Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 376/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 376/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16040017

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála, dags. 18. apríl 2016, kærði […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. apríl 2016, um brottvísun og endurkomubann kæranda til Íslands í þrjú ár.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði endurskoðuð og kæranda verði veitt heimild til að vera hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands hinn 3. apríl 2016. Með […].

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. apríl 2016, var kæranda vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til landsins næstu þrjú árin. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. apríl 2016, um brottvísun og endurkomubann kæranda til Íslands í þrjú ár var birt fyrir honum 16. apríl 2016. Kærandi kærði þá ákvörðun hinn 18. apríl 2016 en sama dag óskaði hann eftir hæli á Íslandi. Þann 2. júní 2016 ákvað Útlendingastofnun að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um hæli á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 8. júní 2016 kærði kærandi þá ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar hinn 18. ágúst 2016 með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa úrskurðarins en beiðni hans var hafnað hinn 24. október sl.

Gögn málsins bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun þann 20. apríl 2016 en stofnunin gerði ekki athugasemdir við kæruna. Greinargerð lögmanns kæranda barst kærunefnd þann 11. október 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar greinir að kærandi hafi verið […]. Að mati stofnunarinnar var því skilyrðum d-liðar 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga, um brottvísun, fullnægt.

Þá var það mat stofnunarinnar að ekkert hefði komið fram sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun sinni tók stofnunin fram að stofnunin væri meðvituð um ástand mála í heimalandi kæranda. Í málinu lægju fyrir upplýsingar um kæranda úr Eurodac gagnagrunninum og yrði farið fram á það við þýsk yfirvöld að þau tækju við honum.

Þá var það mat stofnunarinnar að kæranda skyldi bönnuð endurkoma til Íslands í þrjú ár, sbr. 2. mgr. 20. gr. c laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði endurskoðuð og kæranda verði veitt heimild til að vera hér á landi.

Í greinargerð kæranda er vísað til sjónarmiða sem fram koma í beiðni um frestun réttaráhrifa, sem barst kærunefnd 14. september sl.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. d-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið felur í sér matskennda heimild stjórnvalda til brottvísunar útlendings sem er án dvalarleyfis. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann í þrjú ár, sbr. 2. mgr. 20. gr. c laganna, en í ákvæðinu segir m.a. að brottvísun feli í sér bann við komu til landsins síðar og að endurkomubannið skuli að jafnaði ekki gilda skemur en í tvö ár.

Með úrskurði, dags. 18. ágúst 2016, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og senda kæranda til Þýskalands með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar kemur fram að þýsk stjórnvöld hafi fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar.

Með vísan til þeirrar niðurstöðu er það mat kærunefndar að ekki sé jafnframt rétt að fallast á þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að kæranda skuli vísað af landi brott og bönnuð endurkoma til landsins í þrjú ár. Hefur kærunefndin einkum í því sambandi litið til þess að staðfesting á ákvörðun Útlendingastofnunar myndi leiða til þess að kærandi verði í annarri og mun verri stöðu en aðrir hælisleitendur sem hafa fengið dóm fyrir sambærilegt brot.

Kærunefnd telur því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the appelant´s expulsion and prohibition from returning to iceland is vacated.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum