Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2020 Utanríkisráðuneytið

Sjúkrahús yfirfull í Beirút og slösuðum börnum vísað frá

Frá Beirút. Ljósmynd: Barnaheill - Save the Children - mynd

Talið er að um helmingur bygginga í borginni hafi eyðilagst og um 300 þúsund manns hafi misst heimili sín í sprengingunum í Beirút í gær. Sjúkrahús í borginni eru strax orðin yfirfull og hafa ekki bolmagn til að veita öllum þá læknisaðstoð sem þeir þurfa á að halda. Herinn hefur brugðist við og sent lækna inn á svæðið og sinnt slösuðum á götum borgarinnar.

Í frétt frá Barnaheillum – Save the Children segir að svæðisskrifstofa samtakanna í Beirút sé  í aðeins fimm kílómetra fjarlægð frá upptökum sprenginganna og að skrifstofan hafi orðið fyrir miklum skemmdum. „Viðbragðsteymi Save the Children brást skjótt við og vinnur nú hörðum höndum að því að veita aðstoð við að koma fólki upp úr rústunum,“ segir í fréttinni.

Einn af starfsmönnum Save the Children, Nour Wahid, býr í 10 mínútna fjarlægð frá höfninni þar sem sprengingarnar voru. Hann var staddur heima við ásamt fimm frænkum og frændum sem voru að leika sér úti á svölum þegar sprengingin varð. „Öll börnin öskruðu og hlupu inn þegar byggingin fór að titra og rúður brotnuðu. Allir slösuðust. Við fórum á spítalann, sem var yfirfullur af fólki. Við vorum send heim, því það þurfti að forgangsraða meiðslum,“ sagði hann.

Margir eru alvarlega slasaðir og í dag hafa yfir 100 dauðsföll verið staðfest, en framkvæmdastjóri Save the Children í Líbanon, Jad Sakr, segir að raunveruleg tala látinna mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkra daga.

„Við munum ekki vita hversu margir hafi látist fyrr en eftir nokkra daga. Við vitum að þetta ástand hefur gríðarleg áhrif á börn, þar sem mörg þeirra eru í áfalli, hafa særst eða jafnvel verið skilin að frá foreldrum sínum. Við munum vinna með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og styðja við stjórnvöld í þessum hörmungum. Það er nauðsynlegt að börn og fjölskyldur þeirra fái aðgang að læknis- og sálfræðiaðstoð,“ segir hann.

Sprengingin í Beirút bætir gráu ofan á svart varðandi það slæma ástand sem er í landinu. Samfélagið þjáist af áhrifum Covid-19, efnahagsörðuleikum og pólitískum óróleika. Einnig hefur höfnin í Beirút verið mikilvæg fyrir samfélagið því meirihluti matvæla og eldsneytis hafa komið inn í landið í gegnum hana. Fjölskyldur munu strax finna fyrir skorti á nauðsynjum vegna þessa hörmunga,“ segir Jad Sakr.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira