Nr. 755/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 14. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 755/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23050012
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 3. maí 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 6. nóvember 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 14. desember 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 3. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 17. maí 2023. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda 31. maí 2023. Athugasemdir frá kæranda bárust kærunefnd 27. nóvember 2023.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna mismunar á meðlimum ættbálks sem hann tilheyri og ofsókna af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnar, einkum við trúverðugleikamat hennar. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi lagt of mikla áherslu á að hann hafi ekki lagt fram gögn. Kærandi telur að framburður hans hafi verið í samhengi, trúverðugur og hafi stuðst við almennt þekktar staðreyndir og heimildir um aðstæður í Sómalíu. Þá gerir kærandi athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að misræmis hafi gætt í frásögn hans hvað varði það að hann hafi getað starfað óáreittur í einhvern tíma eftir hótanir Al-Shabaab. Kærandi vísar til þess að samkvæmt fyrirliggjandi heimildum beini Al-Shabaab spjótum sínum sérstaklega að háttsettum aðilum, svo sem umsvifamiklum viðskiptamönnum. Almennir borgarar séu ekki skilgreindir sem skotmörk samtakanna en geti orðið það fari þeir ekki eftir hinni ströngu túlkun Al-Shabaab á íslömskum kennisetningum. Þá telur kærandi að það sé jafnframt ljóst af fyrirliggjandi heimildum að mikil fátækt og atvinnuleysi ríki á Gedo-svæðinu og ljóst sé að Al-Shabaab nýti sér neyð ungra karlmanna á svæðinu til að fá þá til liðs við samtökin, sérstaklega þá sem tilheyri Marehan-ættbálknum sem kærandi tilheyri. Kærandi telur að frásögn hans hafi verið trúverðug sérstaklega í ljósi fyrirliggjandi heimilda, en hann hafi ekki verið sérstakt skotmark Al-Shabaab fyrr en hann hafi orðið umsvifamikill viðskiptamaður og neitað að ganga til liðs við samtökin og með því dregið að sér athygli.
Þá gerir kærandi athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að heimildir um nýliðaskráningu Al-Shabaab á einstaklingum úr Marehan-ættbálknum passi ekki við frásögn hans um að það séu fáir meðlimir ættbálksins sem séu meðlimir í samtökunum. Kærandi bendir á að bókað hafi verið í viðtali hjá Útlendingastofnun að túlkur hafi talið að kærandi hafi ekki skilið spurningu stofnunarinnar um hvort hann tilheyrði minnihlutahópi í heimaríki nægilega vel. Kærandi telur að með vísan til þess sé vafasamt að byggja á að frásögn kæranda fari á mis við fyrirliggjandi heimildir og frásögn hans þar af leiðandi ótrúverðug. Jafnframt gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar þess efnis að heimildir styðji ekki þá frásögn hans að hann hafi verið ofsóttur eða eigi á hættu ofsóknir á grundvelli þess að tilheyra Marehan-ættbálknum. Kærandi hafi greint frá því í viðtali að hafa orðið fyrir mismunun og nefnt í því samhengi að meðlimir ættbálks hans hafi stundum verið sakaðir um að vera njósnarar. Kærandi bendir á að hann hafi ekki verið spurður nánar út í þá mismunun sem hann hafi orðið fyrir eða ásakanir um njósnir. Kærandi telur að ásakanir um njósnir fyrir yfirvöld falli varla undir hugtakið mismunun og því sé vafi uppi um að hann hafi skilið spurninguna nægilega vel.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og samsafni athafna. Kærandi telur að hann tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi í heimaríki þar sem hann hafi neitað að vinna fyrir Al-Shabaab samtökin. Kærandi telur að af fyrirliggjandi heimildum sé ljóst að Al-Shabaab beini spjótum sínum meðal annars að háttsettum aðilum, alþjóðlegum samtökum og umsvifamiklum viðskiptamönnum. Kærandi telur að frásögn hans um ofsóknir Al-Shabaab vegna starfsemi fyrirtækis hans hafi verið trúverðug og þá hafi hann lagt fram gögn sem sanni tilvist fyrirtækisins. Kærandi geti ekki notið verndar stjórnvalda í heimaríki þar sem þau séu ófær um að vernda íbúa landsins gegn ofsóknum Al-Shabaab. Þá vísar kærandi til þess að á þeim svæðum sem Al-Shabaab stjórni banni samtökin ýmiss konar afþreyingar, svo sem kvikmyndir og tónlist. Beini samtökin spjótum sínum einkum að þeim sem sýni af sér vestræna hegðun. Þá telur kærandi að hann tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi þar sem hann tilheyri Marehan-ættbálknum. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geti samsafn athafna verið ofsóknir. Kærandi telur að samsafn athafna eigi við um umsókn hans um alþjóðlega vernd. Kærandi byggir framangreint á því að Sómalía standi frammi fyrir mikilli og alvarlegri mannúðarkreppu og hungursneyð. Þá sé almennt öryggisástand á heimasvæði kæranda ekki gott. Með vísan til framangreinds telur kærandi að ljóst sé að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar hans að þjóðfélagshópi og séu þannig skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga uppfyllt.
Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í heimaríki, auk þess sem almennt öryggisástand þar í landi sé mjög alvarlegt. Kærandi vísar til þess að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til mið-Sómalíu eða suðurhluta landsins, aðallega vegna hernaðaraðgerða af hálfu vopnaðra hópa sem hafi átt sér stað þar lengi. Kærandi telur að fyrirliggjandi heimildir beri með sér að almennt öryggisástand í Sómalíu sé ekki gott, þar á meðal á Gedo-svæðinu. Kærandi telur að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis þar sem hann sé ofsóttur af Al-Shabaab og komi frá hættulegu svæði þar í heimaríki. Þá byggir kærandi á því að hann geti ekki flutt innanlands í heimaríki og verið öruggur. Þá eigi kærandi ekki fjölskyldumeðlimi annars staðar í heimaríki.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu einkum á því að hann muni búa við afar erfiðar almennar og félagslegar aðstæður í heimaríki verði honum gert að snúa þangað aftur. Kærandi telur að heimildir um aðstæður í Sómalíu sýni fram á að ljóst sé að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað þar í landi og geti yfirvöld ekki veitt þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Þá sé Sómalía á barmi hungursneyðar og mannúðarkreppu. Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda í heimaríki megi flokka sem erfiðar aðstæður. Þá telur kærandi að fyrirliggjandi heimildir um aðstæður í Sómalíu beri með sér að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður þar í landi. Kærandi telur að hann muni eiga afar erfitt uppdráttar í heimaríki verði honum gert að snúa þangað.
Þá telur kærandi að með endursendingu hans til Sómalíu yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sufi og Elmi gegn Bretlandi ((nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011).
Að lokum telur kærandi að Útlendingastofnun hafi beitt lögum nr. 136/2022 um landamæri með afturvirkum hætti. Lögin hafi tekið gildi 10. janúar 2023 en kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd 6. nóvember 2022, fyrir gildistöku laganna. Fallist kærunefnd ekki á að framangreindum lögum hafi verið beitt afturvirkt í máli kæranda byggir kærandi á því að um ósanngjarna ráðstöfun sé að ræða að brottvísa honum. Ráðstöfunin skerði ferðafrelsi kæranda óhóflega og hindri hann í því að heimsækja landið og rækta tengsl þau sem hann hafi myndað hér á landi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á honum deili. Þar sem kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti hafi verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Hinn 20. desember 2022 var kærandi látinn þreyta tungumála- og staðháttarpróf. Í prófinu hafi mállýska kæranda verið borin saman við þá mállýsku sem einkennandi sé fyrir þá einstaklinga sem komi frá sama svæði og kærandi kvaðst vera frá. Niðurstöður prófsins voru á þá leið að kærandi hlaut +1 í einkunn. Var talið að mállýska kæranda væri frekar líklegri en ekki í samræmi við þá mállýsku sem væri einkennandi fyrir talsmáta þeirra einstaklinga sem kæmu frá sama svæði og kærandi kvaðst koma frá. Þá hefðu niðurstöður prófsins og svör kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun sýnt fram á að hann hefði ágæta kunnáttu á staðháttum [...]. Með vísan til framangreinds taldi Útlendingastofnun ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi væri ríkisborgari Sómalíu og ætti uppruna sinn að rekja til [...], í [...] umdæmi á Gedo landsvæðinu. Af ákvörðun Útlendingastofnunar má ráða að lagt hafi verið til grundvallar við úrlausn máls kæranda að [...] væri heimasvæði hans.
Kærunefnd telur ekki forsendur til annars en að leggja framangreint mat Útlendingastofnunar um ríkisfang kæranda og heimasvæði til grundvallar. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óþekkt.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
-
2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
-
2022 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
-
2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
-
Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
-
BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
-
Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
-
Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
-
Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
-
Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
-
Country Guidance: Somalia (EUAA, 11. ágúst 2023);
-
Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
-
Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
-
Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, 1. janúar 2019);
-
Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
-
Country Reports on Terrorism 2021 – Somalia (US Department of State, 28. mars 2023);
-
DFAT Country Information Report - Somalia (Australian Department of Foreign Affairs and Trade, 13. júní 2017);
-
EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
-
EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
-
Freedom in the World 2023 – Somalia (Freedom House, 2023);
-
Heightened Political Violence in Somalia (ACLED, 3. mars 2023);
-
International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
-
Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
-
Query response on Somalia: Al-Shabaab (2021 - March 2023) (leadership, objectives, structure; recruitment; areas of operation and activities; financing; attacks; targets; capacity to track individuals; state response) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. mars 2023);
-
Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
-
Safety and Security in Mogadishu – A Research Note (Tana Copenhagen, 6. mars 2023);
-
Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
-
Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
-
Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
-
Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
-
Somalia: Al-Shabaab Regains Lost Territories as Tax Dispute Halts Counter-Insurgency Operation (ACLED, 2. júní 2023);
-
Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
-
Somalia: Basisinfo (Landinfo, 29. September 2023);
-
Somalia: Counter-Insurgency Operation Gains Regional Support in Phase Two as al-Shabaab Attacks and Political Differences Persist (ACLED, 21. apríl 2023);
-
Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
-
Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
-
Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
-
Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
-
Somalia. Key crises to watch in 2023 (Acaps, 14. apríl 2023);
-
Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
-
Somalia – Rekruttering til al-Shabaab (Landinfo, 17. október 2022);
-
Somalia – Reaksjoner mot personer mistankes for tilknytning til al-Shabaab (Landinfo, 2. desember 2022);
-
Somalia – Reaksjoner mot al-Shabaab avhoppere (Landinfo, 20. júní 2023);
-
Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
-
Somalia – Security situation update (EUAA, 25. apríl 2023):
-
Somalia Situation Update: April 2023 (ACLED, 21. apríl 2023);
-
Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
-
Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
-
Somalia. COI Query. Security situation update, 1 December 2022 to 14 April 2023 (EUAA, 25. apríl 2023);
-
South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
-
South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
-
The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 1. ágúst 2023);
-
UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
-
UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
-
Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
-
Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021) og
-
World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).
Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum 1. júlí 1960. Hinn 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.
Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 bera hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hafi hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.
Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna.
Fram kemur í skýrslu EUAA frá júní 2022 að Al-Shabaab séu sómölsk herská samtök íslamskra súnní-salafi jihadista sem hafi orðið til upp úr síðustu aldamótum. Sameiginleg hugmyndafræði samtakanna sé að berjast á móti ríkisstjórn landsins sem sé studd af vestrænum öflum. Hafi samtökin áður fyrr farið með yfirráð yfir Mógadisjú en hafi með hervaldi verið þröngvað í burtu frá helstu þéttbýliskjörnum borgarinnar. Samtökin stjórni í reynd svæðum við Juba og Shabelle-dali, svæðum í kringum Harardhere, El Dher og El Buur í mið-Sómalíu og stórum hluta af landsvæðum annars staðar í landinu. Til að fjármagna samtökin haldi þau úti skattheimtu við eftirlitsstöðvar, kúgi fé af fyrirtækjum, leggi á innflutningsskatt í helstu höfnum og á fasteignafélög. Þá skattleggi samtökin einnig búfé, landbúnaðarafurðir og áveitu, auk þess að innheimta svonefnt zakat sem sé árleg trúarleg skylda til að greiða tiltekið hlutfall af auði einstaklings til fátækra. Þá skattleggi Al-Shabaab embættismenn sem láti samtökunum eftir hluta af launum sínum til að verða ekki skotmark þeirra. Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 kemur meðal annars fram að Al-Shabaab hafi bannað fyrirtækjum að veita aðgang að internetinu og hafi neytt fjarskiptafyrirtæki til að leggja niður gagnaþjónustu á svæðum undir stjórn þeirra stjórn.
Í skýrslu Landinfo frá október 2022 er fjallað um nýliðunaraðferðir Al-Shabaab samtakanna. Fram kemur í skýrslunni að Al-Shabaab samtökin noti ýmsar aðferðir til að ráða hermenn og stuðningsmenn. Séu aðferðir við ráðningar mismunandi eftir tíma og stað og endurspegli hernaðarþarfir hópsins sem og hver styrkur samtakanna sé gegn hersveitum ættbálka og öðrum sem séu tryggir yfirvöldum. Landinfo greinir frá því í skýrslunni að heimildir gefi til kynna að samtökin reyni aðallega að fá unglinga og unga karlmenn til liðs við þau á svæðum þar sem samtökin hafi ákveðna stjórn á eða eru virk. Í borgum undir stjórn stjórnvalda, þar sem Al-Shabaab sé ekki með virka starfsemi reyni samtökin síður að ráða nýja meðlimi. Fari nýliðun í þeim borgum í gegnum fjölmiðlarásir samtakanna og samfélagsmiðla. Þá kemur fram í skýrslunni að þvingaðar ráðningar eigi sér stað en séu mjög sjaldgæfar og eigi sér þá aðallega stað þegar samtökin hafa orðið fyrir hernaðarlegu- eða efnahagslegu tjóni og séu örvæningarfull í að fá nýliða. Í skýrslunni er vísað til þess að samkvæmt rannsóknum um atferli Al-Shabaab samtakanna séu þvingaðar ráðningar dýrkeypt ráðningarferli. Hafi rannsakendur bent á það að óbreyttir borgarar sem þvingaðir séu til liðs við samtökin séu lélegir hermenn þar sem hvatinn til að taka þátt í bardaga sé litill og líkurnar á því að þeir gerist liðhlaupar séu miklar. Þá sé hætta á því að á þeim svæðum þar sem margir séu þvingaðir til liðs við samtökin gefi heimamönnum þess svæðis ástæðu til að starfa með yfirvöldum.
Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Rahanweyn sé sameiginlegt heiti yfir ættbálkana Digil og Mirifle sem í stigskiptingunni séu staðsettir á milli ráðandi ættbálka og minnihlutahópa en séu taldir til ríkjandi ættbálka í Suður-Sómalíu. Samkvæmt skýrslunni séu þeir ættbálkar sem séu í minnihluta í Sómalíu; Bantu/Jareer Bravense, Rerhamar, Bajuni, Eeyle, Jaaji/Reer Maanyo, Barawani, Galgala, Tumaal, Yibir/Yibron og Midgan/Gaboye. Það að tilheyra ættbálki sem sé í minnihluta leiði þó ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur sé í hættu á að verða fyrir ofsóknum.
Sómalía skiptist í sex fylki; ríkisfylkið Puntland í norðaustur, ríkisfylkið Galmadug fylki í mið-Sómalíu, ríkisfylkið Jubaland í suðurhluta Sómalíu, suðvestur-fylki og Hirsabelle-fylki. Þá eru innan Sómalíu 18 stjórnsýslusvæði og 72 undirsvæði. Stjórnsýslusvæðin eru eftirfarandi: Awdal, Bakool, Banaadir, Bari, Bay, Galguduud, Gedo, Hiiraan, Jubbada Dhexe (Mið-Jubba), Jubbada Hoose (Neðri-Jubba), Mudug, Nugaal, Sanaag, Shabeellaha Dhexe (mið-Shabeelle), Shabeellaha Hoose (neðri-Shabeelle), Sool, Togdheer, Woqooyi Galbeed.
Gedo stjórnsýslusvæðið er staðsett í Jubaland og er höfuðborg svæðisins Garbahaareey. Í skýrslu EUAA frá ágúst 2023 um aðstæður í Sómalíu kemur fram að ættbálkasamsetning Gedo sé fjölbreytt en stærsta, pólitíska og hernaðarlega öflugasta ættin sé Marehan (Darood), sem sé um helmingur eða meira af heildarfjölda íbúa svæðisins. Rahanweyn (eða Digil-Mirifle) ættine sé ríkjandi í dreifbýli á austurbakkanum en Hawiye ættir séu einnig til staðar. Þá kemur fram að Marehan ættbálkurinn sé sundraður á svæðinu vegna annað hvort hollustu meðlima hans eða andstöðu við Al-Shabaab, sem hafi viðveru á svæðinu og fái inn í samtökin meðlimi úr ættbálknum.
Þá kemur fram í skýrslunni að vegna staðsetningar á landamærum Kenýa og Eþíópíu sé Gedo-svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir Al-Shabaab. Frá og með nóvember 2022 hafi Al-Shabaab haft yfirráð yfir hluta Gedo-svæðisins í og við Cows Qurun í norðvesturhlutanum sem liggi að Kenýa og í og við borgina Ceel Adde (eða El Adde) í miðhlutanum, auk flestra svæða sem liggi að Mið-Júbba. Á norðurhluta svæðisins var eftirlit með svæðinu í kringum Luuq upp að landamærasvæðum Kenýa, Eþíópíu, Bay og Bakool samkvæmt heimildum blandað eða óljóst. Samkvæmt heimildum hafi sómalskar öryggissveitir náð yfirráðum yfir herstöðvum Al-Shabaab í Doolow og Luuq bæjum í júlí 2022. Þá hafi Al-Shabaab í október 2022 staðið frammi fyrir stærstu sókn undanfarinna ára af hálfu hersveita Sómalíu og ATMIS/AMISOM þegar samtökin hafi misst yfirráð yfir landsvæðum á Gedo-svæðinu. Þá kemur fram að ACLED hafi skráð 134 öryggisatvik (að meðaltali 1,8 öryggisatvik á viku) á Gedo svæðinu á milli 1. júlí 2021 og 30. nóvember 2022. Af þessum atvikum hafi 57 atvik verð skráð sem „bardagar“, 55 sem „sprengingar/fjarvígt ofbeldi“ og 22 sem „ofbeldi gegn óbreyttum borgurum“. Á tímabilinu 1. desember 2022 til 14. apríl 2023 voru skráð 22 öryggisatvik í Gedo. Að mati EUAA þá eigi ofbeldi/átök sér sér stað á Gedo-svæðinu þar sem ekki er greint á milli borgaralegra og hernaðarlegra skotmarka, en þó ekki á háu stigi. Samkvæmt því þurfi einstaklingsbundnir þættir að sýna fram á verulega auknar ástæður til að ætla að óbreyttur borgari, sem snúi aftur til svæðisins, muni búa við raunverulega hættu á alvarlegum skaða.
Í framangreindum gögnum, m.a. skýrslu danskra útlendingayfirvalda frá árinu 2020, kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab þar sem þau hafi myrt vin hans og meðeiganda að fyrirtæki vegna þess að þeir hafi neitað að starfa með samtökunum. Kærandi telur að hann tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi í heimaríki þar sem hann hafi neitað að vinna fyrir Al-Shabaab hryðjuverkasamtökin. Í greinargerð er vísað til þess að af fyrirliggjandi heimildum sé ljóst að Al-Shabaab beini spjótum sínum meðal annars að háttsettum aðilum, alþjóðlegum samtökum og umsvifamiklum viðskiptamönnum.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurriti af viðtali hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hefði engin gögn lagt fram sem sýnt gætu fram á að hann byggi við ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu, svo sem af hálfu Al-Shabaab eða annarra aðila. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir eða ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum í heimaríki sínu og sá hluti frásagnar hans því ekki lagður til grundvallar í málinu. Þá var það mat Útlendingastofnunar að ákveðins misræmis hefði gætt í frásögn kæranda hvað varðaði þrýsting frá Al-Shabaab um að hann starfaði með samtökunum. Vísaði stofnunin til þess að kærandi og meðeigandi fyrirtækisins hafi getað stækkað fyrirtækið óáreittir í einhvern tíma og ráðið til sín starfsmenn þrátt fyrir meintar hótanir. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn eða annað sem sýndu fram á að hann hefði rekið fyrirtæki með þeirri starfsemi sem hann hafi haldið fram og haft það aðgengi að heimilum fólks sem hann hafi greint frá að væri eftirsóknarverð hjá Al-Shabaab. Taldi Útlendingastofnun að kæranda ætti að geta lagt fram gögn um starfsemi fyrirtækis hans sem hann kvaðst eiga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kæranda hefði ekki tekist að sýna fram á það að hann hefði verið ofsóttur eða ætti á hættu ofsóknir eða sætti mismunun á grundvelli þess að hann tilheyri Marehan ættbálknum og Reer Ahmed undirættbálknum.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa stofnað fyrirtæki með vini sínum. Starfsemi fyrirtækisins hafi falist í því að tengja heimili við kapalútsendingar og selja viðskiptavinum mynddiska. Kærandi greindi frá því að á fyrsta ári starfseminnar hafi allt gengið vel en síðan hafi þeir byrjað að fá hótanir símleiðis frá meðlimum Al-Shabaab sem hafi sagt þeim að hætta starfseminni þar sem hún væri slæm fyrir trúna og samfélagið. Eftir það hafi kærandi og vinur hans stækkað fyrirtækið og ráðið inn marga starfsmenn. Eftir nokkurn tíma hafi þeir fengið símtöl frá meðlimum Al-Shabaab sem hafi spurt þá hvort þeir vildu starfa með þeim en kærandi og vinur hans hafi neitað. Í kjölfarið hafi meðlimir Al-Shabaab sakað kæranda og vin hans um að vinna með stjórnvöldum og að tekin hefði verið ákvörðun um að drepa þá ef þeir myndu ekki starfa með samtökunum. Einn daginn þegar kærandi hafi verið að innheimta skuldir hjá viðskiptavinum hafi hann fengið símtal þess efnis að vinur hans hefði verið skotinn til bana fyrir framan skrifstofu þeirra. Þegar kærandi og vinir hans hafi verið að jarða hinn látna hafi hann fengið símtal frá einstaklingum úr Al-Shabaab hópnum sem hafi tjáð honum að hann yrði næstur. Frændi kæranda hafi heyrt símtalið og sagt við hann að hann gæti ekki verið þarna lengur og að hann myndi hjálpa til við að koma kæranda úr landi. Aðspurður í viðtalinu kvaðst kærandi hafa byrjað að fá símtöl frá Al-Shabaab fimm mánuðum eftir að fyrirtækið hafi hafið starfsemi. Aðspurður um hvenær það hafi verið kvað kærandi það hafa byrjað árið 2021 en hann myndi ekki nákvæmlega hvaða mánuð. Aðspurður um hvenær vinur hans hafi verið myrtur taldi kærandi það hafi gerst 30. nóvember 2021 eða þar um bil. Kærandi kvaðst hafa yfirgefið heimaríki í desember 2021. Kærandi kvað fyrirtækið heita [...]. Kærandi kvað vin sinn hafa heitið [...]. Kærandi kvað lögregluna hafa tjáð sér að hún gæti ekki gert neitt þar sem að það hafi verið Al-Shabaab sem hafi myrt hann.
Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram gögn til stuðnings tilvistar fyrirtækis sem hann kveðst hafa rekið í Sómalíu. Um er að ræða afrit af tveimur vottorðum á ensku sem bæði eru dagsett 15. desember 2018. Annars vegar vottorð með titilinn „Certificate of share holders“, og hins vegar vottorð með titilinn „registration of [...]“. Á fyrrnefnda vottorðinu kemur fram að það votti að [...] sé eigandi 250 hluta [...], sé hluturinn 100 dollara virði. Þá kemur fram að framsal hlutabréfa verði að fara fram í samræmi við MOA/AOA, aðra samninga félagsins og skráð í bækur félagsins. Undir vottorðin eru stimplaðar kvittanir tveggja einstaklinga með nöfnunum [...], titlaður formaður, og [...], titlaður framkvæmdastjóri stjórnar fyrirtækisins.
Að mati kærunefndar voru upplýsingar í framangreindum gögnum verulega á skjön við frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun af stofnun og stærð meints fyrirtækis. Líkt og rakið hefur verið greindi kærandi frá því í viðtalinu í fyrstu að hann og vinur hans hafi getað rekið fyrirtækið í ár áður en þeir fengu hótanir og síðar í viðtalinu greindi hann frá því að hótanirnar hafi byrjað fimm mánuðum eftir stofnun fyrirtækisins. Þá greindi hann aðspurður frá því að fyrirtækið hafi verið stofnað árið 2021. Framangreind vottorð um fyrirtækið gefa hins vegar til kynna að það hafi fengið skráningu 15. desember 2018, eða einhverjum þremur árum áður. Þá var ekki annað hægt að ráða af framburði kæranda í viðtalinu en að um væri að ræða lítið fyrirtæki í eigu hans og vinar hans en ekki hlutafélag með formanni og framkvæmdastjóra stjórnar líkt og framlögð vottorð bera með sér. Í ljósi hinna nýju upplýsinga óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar 22. nóvember 2023 var athygli kæranda vakin á því að bæði vottorðin væru dagsett 15. desember 2018 sem kæmi ekki heim og saman við frásögn kæranda um að hann hafi stofnað umrætt fyrirtæki árið 2021. Þá kæmi fram á því vottorði sem bæri með sér að eiga að vera skráningarskírteini að skráningin væri aðeins gild í ár frá útgáfudegi. Var kærandi spurður að því hvort hann gæti lagt fram nýrra skráningarskírteini. Þá var kærandi spurður að því hvers vegna hann hefði ekki lagt fram framangreind gögn við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og jafnframt hvort hann gæti lagt fram frumrit þeirra. Jafnframt var óskað eftir svörum kæranda við því hvers vegna vottorðin væru bæði á ensku í ljósi þess að samkvæmt gögnum málsins talaði kærandi afar litla ensku. Þá var vísað til þess að af öðru vottorðinu mætti ráða að meint fyrirtæki væri hlutafélag á opnum markaði og að hann ætti 250 hluti í því fyrirtæki. Þá væri skírteinið undirritað af tveimur einstaklingum sem titlaðir væru formaður og framkvæmdastjóri stjórnar fyrirtækisins. Af frásögn kæranda yrði hins vegar ráðið að um lítið fyrirtæki í eigu hans og vinar hans væri að ræða og væri framlagt skírteini því í engu samræmi við frásögn kæranda. Var óskað eftir skýringum á framangreindu misræmi.
Hinn 27. nóvember 2023 bárust kærunefnd svör frá kæranda. Í svörunum kom fram að kærandi hafi ætlað að reyna að leggja fram nýrri skráningarskírteini. Kærandi kvað ástæðuna fyrir því að skráningarskírteini væri dagsett árið 2018 væri sökum þess að hann og vinur hans hafi reynt að stofna fyrirtækið árið 2018. Þeir hafi beðið um leyfi frá sveitarfélaginu árið 2018 en þurft að bíða í nokkur ár eftir leyfinu, meðal annars vegna þess að ný sveitarstjórn hafi verið kosin sem hafi hægt á málinu. Kærandi kvað starfsemi fyrirtækisins hafa byrjað árið 2021. Kærandi vísaði til þess að við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hafi hann einbeitt sér að því að sanna auðkenni sitt og því hafi hann lagt þar fram ljósmyndir af sér og börnum sínum. Kærandi kvað skilning sinn ekki góðan á því hvaða gögn hefðu verið nauðsynleg en hann hafi svo talað við eiginkonu sína eftir að hafa fengið synjun frá Útlendingastofnun og beðið hana um að reyna að finna einhver gögn um fyrirtækið sem hún hafi svo sent honum. Kærandi kvað það vera erfitt fyrir eiginkonu hans að senda frumritin þar sem hún byggi í þorpi í dreifbýli en hann kvaðst ætla að tala við hana um það. Kærandi kvað þá einstaklinga sem hafi ritað undir annað vottorðið hafa verið nauðsynleg vitni að stofnun fyrirtækisins og hafi því fengið umrædda titla í fyrirtækinu án þess að inna af hendi vinnu í því. Kvaðst kærandi hafa átt 250 hluti í fyrirtækinu og vin hans hafa átt 250.
Kærandi hefur ekki lagt fram frumrit af framangreindum gögnum. Þar sem aðeins er um afrit að ræða er ekki hægt að meta trúverðugleika þeirra. Þá er það mat kærunefndar að innihald þeirra samræmist ekki frásögn kæranda sem hann gaf í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá má sjá að vottorðin eru einföld af allri gerð og ekki traustvekjandi. Hafa gögnin því takmarkaða þýðingu í málinu. Þá er það mat kærunefndar að skýringar kæranda á tímalínu starfsemi fyrirtækisins séu ótrúverðugar og ber einnig að líta til þess að innra misræmi var í frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun um þann tíma sem leið frá stofnun fyrirtækisins og meint áreiti Al-Shabaab, en annars vegar kvað hann hótanir hafa byrjað að berast ár eftir stofnun þess og síðar í viðtali fimm mánuðum eftir stofnun þess. Að mati kærunefndar er um að ræða kjarna í frásögn kæranda sem hægt er gera ráð fyrir að hann ætti að vera staðfastur um.
Til stuðnings frásögn sinni um eignarhald á meintu fyrirtæki hefur kærandi einnig lagt fram átta ljósmyndir. Á einni ljósmyndinni má sjá baksvip tveggja einstaklinga að störfum uppi í mastri og hinar sjö myndirnar eru af rafmagnstöflu og ýmsum tölvubúnaði. Að mati kærunefndar sýnir ekkert á framlögðum ljósmyndum fram á tilvist fyrirtækis að nafni [...] sem kærandi kveðst eiga eða hafa átt í heimaríki.
Hinn 8. desember 2023 lagði kærandi fram afrit af skjali sem ber með sér að eiga vera skráningarskírteini um meint fyrirtæki. Vottorðið ber titilinn „Registration of [...].“ og er dagsett 20. apríl 2021. Fram kemur að vottað sé skráningarleyfi [...]fyrirtækisins með gildistíma frá 20. apríl 2021 til 19. apríl 2026. Þar sem aðeins er um afrit að ræða er ekki hægt að sannreyna trúverðugleika þess. Þá er ljóst að vottorðið er sett upp í tölvu og vatnsmerki, stimpill og auðkennismerki eru límd inn á skjalið, auk þess sem undirskrift er ekki skrifuð með penna heldur er um að ræða undirskrift gerða í tölvuforritinu. Er skjalið því ótraustvekjandi og ekki til þess fallið að styðja við frásögn kæranda.
Að mati kærunefndar hefur málatilbúnaður kæranda verið óljós um atburðarás og meint áreiti Al-Shabaab samtakanna. Þá renna framlögð gögn ekki frekari stoðum undir hann, heldur þvert á móti draga úr trúverðugleika frásagnarinnar, og þá eru skýringar kæranda á misræmi í frásögn og á nýjum upplýsingum í framlögðum gögnum að mati kærunefndar ótrúverðugar. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða kærunefndar að frásögn kæranda um eignarhald á tilgreindu fyrirtæki og ofsóknir af hálfu meðlima Al-Shabaab tengdu því eignarhaldi sé ótrúverðug og verður hún ekki lögð til grundvallar í málinu.
Í greinargerð kæranda er meðal annars gerð athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að heimildir styðji ekki þá frásögn hans að hann hafi verið ofsóttur eða eigi á hættu ofsóknir á grundvelli þess að tilheyra Marehan-ættbálknum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að meðlimir annarra ættbálka sem byggju á svæðinu ættu það til að saka meðlimi Marehan-ættbálksins um að njósna fyrir stjórnvöld.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að Marehan ættbálkurinn sé að mestu staðsettur í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslunni kemur fram að ólíklegt sé að einstaklingar sem tilheyri meirihlutaættbálki í landinu eða undirættbálki geti sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir við endurkomu til Sómalíu á þeim grundvelli einum að tilheyra þeim hópi. Þá kemur fram í skýrslu EUAA frá ágúst 2023 að Marehan ættbálkurinn sé stærsti pólitíski og hernaðarlega öflugasti ættbálkurinn á Gedo-svæðinu og sé um helmingur eða meira af heildarfjölda íbúa svæðisins. Þá segir ennfremur að heimildir sýni að sundrung sé á milli meðlima ættbálksins, sem annað hvort eru hliðhollir Al-Shabaab eða andstæðir samtökunum. Með vísan til framangreindra heimildar er að mati kærunefndar ekki hægt að útiloka að kærandi kunni að hafa orðið fyrir áreiti á grundvelli þess að tilheyra Marehan-ættbálknum, hins vegar hefur kærandi ekki lýst atvikum sem benda til þess að hann hafi sætt meðferð vegna aðildar sinnar að ættbálknum sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Kærandi bar ekki fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki hans sem hafi eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lögð til grundvallar frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að Marehan-ættbálknum eða að hann sé sérstakt skotmark Al-Shabaab vegna þess að hann hafi átt fyrirtæki og neitað að starfa með samtökunum. Af framangreindum heimildum, s.s. skýrslu EUAA frá ágúst 2023 og upplýsingum af vefsíðu Political Geography Now, má ráða að Gedo-svæðið í Sómalíu sé undir stjórn ATMIS eða sómalskra stjórnvalda og hafi verið það síðustu ár. Þrátt fyrir óstöðugt ástand á svæðinu þá sé ekki ástæða til að ætla að hver sem þar sé staddur eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Með vísan til trúverðugleikamats er ekki tilefni til að ætla að sérstakar aðstæður kæranda leiði til þess að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð snúi hann til baka.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi byggir á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd vegna félagslegra aðstæðna hans í heimaríki sínu. Kærandi byggir á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki og að hann muni eiga erfitt uppdráttar þar.
Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.
Af gögnum málsins má ráða að kærandi, sem er tæplega þrítugur maður, sé almennt heilsuhraustur og vinnufær. Þá má af gögnum málsins ráða að hann eigi fjölskyldumeðlimi og kunningja í heimaríki og tilheyri stórum ættbálki á heimasvæði sínu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að nánar tilteknum skilyrðum. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 6. nóvember 2022 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til athugasemda kæranda að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 6. nóvember 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
Með bréfi Útlendingastofnunar 1. febrúar 2023 var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum frá Íslandi og ákvarða endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Með bréfi til Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2023, voru lögð fram andmæli við brottvísun og endurkomubanni. Var meðal annars haldið fram að beiting brottvísunar fæli í sér afturvirkni. Hvað framangreinda málsástæðu varðar tekur kærunefnd fram að í lögum um landamæri nr. 136/2022 kemur ekki annað fram en að lögin taki þegar gildi. Lögin voru undirrituð af forseta Íslands 28. desember 2022 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 9. janúar 2023 og höfðu því tekið gildi þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Kærandi var upplýstur um lagabreytinguna og gefið færi á að koma að andmælum við mögulegri brottvísun. Verður því ekki fallist á málsástæðu kæranda um að óheimilt hafi verið að ákvarða í máli hans í samræmi við lagabreytinguna. Þá kom fram í andmælum kæranda að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann yrði mjög íþyngjandi fyrir hann, enda hefði hann búið hér á landi í nokkra mánuði og myndað félagsleg tengsl. Slík ákvörðun myndi binda enda á fyrirhugaðar heimsóknir til landsins og myndi skerða ferðafrelsi hans óhóflega. Þá vísaði kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laganna.
Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.
Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir