Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 350/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 350/2021

Fimmtudaginn 7. október 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 29. mars 2021. Með bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 21. apríl 2021, var óskað eftir að kærandi skilaði vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda og greiðsluseðlum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist stofnuninni. Tekið var fram að umsóknin væri ófullnægjandi og því ekki ljóst hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. júlí 2021. Með erindi úrskurðarnefndar 8. júlí 2021 var óskað eftir að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 5. ágúst 2021. Gögn bárust frá kæranda 19. og 23. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. september 2021, barst greinargerð Vinnumálastofnunar og var hún send kæranda til kynningar þann 21. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kæranda frá því að hann sé búinn að reyna að rökræða við Vinnumálastofnun síðastliðin tvö ár sem virðist ekki skila árangri. Að mati Vinnumálastofnunar hafi liðið of margir dagar frá því að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur og þar til hann hafi skilað inn umbeðnum gögnum. Kærandi hafði verið í samskiptum við greiðslustofu um leiðréttingu en hafi verið synjað. Kærandi hafi greitt þessa daga og vilji því fá sinn bótarétt eins og lög kveði á um.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er greint frá því að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 29. mars 2021. Með erindi, dags. 21. apríl 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans hefði verið frestað. Óskað hafi verið eftir því að kærandi sendi Vinnumálastofnun vottorð frá fyrrum vinnuveitanda sínum, auk greiðsluseðla frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Áréttað hafi verið að umbeðin gögn væru forsenda þess að Vinnumálastofnun gæti afgreitt umsókn kæranda. Þá hafi athygli kæranda verið vakin á því að umbeðin gögn þyrftu að berast stofnuninni innan sjö virkra daga. Vinnumálastofnun hafi ekki borist umbeðin gögn frá kæranda innan tilskilins frests og hafi honum því verið tilkynnt með erindi, dags. 12. maí 2021, að umsókn hans hefði verið synjað.

 

Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga á ný með umsókn, dags. 7. júlí 2021. Vinnumálastofnun hafi síðar borist vottorð frá fyrrum vinnuveitanda kæranda þann 13. júlí 2021 og greiðsluseðlar frá Greiðslustofu lífeyrissjóða þann 21. júlí 2021. Með erindi, dags. 10. ágúst 2021, hafi kæranda því verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt.

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 7. júlí 2021. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga þar sem hann hafi ekki skilað stofnuninni umbeðnum gögnum.

 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistrygginga gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. 1. mgr. 9. gr. sé svohljóðandi:

 

,,Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

 

Í athugasemdum með 9. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að mikilvægt sé að öll nauðsynleg gögn fylgi umsókn. Þá sé jafnframt tekið fram að aðstæður fólks séu misjafnar og því ekki unnt að hafa tæmandi talningu á þeim gögnum í ákvæðinu.

 

Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í f-lið 1. mgr. 13. gr. laganna sé það gert að skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að launamaður hafi lagt fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna. Vinnumálastofnun þyki rétt að árétta í þessu samhengi að vottorð vinnuveitanda sé eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið sé til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

 

Eins og áður segi hafi Vinnumálastofnun óskað eftir vottorði fyrrum vinnuveitanda kæranda og greiðsluseðlum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Vinnumálastofnun hafi ekki borist umbeðin gögn innan tilskilins frests. Í raun hafi Vinnumálastofnun ekki borist umrædd gögn fyrr en tæpum þremur mánuðum eftir að þeirra hafi verið óskað. Með vísan til alls ofangreinds sé það því niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga, dags. 29. mars 2021, enda hafi umsókn hans ekki uppfyllt hin almennu skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.

 

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysisbætur..

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 9. gr. laganna er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Í 1. mgr. segir:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að launamaður leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda þegar það eigi við, sbr. f-lið 1. mgr. ákvæðisins. Í 16. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur. Ákvæði 1. mgr. er svohljóðandi:

„Þegar launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sækir um atvinnuleysisbætur skal hann tilgreina starfstíma sinn hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili skv. 15. gr. sem og starfshlutfall. Enn fremur skal hann tilgreina ástæður þess að hann hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn um atvinnuleysisbætur.“

Samkvæmt gögnum málsins óskaði Vinnumálastofnun eftir vottorði fyrrum vinnuveitanda kæranda og greiðsluseðlum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða til að leggja mat á bótarétt hans. Kærandi varð ekki við þeirri beiðni Vinnumálastofnunar og var umsókn hans því synjað.

Með lögum nr. 94/2020, um breytingu á lögum nr. 54/2006, var meðal annars gerð breyting á framangreindri 16. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 94/2020 kemur fram að lagt sé til að dregið verði úr vægi vottorða vinnuveitanda þegar kemur að því að ákvarða rétt einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins, meðal annars til þess að flýta fyrir afgreiðslu umsókna. Í stað þess að leggja fram vottorð vinnuveitanda beri launamanni að geta þeirra atriða sem áður hafa komið fram í vottorði þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur. Með breytingunni var einnig gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun gæti óskað eftir vottorði vinnuveitanda teldi stofnunin þörf á því að sannreyna þær upplýsingar sem fram kæmu í umsókn um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Vinnumálastofnun hafi ekki verið heimilt að synja umsókn kæranda á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 án þess að óska sjálf eftir vottorði frá vinnuveitanda kæranda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka umsókn kæranda frá 29. mars 2021 til efnislegrar afgreiðslu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi. Lagt er fyrir Vinnumálastofnun að taka umsókn kæranda frá 29. mars 2021 til efnislegrar afgreiðslu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum