Hoppa yfir valmynd
28. mars 2011 Innviðaráðuneytið

Fækkun stöðugilda skilar mestri hagræðingu

Fækkun stöðugilda, breyting á fræðslumálum, að ráða ekki í stöður sem losna og minnkun yfirvinnu eru meðal hagræðingaraðgerða sem sveitarfélög landsins grípa til vegna fjárhagserfiðleika við fjárhagsáætlanir fyrir 2011.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga sem lögð var fram á ársþingi sambandsins fyrir helgina. Könnunin fór fram í febrúar og svöruðu 26 sveitarfélög. Af þeim voru 14 með færri en 1.500 íbúa, tíu með á milli 1.500 og 5.000 íbúa og tvö voru með yfir 5 þúsund íbúa.

Markmið könnunarinnar var annars vegar að fá yfirlit yfir til hvaða aðgerða sveitarfélög hafa gripið í hagræðingarskyni og hins vegar að gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir sveitarfélögin í því skyni að þau geti lært ,,hvert af öðru til frekari þróunar og aðlögunar á starfsemi sinni í tengslum við breytt rekstrarumhverfi,” eins og segir í inngangi skýrslunnar.

Farið er yfir ýmis atriði í skýrslunni svo sem pólitíska stefnumótun, hvernig unnið er að hagræðingaraðgerðum, mannahald og samvinnu svo nokkuð sé nefnt. Fram koma ýmsar ábendingar um aðgerðir í hinum ýmsu málaflokkum. Þannig er fækkun stöðugilda oftast nefnd sem hagræðingaraðgerð í stjórnsýslu þeirra, svo og að ekki sé ráðið í stöður sem losna, dregið úr yfirvinnu og stjórnskipulag endurskoðað. Meðal annarra aðgerða er að fækka nefndum, fella niður fastar greiðslur til bæjarráðs, dregið úr framlögum til móttöku gesta og framlög til vinabæjarsamskipta lækkuð.

Aðgerðir sem sveitarfélög telja að skili hlutfallslega mestri hagræðingu er fækkun stöðugilda, breytingar á fræðslumálum, launalagfæringar og föst yfirvinna tekin út. Þá eru nefndar fjölmargar aðrar aðgerðir svo sem almennt aðhald á rekstrarvörum, samdráttur í framkvæmdum, lækkun starfshlutfalls, hagræðing á mötuneyti grunnskóla og bann við forfallakennslu.

Valur Rafn Halldórsson, starfsmaður hag- og upplýsingasviðs sambandsins, vann könnunina.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum