Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um meðferð eldsneytis og fleira til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um meðferð eldsneytis, geymslu, gæði og áfyllingu loftfara. Umsagnarfrestur um drögin er til 22. janúar og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].

Nýja reglugerðin mun fella úr gildi reglugerð nr. 282/1980 um eldsneytisáfyllingu loftfara en sú reglugerð er um margt úrelt eða ófullnægjandi þar sem ekki er tekið á fjölmörgum þáttum sem nauðsynlegt er að taka á. Þannig er nú í drögunum kveðið á um áhættustjórnun, ábyrgðaraðila, gæðakerfi, handbækur og verklag, þjálfun starfsmanna, sýnatöku og geymslu þeirra, geymslu gagna og eftirlit. Þá eru ítarlegri ákvæði um flesta aðra þætti sem kveðið var á um í eldri reglum.

Ekki er að finna samræmdar Evrópureglur á þessu sviði þó að einstök ákvæði sé þó að finna í samræmdum reglum um flugrekstur sbr. reglugerð  nr. 48/2012  sem innleiðir reglugerð ESB nr. 1008/2008 um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig er að finna nokkur ákvæði í reglugerð um almannaflug flugvéla nr. 694/2010 og reglugerð um flugvelli nr. 464/2007.

Að mestu er í drögunum um nýmæli að ræða en flest ákvæði gömlu reglugerðarinnar er þó þar enn að finna. Mest er byggt á fyrirmynd í bresku loftferðarlögunum (Air Navigation Order, 217 gr.) og bresku eldsneytisreglunum (CAB 748 Aircraft Fuelling and Fuel Installation Management). Einnig var höfð hliðsjón af dönsku BL 3-6 Bestemmelser om tankning af luftfartøjer, tankningspersonale/tankningstjeneste og tankningsanlæg.

Unnið er að viðauka 19 við Chicago sáttmálann hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) en nokkur tími er í að þeirri vinnu ljúki. Drög að viðaukanum liggja fyrir, en þar er gert ráð fyrir að samræmdar verði reglur um geymslu, meðferð og áfyllingu eldsneytis sem hluta af gæða- og öryggisstjórnunarkerfum (Quality Assurance and Safety Managment Systems, SMS). Í viðaukanum verða sameinaðar kröfur og tilmæli varðandi gæða- og öryggisstjórnun sem nú þegar er að finna í öðrum viðaukum, s.s. viðaukum 6, 11 og 14. Byggist efnið að verulegu leyti á IATA leiðbeiningunum (Guidelines for Aviation Fuel Quality Control and Operating Procedures) en flest flugfélög styðjast nú við leiðbeiningar IATA og hafa gert þær skuldbindandi í samningum við þjónustuaðila. Horft var til draga að viðaukanum við samningu reglugerðarinnar.

Reglugerðin mun taka til meðferðar geymslu og áfyllingar eldsneytis innan flugvallar og til tækjabúnaðar en þar er að mestu vísað í kröfur framleiðenda búnaðar auk þess sem vísað er til ADR reglna (reglugerð nr. 1077/2010 um flutning á hættulegum farmi) um merkingar eldsneytisbifreiða.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum