Hoppa yfir valmynd
10. október 2002 Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu

Nr. 103

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins í Inari í Finnlandi. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Ísland gegnir formennskunni í tvö ár og verður skrifstofa ráðsins starfrækt í utanríkisráðuneytinu á því tímabili.

Norðurskautsráðið var stofnað 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta; Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar. Norðurskautsráðið er vettvangur aðildarríkjanna og samtaka frumbyggja á norðurslóðum, sem eiga aðild að ráðinu, um samvinnu á sviði umhverfismála og uppbyggingu sjálfbærrar þróunar. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu.

Norðurskautsráðið er fyrst og fremst samráðs- og samvinnuvettvangur um stefnumörkun. Á vettvangi þess er unnið öflugt starf á sviði vöktunar á efnamengun á norðurskautssvæðinu, verndunar hafsins gegn mengun og lífríkisverndar. Ráðið sinnir jafnframt málefnum sem lúta að lífsskilyrðum og lífskjörum fólks á norðurslóðum. Af einstökum verkefnum ráðsins má nefna umfangsmikið mat á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum og hugsanleg viðbrögð við þeim, sem nú er unnið að.

Í formennskunni leggur Ísland áherslu á áframhaldandi öflugt samstarf á vettvangi umhverfismála en beinir sjónum í auknum mæli að hlutverki ráðsins á sviði efnahags- og félagslegra þátta sjálfbærrar þróunar, einkum að lífskjörum og lífsskilyrðum fólks á norðurslóðum.

Til að nálgast þessa sýn hafa verið útfærðar hugmyndir að verkefnum (sjá meðfylgjandi áhersluskjal). Ber þar helst að nefna gerð skýrslu um mannlífs-, byggða- og atvinnumál á norðurslóðum sem Ísland hyggst beita sér fyrir á formennskutímanum (Arctic Human Development Report). Einnig er lögð áhersla á notkun upplýsingatækni á norðurslóðum og aukið samstarf vísindastofnana í þágu sjálfbærrar þróunar.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. október 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum