Hoppa yfir valmynd
4. maí 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla um starfsemi WHO á Alþingi

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi skýrslu sína um starfsemi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Í skýrslunni er greint frá helstu þáttum í starfsemi samtakanna á árinu sem leið sem var viðburðaríkt m.a. vegna náttúrhamfara og smitsjúkdóma. Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, gegndi formennskuembætti í framkvæmdastjórn WHO á liðnu ári og átti þannig ríkan þátt í að móta viðbrögð og aðgerðir alþjóðasamtakanna vegna atburða sem urðu á árinu. Í skýrslunni kemur þetta meðal annars fram: “Davíð Á. Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, flutti ræðu fyrir hönd stjórnarinnar og gerði grein fyrir áherslum hennar á liðnu starfsári. Davíð fjallaði sérstaklega um hörmungarnar sem urðu við Indlandshaf þegar flóðbylgja skall þar á í kjölfar neðansjávarjarðskjálfta annan í jólum, en hann setti stuttu fyrir þingið ráðstefnu um afleiðingar og uppbyggingu á flóðasvæðunum í Phuket fyrir hönd WHO. Davíð sagði þörfina mikla fyrir alþjóðlegt viðvörunarkerfi gegn hamförum. Einnig væri vert að skoða hvort hægt væri að einfalda og flýta fyrir aðstoð. Það hefði tekið mjög langan tíma vegna pappírsvinnu fyrir stjórnvöld að þiggja aðstoð og svo enn meiri tíma og pappírsvinnu að veita aðstoðina við þau lönd sem urðu fyrir flóðbylgjunni.
   Að lokum minntist Davíð á að framkvæmdastjórnin hefði sótt málstofu á Íslandi í desember 2004. Þar hefði stjórninni verið gefinn kostur á að ræða opinskátt við dr. Lee og stjórn hans um framtíðarsýn í heilbrigðismálum.” Kjörtímabili Davíðs Á. Gunnarssonar í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar lýkur í maílok 2006.

 

Sjá nánar á vefsíðu Alþingis: http://www.althingi.is/altext/132/s/1255.html

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum