Hoppa yfir valmynd
22. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ábendingar Ríkisendurskoðunar um stöðu barnaverndar

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á stöðu barnaverndarmála á Íslandi að beiðni fjárlaganefndar Alþingis. Velferðarráðuneytið er komið vel á veg með vinnu við ýmsar úrbætur sem stofnunin telur nauðsynlegar. Félags- og húsnæðismálaráðherra segir ábendingar Ríkisendurskoðunar gagnlegar og að unnið verði í samræmi við þær.

Ríkisendurskoðun gerði úttektina að ósk fjárlaganefndar Alþingis. Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að leitað hafi verið svara við þremur spurningum, þ.e. hvort skipulag í barnaverndarmálum sé markvisst og stjórnsýsla vönduð, hvort samskipti og samstarf barnayfirvalda sé árangursríkt og hvort stefnumótunar- og eftirlitshlutverk velferðarráðuneytisins sé skýrt og því sinnt á fullnægjandi hátt.

Á grundvelli úttektarinnar setur Ríkisendurskoðun fram eftirtaldar ábendingar um að:

  • Ráðuneytið beiti sér fyrir góðu samstarfi barnaverndaryfirvalda.
  • Ráðuneytið endurskoði vinnulag við gerð og framlagningu framkvæmdaáætlunar í barnaverndarmálum sem leggja ber fram að loknum sveitarstjórnarkosningum.
  • Ráðuneytið tryggi sérhæfð meðferðarúrræði á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda og afbrotahegðun og fyrir börn með fjölþættan vanda, svo sem geðröskun og hegðunarvanda.
  • Ráðuneytið skýri stjórnsýslulega stöðu Barnaverndarstofu, taki af tvímæli um hvað felist í sjálfstæði stofnunarinnar og hverjar séu stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðuneytisins gagnvart henni og skýri hvert sé ráðgjafarhlutverk Barnaverndarstofu gagnvart barnaverndarnefndum sveitarfélaga.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir margt í skýrslu Ríkisendurskoðunar renna stoðum undir það starf sem hófst í velferðarráðuneytinu með skipun nefndar um endurskoðun stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar síðastliðið haust. Markmiðið þeirrar vinnu er að styrkja stjórnsýslu þessara málaflokka og draga skýrari skil milli stjórnsýslu, þjónustu og eftirlits, líkt og Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar má lesa viðbrögð velferðarráðuneytisins við ábendingum stofnunarinnar þar sem meðal annars er gerð grein fyrir stöðu ýmissa verkefna og stefnumótunarvinnu á sviði barnaverndar sem ráðuneytið hefur unnið að á síðustu misserum, í samvinnu við fjölda aðila sem að málaflokkinum koma. Þar kemur meðal annars fram að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur tekið ákvörðun um stofnun nýs meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn á aldrinum 16–18 ára, líkt og Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt. Ráðuneytið og Barnaverndarstofa hafa átt samvinnu vegna undirbúnings þessa máls en tryggja þarf fjármögnun áður en hægt verður að ráðast í framkvæmdir. Þar til nýtt meðferðarheimili kemst á laggirnar er þeim hópi barna sem um ræðir sinnt á meðferðarheimilinu Háholti.

Eygló segir starfsfólk ráðuneytisins hafa farið vel yfir umfjöllun og ábendingar Ríkisendurskoðunar. Auk formlegra ábendinga komi þar fram ýmis atriði varðandi þætti sem betur mega fara sem ráðuneytið taki fullt tillit til og muni leggja áherslu á að nýta sér í störfum sínum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum