Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Brunagaddur í Kiev

Auðunn Atlason sendiherra í Vín á fundi
Audunn Atlason

Fyrir rúmum mánuði kom ég í fyrsta sinn til Úkraínu. Tilefnið var fyrsti ráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu eftir að hafa tekið við starfi sem fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE. Vinnan síðasta haust fór að stórum hluta í undirbúning fundarins þar sem aðildarríkin 57 ræddu og tókust á um ályktanir og ákvarðanir fundarins á sviði öryggis- og afvopnunarmála, mannréttindamála og efnahags- og umhverfismála. Á lokasprettinum var samið um texta í hverju horni. Sannarlega „krasskúrs“ í alþjóðastjórnmálum.

Þetta voru dramatískir desemberdagar í Kiev. Á Maidan-torginu í miðbænum mótmæltu þúsundir Úkraínubúa ákvörðun ríkisstjórnar landsins að skrifa ekki undir viðskipta- og samstarfssamning við ESB og setja stefnuna þess í stað á Rússland. Úti var brunagaddur kvöldið sem ég labbaði niður á torg og mótmælendur brenndu timbur í tunnum til að halda á sér hita. Stæk reykjarlykt blandaðist rökum kuldanum sem á vissan hátt var dæmigert fyrir pólitíska andrúmsloftið í þessu 45 milljóna manna ríki sem teygir sig bæði í austur og vestur.

Á útisviði spilaði úkraínsk rokkhljómsveit ættjarðarlög sem fyllti fólkið baráttuanda og gleði. Ungir sem aldnir dilluðu sér og rauluðu með. En um leið læddist óttinn einhvern veginn um torgið eins og dalalæða. Skyldi engan undra því þremur dögum áður höfðu sérsveitir úkraínsku lögreglunnar ruðst inn að næturlagi og látið höggin dynja á sofandi fólki í svefnpokum. Tugir mótmælenda voru handteknir og hundruð barin til blóðs. Myndir af ofbeldinu fóru um heimsbyggðina á örskotsstundu og úkraínsk stjórnvöld voru fljót að fordæma atvikið. Innanríkisráðherrann var látinn taka pokann sinn.

Þegar þetta gerðist hættu mótmælin að snúast einungis um stefnu stjórnvalda um nánara samstarf við ESB eða Rússland. Ungt par sem gekk um og bauð upp á heitt te á torginu lýsti fyrir mér að fyrst og fremst væru grundvallarmannréttindi í húfi.  Þeim hraus hugur við því að Úkraína væri að verða land þar sem íbúar mættu ekki mótmæla friðsamlega eða tjá skoðanir sínar án þess að eiga að hættu að vera fangelsaðir eða lamdir til óbóta. Þau óttuðust um framtíð landsins síns. Ekki út frá efnahag eða pólitík heldur út frá þeim grundvallarréttindum fólks sem eru kjarninn í hverju lýðræðisríki.

Forsætisráðherra ÚkraínuÁ ráðherrafundi ÖSE tveimur dögum síðar hvatti hver utanríkisráðherrann á eftir öðrum, þ.m.t. Ísland, úkraínsk stjórnvöld til þess að virða alþjóðlega sáttmála, skuldbindingar og yfirlýsingar á sviði mannréttinda. Skyndilega skiptu samþykktir ÖSE öllu máli og veittu fólkinu utandyra vernd. Sömuleiðis var mikilvægt að utanríkisráðherrar fjölmenntu til Kiev til að hvetja til friðsamlegrar lausnar. Forsætis- og utanríkisráðherra Úkraínu fullvissuðu fundarmenn að réttindi friðsamra mótmælenda yrðu tryggð og flinkir úkraínskir diplómatar, sem höfðu staðið sig mætavel á formennskuárinu, áttu óteljandi samtöl við kollega sína úr sendinefndum annarra ríkja. Á næstu dögum hófst svo heimsóknahrina erlendra ráðamanna til Úkraínu sem hélt kastljósi fjölmiðla á Kiev.  

Málefni Úkraínu halda áfram að vera á borði ÖSE. Fastaráð stofnunarinnar fundar vikulega, m.a. um mannréttindamál, og því miður er af nógu að taka. Enn er fólk fangelsað vegna skoðana sinna, friðsamleg mótmæli bönnuð og fjölmiðlamenn ofsóttir og jafnvel drepnir. Grundvöllur ÖSE-samstarfsins er eftir sem áður sá að virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu séu forsenda friðar og öryggis.

Mannréttindi er ekki bara orð – þau snúast um líf venjulegs fólk. Þar sem ég stóð og sötraði te í kuldanum á Maidan-torginu upplifði ég áþreifanlega að rétturinn til friðsamlegra mótmæla og frjálsra skoðana er síður en svo sjálfgefinn. Það þarf að standa vörð um hann. Þar hafa öll ríki skyldum að gegna. Líka Ísland. 

Auðunn Atlason sendiherra er fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE í Vínarborg

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum