Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 91/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 91/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010026

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. janúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2020, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 1. nóvember 2015 sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærunefnd staðfesti þann 27. apríl 2016 ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. mars 2016, um að synja honum um efnismeðferð hér á landi og að hann skyldi endursendur til Noregs á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki fluttur til Noregs innan þeirra tímamarka sem fjallað er um í 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og féll ábyrgð Noregs á umsókn hans því niður. Í kjölfarið tók Útlendingastofnun umsókn hans til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi og jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði þann 10. janúar 2019 felldi kærunefnd þá ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og var kæranda veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. október 2019, var alþjóðleg vernd kæranda afturkölluð og honum jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar og var tekið fram að ólögmæt dvöl gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga. Síðastnefnd ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki kærð til kærunefndar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2020, var kæranda brottvísað og ákveðið tveggja ára endurkomubann. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar þann 21. janúar sl. og í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 6. febrúar sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 4. febrúar sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að þann 25. október 2019 hefði stofnunin afturkallað alþjóðlega vernd kæranda hér á landi þar sem hann hefði gefið upp rangt þjóðerni við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Með ákvörðuninni hefði kæranda jafnframt verið synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hefði stofnunin veitt kæranda 30 daga til að yfirgefa landið en kærandi hefði tekið ákvörðun um að kæra ekki fyrrgreinda ákvörðun og hafi í kjölfarið, þann 13. nóvember 2019, óskað eftir aðstoð IOM (International Organization for Migration) til þess að fara til heimaríkis síns [...]. Þann 13. desember 2019 hafi IOM hafnað umsókn kæranda um aðstoð af þeirra hálfu vegna misræmis í umsóknarferli hans. Í kjölfarið hafi kærandi verið boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnunar þann 7. janúar 2020 vegna hugsanlegrar brottvísunar. Í viðtalinu hafi kæranda verið tilkynnt að til stæði að brottvísa honum þar sem hann hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frest og honum veitt færi á að mótmæla ákvörðun um brottvísun og endurkomubann inn á Schengen-svæðið. Þá hafi verið lagðar spurningar fyrir hann um það hvort ákvörðun um brottvísun fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og hvort hann hefði sérstök tengsl innan Schengen-svæðisins. Hafi kærandi mótmælt brottvísun og talið hana ósanngjarna þar sem hann hefði ekki verið í heimalandi sínu í tólf ár. Þá ætti hann kærustu í Noregi en enga ættingja á Schengen-svæðinu.

Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Bæri Útlendingastofnun, að teknu tilliti til ákvæða 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda á brott skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að sú ástæða að hann hafi gefið upp rangt nafn hjá stjórnvöldum á Íslandi eigi ekki að leiða til afturköllunar á þeirri alþjóðlegu vernd sem kærunefnd hafi lagt fyrir Útlendingastofnun að veita honum. Hann sé fæddur og uppalinn í þorpi í Írak sem sé við landamæri Írans. Faðir hans hafi fallið frá þegar kærandi hafi verið [...] ára og hafi móðir hans farið skömmu síðar að hitta annan mann. Hafi það samband þótt mikill smánarblettur á fjölskyldu hans og hafi kærasti móður hans hótað honum lífláti ef hann myndi tilkynna frændfólki sínu um ráðahag þeirra. Hafi hann óttast um líf sitt og æru og því flúið til ættingja sinna í Íran við árslok 2006. Í Íran hafi kærandi svo tekið við persónuskilríkjum annars manns sem hann hafi svo framvísað við umsókn sína um alþjóðlega vernd í Noregi og notast jafnframt við það auðkenni hér á landi.

Kærandi byggir á því Útlendingastofnun hafi láðst að taka til skoðunar hvort kærandi hefði ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í Írak, en hann telji ljóst að hann verði ofsóttur þar af írönskum erindrekum vegna stjórnmálaskoðana. Sé ljóst að ítök Írana í málefnum Íraks séu veruleg, sbr. framlögð gögn, og hafi íranskir yfirmenn í raun frjálsa tauma þegar komi að lykilstofnunum Íraks. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki fylgt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og þá brjóti fyrirhuguð brottvísun í bága við 42. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Hann hafi dvalið hér á landi frá 1. nóvember 2015 og myndað hér sterk tengsl við land og þjóð en í heimaríki hafi hann ekki búið frá árinu 2006 og hafi því takmörkuð tengsl við það. Feli hin fyrirhugaða brottvísun í sér íþyngjandi og bersýnilega ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal svo framarlega sem 102. gr. sömu laga á ekki við vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Eins og áður greinir afturkallaði Útlendingastofnun með ákvörðun, dags. 25. október 2019, alþjóðlega vernd kæranda og synjaði honum jafnframt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til gagna sem Útlendingastofnun hafði aflað var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi væri frá Írak, en ekki Íran, eins og kærandi hélt fram við málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Kæranda var veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið og var tekið fram að ólögmæt dvöl gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ekki ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og því ljóst að ákvörðunin hefur full réttaráhrif. Sætir ákvörðun Útlendingastofnunar frá 25. október 2019 því ekki endurskoðun hjá kærunefnd heldur einungis ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar sl. um að brottvísa kæranda og ákveða honum endurkomubann til Íslands. Verður því ekki fjallað nánar um þær málsástæður kæranda sem lúta að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 25. október 2019.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi yfirgaf ekki landið innan veitts frest, sbr. síðastnefnda ákvörðun Útlendingastofnunar, og er skilyrðum a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga um brottvísun því fullnægt.

Kærandi byggir á því að brottvísun muni brjóta gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Í greinargerð kveðst kærandi vera fæddur og uppalinn í [...], sem tilheyri sjálfstjórnarhéraðinu Kúrdistan (e. Kurdistan Region of Iraq).

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. október 2019, vísaði Útlendingastofnun til þess að það væri mat stofnunarinnar að afturköllun á alþjóðlegri vernd og endursending til heimaríkis bryti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðuninni var ekki vikið nánar að aðstæðum í heimaríki kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. janúar 2020 kvaðst kærandi ekki vilja snúa aftur til heimaríkis og vísaði til þess að þar óttist hann um öryggi sitt þar sem hann hafi orðið fyrir líflátshótunum af hendi kærasta móður sinnar. Þrátt fyrir þetta var í hinni kærðu ákvörðun ekki tekin afstaða til þess hvort brottvísun kæranda færi í bága við 42. gr. laga um útlendinga. Í kæru sinni til kærunefndarinnar hefur kærandi fært fram frekari sjónarmið um aðstæður í heimaríki sínu sem mæla gegn því að honum verði brottvísað.

Einnig er ljóst að kærandi kvaðst í sama viðtali eiga kærustu í Noregi sem hann hafi gifst að íslömskum sið, hann sé í reglulegum samskiptum við hana og hún hafi heimsótt hann hér á landi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er að mati kærunefndar ekki tekin fullnægjandi afstaða til sambands þeirra m.t.t. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, þ.e. hvort brottvísun kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða kærustu hans.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar sé haldin slíkum annmarka að ekki verði bætt úr honum á kærustigi enda er meginmarkið stjórnsýslukæru að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                         Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum