Hoppa yfir valmynd
27. mars 2003 Innviðaráðuneytið

Leiðbeiningar um gerð og uppbyggingu reiðvega

Á blaðamannafundi í morgun kynnti Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, leiðbeiningarit Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðarinnar en aldrei fyrr hafa svo ítarlegar upplýsingar um gerð reiðvega verið teknar saman á einum stað.

Á ársþingi Landssambands hestamannafélaga (LH) árið 2000 kom fram tillaga um að unnin yrði verklýsing um byggingu reiðvega. LH óskaði síðan eftir því við Vegagerðina að hún kæmi að þessu starfi.

Leiðbeiningarnar eru nú komnar út í kynningarútgáfu og einnig á Netinu (www.lhhestar.is) og er fólk hvatt til að koma á framfæri athugasemdum við þær. Leiðbeiningunum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum, landeigendum, skipulagsfræðingum, Vegagerðinni og forsvarsmönnum hestamanna skipulagsvinnu og gerð reiðvega á öllu landinu. Leiðbeiningarnar hafa ekki gildi staðals eða reglugerðar.

Í leiðbeiningunum er fjallað ítarlega í máli og myndum um skipulagsmál, öryggismál, umhverfismál, hönnun, nánasta umhverfi og merkingar. Einnig er fjallað er um kostnað og kostnaðaráætlun, fjármögnun og framkvæmdaratriði auk lagaákvæða sem tengjast reiðvegum. Í leiðbeiningunum er einnig framkvæmdaskýrsla, þ.e.a.s. skilagrein sem sá skal skila sem fær úthlutað fé til reiðvegagerðar. Níu fylgiskjöl eru svo höfð með en þar er m.a. samkomulag sem gert var við Vegagerðina 1982 og sýnd dæmi um verksamninga.

Markmið vinnuhópsins er að leiðbeiningarnar megi nýtast öllum þeim sem þurfa að koma að skipulagi og byggingu reiðvega og að þeir geti fundið út hvað þeir eigi að gera eða hvert þeir geti leitað að frekari upplýsingum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum