Hoppa yfir valmynd
6. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“

Frá bólulsetningu í Laugardalshöll - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Nokkrir heilbrigðismenntaðir starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins lögðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lið við bólusetningu gegn COVID-19 í Laugardagshöll í dag. Þetta er stærsta bólusetningarvikan til þessa þar sem í heildina verða bólusettir um 40.000 manns á landsvísu. Bólusetningin krefst mikils skipulags, felur í sér mörg handtök og krefst mikillar nákvæmni við hvern einasta verkþátt svo allt gangi snurðulaust fyrir sig og hver og einn fái sína sprautu hratt, vel og af fyllsta öryggi.

Alls voru 14.000 einstaklingar boðaðir í bólusetningu í Laugardagshöll í dag og hafa aldrei fleiri verið bólusettir á einum degi. Ásthildur Knútsdóttir hjúkrunarfræðingur og skrifstofustjóri á skrifstofu heilsueflingar og vísinda er einn fimm hjúkrunarfræðinga úr heilbrigðisráðuneytinu sem aðstoðaði við framkvæmdina: „Skipulagið er stórkostlegt, þaulhugsað og til marks um einstaka samvinnu allra þeirra aðila sem að því koma. Það var mikils virði, ánægjulegt og lærdómsríkt fyrir okkur að fá tækifæri til að leggja hönd á plóginn og létta örlítið undir með þessu frábæra fólki sem stendur í framlínunni dag eftir dag“ segir Ásthildur. Margir fleiri hafa liðsinnt heilsugæslunni, þar hafa m.a. komið að heilbrigðisstarfsmenn sem hættir eru störfum og Landspítali hefur lánað starfsfólk úr sínum röðum til verkefnisins.

Getum svo sannarlega verið stolt af heilbrigðiskerfinu"

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra fjölmörgu sem fengu sína fyrri sprautu af bóluefni AstraZeneca í dag. Stemning var í höllinni. Um salinn hljómaði tónlist frá níunda áratugnum í bland við dyninn í bólusetningarvögnunum sem bólusetjararnir ýttu á undan sér milli sætaraðanna og settu sprauturnar af fagmennsku í hvern og einn.

Svandís segir stórkostlegt að sjá og upplifa skipulagið á staðnum og hvað allt er vel af hendi leyst. „Við getum svo sannarlega verið stolt af heilbrigðiskerfinu okkar sem hefur hvað eftir annað sýnt og sannað mikinn styrk, hugvit og  sveigjanleika í þeim fjölmörgu og flóknu verkefnum sem leitt hafa af heimsfaraldri COVID-19.“

  • Ásthildur Knútsdóttir - mynd
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 2
  • Bólusetning í Laugardalshöll - mynd
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 4
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 5
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 6
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 7
  •   - mynd
  • Bólusetning í Höllinni: „Stórkostlegt skipulag og gaman að taka þátt“ - mynd úr myndasafni númer 9

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum