Hoppa yfir valmynd
30. júní 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2003: Dómur frá 30. júní 2003

Ár 2003, mánudaginn 30. júní, er í Félagsdómi í málinu nr. 3/2003:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

(Gísli Tryggvason hdl.)

gegn

Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði,

og

Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra í Reykjavík

(Þórólfur Jónsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

dómur

Mál þetta, sem dómtekið var 10. þessa mánaðar, er höfðað 11. febrúar 2003.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Magnús I. Erlingsson.

Stefnandi er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Stefndu eru Hrafnista, dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði, Skjólvangi, Hafnarfirði, og Hrafnista, dvalarheimili aldraðra í Reykjavík, Laugarási, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

viðurkennt verði að skilja beri ákvæði 4.2 um nýtt framgangskerfi í aðlögunarsamkomulagi stefnanda við stefnda Hrafnistu í Hafnarfirði frá 30. september 1998  og í aðlögunarsamkomulagi stefnanda við stefnda Hrafnistu í Reykjavík frá 2. október 1998  þannig að hjúkrunardeildarstjórar eigi rétt á launahækkun samkvæmt framgangskerfinu frá 1. febrúar 1999. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

  
Dómkröfur stefndu

 stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður.

 

Málavextir

Í árslok 2000 leituðu hjúkrunardeildarstjórar á Hrafnistu, dvalarheimilum aldraðra í Hafnarfirði og í Reykjavík, til stefnanda, stéttarfélags síns, þar sem deildarstjórarnir töldu að brotið hefði verið á rétti þeirra þegar framkvæmdar hafi verið afturvirkar launagreiðslur í tengslum við nýtt framgangskerfi hjá hjúkrunarfræðingum á Hrafnistu. Stefnandi endurnýjaði kjarasamning við stefndu 7. júlí 1997 og 30. september 1998 náðist samkomulag í aðlögunarnefnd stefnanda og stefnda Hrafnistu í Hafnarfirði og í aðlögunarnefnd stefnanda og stefnda Hrafnistu í Reykjavík 2. október 1998. Eru samningarnir samhljóða að því er ágreiningsefni máls þessa varðar. Launahækkanir vegna framgangs á dvalarheimilum Hrafnistu komust á haustið 2000 og voru afturvirkar til 1. febrúar 1999 fyrir almenna hjúkrunarfræðinga en til 1. september 1999 fyrir hjúkrunardeildarstjóra. Stefnandi kveður deildarstjóra á Hrafnistuheimilunum hafa þá þegar mótmælt þessu fyrirkomulagi, bæði munnlega og skriflega, og hafi aldrei komið til tals í vinnu við þróun framgangskerfisins annað en að allir hjúkrunarfræðingar fengju afturvirkar greiðslur frá 1. febrúar 1999.  Ekki hefur náðst samkomulag um þær kröfur stefnanda, sem hann hefur uppi í máli þessu, og byggja stefndu á því að framgangskerfið hafi ekki átt að taka til hjúkrunardeildarstjóra en hins vegar hefðu stefndu orðið að greiða deildarstjórunum afturvirkt frá 1. september 1999 með sama hætti og gert hafi verið á Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Stefnandi krafðist þess að fastir dómarar Félagsdóms vikju sæti í málinu en með úrskurði dómsins 30. apríl síðastliðinn var þeirri kröfu hafnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að grundvöll framgangskerfis hjúkrunarfræðinga við Hrafnistuheimilin tvö sé að finna í samkomulagi aðlögunarnefndar stefnanda og stefnda Hrafnistu í Hafnarfirði annars vegar, dagsettu 30. september 1998, og samkomulagi aðlögunarnefndar stefnanda og stefnda Hrafnistu í Reykjavík hins vegar, dagsettu 2. október 1998. Í gr. 4.2 í umræddu samkomulagi sé enginn greinarmunur gerður á deildarstjórum og öðrum hjúkrunarfræðingum. Sé ekki vísað í aðra samninga eða aðrar sjálfstæðar stofnanir í ákvæði 4.2 um framgangskerfi en stefndu séu samkvæmt 2. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sjálfstæðir viðsemjendur stéttarfélaga á borð við stefnanda.

Niðurstaða ágreinings aðila ráðist af túlkun á orðalagi ákvæðis gr. 4.2 í samkomulaginu enda sé annað ekki hægt í ljósi þess að 10. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna kveði á um að kjarasamningar skuli vera skriflegir. Verði 3. málsl. ákvæðisins ekki skilinn á annan veg en að fyrri liður málsliðarins feli í sér bindandi gildistökudagsetningu, 1. febrúar 1999, og síðari hluti málsliðarins kveði á um framkvæmd sem þannig hafi borið að hafa afturvirka til 1. febrúar 1999. Hafi ekki annað komið til tals en að framgangskerfið næði til allra hjúkrunarfræðinga. Þá hafi ekki annað verið rætt en að þeir fengju allir afturvirka hækkun frá sama tíma.

Stefnandi byggir dómkröfuna einnig á jafnræðisreglu enda hafi stefndu framkvæmt samningana gagnvart hjúkrunarfræðingum, öðrum en deildarstjórum, án þess að hafa fært fram nokkra heimild eða nokkur haldbær rök fyrir annarri túlkun gagnvart deildarstjórum og þeirri mismunun sem í henni felst. Í þessu sambandi bendi stefnandi á að enginn munur sé heldur efnislega gerður á rétti deildarstjóra og annarra hjúkrunarfræðinga í aðlögunar- samningunum. Mismunun milli hópa, sem falla undir samninginn, og önnur framkvæmd en sú, sem stefnandi gerir kröfu um, hefði því þurft að styðjast við sérstök samningsákvæði sem auk þess væru byggð á málefnalegum forsendum sem stefnandi og félagsmenn hefðu þá átt þess kost að taka afstöðu til í umfjöllun um samninginn.

Stefndu hafi aðeins vísað til þess að launaliður fjárveitinga miði við 1. september 1999 og þess að sjúkrahús og önnur hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu hafi miðað framgang deildarstjóra við þá dagsetningu. Þessum skýringum vísi stefnandi á bug enda fari þær báðar í bága við sjálfstæða samningsaðild stefndu samkvæmt 2. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fari fyrri skýringin í bága við 24. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 sem feli í sér að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, óháð fjármögnun og fjárhagsstöðu vinnuveitenda, sem stéttarfélög á borð við stefnanda geti ekki borið ábyrgð á. Síðari skýringin fari að mati stefnanda í bága við þá staðreynd að ekkert hafi verið rætt um síðari gildistöku vegna deildarstjóra á Hrafnistuheimilunum í aðlögunarferlinu.

Greiðsluskuldbinding stefnda, að því er höfuðstól stefnukröfu varði, styðjist við skráðar og óskráðar reglur íslensks kröfuréttar, svo og starfsmannaréttar, um að samninga beri að halda og kaupgjald að gjalda þegar um er samið eða krafist er og að samninga beri að túlka í samræmi við stjórnarskrárvarinn samningsrétt launafólks, sbr. 2. mgr. 75. gr. stjórnar- skrárinnar.

 

Málsástæður og lagrök stefndu

Krafa stefndu um sýknu er á því byggð að ekkert í kjarasamningi eða samkomulagi aðlögunarnefndar hafi skyldað stefndu til þess að greiða deildarstjórum sérstaka hækkun vegna niðurstöðu aðlögunarnefndar. Á ákvörðun stefndu um sérstakar launahækkanir vegna starfs aðlögunarnefnda sé rétt að líta sem eins konar örlætisgerning.

Í samkomulagi aðlögunarnefndar hafi í gr. 4.2 verið fjallað um upptöku sérstaks framgangskerfis hjúkrunarfræðinga. Af greininni sé ljóst í henni séu tvær dagsetningar en ekki ein eins og stefnandi haldi fram. Fyrri dagsetningin sé 1. febrúar 1999 en sú síðari 31. desember 1999. Samkvæmt almennum reglum um túlkun samninga, sem einnig gildi um kjarasamninga, beri fyrst og fremst að líta til orðalags við túlkun samninga og sé raunar sérstök áhersla lögð á þá túlkunarreglu við kjarasamninga. Af ofangreindu sé ljóst að aðilar aðlögunarsamkomulagsins hafi ætlað sér nokkurt svigrúm til þess að ganga frá framgangskerfinu. Sá sem haldi fram túlkun samnings, sem ekki verði beint ráðin af orðalagi samnings, beri sönnunarbyrði fyrir túlkun sinni. Hér hátti svo til að öll efnisrök standi gegn túlkun stefnanda þar á meðal aðgerðir félagsins sjálfs. Greint sé frá því í stefnu að stefnanda sé kunnugt að samið hafi verið um síðari gildistöku við aðra viðsemjendur. Hér sé vísað til samninga/samkomulags við langstærsta viðsemjanda stefnanda, Ríkisspítala. Kjarasamningar stefnanda og Ríkisspítala séu algjörlega leiðandi í öllum kjarasamningum vegna félaga stefnanda. Þá sé löngu liðin sú tíð að litið verði á kjarasamninga sem skjöl samin af vinnuveitanda heldur beri að líta á þá sem samninga milli jafningja.

Eðlilegur skilningur á gr. 4.2 sé því sá að ótvíræð gjaldskylda stefndu hafi ekki stofnast fyrr en við árslok 1999. Aðgerðir stefnanda sjálfs gagnvart langstærstu viðsemjendum sínum leiði í ljós að umdeilt hafi verið hvort deildarstjórar ættu yfirleitt að fá sérstakar hækkanir vegna framgangskerfis en deildarstjórar hafi hlotið verulegar launahækkanir umfram þá sem framgangskerfið hafi einkum átt að koma til góða, það er almennum hjúkrunarfræðingum.

Kjarni í öllum jafnræðisreglum sé að líkt skuli fara með lík tilvik en ólíkt með ólík. Prófun jafnræðisreglu felist þá fyrst í því að kanna hvort tilvik séu í raun eins eða nægilega lík. Málsástæða stefnanda um þetta falli á fyrstu hindrun. Aðstaða hærra settra stjórnenda, eins og deildarstjóra, og almennra hjúkrunarfræðinga sé almennt ólík þótt hvorirtveggju séu í sama stéttarfélagi. Við þetta bætist í þessu tilviki að deildarstjórar hafi í kjarasamningnum frá 7. júlí 1997 hlotið til verulegra muna meiri launahækkanir en almennir hjúkrunarfræðingar. Af þessu leiði að ekki einungis hafi almenn staða þessara tveggja hópa verið ólík heldur hafi sérstök staða þeirra, með tilliti til umdeildra kjarasamninga og samkomulags, einnig verið það.  Geti því engin jafnræðisregla mælt fyrir um að þessi ólíka aðstaða og tilvik verði meðhöndluð eins. Engin mismunun hafi því átt sér stað enda hafi hjúkrunardeildarstjórar fengið verulega meiri hækkanir í kjarasamningum 7. júlí 1997 en almennir hjúkrunar- fræðingar.

 

Niðurstaða

Mál þetta heyrir undir Félagsdóm samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Hið umdeilda ákvæði gr. 4.2. í aðlögunarsamkomulagi aðila hljóðar svo:

„Nýtt framgangskerfi

Stjórnendur Hrafnistu munu í samráði við fulltrúa FÍH vinna að mótun nýs framgangskerfis fyrir hjúkrunarfræðinga. Þetta kerfi byggi m.a. á klíniskum stiga, mati á álagi og menntun, þar með talið sérleyfa, umfangi stjórnunarlegrar eða rekstrarlegrar ábyrgðar, frumkvæði í starfi og hollusta [sic] við stofnunina. Byrjað verði að taka kerfið í notkun 1. febrúar 1999 og stefnt að því að það verði að fullu komið til framkvæmda í lok þess árs. Kerfið getur haft áhrif á röðun innan hvers launaramma.”

Að áliti dómsins verður ekki ráðið af orðalagi ákvæðisins að sú skylda sé lögð á stefndu að greiða öllum hjúkrunarfræðingum samkvæmt umræddu framgangskerfi frá 1. febrúar 1999.

Ómótmælt er af hálfu stefnanda að Ríkisspítalar og stefnandi hafi komist að samkomulagi um að almennir hjúkrunarfræðingar fengju greiddar hækkanir samkvæmt framgangskerfinu afturvirkt frá 1. janúar 1999 en hjúkrunardeildarstjórar frá 1. september sama árs. Í greinargerð stefndu var skorað á stefnanda að leggja þetta samkomulag fram en við þeirri áskorun hefur ekki verið orðið af hans hálfu.

Ofangreind áskorun stefndu er réttmæt að mati dómsins. Verður því að virða það stefnanda í óhag að hafa ekki lagt samkomulagið fram.

Allir hjúkrunardeildarstjórar eru innan vébanda stefnanda. Þykir því skjóta skökku við að stefnandi hafi staðið að samkomulagi fyrir hönd langstærsta hluta þess hóps félagsmanna um að þeir fái greitt samkvæmt umræddu framgangskerfi frá 1. september 1999 og höfði síðan mál fyrir hönd fámenns hóps deildarstjóra til viðurkenningar á því að þeir eigi rétt á að fá greitt frá 1. febrúar sama árs og öðlast þar með betri rétt en hjúkrunardeildarstjórar á Ríkisspítulum. Samkvæmt því yrði um bersýnilega mismunun að ræða milli þessara tilteknu félagsmanna stefnanda hjá Ríkisspítunum annars vegar og félagsmanna hans hjá stefndu hins vegar. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi hafi, með samkomulaginu við Ríkisspítala, sætt sig við þá túlkun stefndu á samkomulagi aðlögunarnefndar stefnanda og stefndu að stefndu hafi ekki verið skylt að greiða hjúkrunardeildarstjórum samkvæmt framgangskerfinu frá 1. febrúar 1999.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu og dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

Dómsorð

Stefndu, Hrafnista, dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði, og Hrafnista, dvalarheimili aldraðra í Reykjavík, eru sýkn af kröfum stefnanda, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Kristján Torfason

Magnús I. Erlingsson 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum