Hoppa yfir valmynd
12. september 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Talað fyrir íslenskri tónlist í Los Angeles

Íslensk tónlist og tónlistariðnaðurinn á Íslandi voru umræðuefni funda Lilju D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra með einu stærsta tónlistarfyrirtæki veraldar, Universal Music Group (UMG), ásamt því að heimsækja umboðsskrifstofuna Milk & Honey Management, sem fer meðal annars með umboð fyrir listamenn Dua Lipa og Kanye West & umboðsskrifstofuna John Silva Management sem heldur utan um listamenn eins Foo Fighters, Nirvana og Norah Jones.

Kynnti ráðherra meðal annars drög að nýjum lögum og tónlistarstefnu fyrir Ísland sem nýverið var í opnu samráði í Samráðsgátt stjórnvalda og ræddi um áform ríkisstjórnarinnar um að koma á fót nýrri Tónlistarmiðstöð ásamt því að auka verulega framlög í ýmsa sjóði tónlistar. Á fundinum fór ráðherra ásamt fulltrúum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) einnig yfir þann mikla slagkraft sem ríkir í íslensku tónlistarlífi en ýmsir íslenskir listamenn hafa getið sér góðs orðs í Bandaríkjunum og víðar.

Ráðherra kynnti einnig verkefnið Record in Iceland sem hefur það meðal annars að markmiði að laða að erlenda listamenn til landsins til þess að taka upp tónlist. Í gegnum verkefnið býðst þeim 25% endurgreiðsla af framleiðslukostnaði sem fellur til á Íslandi.  

,,Það er skylda mín sem menningarmálaráðherra Íslands að vinna að auknum tækifærum fyrir íslenska listamenn – og þeirri skyldu tek ég alvarlega. Á kjörtímabilinu verður sérstök áhersla lögð á málefni tónlistar með það að markmiði að fleiri geti starfað í fullu starfi við tónlist og að aukin verðmætasköpun raunin. Með markvissum skrefum ætlum við að stórefla umgjörð tónlistar á Íslandi og strax á ári bæta verulega í fjármögnun hennar, til dæmis með hærri framlögum í Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar,’’ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ferð ráðherra til Los Angeles sem skipulögð er af Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum