Hoppa yfir valmynd
3. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 27. apríl - 3. maí 2002

Fréttapistill vikunnar
27. apríl - 3. maí 2002



Mikilvægt að standa vörð um grunnþjónustu heilsugæslunnar, segir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Jafn aðgangur alls almennings, óháð þjóðfélagslegri stöðu eða efnahag er sá þráður sem einkenndi alla þróun íslenskrar heilbrigðisþjónustu á síðustu öld. Þetta eru einmitt þau einkenni íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem valda því að Íslendingar eru í fremstu röð þegar alþjóðlegum mælistikum er brugðið á þjónustuna sem hér er veitt. Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á fundi með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana sem haldinn var á Hótel Sögu í dag (föstudag). Ráðherra sagði það valda sér áhyggjum ef vilji manna nú stæði til þess að víkja frá þeirri grunnhugsun sem almenn heilbrigðisþjónusta byggist á, yfir á braut þar sem aðgangur að þjónustunni takmarkast að einhverju leyti af fjárráðum þess sem þarf að fara til læknis. Ráðherra sagðist jafnan hafa talið að góð sátt væri ríkjandi um alla megindrætti í íslenskri heilbrigðispólitík. Ýmislegt að undanförnu hefði hins vegar vakið hann til umhugsunar um að þetta væri e.t.v. tálsýn, að menn væru jafnvel ekki eins sammála á borði og þeir þykjast vera í orði. "Íslenska heilbrigðisþjónustan byggist á grunnþjónustu heilsugæslunnar og því eru deilur á þessu sviði í rauninni mjög alvarlegt mál. Reynslan hefur kennt okkur að þar sem grunnþjónusta heilsugæslunnar er öflug og virk þar eru þjóðirnar heilsuhraustastar, eins og við Íslendingar eru talandi dæmi um. Úrræðin í heilsugæslunni eru líka ódýrust og eðlilegust að mínu dómi miðað við hvernig við Íslendingar höfum ákveðið að byggja upp heilbrigðisþjónustuna í landinu. Þau eru ódýrust fyrir samfélagið, sjúklinga og skattgreiðendur." Ráðherra sagði kröfu sumra heilsugæslulækna um gjaldskrársaming við Tryggingastofnun ríkisins og kröfuna um almennan stofurekstur til hliðar við heilsugæslustöðvarnar fela í sér, ef horft væri til framtíðar, að horfið væri frá öllu þessu. Þjónustan yrði dýrari fyrir sjúklinga og skattgreiðendur í bráð og í lengd yrði hún margfalt dýrari fyrir samfélagið allt. Skipt væri út ódýrum lausnum fyrir dýrari og með því væru skapaðar þær aðstæður að tiltekið hlutfall íbúanna sækti sér ekki læknisþjónustu fyrr en í óefni væri komið. Ráðherra ítrekaði að hann væri reiðubúinn að skoða allar hugmyndir sem orðið gætu til að slá á óánægju heilsugæslulækna og sagði að lokum: "Ég geri heilsugæsluna að umtalsefni hér vegna áhrifanna sem það gæti haft á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanirnar ef ekki tekst að lægja þær öldur sem risið hafa hátt meðal heilsugæslulækna undanfarið. Ég veit þið áttið ykkur á hver áhrifin gætu orðið á ykkar stofnununum ef grunnur heilbrigðisþjónustunnar verður settur í uppnám til framtíðar."

Kjarasamningur milli sjúkrahúslækna og ríkisins undirritaður
Samningar hafa tekist milli sjúkrahúslækna og ríkisins. Kjarasamingurinn tekur til 450 sjúkrahúslækna og gildir út árið 2005. Kjarasamningar sjúkrahúslækna voru lausir á síðasta ári en þá var gerður bráðabirgðasamningur sem rann út 1. mars sl. Launakerfi lækna sem Læknafélagið fer með samningsumboð fyrir er tvenns konar. Annars vegar kerfi sem nær til lækna sem starfa eingöngu á sjúkrahúsum og hins vegar kerfi sem nær til lækna sem starfa á sjúkrahúsum en eru einnig með eigin atvinnurekstur, innan eða utan sjúkrahúsanna. Nýr kjarasamningur verður kynntur sjúkrahúslæknum á næstunni.

Notkun verkjalyfja hefur aukist mikið á liðnum áratug
Skrifstofa lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman upplýsingar um notkun ópíóíða og fleiri skyldra lyfja og hvernig notkun þeirra hefur þróast á árunum 1989-2001. Flest þessara lyfja eru verkjalyf, að frátöldum amfetamíni og metýlfenídat en ritalin telst til metýlfenídats. Athygli vekur að notkun lyfseðilsskyldra lyfja sem innihalda kódeín hefur farið ört minnkandi eftir 1995 á meðan notkun sömu lyfja í þeim pakkningastærðum sem eru undanþegin lyfseðilsskyldu (Parkódín og Parakód, tölfur og stílar 10 stk. í pakkningu) hefur aukist jafnt og þétt. Öll lyfin sem um ræðir eru eftirritunarskyld nema tramadól.
MEIRA...

Eftirliti með tannheilsu ungra barna áfátt
Samkvæmt upplýsingum sem Tannverndarráð hefur tekið saman um heimsóknir barna til tannlæknis virðist sem 95% foreldra tveggja ára barna fari ekki með þau til tannlæknis í eftirlit og skoðun. Sama á við um 80% foreldra þriggja ára barna. Upplýsingarnar eru unnar upp úr gögnum frá SKÝRR um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegnta tannlækninga barna á tímabilinu 1. janúar 2000 - 30. júní 2001 og Skólatannlækningum Reykjavíkur skólaárið 2000 - 2001 og ná til barna að átján ára aldri. Af öllum börnum á aldrinum 0 - 17 ára fóru um 34% þeirra aldrei til tannlæknis á umræddu tímabili.
MEIRA...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
3. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum