Hoppa yfir valmynd
31. október 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Smiðjur sem efla tæknilæsi og kveikja sköpunarkraft

 Frá heimsókn Lilju Alfreðsdóttur í Fab Lab smiðjuna í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum - mynd
Unnið er að markvissari uppbyggingu á stafrænum smiðjum hér á landi. Slíkar smiðjur, kenndar við Fab Lab (e. Fabrication Laboratory) eru nú átta talsins og var sú fyrsta stofnuð í Vestmannaeyjum 2007. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti smiðjuna í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum á dögunum og kynnti sér hvernig nemendur og bæjarbúar þar nota sér hana.

„Stafrænar smiðjur gefa ungum sem öldnum tækifæri til að hanna, móta og framleiða með aðstoð stafrænnar tækni. Fab Lab smiðjurnar næra þannig sköpunargáfu, sköpunargleði og sköpunarfærni og hjálpa fólki að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd,“ sagði Frosti Gíslason verkefnastjóri Fab Lab hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem tók á móti ráðherra og kynnti starfsemina.

Meðal þess sem unnið er með í smiðjunni í Vestmannaeyjum um þessar mundir er margskonar hönnun og þróun frumgerða, til dæmis af nýjum hljóðfærum og búnaði sem miðar að því að bæta aðgengi og lífsgæði fatlaðra.

„Stafrænar smiðjur eru vel til þess fallnar að efla hæfni ungmenna í raungreinum; vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Slík hæfni er grundvöllur þess að okkur takist að styrkja innviði þjóðfélagsins og þróa hér atvinnulíf til framtíðar sem er samkeppnishæft í alþjóðlegu umhverfi. Það er bæði hvetjandi og spennandi að fá aðgang að stafrænni framleiðslutækni sem gerir fólki kleift að þróa áþreifanlegar lausnir – það er aldrei að vita nema næsta tól eða tækni sem mun auðvelda okkur lífið eigi uppruna sinn í svona smiðju,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Unnið er að mótun tillagna um stafrænar smiðjur í tengslum þingsályktunar þar að lútandi, í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum