Hoppa yfir valmynd
10. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 4. - 10. maí 2002

Fréttapistill vikunnar
4. - 10. maí 2002



Þjónusta sérfræðinga á sviði barnalækninga færð nær notendum á landsbyggðinni

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest samning Landspítala - háskólasjúkrahúss við heilbrigðisstofnanir Austurlands, Suðausturlands og Ísafjarðarbæjar um sérfræðiþjónustu á sviði barnalækninga. Markmiðið er að færa þessa þjónustu nær þeim sem á henni þurfa að halda og munu sérfræðingar LSH í barnalækningum heimsækja þessar heilbrigðisstofnanir reglulega. Þjónustan verður veitt samkvæmt ósk yfirlæknis á hverjum stað í samræmi við það hvernig sú þjónusta sem veita skal er skilgreind í samningnum.
MEIRA...

Herferð hafin til að laða fólk til starfa í öldrunarþjónustu, breyta viðhorfum til aldraðra og bæta ímynd aldraðra
Átakshópur um bætta ímynd öldrunarþjónustu, sem skipaður var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, kynnti tillögur sínar í vikunni. Hópurinn hefur að undanförnu unnið að því að finna leiðir til að mæta vaxandi eftirspurn eftir starfsfólki í öldrunarþjónustu. Helstu áherslur átakshópsins eru að vekja athygli ungs fólks á atvinnutækifærum í þágu aldraðra, stuðla að viðhorfsbreytingu til starfa í öldrunarþjónustu og að bæta ímynd aldraðra í þjóðfélaginu. Um sextíu prósent aldraðra Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu en um 10% búa á Norðurlandi eystra. Eldri borgarar eru nú um 32.000 talsins og um 9% þeirra þurfa sérstaka umönnun. Gert er ráð fyrir að áttræðum og eldri fjölgi um 33% til ársins 2010 og á næstu tuttugu árum má reikna með að háöldruðum Íslendingum, þ.e. 85 ára og eldri fjölgi um 50%. Þörf fyrir fólk til starfa í öldrunarþjónustu mun því aukast verulega á næstu áratugum. Mánudaginn 13. maí má segja að herferð átakshópsins hefjist þegar Sjónvarpið sýnir myndina "Lífið heldur áfram". Einnig hefur verið opnað veftorgið http://www.ellismellur.is þar sem miðlað er upplýsingum um störf, menntun og annað sem snertir öldrunarþjónustu á Íslandi.
MEIRA...

Rafræn samskipti innan heilbrigðiskerfisins - kröfur um öryggi persónuupplýsinga á heilbrigðisnetinu verða kynntar fljótlega
Íslenska heilbrigðisnetið er þróunarverkefni á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Heilbrigðisnetinu er ætlað að vera öruggur farvegur rafrænna samskipta milli aðila innan heilbrigðiskerfisins. Það er samskipta- og upplýsingatæki heilbrigðiskerfisins og um það munu fara mjög viðkvæmar persónuupplýsingar. Heilbrigðisnetið er net sem nota mun almennar flutningsleiðir. Allir aðilar sem munu tengjast netinu eru hluti af því og bera jafna ábyrgð. Heilbrigðisnetið samanstendur af upplýsingakerfum einstakra aðila sem tengjast því og þeim fjarskiptabúnaði sem tengir þá saman auk samskipta- og öryggisreglna. Vinnuhópur innan verkefnisins hefur nýlega lokið gerð skýrslu um öryggismál netsins. Þar er að finna tillögur að yfirlýsingu um öryggismarkmið heilbrigðisnetsins og leiðbeiningar um lágmarks öryggiskröfur fyrir heilbrigðisnetið. Umræddar öryggiskröfur eru byggðar á alþjóðlegum öryggisstöðlum, svo sem ÍST ISO/IEC 17799 og ÍST BS 7799-2. Þessar tillögur eru nú til umfjöllunar í ráðuneytinu og fljótlega er þess að vænta að þær verði kynntar heilbrigðisstofnunum. Í framhaldi af því verður gerð áætlun um innleiðingu öryggisstefnunnar og öryggisreglnanna.

Drög að kröfulýsingu fyrir rafræn sjúkraskrárkerfi heilsugæslustöðva
Nú liggja fyrir drög að lýsingu á þeim kröfum sem gerðar skal til rafrænna sjúkraskrárkerfa heilsugæslustöðva. Verkefnið sem felur í sér mótun á kröfulýsingum fyrir rafræn sjúkraskrárkerfi er þríþætt, þ.e. almenn kröfulýsing, sértæk kröfulýsing og sérkröfur aðila. Á heimasíðu ráðuneytisins eru nú aðgengilegar almennar kröfulýsingar fyrir sjúkraskrárkerfi og drög að kröfulýsingu fyrir sjúkraskrákerfi heilsugæslustöðva. Óskað er eftir athugasemdum við drögin sem nú liggja fyrir.
NÁNAR...

Styrkir veittir til að efla skólaheilsugæslu fyrir langveik börn
Samþykkt hefur verið sjö milljón króna fjárveiting til að efla skólaheilsugæslu fyrir langveik börn í skólum landsins árið 2002. Þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna sem samþykkt var árið 2000. Þar kemur fram að mikil fjölgun hefur orðið á langveikum nemendum í grunnskólum landsins. Mikilvægt sé að skapa þeim ákjósanleg skilyrði til náms og efla meðal annars starf skólahjúkrunarfræðinga sem gegna veigamiklu hlutverki við móttöku og umönnun langveikra barna í skólum. Ákveðið hefur verið að fjárveitingunni, sjö milljónum króna verði varið til að styrkja sérstök verkefni til uppbyggingar þjónustu fyrir langveik börn í skólum og einnig til að styrkja þjónustu vegna tímabundinna aðstæðna sem upp koma í einstökum tilvikum. Styrkirnir eru ætlaðir heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem bera ábyrgð á skólaheilsugæslu og hefur forstöðumönnum þeirra verið sent bréf þar sem auglýst er eftir umsóknum um styrki.

Verkefnisstjórn skipuð um undirbúning útboðs og reksturs nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn til að undirbúa og annast útboð á rekstri nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er: Að fullmóta útboðsgögn og skilmála útboðs og ganga frá útboði í samráði við Ríkiskaup. Að tryggja að meginmarkmið heilsugæslunnar endurspeglist í útboðslýsingunni og skera úr um vafaatriði er varðar það markmið. Að vinna úr og leggja mat á tilboð sem berast í samráði við Ríkiskaup. Verkefnisstjóri er Guðmundur Hannesson.
VERKEFNISSTJÓRNIN...

18% aukning í útgáfu afsláttarskírteina hjá TR
Tryggingastofnun ríkisins gaf út 8.624 afsláttarskírteini fyrstu fjóra mánuði þessa árs, eða ríflega 13.000 fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukningin milli ára er tæp 18% og skýrist af breytingum á gjaldskrá fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu sem tóku gildi í ársbyrjun. Þessar breytingar hafa nú verið dregnar til baka að miklu leyti.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
10. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum