Hoppa yfir valmynd
7. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 488/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 488/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080030

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 8. júlí 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. júlí 2021. Þann 19. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Þá bárust kærunefnd andmæli kæranda þann 23. ágúst 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. ágúst 2020. Vegna þess tíma sem nú hafi liðið frá því að kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hafi atvik í málinu breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn þann 8. júlí 2021 og því beri að endurupptaka mál hans. Kærandi vísar til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsókna í skilningi ákvæðisins miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar við endursendingu til viðtökuríkis. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd og kærandi sé enn hér á landi beri stjórnvöldum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. ágúst 2021 og hefur hann ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og því kemur til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 19. ágúst 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá stoðdeild barst þann 20. ágúst 2021 en af svörum þeirra má ráða að kærandi hafi ekki tafið mál sitt. Kærunefnd barst svar frá Útlendingastofnun þann 20. ágúst 2021 þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi við komu hingað til lands greint frá því að vera barn að aldri. Í samræmi við 3. mgr. 26. gr. og 113. gr. laga um útlendinga hafi verið óskað eftir því að framkvæmd yrði aldursgreining á kæranda vegna þess að vafi léki á um aldur hans. Kærandi hafi gefið upp annan fæðingardag hér á landi en gögn frá Grikklandi hafi kveðið á um og því hafi verið misræmi sem færa megi rök fyrir að hafi villt um fyrir stjórnvöldum og tafið málsmeðferð. Aldursgreiningin hafi ekki verið framkvæmd fyrr en 25. nóvember 2020. Tafir á því hve seint aldursgreiningin hafi verið gerð hafi ekki verið umsækjanda að kenna en Útlendingastofnun vísaði til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU19080011 frá 10. október 2019 þar sem kærunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandi hafi tafið mál sitt, m.a. með því að hafa gefið misvísandi og villandi upplýsingar varðandi aldur.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 23. ágúst 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd þann sama dag. Í svari kæranda kemur fram sú afstaða hans að Útlendingastofnun sé ekki stætt á að vísa til þeirra málsástæðna sem stofnunin geri með vísan til dóms héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-6095/2019 frá 30. september 2020 máli sínu til stuðnings.

Af gögnum málsins er ljóst að þegar kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. ágúst 2020 hafi hann framvísað grískum ferðaskilríkjum þar sem fram kom að fæðingardagur hans væri 1. janúar 1999. Af greinargerð kæranda, dags. 27. mars 2021, má sjá að tæplega þremur vikum eftir að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hafi hann greint frá því að vera yngri en 18 ára og framvísað ljósmynd af fæðingarvottorði frá heimaríki þar sem fram kemur að fæðingardagur hans sé 15. júlí 2004. Í samræmi við 113. gr. laga um útlendinga undirgekkst kærandi aldursgreiningu þann 24. nóvember 2020. Í 113. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann undirgangist líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Líkt og að framan greinir er í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um lögbundinn tólf mánaða frest fyrir stjórnvöld til að ljúka afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu er ekki að finna leiðbeiningar um það hvenær um tafir sé að ræða á málsmeðferð sem með réttu geti talist vera á ábyrgð umsækjanda. Samkvæmt orðanna hljóðan verður að ætla að málefnalegt sé að telja að undir það heyri a.m.k. þegar umsækjendur reyni vísvitandi að tefja málsmeðferð, svo sem með því að láta sit hverfa. Af gögnum málsins er ljóst að frá 8. september 2020 hafi Útlendingastofnun verið kunnugt um breytta afstöðu kæranda varðandi aldur sinn en líkamsrannsókn hafi ekki farið fram fyrr en 24. nóvember 2020 eða rúmum tveimur mánuðum síðar. Þá tekur Útlendingastofnun fram í svari við fyrirspurn kærunefndar þann 20. ágúst 2021 að tafir á framkvæmd líkamsrannsóknar hafi ekki verið á ábyrgð kæranda. Líkamsrannsókn, sbr. 113. gr. laga um útlendinga, er hluti af málsmeðferð stjórnvalda og eitt af þeim úrræðum sem lög gera ráð fyrir að stjórnvöld geti þurft að grípa til við rannsókn mála. Stjórnvöld hafa svigrúm til að haga málsmeðferð sinni þannig að ljúka megi máli innan frests og eins og atvikum þessa máls er háttað verður ekki séð að það sé málefnalegt að telja lengdan málsmeðferðartíma vegna líkamsrannsóknar vera tafir á ábyrgð kæranda.

Að mati kærunefndar eru þær tafir sem hafa orðið á málinu því ekki af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli kæranda og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að kærandi verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 18. ágúst 2020, er fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum