Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2010 Utanríkisráðuneytið

Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja styrkt enn frekar

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Riga í Lettlandi í gær ákváðu ráðherrarnir að styrkja samstarf ríkjanna átta enn frekar á grundvelli tillagna sem unnin var fyrir þá af Sören Gade fv. varnarmálaráðherra Dana og Valdis Birkavs fv. forsætis- og utanríkisráðherra Letta. Skýrslan, sem kynnt var á fundinum, felur í sér 38 tillögur um leiðir til aukins samstarfs Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Tillögurnar lúta að pólitískum samskiptum, nánara samstarfi milli utanríkisþjónusta og hjá alþjóðastofnunum, og samvinnu í umhverfis- og orkumálum. 

Sérstaklega var ákveðið að minnast þess með ýmsum viðburðum í ríkjunum átta að á næsta ári verða 20 ár frá því Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt. Tillögurnar verða nú teknar til meðferðar hjá ríkjunum í því augnamiði að ljúka vinnslu þeirra í áföngum á næstu mánuðum.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði áherslu á þá skoðun að samvinna og samhjálp ríkjanna átta hefði skipt miklu máli fyrir sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, en þá urðu Íslendingar fyrstir til að viðurkenna fullveldi þeirra, og í kjölfarið norrænu ríkin. Í fjárhagslegum þrengingum Íslands hefði stuðningur þessara ríkja, svo og Norðurlandanna, verið ómetanlegur, ekki síst við að tryggja afgreiðslu efnahagsáætlunar landsins hjá AGS, og við undirbúning samningaviðræðna um aðild að Evrópusambandinu þar sem munaði um stuðning þeirra við að tryggja að Icesave-deilunni yrði ekki blandað saman við umsóknina. Hann lagði til að langtímaáætlun yrði fylgt við að gera samstarf ríkjanna enn nánara frameftir öldinni, og lagði áherslu á að samlegðaráhrif slíks samstarfs leiddu til þess að áhrif ríkjanna yrðu mun meiri en ella.

Utanríkisráðherrarnir átta fjölluðu einnig um afstöðu ríkjanna til endurskoðunar á grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði áherslu á herleysi Íslands, og kvað enga breytingu verða á því. Hann lagði sérstaka áherslu á að útvíkkun öryggishugtaksins næði einnig til efnahagsleg öryggis. Í máli hans kom fram sú skoðun að Íslendingar hefðu, einir þjóða, í reynd orðið fyrir efnahagslegri árás af hálfu annars Nato-ríkis þegar Bretar virkjuðu hryðjuverkalögin gegn Íslendingum, og kvað óskiljanlegt og óverjandi að eitt aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu gripi til slíkra aðgerða gegn öðru, og kvað það í algeru ósamræmi við grunnhugsun bandalagsins um samstöðu. Með því hefðu Bretar vegið að grundvallarhagsmunum Íslendinga og komið í veg fyrir að nokkur von yrði til þess að unnt yrði að bjarga því sem bjargað varð í íslenska bankakerfinu. Með því að láta öryggishugtakið ná líka yfir efnahagslegt öryggi yrði tryggt að slíkt gerðist aldrei aftur. Aivis Ronis utanríkisráðherra Lettlands sem átti sæti í sérfræðingahópi Atlantshafsbandalagsins sagði málið þess eðlis að rétt hefði verið hjá Íslendingum að taka það upp á vettvangi NATO, eins og gert var á sínum tíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum