Hoppa yfir valmynd
3. september 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 19/2003. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 3. september 2003

í máli nr. 19/2003:

Skýrr hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 8. júlí 2003, sem barst nefndinni 9. júlí 2003, kærir Skýrr hf. útboð Ríkiskaupa f.h. Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við ÖLMU upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur: 1) Að ákvörðun kærða um að breyta útboðsgögnum og að breyta forsendum fyrir mati á tilboðum bjóðenda eins og þær forsendur voru í útboðsgögnum nr. 13112 yfir í þær forsendur sem komu fram í útboðsgögnum nr. 13279 sem kærði útbjó í kjölfar úrskurðar kærunefndar útboðsmála nr. 33/2002 verði úrskurðuð ólögmæt og að viðurkennd verði skaðabótaskylda kærða gagnvart kæranda. 2) Að ákvörðun kærða um að ráða VKS hf. sem ráðgjafa í útboðinu verði úrskurðuð ólögmæt þar sem VKS hf. hafi verið vanhæft til að sinna ráðgjöf við útboðið. Þá er krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda kærða vegna þessa. 3) Að nefndin úrskurði að kærði hafi brotið gegn skilmálum útboðsins nr. 13112 með því að glata úr vörslum sínum eða að hafa afhent af gáleysi tilboðsgögn og trúnaðargögn er innihéldu mikilvæg viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins sem kæranda var gert að skila inn til kærða í tengslum við tilboðsgerð sína til annarra bjóðenda í útboðinu og samkeppnisaðila kæranda á markaði eða annarra óviðkomandi aðila. Þá er krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda kærða gagnvart kæranda vegna þessa. 4) Til vara krefst kærandi þess, fallist nefndin á að útboð nr. 13112 hafi verið löglega fellt niður, að hún úrskurði að kærði hafi með ólögmætum hætti lagt til grundvallar önnur matsatriði og forsendur en tilgreindar voru í útboðsgögnum nr. 13279 og gögnum sem bjóðendum var gert að senda inn með tilboðum sínum til að meta hæfni og styrk verkefnahóps kæranda og þar með brotið gegn 26. gr. laga nr. 94/2001. Krafist er að viðurkennd verði skaðabótaskylda kærða gagnvart kæranda. Þá er þess krafist að matsmanni verði falið að fara yfir einkunnagjöf matshóps útboðsins og endurákvarða þá einkunn sem kæranda var gefin undir liðnum „Hæfni og styrkur verkefnahóps" í kafla 1.2.1 í útboðsgögnum nr. 13279. 5) Að nefndin kveði til sérfróðan matsmann sbr. 76. gr. laga nr. 94/2001 sem að mati nefndarinnar sé bær og hæfur til að leggja mat á menntun, reynslu og þekkingu starfsmanna bjóðenda sem notað var sem forsenda til að gefa tilboði bjóðenda einkunn í útboðunum og aðra þætti er varða mat á hæfi bjóðenda samkvæmt útboðsgögnum. 6) Að kærði verði úrskurðaður til þess að greiða kæranda kærumálskostnað sem hlotist hefur af kærunni.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, aðallega með frávísun, en til vara vegna málsatriða.

I.

Um miðjan júlí 2002 óskuðu fulltrúar Tryggingastofnunar ríkisins eftir aðstoð og ráðgjöf kærða við að bjóða út hönnun og smíði á nýju upplýsingakerfi fyrir lífeyristryggingasvið Tryggingastofnunar ríkisins. Var ákveðið að kærði efndi til forvals og í framhaldi af því til lokaðs útboðs á kerfinu.

Kærði efndi til forvals nr. 13101, auðkennt „ALMA – Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins" til að velja þátttakendur í fyrirhugað útboð á hinu nýja upplýsingakerfi. Forvalslýsing var dagsett í ágúst 2002 og tóku 11 aðilar þátt í forvalinu. Samkvæmt tilkynningu þann 4. október 2002 voru fjögur fyrirtæki valin til þátttöku í lokuðu útboði, þ.á.m. kærandi. Einum þátttakanda í forvalinu, Streng hf., var vísað frá þáttöku í forvalinu og kærði Strengur hf. þá niðurstöðu til nefndarinnar.

Hinn 2. desember 2002 voru þeim sem valdir voru í forvali nr. 13101 afhent útboðsgögn í hinu lokaða útboði nr. 13112, auðkennt „Alma – Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins". Útboðsgögnin voru í tveimur meginhlutum, útboðslýsingu og verkefnislýsingu/kröfulýsingu. Í lið 1.1.1 í útboðslýsingu kom fram að ráðgjafi verkkaupa í verkefninu væri VKS hf. Skilafrestur tilboða samkvæmt sama lið var til 16. janúar 2003. Samkvæmt útboðsgögnum skyldu bjóðendur skila tilboðum sínum í tvennu lagi í tveimur lokuðum umslögum. Umslag 1 skyldi hafa að geyma lýsingu á lausn bjóðanda á verkefninu ásamt greinargerðum og upplýsingum sem farið væri fram á í útboðslýsingunni. Umslag 2 skyldi hafa að geyma verðtilboð bjóðanda, þ.e. útfyllt tilboðsblað. Umslag 1 skyldi opnað fyrst, lausn bjóðenda metin og henni gefin einkunn samkvæmt matsreglum útboðsins. Á meðan skyldi umslag 2 varðveitt hjá sérstökum trúnaðarmanni, forstjóra kærða. Umslag 2 skyldi síðan opnað í viðurvist þeirra bjóðenda sem þess óskuðu eftir að niðurstaða úr mati á tilboðsþáttum lausna hefði verið birt. Samkvæmt lið 1.2.3. í útboðslýsingu, „Val á samningsaðila" skyldi tilboðum gefinn einkunn á eftirfarandi hátt:

„Tilboðum er fyrst gefin einkunn eða stig samkvæmt eftirfarandi huglægum matsþáttum:

Nr.

Matsþættir - huglægir

Hámarksstig

1.

Hæfni og styrkur verkefnishóps.

50

2.

Skilningur bjóðanda á verkefninu.

25

3.

Nálgun og aðferðafræði bjóðanda að verkefninu.

15

4.

Heilleiki og gæði tillögu bjóðanda að verkáætlun.

5

5.

Rökrétt uppbygging, heilleiki og gæði tilboðsins í heild.

5

Heildarstigafjöldi (vægi 50%)

100

Tafla 1

Heildarfjöldi stiga úr liðum 1-5, sem hefur 50% vægi í heildareinkunn, er borinn saman við verð, sem hefur 50% vægi í heildareinkunn. Það tilboð verður talið hagstæðast sem hlýtur hæsta, vegna meðaleinkunn allra matsþátta.

Nr.

Matsþáttur - verð

Stig

6.

Heildarverð (vægi 50%)

100

Tafla 2"

Kærandi skilaði inn fjórum tilboðum hinn 17. janúar 2003. Í úrskurði í máli nr. 33/2002, Strengur hf. gegn Ríkiskaupum, sem kveðinn var upp hinn 5. febrúar 2003, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Streng hf. hefði verið hafnað með ólögmætum hætti í forvali nr. 13101. Úrskurðarorð nefndarinnar voru svohljóðandi: „Felld er úr gildi ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna Streng hf. sem þátttakanda í forvali Ríkiskaupa nr. 13101 auðkennt sem „Alma-Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins." Lagt er fyrir Ríkiskaup að auglýsa forvalið á ný."

Með tölvubréfi, dags. 7. febrúar 2003, tilkynnti kærði bjóðendum í útboði nr. 13112 úrskurð nefndarinnar og bað þá um að búa sig undir seinkun á framkvæmd útboðsins. Með tölvubréfi kærða, dags. 17. febrúar 2003, var tilkynnt að forval Ölmu yrði endurtekið. Í bréfinu kom fram að vinna að lausnum í umslagi 1 hefði verið hafin en hefði verið stöðvuð þegar úrskurður nefndarinnar var birtur. Því væri ekki hægt að skila umræddum gögnum heldur yrði þeim eytt. Hins vegar yrði umslagi 2 skilað óopnuðu. Hinn 18. febrúar 2002 sendi kærandi kærða bréf með athugasemdum vegna meðhöndlunar málsins og samdægurs ritaði kærði bréf til bjóðenda í útboði nr. 13112. Hinn 23. febrúar 2003 auglýsti kærði nýtt forval nr. 13242, auðkennt „Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins" en þá hafði þegar verið send tilkynning um forvalið á Evrópska efnahagssvæðið.

Kærði breytti síðar ákvörðun sinni um að afhenda ekki gögn úr umslagi 1 til bjóðenda. Þegar kærandi sótti gögn sín til kærða kom í ljós að fjóra geisladiska með jafnmörgum tilboðum hans vantaði í gögnin. Þá var í kassa kæranda einn geisladiskur merktur öðrum bjóðanda í útboðinu. Í kjölfar þessa skiptust kærandi og kærði á bréfum um meðferð gagnanna.

Sjö aðilar tilkynntu sig í forval nr. 13242, en niðurstaða kærða var að velja sömu aðila og í fyrra forvalinu, þ.e. þá sem voru með í hinu lokaða útboði nr. 13112. Hinn 16. apríl 2003 voru þessum fjórum aðilum send útboðsgögn í lokuðu útboði nr. 13279, auðkennt „Alma – Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins". Gögnunum fylgdi jafnframt bréf kærða þar sem sagði að þar sem nokkuð væri um liðið síðan fyrirrennarinn, þ.e. útboðslýsing nr. 13112, hefði litið dagsins ljós hefðu óhjákvæmilega orðið ýmsar breytingar á lýsingunni. Síðan sagði að helstu breytingarnar væru eftirfarandi: „1. Aðeins útboðslýsingin sjálf er nú á pappír en fylgiskjöl hennar og önnur útboðsgögn eru öll á hjálögðum geisladiski sem er hluti útboðsgagnanna. 2. Óskað er eftir tilboði í grunnkerfi án uppgjörskerfis. Tilboð í upplýsingakerfið er því ekki valkvætt, en þjónustusamningur er valkvæður fyrir verkkaupa, sjá tilboðsblað. 3. Vægi milli verðs og annarra matsþátta er nú 30 / 70. 4. Óskað er eftir einu og aðeins einu tilboði frá hverjum bjóðanda." Matslíkan fyrir einkunnagjöf/stigagjöf í útboðinu var samkvæmt lið 1.2.1 eftirfarandi:

„Tilboðum er fyrst gefin einkunn eða stig samkvæmt eftirfarandi matsþáttum lausnar:

Nr.

Matsþættir - lausn

Hámarksstig

1.

Hæfni og styrkur verkefnishóps.

50

2.

Skilningur á verkefninu og lausn

25

3.

Nálgun og aðferðafræði

10

4.

Verkáætlun

10

5.

Þjónusta og fleira

5

Heildarstigafjöldi (vægi 70%)

100

Tafla 1

Tilboð sem fá minna en 70 stig af 100 mögulegum skv. matsþáttum 1-5 í töflu 1, verða talin ófullnægjandi og ekki skoðuð frekar.

Nr.

Matsþáttur - verð

Hámarksstig

6.

Heildarverð (vægi 50%)

100

 

Heildarstigafjöldi (vægi 30%)

100

Tafla 2"

Jafnframt var aukið við þær upplýsingar sem óskað var um einstök verkefni og reynslu starfsmanna bjóðenda. Kærandi skilaði inn tilboði vegna útboðsins hinn 28. maí 2003. Þann 12. júní 2003 var tilkynnt niðurstaða matshóps kærða á lausnum bjóðenda í umslagi 1, jafnframt því sem umslag 2 með verðtilboði bjóðenda var opnað. Hinn 13. júní 2003 tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að ganga til skýringarviðræðna við TölvuMyndir hf. Þann 19. júní 2003 tók kærði tilboði TölvuMynda formlega. Hinn 13. júní 2003 óskaði kærandi eftir því að kærði gerði grein fyrir sundurliðun einkunna. Svar barst frá kærða hinn 19. júní 2003. Með bréfi til kærða, dags. 25. júní 2003, óskaði kærandi eftir frekari skýringum og með bréfi kærða, dags. 26. júní 2003, var enn frekari upplýsinga óskað. Þessum bréfum hefur kærði ekki enn svarað.

II.

Kærandi byggir á því að ólögmætt hafi verið af hálfu kærða að breyta vægi matsþátta sem lagðir voru til grundvallar samkvæmt útboði nr. 13112 til að velja boð bjóðenda í verkið. Útboðsgögnunum hafi verið breytt í grundvallaratriðum eftir að forvalið var endurtekið þannig að möguleikum bjóðenda til að fá verkið hafi verið raskað verulega frá því sem var í fyrri útboðsgögnum. Í þessu sambandi byggir kærandi í fyrsta lagi á því að í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 33/2002 hafi það eitt falist að endurtaka ætti forvalið, en að útboðið, forsendur þess og umfang skyldi ekki breytast að öðru leyti. Í öðru lagi á því að að aldrei hafi verið á það minnst í samskiptum kærða við bjóðendur eftir að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp að breyta ætti fyrra útboðinu að efni til. Í því hafi falist skuldbindandi yfirlýsing þess efnis að útboðinu yrði ekki breytt. Í þriðja lagi á því að kærði sé bundinn af þeim forsendum fyrir vali tilboðs sem settar voru í útboðsgögnum nr. 13112, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Með úrskurði nefndarinnar hafi kærði enga heimild fengið til að fella fyrra útboðið niður og koma fram með nýja og gerbreytta útboðsskilmála og augljóst sé að nefndin hafi ætlast til þess að framkvæmd seinna útboðsins yrði þannig að mistök kærða myndu raska möguleikum annarra bjóðenda sem minnst. Í fjórða lagi á því að kærði hafi verið skuldbundinn við útboð nr. 13112 þar sem það tilboð sem fólgið sé í þeim útboðsgögnum hafi aldrei verið afturkallað eða hafnað eins og lög nr. 94/2001 áskilja að gert sé gagnvart bjóðendum, sbr. 52. gr. laganna. Kærði verði að bera allan halla af óskýrum tilkynningum eða mistökum sem hann kunni að hafa gert við tilkynningar til bjóðenda í tengslum við útboðið.

Kærandi byggir á því að með framangreindum ólögmætum breytingum hafi kærði skert raunhæfa möguleika kæranda á því að verða valinn til að vinna verkið samkvæmt fyrri útboðsgögnum. Eftir breytinguna hafi kærandi ekki getað skilað inn fleiri en einu tilboði, auk þess sem raunhæfir möguleikar kæranda hafi verið skertir verulega með minnkun á vægi verðs úr 50% í 30%. Með þessu hafi verið brotið gegn lögum nr. 94/2001 og á því beri kærði skaðabótaábyrgð í samræmi við XVI. kafla laganna.

Kærandi byggir einnig á því að VKS hf., ráðgjafi verkkaupa, hafi verið með öllu vanhæft til að vera ráðgjafi kaupanda. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum kæranda hafi VKS hf. séð um smíði á reikningakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins og hafi þannig haft verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að reikningakerfið yrði tekið út úr útboðinu eins og gert var þegar síðari útboðsgögnin voru lögð fram. Aðkoma VKS hf. að útboðinu sé til þess fallin að draga megi óhlutdrægni þess í efa og slíkt valdi vanhæfi samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telur að kærði hafi brotið trúnað gegn sér með því að geta ekki afhent tilboðsgögn sem kærandi skilaði í fyrra umslagi sínu í útboði nr. 13112 fyrr en löngu eftir að átti að skila þeim, þar sem þau höfðu týnst í vörslum kærða. Með þessu hafi verið brotin ein af grundvallarreglum útboðsreglna samkvæmt lögum nr. 94/2001 sem feli í sér trúnaðarskyldu kaupanda við bjóðendur og skyldu til að fara með gögn sem trúnaðarmál. Kærandi telur kærða bera skaðabótaábyrgð á vítaverðu aðgæsluleysi sínu og gáleysi í þessu efni, enda sé því ítrekað lýst í útboðsgögnum nr. 13112 að gögn bjóðenda séu trúnaðargögn og að farið verði með þau sem slík. Telja megi verulegar líkur til þess að geisladiskar með trúnaðargögnum kæranda hafi lent í höndum annarra bjóðenda og samkeppnisaðila kæranda og skýringar kærða á því hvernig trúnaðargögn hafi týnst séu afar ótrúverðugar. Á þessu gáleysi beri kærði skaðabótaábyrgð.

Kærandi byggir jafnframt á því að sú einkunnagjöf sem kærandi fékk fyrir liðinn „Hæfni og styrkur verkefnishóps" í töflunni „matsþættir – lausn" í kafla 1.2.1 í útboðsgögnum nr. 13279 hafi ekki verið byggð á forsendum í útboðsgögnum og tilboðsgögnum sem bjóðendum bar að senda með tilboðum sínum. Fyrir umræddan lið fékk kærandi 37,5 stig af 50 mögulegum. Kærandi telur það ekki standast að hann hafi fengið svona fá stig og færir fyrir því ýmis rök í kæru sem varða gæðakerfi, starfsfólk bjóðenda sem og fjárhagslega stöðu bjóðenda. Kærandi telur að af þeim verði ekki önnur ályktun dregin en að kærði hafi ekki miðað hlutlægt mat á bjóðendum við þá mælikvarða sem settir voru niður með útboðsgögnum og fram komu í tilboðum bjóðenda, heldur hafi valið ráðist af öðrum þáttum. Slíkt sé brot á lögum nr. 94/2001, einkum 26. gr. laganna. Ef tillit hefði verið tekið til vægi forsendna eins og þeim er raðað upp í útboðsgögnum, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/2001, hefði einkunn kæranda verið hærri og raunhæfir möguleikar kæranda á að ná samningi um verkið þannig verið meiri.

Kærandi byggir jafnframt á því að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/2001 með því að taka forsendur fyrir vali tilboðs ekki nægilega skýrt fram í útboðsgögnum. Þar hafi að vísu verið útlistað hvaða þættir væru í matslíkaninu, en engar upplýsingar verið um vægi einstakra þátta í því. Aðeins hafi verið að finna útskýringar á heildareinkunn fyrir hvern lið en ekki þá sundurliðun sem matshópurinn vann síðan með. Ljóst sé að kærði og Tryggingastofnun ríkisins hafi ákveðið í smáatriðum hvernig haga skyldi einkunnagjöf fyrir einstaka matsþætti og þá einkunnagjöf hafi átt að birta með útboðsgögnum samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/2001.

Kærandi mótmælir harðlega kröfu Ríkiskaupa, sbr. hér að neðan, um frávísun kærunnar á grundvelli formskilyrða. Þá mótmælir kærandi því að kærufrestir hafi verið liðnir samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001, enda hafi ekki gefist tilefni til að kæra fyrr en ljóst hafi verið orðið að ákvörðunin um að taka tilboði TölvuMynda hf. hafi verið reist á ólögmætum forsendum. Þetta hafi ekki legið fyrir fyrr en í fyrsta lagi þann 13. júní 2003 en að öllu leyti hinn 19. júní 2003 þegar birt hafi verið fyrir kæranda einkunnagjöf úr vægi matsþátta. Kærandi telur að í orðalagi 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 felist að frestir samkvæmt þeirri grein geti ekki byrjað að líða fyrr en ákvörðun sem bjóðandi telji brjóta gegn réttindum sínum hafi verið birt honum, enda sé bjóðandi þá fyrst í stakk búinn til að meta hvort ákvörðun kaupanda kunni að hafa brotið á réttindum hans. Bendir kærandi á í þessu sambandi að samkvæmt túlkun kærða á kærufrestinum hafi kærufresturinn verið liðinn þegar fyrirspurnarfrestur í útboðinu rann út og svör við fyrirspurnum bjóðenda bárust. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda sérstaklega, að frestir til að gera athugasemdir við aðkomu VKS hf. sem ráðgjafa hafi verið liðnir, tekur kærandi fram að ekki hafi verið tilefni til að efast um hæfi VKS hf. fyrr en reikningakerfið var tekið út úr útboðinu. Kærði hafi ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum kæranda um það hver hefði smíðað reikningakerfi Tryggingastofnunar ríkisins og þannig komið sér undan því að svara réttmætum fyrirspurnum um hæfi ráðgjafa og veita kæranda upplýsingar til að meta hvort VKS hf. verið vanhæft til að vinna sem ráðgjafi við verkið. Því sé fráleitt af hálfu kærða að bera fyrir sig 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001.

Kærandi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu kærða að engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna útboðs nr. 13279. Loks mótmælir kærandi skýringu kærða á ákvæðum 2. mgr. 41. gr. laga nr. 94/2001 og telur að ef sú skýring yrði lögð til grundvallar gæti kaupandi breytt útboðsgögnum og forsendum útboðs hvenær sem er á útboðsferlinu.

III.

Í greinargerð sinni vekur kærði athygli nefndarinnar á því að það séu Ríkiskaup sem auglýsi og beri ábyrgð á útboði nr. 13279. Tryggingastofnun ríkisins sé ekki beinn aðili máls, en kæran sé á hendur Tryggingastofnun ríkisins og kærða. Óskar kærði eftir því að nefndin skoði hvort ekki beri að vísa kæru kæranda frá sökum formgalla. Kærði gerir jafnframt kröfu um frávísun á grundvelli þess að kærufrestur hafi verið útrunninn, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001, eins og nánar er rakið hér að neðan. Til vara telur kærði að hafna beri kröfum kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka þær til greina með vísan til staðreynda málsins, gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að forvali og útboði á upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríksins. Verður nú nánar vikið að meginathugasemdum kærða við hverja kröfu kæranda fyrir sig.

Varðandi kröfu kæranda auðkennda nr. 1 byggir kærði á því að í samræmi við úrskurð nefndarinnar nr. 33/2002 sé lokað útboð nr. 13279, að undangengnu forvali nr. 13242, nýtt útboðsferli, formlega ótengt og óháð lokuðu útboði nr. 13112 og forvali nr. 13101, enda hafi ekkert komið fram í forvals- eða útboðsgögnum seinna útboðsferlisins sem gefið hafi tilefni til annars. Engin mótmæli, fyrirvarar eða athugasemdir hafi borist frá kæranda á fyrirspurnatíma lokaðs útboðs nr. 13279 vegna þessa kæruatriðis, né í tilboði kæranda. Kærandi hafi fengið útboðsgögn í hendur 16. apríl 2003. Hafi hann talið eitthvað í gögnunum brjóta gegn réttindum sínum hafi honum því borið að bera það skriflega undir nefndina innan fjögurra vikna. Þar sem það hafi ekki verið gert beri að vísa kæruatriðinu frá á grundvelli 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 vegna umræddra breytinga. Á sama hátt og bjóðendur í lokuðu útboði nr. 13279 hafi haft rétt til að senda inn fyrirspurnir og gera athugasemdir við útboðsgögn á fyrirspurnartíma hafi kærða verið heimilt að breyta einhliða texta og skilmálum útboðsins, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 94/2001.

Varðandi kröfu kæranda auðkennda nr. 2 byggir kærði á því að rangt sé í kæru að Tryggingastofnun ríkisins og kærði hafi ráðið VKS hf. sem ráðgjafa í útboðinu. Hið rétta sé að VKS hf. hafi verið falið þetta verkefni í kjölfar almenns útboðs sem haldið var á miðju ári 2000. VKS hf. hafi ekki verið í neinni aðstöðu til að ákveða hvað boðið var út hjá Tryggingastofnun ríkisins, heldur hafi sú ákvörðun alfarið verið forstjóra stofnunarinnar. Ekki hafi komið fram neinir fyrirvarar eða mótmæli frá kæranda um þetta atriði á fyrirspurnatíma lokaðs útboðs nr. 13112 og lokaðs útboðs nr. 13279, né í tilboðum kæranda í útboðunum. Kæranda hafi strax í ágúst 2002 verið aðkoma VKS hf. að útboðinu ljós og hafi samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 átt að bera ágreiningsefnið undir nefndina innan fjögurra vikna.

Varðandi kröfu kæranda auðkennda nr. 3 byggir kærði á því að engum gögnum tilheyrandi tilboði kæranda vegna lokaðs útboðs nr. 13112 hafi verið glatað, né þau afhent af gáleysi til samkeppnisaðila kæranda eða annars óviðkomandi aðila. Umræddir fjórir geisladiskar kæranda hafi verið vistaðir í læstri hirslu hjá VKS hf. Aðeins tilgreindir sérfræðingar VKS hf. hafi haft aðgang að geisladiskunum sem raunar hafi aldrei verið notaðir. Einn diskur með sýningardæmi úr tilboði annars bjóðanda hafi fyrir slysni lent með gögnum kæranda. Kærði mótmælir tilraunum kæranda til að blanda saman tveimur óskyldum málum og hafnar órökstuddum aðdróttunum um að kærði hafi afhent af gáleysi eða glatað tilboðsgögnum kæranda. Þá sé með öllu órökstutt að kærandi hafi borið nokkurn skaða af því að fá ekki geisladiskana fjóra á sama tíma og önnur gögn.

Varðandi kröfu kæranda auðkennda nr. 4 byggir kærði á því að mikil áhersla hafi verið lögð á að rétt og faglega væri staðið að útboðsferli á upplýsingakerfinu. Kærði hafnar alfarið fullyrðingum í kæru um að við mat á tilboðum hafi verið lögð önnur sjónarmið til grundvallar en tilgreind voru í útboðsgögnum. Kærði hafi lagt sérstaka áherslu á að útboðsgögn væru skýr og gegnsæ og sett upp með þeim hætti að samanburður milli tilboða væri hlutlægur. Bendir kærði á ýmis atriði í þessu sambandi í greinargerð sinni og telur að af þeim sé ljóst að fráleitt og rakalaust sé að gera að því skóna að önnur sjónarmið en hlutlæg og fagleg hafi ráðið við mat á tilboðum.

III.

Kæru í máli þessu er beint gegn Ríkiskaupum sem og Tryggingastofnun ríkisins. Vegna þess óskar kærði þess að nefndin skoði hvort ekki beri að vísa henni frá sökum formgalla. Ríkiskaup eru umsjónar- og ábyrgðaraðili hinna umdeildu útboða og því rétt að kæran beinist gegn Ríkiskaupum eins og framsetning úrskurðar þessa ber með sér. Umrædd framsetning kæranda í kæru getur hins vegar ekki valdið frávísun málsins.

Í kæru er þess m.a. krafist að nefndin kveði til sérfróðan matsmann samkvæmt 76. gr. laga nr. 94/2001, sbr. kröfu kæranda auðkennda nr. 5. Nefndin tók umrædda kröfu til athugunar en telur, eftir að öll gögn málsins liggja fyrir, ekki nauðsyn á sérfræðilegri ráðgjöf.

Kærandi krefst þess, sbr. kröfu auðkennda nr. 1, að sú ákvörðun kærða um að breyta forsendum í útboðsgögnum nr. 13112 yfir í þær forsendur sem voru í útboðsgögnum nr. 13279 verði úrskurðuð ólögmæt og viðurkennd skaðabótaskylda kærða vegna þess. Óumdeilt er að hinn 16. apríl 2003 fékk kærandi í hendur útboðsgögn í lokuðu útboði nr. 13279. Frá og með því tímamarki vissi hann eða mátti vita um umræddar breytingar frá útboðsgögnum nr. 13112. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kæran er dagsett 8. júlí 2003 og barst nefndinni í hendur daginn eftir. Þá var kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 vegna umræddra breytinga liðinn. Samkvæmt því verður að hafna kröfu kæranda auðkenndri nr. 1.

Kærandi krefst þess, sbr. kröfu auðkennda nr. 2, að ákvörðun um að ráða VKS hf. sem ráðgjafa í umræddum útboðum verði úrskurðuð ólögmæt og skaðabótaskylda kærða vegna þess viðurkennd. Í útboðsgögnum í hinum umdeildu útboðum, sem og í undanfarandi forvali, kom skýrt fram að ráðgjafi verkkaupa væri VKS hf., sbr. nú síðast lið 1.1.1 í útboðslýsingu útboðs nr. 13279. Sem fyrr segir bárust umrædd útboðsgögn kæranda hinn 16. apríl 2003, en kæra er dagsett 8. júlí 2003. Með vísan til ákvæðis 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um fjögurra vikna kærufrest verður því að hafna kröfu kæranda auðkenndri nr. 2, án þess að efnisleg afstaða sé tekin til kröfunnar eða möguleika nefndarinnar á að taka slíka kröfu til umfjöllunar.

Kærandi krefst þess, sbr. kröfu auðkennda nr. 3, að nefndin úrskurði að kærði hafi brotið gegn útboðsskilmálum með því að glata úr vörslum sínum eða að hafa afhent af gáleysi tilboðsgögn og trúnaðargögn sem innihéldu mikilvæg viðskiptarleyndarmál kæranda. Kærandi sótti gögn sín vegna útboðs nr. 13112 til kærða hinn 2. apríl 2003. Kom þá í ljós að tiltekin gögn vantaði en þau fékk kærandi í hendur hinn 3. apríl 2003. Kæran er sem fyrr segir dagsett 8. júlí 2003 og barst nefndinni daginn eftir. Þá var fjögurra vikna kærufrestur til að bera umrædda meðferð kærða á gögnunum undir nefndina, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr 94/2001, liðinn. Af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda, auðkenndri nr. 3.

Kærandi krefst þess loks, sbr. kröfu auðkennda nr. 4, að nefndin úrskurði að kærði hafi með ólögmætum hætti lagt til grundvallar önnur matsatriði og forsendur en tilgreindar voru í útboðsgögnum nr. 13279 og gögnum sem bjóðendum var gert að senda inn og að viðurkennd verði skaðabótaskylda kærða vegna þessa. Það er álit nefndarinnar, að af fyrirliggjandi gögnum sem og skýringum kærða, verði ekki annað ráðið en að mat kærða sem og ráðgjafa hans á tilboðum hafi að öllu leyti verið hlutlægt og málefnalegt og í samræmi við útboðsgögn. Ekki verður heldur talið að útboðsgögn hafi brotið gegn 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/2001, enda kemur skýrt fram í þeim hvaða meginsjónarmið verða ráðandi við matið. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda, auðkenndri nr. 4.

Kærandi krefst þess loks, sbr. kröfu auðkennda nr. 6, að kærði verði úrskurðaður til að greiða kæranda kærumálskostnað sem hlotist hefur af kærunni. Með tilliti til þess að aðrar kröfur kæranda eru ekki teknar til greina ber að hafna málskostnaðarkröfu kæranda.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber að hafna öllum kröfum kæranda vegna útboðs kærða í tengslum við ÖLMU upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins.

Úrskurðarorð:

Kröfum Skýrr hf., vegna útboðs Ríkskaupa f.h. Tryggingastofnunar ríkisins, á upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins, sbr. útboð nr. 13112 og nr. 13279, er hafnað.

Reykjavík, 3. september 2003.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

03.09.03

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum