Hoppa yfir valmynd
20. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir 40 milljónum í styrki til atvinnumála kvenna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt hluta styrkþega en athöfnin fór einnig fram í streymi.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur úthlutað styrkjum til atvinnumála kvenna og fengu 42 verkefni styrk samtals að fjárhæð 40.000.000 kr. Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er unnt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 179 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipuðu þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Elín Sigríður Þórðardóttir og Soffía Gísladóttir. Að þessu sinni var sérstök áhersla á að ná til frumkvöðlakvenna á landsbyggðinni og eru styrkir til þeirra í meirihluta, eða 25 talsins og dreifast til allra landshluta.

Hæsta styrkinn í ár, eða 4 m.kr., hlaut Hrafnhildur Árnadóttir vegna verkefnisins „Frostþurrkun íslenskra hráefna“ en verkefnið snýst um að bjóða íslenskum frumkvöðlum og framleiðendum upp á aðgengi að frostþurrkun hráefna og aðgengi að frostþurrkuðum afurðum til fullnýtingar, t.a.m í matvæla-, fæðubótarefna-, og snyrtivöruframleiðslu.

Næsthæsta styrkinn að upphæð 2.m.kr. hlaut Eyrún Linnet fyrir hönd Snerpu Power vegna verkefnisins „Demand Side Response Software“. Fyrirtækið virkjar stórnotendur rafmagns með því að sjálfvirknivæða álagsáætlanagerð og besta tilboðsgerð inn á markað með kerfisþjónustur. Félagið bætir þannig nýtingu orkuauðlinda, dregur úr aflskorti og eykur samkeppnishæfni raforkumarkaðar.

Einnig hlaut Unnur Kolka Leifsdóttir 2 m.kr. styrk vegna verkefnisins „Mychopilia“ sem snýst um að setja á stofn sveppabanka og svepparæktunarkerfi sem þjónustar fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir í öllu sem snýr að sveppum og sveppaafurðum.

Sérstakan hvatningarstyrk að upphæð kr. 1.000.000 hlaut verkefnið „Okkar heimur“ sem er stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda. 

Af öðrum spennandi verkefnum má nefna nýtingu á náttúruauðlindum úr Mývatni til framleiðslu á húðvörum, þróun hátæknigróðurhúss á Norðurlandi, markaðssetningu Kvennaafls á Bakkafirði, brúðuleikhús, Hoobla sem er samfélag giggara, ræktun lífræns grænmetis, ullarvinnslu, framleiðslu duftkera, hundahótel- og þjálfun, vöruþróun kindaosta og annarra matvæla í dreifbýli, spunaverksmiðju, sápugerð og sveppasmiðja svo eitthvað sé nefnt.

Lista yfir verkefni sem hlutu styrk má finna á heimasíðu verkefnisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum