Hoppa yfir valmynd
13. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Styrkir úr Tækniþróunarsjóði gæðastimpill fyrir íslensk þróunar- og nýsköpunarfyrirtæki

Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs fyrir árin 2014-2018 var kynnt á haustfundi sjóðsins sem fram fór í Grósku í gær. Matið leiðir m.a. í ljós að í tilvikum 91% allra styrkþega leiddi styrkur frá Tækniþróunarsjóði til nýrra frumgerða á vöru eða þjónustu. Sjóðurinn heyrir undir háskóla-, iðnaðar, og nýsköpunarráðuneyti og markmið hans mótast í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs. Umsýsla sjóðsins er í höndum Rannís.

„Markmið Tækniþróunarsjóðs er að styðja við þróunarstarf og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og leiða til endurnýjunar og bættrar samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs,“ segir Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís. „Niðurstöður áhrifamatsins benda sterklega til þess að þessum markmiðum sé náð og það er ánægjulegt í ljósi þess að framlög hins opinbera í sjóðinn hafa aukist verulega undanfarin ár. Þá má segja að styrkur úr Tækniþróunarsjóði sé nokkurs konar gæðastimpill á vöru eða þjónustu í þróun þar sem styrkþegar fá aðgang að öðru fjármagni og styrkjum í kjölfarið, bæði innanlands og utan.“

Nýjar vörur og aukin velta í kjölfar styrkja

Á tímabilinu sem áhrifamatið nær til voru alls 441 verkefni af öllum stærðargráðum styrkt fyrir samtals 9,6 milljarða króna sem nemur meira en tvöfaldri styrktarupphæð sjóðsins fyrir árin 2009-2013.

Áhrifamatið byggir á stöðluðum spurningalistum og viðtölum til að meta áhrif styrkja úr Tækniþróunarsjóði og fá þannig greinargóða sýn á hvernig sjóðurinn styður við starfsemi fyrirtækja og nánasta umhverfi þeirra. Auk þess að leiða til nýrra frumgerða á vöru eða þjónustu hjá 91% styrkþega tókst 77% styrkþegum að auka veltu sína í kjölfar styrks á meðan 56% styrkþega skiluðu auknum hagnaði. Þá er ljóst að aðgengi að nýjum mörkuðum jókst hjá 64% styrkþega og aukinni markaðshlutdeild erlendis hjá 55% styrkþega. Loks töldu viðmælendur að 95% nýsköpunarverkefna hefðu ekki orðið að veruleika án styrks frá Tækniþróunarsjóði.

Styrkir úr erlendum samstarfssjóðum í kjölfar stuðnings Tækniþróunarsjóðs

Viðtöl voru einnig tekin við fyrirtæki sem sótt hafa í erlenda samstarfssjóði á borð við Eurostars sem er fjármögnunaráætlun sem stendur íslenskum fyrirtækjum til boða til að fjármagna alþjóðleg samstarfsverkefni um rannsóknir, þróun og nýsköpun. Þar kom skýrt í ljós mikill virðisauki samstarfs í gegnum áætlanir Evrópusambandsins í nýsköpun, en íslensk fyrirtæki fengu styrki frá Evrópusambandinu að fjárhæð 11,4 milljarða króna á tímabili áhrifamatsins og höfðu langflest þeirra áður fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði. Stutta samantekt má nálgast hér en Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs í heild má nálgast með því að smella hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum