Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Sýslumaðurinn á Blönduósi gegnir einnig embætti sýslumanns á Sauðárkróki

Innanríkisráðherra hefur falið Bjarna G. Stefánssyni, sýslumanni á Blönduósi, að gegna embætti sýslumannsins á Sauðárkróki frá og með 1. febrúar næstkomandi til og með 31. janúar 2014. Ríkarði Mássyni, sýslumanni á Sauðárkróki, hefur verið veitt lausn frá 1. febrúar fyrir aldurs sakir.

Ráðstöfun þessi er gerð með vísan til laga um breytingu á lögum um framkvæmdavald ríkisins í héraði, nr. 51/2010, en þar segir að sé sýslumanni veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Þegar hefur þessari heimild verið beitt varðandi sýslumannsembættið í Hafnarfirði og sýslumannsembættið á Ísafirði.   

Fyrir Alþingi liggja nú lagafrumvarp innanríkisráðherra er varða annars vegar framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem tekur meðal annars til breytinga á umdæmum sýslumannsembætta og hins vegar breytingu á skipan lögreglumála. Miða frumvörpin að því að umdæmi sýslumanna og lögreglustjóra verði samræmd og þeim fækkað. Í athugasemdum með frumvörpunum er getið um ýmsar ástæður þessarar fækkunar og kemur fram að þær séu bæði faglegar og fjárhagslegar. Má sem dæmi nefna breytingar á skipan lögreglumála, byggðaþróun og bættar samgöngur, sameining sveitarfélaga og sameining stofnana, aukin samskiptatækni.

Innanríkisráðherra mælti fyrir báðum frumvörpunum 27. september og eru þau nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum