Hoppa yfir valmynd
4. október 2002 Utanríkisráðuneytið

Viðskiptaviðræður við Færeyinga

Nr. 100

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag fóru fram viðræður í Þórshöfn á milli Íslands og Færeyja skv. fríverslunarsamningi þjóðanna. Á fundinum var farið yfir viðskipti landanna og möguleika á því að auka þau. Fjallað var um upprunareglur og fyrirkomulag þeirra.

Einnig var reynt að leysa þau vandamál sem aftur hafa komið upp vegna landamærastöðva, þar sem Ísland er meðhöndlað sem þriðja ríki hvað varðar innflutning á landbúnaðarafurðum. Færeyingar lýstu því yfir, í kjölfar samráðs við framkvæmdastjórnina, að túlkun ákvæða í viðkomandi Evróputilskipun ylli vandkvæðum en stjórnvöld í Færeyjum væru staðráðin í að leysa þetta mál án tafar, svo að íslenskar landbúnaðarafurðir mundu eiga greiðari aðgang að færeyskum mörkuðum.

Einnig var vísað til viðræðna Anfinn Kallsberg lögmanns Færeyinga og Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra þann 25. september sl. þar sem rætt var um möguleika á því að dýpka og breikka viðskiptasamstarf þjóðanna. Á fundinum var þessi áhugi áréttaður og ákveðið var að ræða þann möguleika á ný á næstunni.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 4. október 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum