komu í auglýsingu um starfið, verið skipt niður í sextán matsflokka og var hverjum og einum þeirra gefið mismunandi vægi, allt frá 1–12%. Þeim þremur umsækjendum sem boðið var í viðtal voru gefin stig fyrir hvern matsflokk fyrir sig og var niðurstaða heildarmatsins sú að sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið fékk samtals 8,22 stig, kærandi fékk 7,62 [7,50] stig og þriðji umsækjandinn fékk 7,96 stig. Var það mat kærða að sá umsækjandi sem fékk flest stig úr heildarmatinu væri hæfastur til starfsins og var honum í kjölfarið boðið starf skjalastjóra.
 77. Kærandi telur að kærði hafi með ákvörðun sinni við ráðningu í starf skjalastjóra brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Vísar kærandi fyrst og fremst til þess að hlutrænn samanburður á hæfni umsækjenda út frá þeim menntunar- og hæfniskröfum er fram komu í auglýsingu um starfið hafi átt að leiða í ljós að hann væri talinn hæfastur í starfið, meðal annars með hliðsjón af menntun, löngum starfsferli og víðtækari reynslu á þeim sviðum sem hefðu átt að skipta hvað mestu máli við mat á hæfni umsækjenda. Telur kærandi að röksemdir kærða fyrir ráðningunni markist fyrst og fremst af því að tryggja hafi átt ráðningu þess starfsmanns sem var í starfinu þegar það var auglýst laust til umsóknar. Þá vísar kærandi einnig til þess að eingöngu konur vinni hjá kærða og þá séu konur í miklum meirihluta þeirra skjalastjóra sem starfi hjá hinu opinbera.
 78. Ágreiningsefni málsins lýtur fyrst og fremst að því hvort kærandi, sem er karlmaður, hafi verið hæfari til að gegna starfi skjalastjóra kærða en sá umsækjandi sem ráðinn var, sem er kvenmaður. Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 ber við úrlausn kærunefndar jafnréttismála á því álitaefni að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum og reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
 79. Þegar auglýsing kærða um starf skjalastjóra er virt með hliðsjón af eðli starfsins verður ekki annað séð en að þær menntunar- og hæfniskröfur, sem fram komu í auglýsingu kærða um starfið, teljist í alla staði málefnalegar.
 80. Ákvörðun kærða um ráðningu í starf skjalastjóra var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt sigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar ráðningu og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 3/2018.
 81. Við ráðninguna studdist kærði meðal annars við matsblað þar sem þeim þremur umsækjendum er boðaðir voru í viðtal voru veitt stig á bilinu 0-10 fyrir hvern matsþátt sem birtist á matsblaðinu, en matsþættirnir voru samtals sextán talsins. Matsþáttunum var veitt mjög mismunandi innbyrðis vægi, frá 1–12%. Þannig má nefna sem dæmi að stig fyrir matsþættina; menntun, þekking, reynsla og innleiðing GroPro Foris kerfisins og góð samvinna- og samskiptahæfni, höfðu hver um sig helmingi meira vægi en matsþættirnir; reynsla innan stjórnsýslunnar og mjög gott vald í íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Á matsblaðinu var að finna alla þá matsþætti sem tilgreindir voru í auglýsingu um starfið, auk þess sem þeir voru greindir enn frekar niður í fleiri þætti.
 82. Þó að deila megi um innbyrðis vægi einstakra matsþátta er til þess að líta að játa verður kærða ákveðið svigrúm til slíks mats að því gefnu að málefnaleg sjónarmið liggi þar að baki og það vægi sem einstökum matsþáttum er gefið sé eðlilegt með hliðsjón af því starfi sem um ræðir hverju sinni og því sem kærði er að sækjast eftir hjá umsækjendum um starfið.
 83. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, bar kærða skylda til að kanna alla tilgreinda matsþætti með fullnægjandi hætti og taka mið af þeim við ráðningu í starf skjalavarðar.
 84. Fyrsta hæfniskrafan sem birtist í auglýsingu um starfið var áskilnaður um háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Af umsóknargögnum má ráða að kærandi og sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi bæði uppfyllt fyrrgreint menntunarskilyrði. Að mati kærunefndarinnar er ekki tilefni til að gera upp á milli kæranda og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið hvað varðar menntun þeirra á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Aftur á móti verður ekki séð að það hafi komið sérstaklega til mats hvort umsækjendur hefðu yfir að ráða viðbótarmenntun eða hefðu sótt námskeið umfram þá menntun sem áskilin var í auglýsingu og sem gæti haft áhrif við mat á hæfni þeirra til að sinna því starfi sem hér um ræðir. Sé litið til viðbótarmenntunar og námskeiða sem kærandi hefur sótt á umliðnum árum á sviði rafrænnar skjalavörslu verður að mati kærunefndarinnar að telja að kærandi hafi staðið nokkru framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið hvað þennan matsþátt varðar.
 85. Önnur hæfniskrafan sem birtist í fyrrgreindri auglýsingu var þekking og reynsla af skjala- og upplýsingakerfinu GoPro Foris. Ljóst er að kærandi og sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið höfðu báðir yfir að ráða yfirgripsmikilli þekkingu á fyrrgreindu kerfi og því er fallist á það mat kærða að ekki hafi verið tilefni til að gera upp á milli þeirra hvað þennan matsþátt varðar.
 86. Þá var tekið fram í auglýsingu um starfið að reynsla af störfum í stjórnsýslunni væri nauðsynleg, auk þess sem það væri skilyrði að umsækjendur hefðu yfir að ráða mjög góðu valdi á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Með hliðsjón af langri starfsreynslu kæranda innan stjórnsýslunnar verður að telja að kærandi hafi staðið mun framar í þeim matsþætti en sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið, sem hafði að loknu háskólanámi starfað í tiltölulega skamman tíma innan stjórnsýslunnar. Hvað varðar áskilnað um að umsækjendur hefðu mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti verður ekki annað séð en að bæði kærandi og sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi fullnægt fyrrgreindu skilyrði. Er í því sambandi til þess að líta að sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafði lokið BA-gráðu í almennum málvísindum með íslensku sem aukagrein. Kærandi hafði hins vegar starfað í fjölda ára við ritstörf, ritstjórn og útgáfumál, auk þess sem hann hafði annast kennslu á sama vettvangi um árabil. Samkvæmt framansögðu er fallist á það með kærða að kærandi hafi hvað þennan matsþátt varðar staðið nokkuð framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið.
 87. Í starfsauglýsingu var í tveimur tilvikum talinn kostur að umsækjendur hefðu yfir að ráða tilgreindum hæfniskröfum, annars vegar reynslu af innleiðingu skjalastjórnunarkerfis og hins vegar mjög gott vald á einu Norðurlandamáli og ensku. Að mati kærunefndarinnar verður að telja að þeir þættir sem einungis eru taldir til kosta vegna starfsins, eigi almennt að fá minna vægi við mat á umsækjendum en þeir þættir sem beinlínis er gerður áskilnaður um. Reynsla af innleiðingu skjalastjórnunarkerfis vó 8% í heildarmatinu og gott vald á ensku og einu Norðurlandamáli vó 4%. Þegar tekið er tillit til eðlis þess starfs sem hér um ræðir, þykir hvorki tilefni til að gera athugasemdir við mismunandi vægi þessara þátta né mat kærða á umsækjendum hvað þessa tvo matsþætti varðar.
 88. Gert var að skilyrði í auglýsingu að umsækjendur hefðu almenna og góða tölvufærni. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að kærandi og sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi fyllilega uppfyllt þessa hæfniskröfu og er því fallist á það með kærða að ekki hafi verið tilefni til að gera greinarmun á þeim hvað þennan þátt varðar.
 89. Þá var í auglýsingu um starfið gert að skilyrði að umsækjendur hefðu frumkvæði, drifkraft, jákvæðni, skilvirkni, sveigjanleika, nákvæmni í vinnubrögðum og mjög góða samvinnu- og samskiptahæfni. Því til viðbótar var ákveðið að áhugi umsækjenda fyrir starfinu skyldi vera sérstakur matsþáttur. Allar þessar hæfniskröfur eiga það sameiginlegt að vera huglæg skilyrði sem erfitt getur verið að leggja mat á með óyggjandi hætti. Við mat á hæfni umsækjenda um starf skjalastjóra kærða var ákveðið að vægi fyrrgreindra matsþátta yrði samtals 42% af heildarmatinu, sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall, og því fyrir fram ljóst að vægi þessara matsþátta kæmi til með að hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu á heildarmati umsækjenda um starfið. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að fyrrgreindir þættir hafi fyrst og fremst verið metnir út frá umsóknargögnum og þeim viðtölum sem framkvæmdastjóri kærða og starfsmaður ráðgjafafyrirtækis áttu við þá þrjá umsækjendur sem boðaðir voru til viðtals. Af þessum huglægu þáttum fékk samvinnu- og samskiptahæfni umsækjenda mesta vægið eða 12% af heildarmatinu og því næst jákvæðni sem fékk 6% vægi. Var það niðurstaða matsins að sá umsækjandi sem var ráðinn í starfið stæði kæranda framar hvað varðaði jákvæðni, sveigjanleika í starfi, mjög góða samvinnu- og samskiptahæfni og áhuga fyrir starfinu, en kærandi hafi á hinn bóginn staðið framar varðandi nákvæmni í vinnubrögðum. Ekki hafi hins vegar þótt ástæða til að gera upp á milli þeirra hvað varðaði frumkvæði, drifkraft eða skilvirkni.
 90. Að öllu framangreindu virtu verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi hvað varðar hina hlutlægu matsþætti, sem vógu 58% af heildarmatinu, staðið nokkuð framar þeim umsækjanda sem ráðinn var í starfið, þ.e. þegar litið var til menntunar, þekkingar og reynslu af skjala- og upplýsingakerfinu GoPro Foris, reynslu af innleiðingu skjalastjórnunarkerfa, reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, góðu valdi á íslensku, Norðurlandamáli og ensku og tölvufærni. Matsblað kærða gefur til kynna að heildarstig kæranda vegna þessara sjö matsþátta hafi verið 5,18 stig, eftir að tekið hefur verið tillit til leiðréttingar á stigagjöf hans vegna þekkingar og reynslu af skjala- og upplýsingakerfinu GoPro Foris þar sem kærði taldi eftir að hafa fengið frekari skýringar frá kæranda að ekki hafi verið tilefni til að gera greinarmun á umsækjendum hvað þann matsþátt varðaði. Heildarstig þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið hvað þessa sömu sjö matsþætti varðar voru aftur á móti 4,90 stig. Hefur þá ekki verið tekið tillit til þess sem vikið hefur verið að hér að framan um að telja verði að kærandi hafi staðið nokkru framar þeim umsækjenda sem ráðinn var í starfið varðandi menntunarþáttinn.
 91. Hvað varðar mat á hinum huglægu þáttum var það aftur á móti niðurstaða kærða að sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi staðið kæranda mun framar hvað þá þætti varðar. Heildarstig þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið vegna þessara matsþátta voru 3,32 stig en kærandi fékk 2,44 stig fyrir sömu þætti. Ljóst er að sá mikli munur sem var á þessum tveimur umsækjendum varðandi fyrrgreinda huglægu þætti réði hvað mestu um það mat kærða hver væri talinn hæfastur í starfið.
 92. Við mat á huglægum þáttum er mikilvægt að fyrir fram sé ljóst hvernig mat á þeim þáttum eigi að fara fram, svo sem með viðtölum, persónuleikaprófum, verkefnum og/eða með umsögnum umsagnaraðila, fyrri vinnuveitenda eða samstarfsmanna svo að nokkur dæmi séu nefnd um mögulegar matsaðferðir. Engin ein ákveðin matsaðferð er ríkjandi í þessum efnum, og þá er heldur ekkert því til fyrirstöðu að styðjast við fleiri en eina aðferð við slíkt mat. Það sem mestu máli skiptir er að þessir huglægu þættir, séu eins og aðrir þættir, rannsakaðir með fullnægjandi hætti. Þá er mikilvægt að gætt sé vandvirkni við mat á huglægum þáttum og þá ekki síst í ljósi þess að erfitt getur verið að leggja mat á slíka þætti. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar vægi slíkra þátta er stór hluti af heildarmati umsækjenda og þeir gerðir að fortakslausum hæfniskröfum í starfsauglýsingu. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrrgreindir þættir hafi verið metnir á grundvelli veittra upplýsinga og frammistöðu umsækjenda í áðurnefndum viðtölum svo og af innsendum umsóknargögnum umsækjenda.
 93. Samkvæmt 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ber stjórnvöldum við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum máls. Sama á við um helstu ákvarðanir máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins. Ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að kærði hafi uppfyllt þær skyldur sem fram koma í fyrrgreindu lagaákvæði varðandi þau viðtöl sem tekin voru við umsækjendur þar sem skráð voru niður svör umsækjenda við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir þá í áðurnefndum viðtölum sem framkvæmdastjóri kærða og ráðgjafi ráðgjafafyrirtækisins áttu við þá þrjá umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal vegna starfsins.
 94. Í áðurnefndum viðtölum leitaðist kærði við að fá meðal annars mynd af framtíðarsýn og áherslum umsækjenda til starfsins, reynslu þeirra af fyrri störfum, auk sjálfsmats og mats á persónulegum eiginleikum þeirra. Var viðtölunum þannig ætlað að varpa ljósi á þá huglægu þætti sem kærði lagði til grundvallar í auglýsingu um starf skjalastjóra. Eins og áður hefur komið fram lagði kærði langmest upp úr því við mat á fyrrgreindum þáttum að umsækjendur hefðu yfir að ráða mjög góðri samvinnu- og samskiptahæfni. Að loknum viðtölunum gaf kærði umsækjendum stig fyrir hvern matsþátt fyrir sig.
 95. Taka má undir það með kærða að svör umsækjenda við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir þá hafi gefið til kynna nokkuð ólík viðhorf og sýn umsækjenda til þeirra atriða sem ætlunin var að kanna með fyrrgreindum viðtölum. Fallast má á það með kærða að svör kæranda og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið hafi einnig gefið til kynna að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi staðið talsvert framar kæranda varðandi góða samvinnu- og samskiptahæfni, jákvæðni, sveigjanleika og almennt viðhorf til starfsins.
 96. Fyrir liggur að kærði ákvað að leita ekki umsagnar um umsækjendur hjá þeim meðmælendum/umsagnaraðilum sem umsækjendur tilgreindu í umsóknargögnum sínum. Hefur kærði meðal annars vísað til þess að eftir að lagt hafði verið mat á viðtöl við umsækjendur hafi ekki verið talin þörf á frekari rannsókn á þeim huglægu þáttum sem verið var að meta. Þá hefur kærði jafnframt vísað til þess að ekki séu gerðar kröfur að lögum um það að við ráðningar skuli stjórnvald notast við ákveðnar rannsóknaraðferðir, heldur sé stjórnvaldinu falið að sinna þeim þætti eftir því sem efni og aðstæður gefa tilefni til hverju sinni.
 97. Þegar huglægir þættir hafa verið settir fram sem fortakslausar hæfniskröfur í starfsauglýsingu og fullnægjandi mat á þeim þáttum þykir ekki liggja fyrirhefur í fyrri úrskurðum kærunefndar jafnréttismála komið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurðir í málum nr. 8/2018 og nr. 6/2019, að þá sé að jafnaði nauðsynlegur þáttur í slíku mati að leita umsagna fyrri vinnuveitenda eða eftir atvikum samstarfsmanna sem bent er á í slíkum tilgangi. Fyrir liggur í því máli sem hér um ræðir að mat á huglægum þáttum fór fram með viðtölum og með mati á umsóknargögnum. Er það mat kærunefndar jafnréttismála að fyrir hafi legið í málinu fullnægjandi upplýsingar til að hægt hafi verið að leggja mat á fyrrgreinda þætti.Kærunefndin telur jafnframt að mat kærða á þessum þáttum hafi verið málefnalegt og því sé ekki tilefni til að hrófla við fyrrgreindu mati hans á hinum huglægu þáttum.
 98. Að teknu tilliti til þess svigrúms sem ljá verður kærða við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum sem birtust í starfsauglýsingu kærða, telur kærunefndin ekki unnt að álykta sem svo að kærði hafi farið út fyrir það svigrúm sem hann hefur þegar hann veitti umsækjendum stig fyrir hina huglægu þætti líkt og að framan er rakið, enda teljast þau málefnaleg að mati nefndarinnar.
 99. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar skjalastjóri kærða var ráðinn með samningi þann 2. janúar 2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, dómstólasýslan, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf skjalastjóra í janúar 2020.

 

Björn Jóhannesson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira