Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 558/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 558/2022

Miðvikudaginn 22. febrúar 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 30. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 31. ágúst 2022 um að vísa frá beiðni kæranda um framlengingu samþykktar á greiðsluþátttöku í kostnaði við tannréttingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 28. apríl 2022, var gildistími samþykktar Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga kæranda framlengdur til 1. september 2022. Fram kom í bréfinu að eftir þann tíma félli niður greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við tannréttingar kæranda. Með umsókn, dags. 28. ágúst 2022, var sótt um framlengingu á samþykkt Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku vegna tannréttinga kæranda. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2022, vísuðu Sjúkratryggingar Íslands þeirri beiðni frá, með vísan til fyrri bréfa.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 2. desember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. desember 2022, barst greinargerð stofnunarinnar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2022, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda og óskað eftir afstöðu hans til greinargerðarinnar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. desember 2022, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. desember 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Sjúkratrygginga Íslands um áframhaldandi greiðsluþátttöku verði felld úr gildi og að málinu verði vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Jafnframt fari kærandi fram á að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í öllum kostnaði sem út af standi þar til tann- og gómréttingarferli kæranda hjá Tannlæknastofu B sé lokið sem sé kostnaður að upphæð kr. 490.272.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann sé fæddur með alvarlegan fæðingargalla, skarð í vör og klofinn góm og hafi verið í nær stöðugu tann- og gómréttingarferli síðastliðin X ár. Hingað til hafi vandi hans fallið undir 14. gr. og 15. gr. IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í bréfi frá C, dags. 31. ágúst 2022, hafi umsókn kæranda um að ljúka því sem eftir væri af ferlinu hins vegar verið vísað frá. Í frávísuninni sé vitnað til bréfa sem kæranda hafi verið send frá stofnuninni, dags. 8. apríl 2022 og 30. júní 2022.

Kærandi eigi erfitt með að trúa öðru en að úrskurður C tryggingayfirtannlæknis, fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands, sé á misskilningi byggður og kæri hann því framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í rökstuðningi sem fylgdi kæru færir kærandi rök fyrir því hvers vegna Sjúkratryggingar Íslands ættu að framlengja gildistíma samþykktar og bendir á að B tannréttingasérfræðingur hans hafi staðfest að ferlinu myndi ljúka í desember 2022.

Kærandi hafi með tölvuskeyti til Sjúkratrygginga Íslands þann 4. október 2022 óskað eftir að fá aðgang að öllum gögnum, formlegum og óformlegum, svo sem vinnuskjölum, minnisblöðum, sérfræðingsálitum og fleira er varði ákvarðanir sem honum hafi verið birtar í þremur mismunandi bréfum, upplýsingum um allar ákvarðanir, umsagnir, niðurstöður og önnur gögn er styðji við mat þeirrar sérstöku fagnefndar er C tryggingayfirtannlæknir vísi til í bréfi, dags. 30. júní 2022, og skýrum svörum um forsendur umrædds mats. Kærandi hafi byggt ósk sína á 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar sé skýrt í 1. mgr. að „Aðili máls á rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða“.

Ljóst sé að C tefji málið óhóflega, þrátt fyrir ítrekanir af hálfu kæranda og skýr svör, bæði frá honum og tannréttingasérfræðingi hans, B, um stöðu mála og hvaða verk séu óunnin. Liðnir séu 57 dagar (tæpir 2 mánuðir) frá því að ósk kæranda um aðgang að gögnum, upplýsingum um ákvarðanir og á hvaða forsendum umrætt mat hafi verið byggt, hafi verið send til Sjúkratrygginga Íslands. Jafnframt séu liðnir 40 dagar frá því að C hafi fengið í hendur ítarlegar upplýsingar frá B (tölvuskeyti frá 19. október 2022) um það litla sem eftir sé af tannréttingaferli kæranda. Þar hafi komið skýrt fram að áætlað sé að B fjarlægi öll tæki úr munni hans og klári ferlið fyrir lok árs 2022. Enn standi þó á því að kærandi fái í hendur gögnin sem C hafi notað við matið, gögnin sem hann jafnframt hafi byggt frávísun málsins á og ætla mætti að lægju skýr fyrir.

Vísi kærandi í þessu samhengi til málshraðareglna 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. C hafi reyndar borið því við í tölvuskeyti til kæranda 2. nóvember 2022 að það sé svo mikið að gera hjá Sjúkratryggingum Íslands: „það er verið að skoða málið en miklar annir við annað tefja mig. Næ vonandi að klára málið á næstu dögum.“ Frekari upplýsingar hafi hins vegar ekki verið veittar um hvenær ætla mætti að gögnin bærust eins og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mæli skýrt fyrir um.

Ofangreind „sérstök fagnefnd“ sem C vísi til í bréfi, dags. 30. júní 2022, hafi hvorki á nokkrum tímapunkti ráðfært sig við tannréttingasérfræðing kæranda, B, né kallað eftir gögnum frá honum er varða mál hans og tannréttingaferli. Bendi kærandi á í því samhengi að B sé eini maðurinn sem gjörþekki mál hans, forsendur hans og þarfir hvað tann- og gómréttingar varði og ætti því að vera sá aðili sem best væri til þess fallinn að gefa mat á stöðu hans í ferlinu. Rétt sé einnig að benda á að kærandi hafi aldrei verið kallaður fyrir nefndina til skoðunar svo að nefndarmenn geti sjálfir metið stöðu mála. Kærandi velti því óneitanlega fyrir sér á hvaða forsendum hin „sérstaka fagnefnd“ sem C vísi til byggi mat sitt. Það sé hreinlega ekki hægt annað en að efast um þær forsendur, gögn, möt og fleira. Að minnsta kosti virðist nokkuð djúpt á þeim gögnum þar sem C hafi ekki enn séð sér fært að senda kæranda þau 57 dögum eftir að hann hafi óskað eftir þeim.

Kærandi geri athugasemd við það að C hafi ekki upplýst hann um rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 21 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning, kæruheimildir og svo framvegis þegar hann hafi vísað máli hans frá með bréfi, dags. 31. ágúst 2022. Það komi heldur ekkert slíkt fram í bréfum frá C, dags. 30. júní 2022 og 8. apríl 2022, sem hann vísi til við frávísun málsins.

Það hljóti að teljast eðlileg krafa til stjórnvalds sem taki svona ráðandi ákvarðanir að það fylgi þeim lögum sem því beri að fylgja. Því miður eigi kærandi fjölmörg dæmi og bréf frá stofnuninni þar sem það hafi ekki verið gert.

Loks greinir kærandi frá því að hann hafi verið í þessu tann- og gómréttingaferli í rúm X ár, eða frá því að hann hafi verið X ára gamall. Kærandi muni í raun varla eftir tíma sem hann hafi ekki verið með munninn fullan af aukahlutum. Þetta hafi verið langt og sársaukafullt ferli og kærandi geti ekki ímyndað sér að nokkur maður sækist eftir þessu eða geri þetta að gamni sínu. Að fá að ljúka því ferli, sem Sjúkratryggingar Íslands hafi hingað til metið nauðsynlegt fyrir velferð kæranda og lífsgæði, sé það sem kærandi óski eftir og að fá að ljúka því með áframhaldandi greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Kærandi eigi erfitt með að trúa öðru en að úrskurður C tryggingayfirtannlæknis, fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands, sé á misskilningi byggður.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 30. nóvember 2022 hafi C birt kæranda stjórnvaldsákvörðun þar sem eftirfarandi komi fram:

„Gildistími á samþykkt SÍ á umsókn þinni um þátttöku í kostnaði við tannréttingar, hefur verið framlengdur til 31.12.2022“

Hér hafi stjórnvaldið Sjúkratryggingar Íslands úrskurðað í máli kæranda og sé sú ákvörðun bindandi eftir að hún hafi verið birt honum. Í bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 7. desember 2022, þar sem hann sé beðinn um að taka afstöðu til málsins sé kæranda hins vegar birt bréf frá C, fyrir hönd Sjúkratrygginga, sem sé dagsett 5. desember 2022, sem honum hafi einnig borist sama dag þar sem eftirfarandi komi fram:

„Gildistími á samþykkt SÍ á umsókn þinni um þátttöku í kostnaði við tannréttingar, hefur verið framlengdur til 31.12.2022 og verður ekki framlengdur frekar.“

Samkvæmt  20. gr. og 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 varðandi birtingu ákvörðunar segi:

V. kafli. Birting ákvörðunar, rökstuðningur o.fl.

20. gr. Birting ákvörðunar og leiðbeiningar.

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Ákvörðun er bindandi eftir að hún er komin til aðila.

VI. kafli. Afturköllun ákvörðunar o.fl.

23. gr. Breyting og leiðrétting.

Stjórnvald getur breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls.

Eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun er stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té.“

Af þessu megi vera ljóst að fyrri ákvörðun Sjúkratrygginga frá 30. nóvember 2022 sé bindandi og því ekki eðlilegt eða í samræmi við stjórnsýslulög að C sendi annað bréf fimm dögum síðar til þess eins að bæta við klausunni „og verður ekki framlengdur frekar.“, enda séu engar bersýnilegar villur í stjórnvaldsákvörðuninni né hafi afturköllun á fyrri stjórnvaldsákvörðun átt sér stað.

Kærandi hafni því alfarið ákvörðun C, fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. desember 2022.

Þá geri kærandi athugasemd við það að C hafi ekki upplýst hann um rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 21 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning, kæruheimildir og svo framvegis þegar hann hafi samþykkt greiðsluþátttökuna. Það sé hvorki gert í bréfi hans dagsettu 30. nóvember 2022 né heldur í bréfinu dagsettu 5. desember 2022, en seinna bréfið feli sannarlega í sér íþyngjandi ákvörðun.

Það hljóti að vera eðlileg krafa af hálfu kæranda að réttur hans til tannréttinga haldist áfram, vilji svo ólíklega til að upp komi tannréttingamál hjá honum í framtíðinni sem rekja megi beint til fæðingargalla hans.

Kærandi ítreki að það hljóti að teljast eðlileg krafa til stjórnvalds sem taki svona ráðandi og íþyngjandi ákvarðanir að það fylgi þeim lögum sem því beri að fylgja. Því miður eigi hann fjölmörg dæmi og bréf frá stofnuninni þar sem slíkt hafi ekki verið gert.

Þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til allra þeirra mála, sem kærandi hafi sent inn til úrskurðarnefndar velferðarmála í kæru sinni, geri kærandi jafnframt aftur athugasemdir við það að C vitni ítrekað ekki í lög eða reglugerðir þegar hann birtir kæranda íþyngjandi ákvarðanir, fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands. Það hljóti að vera eðlileg krafa að slíkt sé gert með nákvæmum hætti til stuðnings íþyngjandi ákvörðum. Kærandi ítreki því fyrri ábendingar og óskar eftir skýrum svörum við fyrri athugasemdum sínum, sem séu eftirfarandi.

Óskað er eftir skýrum svörum um á nákvæmlega hvaða lagastoð (lagagrein og málsgrein) takmörkun á tímalengd tannréttinga þeirra sem fæðast með skarð í vör og klofinn góm sé byggð. Það er að því gefnu að viðkomandi uppfylli allar kröfur sem fram komi bæði í 14. gr og 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013 um rétt til þjónustu Sjúkratrygginga Íslands.

Kærandi hafi ekki fengið nein svör við þeim spurningum, sem hann hafi sent Sjúkratryggingum Íslands með tölvupósti 4. október 2022, en ljóst megi vera að hann eigi fullan rétt á þessum gögnum. Kærandi leggi áherslu á að hann óski staðfastlega eftir þessum upplýsingum og gögnum og muni fylgja því eftir þar til þau hafa borist honum. Hann óski því eftir að úrskurðarnefndin ítreki þennan þátt kæru hans við Sjúkratryggingar Íslands. Kærandi bendi á að nú séu liðnir 78 dagar frá því að hann hafi óskað eftir þessum gögnum sem ættu sannarlega að vera aðgengileg þar sem hægt hafi verið að byggja fyrri ákvarðanir á þeim. Vísi kærandi í þessu samhengi til málshraðareglna 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frekari upplýsingar hafi hins vegar ekki verið veittar um hvenær ætla mætti að gögnin bærust eins og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mæli skýrt fyrir um.

Kærandi ítreki jafnframt fyrri fyrirspurn sína varðandi það sem fram komi í bréfi C/Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. júní 2022, um að allar umsóknir um aukna greiðsluþátttöku samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 séu metnar af „sérstakri fagnefnd“. Kærandi hafi hvergi fundið í lögum eða reglugerðum lagaforsendur/lagagrundvöll þeirrar nefndar né hafi hann getað fundið upplýsingar um aðila nefndarinnar. Það kunni að sjálfsögðu að vera skýr lagagrundvöllur fyrir þessari nefnd og störfum hennar og þá mætti einnig ætla að það væri eðlileg stjórnsýsla að hægt væri að afla sér upplýsinga um nefndina, hlutverk hennar og nefndarmenn. Slíku sé hins vegar ekki fyrir að fara.

Jafnframt spyrji kærandi hvort það sé hin „sérstaka fagnefnd“ sem hafi tekið ákvarðanir í máli hans.

Kærandi óskar eftir skýrum og nákæmum svörum varðandi það á hvaða forsendum hin „sérstaka fagnefnd“ sem C vísi til hafi byggt mat sitt, á hvaða lagastoð þessi fagnefnd vinni og hvaða ákvæði mæli fyrir um störf hennar og innlegg í stjórnvaldsákvarðanir.

Eins og að framan greini sé afstaða kæranda til bréfs Sjúkratrygginga, dags. 5. desember 2022, skýr og hafni hann þeirri stjórnvaldsákvörðun alfarið, enda virðist hún brjóta í bága við stjórnsýslulög. Kærandi sé hins vegar þakklátur fyrir að fyrri ákvörðun hafi verið snúið eins og fram komi í bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. nóvember 2022, og honum gert kleift að halda áfram ferli sínu við tann- og gómréttingar til að leiðrétta þann alvarlega fæðingargalla sem hann sé fæddur með.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að stofnunin hafi samþykkt að greiða 95% af kostnaði vegna tannréttinga til loka meðferðar þann 16. desember 2022, sbr. bréf Sjúkratrygginga Íslands til kæranda, dags. 5. desember 2022.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á beiðni um framlengingu samþykktar á greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga kæranda á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála endurupptóku Sjúkratryggingar Íslands ákvörðun sína frá 31. ágúst 2022 og með bréfi, dags. 5. desember 2022, framlengdi stofnunin gildistíma samþykktar Sjúkratrygginga Íslands um þátttöku í kostnaði við tannréttingar til 31. desember 2022, en tekið var fram að gildistíminn yrði ekki framlengdur frekar. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til þeirrar ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands. Kærandi ákvað að afturkalla ekki kæru sína til úrskurðarnefndarinnar og hafnaði alfarið ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2022, tilkynntu Sjúkratryggingar Íslands kæranda að gildistími samþykktar Sjúkratrygginga Íslands hefði verið framlengdur. Sjúkratryggingar Íslands afturkölluðu þar með hina kærðu ákvörðun, dags. 31. ágúst 2022, og féllust á beiðni um framlengingu á greiðsluþátttöku, en ákvörðun stofnunarinnar frá 30. nóvember hljóðar svo:

„Gildistími á samþykkt SÍ á umsókn þinni um þátttöku í kostnaði við tannréttingar, hefur verið framlengdur til 31.12.2022.“

Þann 5. desember 2022 sendu Sjúkratryggingar Íslands kæranda svohljóðandi bréf:

„Gildistími á samþykkt SÍ á umsókn þinni um þátttöku í kostnaði við tannréttingar, hefur verið framlengdur til 31.12.2022 og verður ekki framlengdur frekar.“

Ljóst er að framangreind bréf eru samhljóða að því undanskildu að tekið er fram í hinu síðara að gildistíminn verði ekki framlengdur frekar. Með ákvörðun frá 5. desember 2022 hafa Sjúkratryggingar Íslands afturkallað fyrri ákvörðun sína frá 30. nóvember 2022 og tekið í staðinn ákvörðun sem var ekki eins ívilnandi fyrir kæranda.

Í 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvaldi er heimilt, eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun, að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið til „bersýnilegra vill[n]a“, en með því er til dæmis átt við misritun á orði, tölu eða reiknisskekkju. Ákvæðið tekur ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar. Af framangreindu má leiða að Sjúkratryggingum Íslands hafi ekki verið heimilt að taka efnislega nýja ákvörðun í máli kæranda með ákvörðun, dags. 5. desember 2022.

Þá er Sjúkratryggingum Íslands ekki unnt að afturkalla fyrri ákvörðun sína, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. nóvember 2022, en í 25. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvaldi sé heimilt að afturkalla ákvarðanir sem eru tilkynntar aðila þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun er ógildanleg. Líkt og fyrr greinir var ákvörðun í bréfi, dags. 5. desember 2022, til tjóns fyrir kæranda og er það jafnframt mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvörðun frá 30. nóvember 2022 sé ekki haldin ógildingarannmarka.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 5. desember 2022 ómerkt. Ekki verður annað ráðið en að með ákvörðun frá 30. nóvember 2022 hafi Sjúkratryggingar Íslands samþykkt beiðni kæranda um framlengingu gildistíma samþykktar á greiðsluþátttöku í tannréttingum kæranda að fullu. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfestir því ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 30. nóvember 2022.

Í kæru óskar kærandi eftir svörum frá Sjúkratryggingum Íslands við ýmsum athugasemdum sínum, þar á meðal varðandi lagastoð fyrir takmörkun á tímalengd tannréttinga, á hvaða forsendum ákvarðanir Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggðar, auk upplýsinga um fagnefnd og aðgangs að öllum gögnum varðandi ákvarðanir. Þar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa nú samþykkt beiðni kæranda um framlengingu gildistíma samþykktar á greiðsluþátttöku í tannréttingum, og úrskurðarnefnd velferðarmála staðfest það samþykki, er þeim hluta kæru sem varðar beiðni um upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands vísað frá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála vill þó benda stofnuninni á að aðili máls á rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Þá gerir kærandi athugasemdir við það að Sjúkratryggingar Íslands hafi í bréfum sínum ekki upplýst hann um kæruheimild og rétt til rökstuðnings fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal veita leiðbeiningar um:

1. heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda,

2. kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru,

3. frest til þess að bera ákvörðun undir dómstóla ef slíkur frestur er lögákveðinn.“

Ljóst er því að Sjúkratryggingum Íslands ber að veita framangreindar upplýsingar með ákvörðunum sínum. Undantekning er gerð þegar umsókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti, sbr. 4. mgr. 20. gr. laganna, en þá þarf ekki að veita leiðbeiningar samkvæmt 2. og 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. laganna. Í þeim bréfum Sjúkratrygginga Íslands, sem fyrir liggja í málinu, hafa framangreindar leiðbeiningar ekki verið veittar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki gætt að skyldu sinni til að veita kæruleiðbeiningar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga, við meðferð máls kæranda. Þeim tilmælum er beint til Sjúkratrygginga Íslands að gæta framvegis að framangreindri reglu 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 5. desember 2022, um að samþykkja beiðni um framlengingu samþykktar á greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga A, er felld úr gildi.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 30. nóvember 2022, um að samþykkja beiðni um framlengingu samþykktar á greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga A, er staðfest.

Þeim hluta kæru sem varðar beiðni um upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum