Hoppa yfir valmynd
17. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fagnar samkomulagi um eyðingu efnavopna

_MG_0705

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagnar samkomulagi Bandaríkjanna og Rússlands um eyðingu efnavopna í Sýrlandi.

„Samkomulagið sem liggur fyrir gefur von um að hægt verði að koma böndum á efnavopnin og nú verði tekin raunveruleg skref í átt að því að binda endi á borgarastríðið í Sýrlandi. Við fögnum því að Bandaríkin og Rússland munu halda áfram góðu samstarfi og hvetjum þau til að vinna í sameiningu að því að tryggja einingu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir sem stöðva blóðbaðið í Sýrlandi“ segir utanríkisráðherra. Hann segir deilurnar í Sýrlandi ekki verða leystar með hervaldi og íslensk stjórnvöld styðji friðarumleitanir sem tryggi íbúum landsins mannréttindi, umbætur og lýðræðisþróun.

Utanríkisráðherra ítrekar fordæmingu á efnavopnaárásum í Sýrlandi, sem nú hafa verið staðfestar af rannsóknarteymi Sameinuðu þjóðanna. „Notkun efnavopna er stríðsglæpur og alvarlegt brot á alþjóðalögum. Þeir aðilar sem stóðu fyrir slíkum árásum verða að sæta ábyrgð“ segir ráðherra.

Hann segir stjórnvöld í Sýrlandi bera meginábyrgð á þeirri vargöld sem þar ríkir og upplýsingar sem fram hafi komið bendi til þess að þau beri ábyrgð á efnavopnaárásum sem gerðar hafa verið. "Það er krafa alþjóðasamfélagsins að brugðist sé við af festu þegar alþjóðalög eru þverbrotin með slíkum ódæðisverkum. Niðurstöður rannsóknarteymis Sameinuðu þjóðanna staðfesta hversu brýnt það er að aðildarríki öryggisráðsins sameinist um viðbrögð og aðgerðir vegna atburða liðinna vikna og mánaða." segir utanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum