Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 7/2014, úrskurður 10. febrúar 2014

Mál nr. 7/2014
Eiginnafn: Cathinca

Hinn 10. febrúar kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 7/2014 en erindið barst nefndinni 3. febrúar.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Cathinca (kvk.) með th getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls en samkvæmt þeim væri rétt að rita þ, t, eða d allt eftir því hljóði sem þarf að tákna. Bókstafurinn c er ekki í íslensku stafrófi. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.      Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár ber ein kona nafnið sem eiginnafn í þjóðskrá og ein kona ber nafnið sem millinafn í þjóðskrá. Eiginnafnið Cathinca kemur fyrir í þremur manntölum, frá 1890, 1901 og 1910. Það telst því vera hefð fyrir rithættinum Cathinca.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Cathinca (kvk.) er samþykkt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum