Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 129/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 129/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 30. október 2013 ákveðið að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem skilyrði fyrir 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr., voru ekki uppfyllt þar sem kærandi var með gildan ráðningarsamning við sveitarfélagið B. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar með kæru, ódagsettri en móttekinni 5. nóvember 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði ómerkt og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún var skráð atvinnulaus. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 25. september 2013. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2013, var óskað eftir því að kærandi legði fram afrit af ráðningarsamningi sínum við B þar sem ekki lá fyrir hvernig ráðningu hennar væri háttað og þar með ekki ljóst hvort skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar væru uppfyllt. Vinnumálastofnun barst bréf frá félagsmálastjóra B, 24. október 2013, og var bréfið dagsett 30. maí 2013. Í bréfi félagsmálastjórans var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að veita henni launalaust leyfi vegna sérstakra aðstæðna frá 1. september 2013 til 1. september 2014.

Þar sem kærandi var í ráðningarsambandi við B og skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, því ekki uppfyllt var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað á fundi Vinnumálastofnunar 30. október 2013.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi aldrei fengið atvinnuleysisbætur á 59 ára æviskeiði sínu og heldur ekki sótt um þær fyrr. Þar sem henni hafi verið synjað velti hún fyrir sér hvernig hinu svokallaða velferðarkerfi væri háttað. Hún hefði að vísu fengið ársleyfi af persónulegum ástæðum. Í hennar fyrra starf hafi verið ráðin kona og standi kæranda það ekki til boða aftur fyrr en að ári liðnu. Henni hafi ítrekað verið hafnað þar sem hún hafi sótt um vinnu, fyrir utan 20% starf sem hún hafi nýlega fengið við þrif á gamla vinnustaðnum sínum. Kærandi kveðst hvorki skilja af hverju litið sé svo á að hún sé með gildan ráðningarsamning hjá sveitarfélaginu þótt hún hafi fengið þar 20% starf, né hvernig ætlast sé til að hægt sé að lifa af því. Hún óskar nánari skýringa.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. janúar 2014, er bent á að í máli þessu sé deilt um höfnun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda til atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að umsóknin uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin á grundvelli 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. gr. laganna segi að lögin gildi um þá sem verða atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta en með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, frumkvæði að starfsleit, vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, og að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða. Sá sem eigi í ráðningarsambandi við vinnuveitanda geti því ekki talist í virkri atvinnuleit enda muni atvinnuleit hans að jafnaði aðeins ná til að gegna störfum innan þess tímaramma sem hið launalausa leyfi geri ráð fyrir.

Vinnumálastofnun bendir einnig á að gert sé ráð fyrir því í f-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna, og þar skuli jafnframt tilgreina ástæður starfsloka. Ekki sé unnt að telja A, sem hér eigi í hlut, fyrrverandi vinnuveitanda í skilningi laganna. Til frekari rökstuðnings vísar Vinnumálastofnun til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 51/2010, 14/2009 og 95/2009 og 100/2009, þar sem deiluefni hafi snúið að sambærilegum málsatvikum.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

 2. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna er tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Þá er gerð grein fyrir því í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna að launamaður sem uppfylli það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr., teljist tryggður samkvæmt lögunum.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur var hún í tímabundnu launalausu leyfi frá störfum sínum í dagþjónustu eldri borgara á B af persónulegum ástæðum og í bréfi félagsmálastjóra B, dags. 30. maí 2013, kemur fram að kærandi var í ráðningarsambandi við sveitarfélagið. Kærandi var því ekki atvinnulaus í skilningi 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hún hafði ekki misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna. Jafnframt uppfyllti kærandi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 14. gr. laganna, þar sem ekki er hægt að líta svo á að hún hafi verið í virkri atvinnuleit meðan hún var með gildan ráðningarsamning.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 15. maí 2009 í máli nr. 14/2009, er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. október 2013 í máli A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum