Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til þess hvort grunnskólinn skili hugmyndum þjóðkirkju um kristindóm til nemenda

Í aðalnámskrá grunnskóla í kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í grunnskóla eru sett fram markmið til viðmiðunar í kennslu í greininni og er kennslustundafjöldi sem nemendur eiga rétt á skilgreindur í almennum hluta aðalnámskrár. Inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar, í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni og í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims. Grunnskólar geta haft samstarf við kirkjuna um ýmis konar verkefni sem miða að því að ná markmiðum aðalnámskrár grunnskóla en í aðalnámskrá eru skýr ákvæði um að í kennslu felist ekki trúboð heldur fræðsla um kristni, önnur trúarbrögð og siðfræði.  Í markmiðum aðalnámskrár er ekki gert ráð fyrir að fram fari kirkjustarf í grunnskóla í þeim kennslustundum sem ætlaðir eru til kennslu í skyldunámsgreinum enda er það hlutverk viðkomandi kirkju eða trúfélags að annast slíka fræðslu. Aðalnámskráin er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins.
Grunnskólinn er eina skólaskylda skólastigið á Íslandi og er rekstur þess í höndum sveitarfélaga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hins vegar grunnskólum lög, reglugerðir og aðalnámskrár og annast jafnframt eftirlit. Sveitarfélög bera samkvæmt grunnskólalögum ábyrgð á því hvort skólastarf sé í samræmi við lög og reglugerðir. Sveitarfélög og skólarnir sjálfir undir forystu skólastjórnenda, sem samkvænt  grunnskólalögum eru ábyrgir fyrir skólastarfi í sínum skóla vega það og meta í samvinnu við foreldra eða forráðamenn nemenda sinna hvort þeir vilji nýta sér  þjónustu kirkjunnar eða ekki og hvort þeir vilji skapa henni aðstöðu innan veggja skólans. Sveitarfélög og skólarnir þurfa almennt að vega og meta hvaða utanaðkomandi þjónustu þeir þiggja og hvaða aðstaða er veitt innan skólans, enda sé farið að lögum og reglugerðum sem málið varða. Einnig ber skólum að skýra frá því í skólanámskrá skólans og starfsáætlun sem samkvæmt lögum skal lögð fyrir skólanefnd og foreldraráð til umsagnar ár hvert.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum