Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Innviðaráðuneytið

Öryggisvika sjómanna sett í Sæbjörgu

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setti formlega öryggisviku sjómanna síðdegis í gær, mánudag. Athöfnin fór fram um borð í skólaskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sæbjörgu, á Sundunum úti fyrir Reykjavíukurhöfn og seig ráðherrann um borð í skipið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF.

Oryggisvika0050
Sturla Böðvarsson setti öryggisviku sjómanna eftir að hafa sigið um borð í Sæbjörgu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Sigurður Heiðar Wiium flugstjóri og Björn Brekkan Björnsson flugmaður flugu þyrlunni yfir Sæbjörgu og með þeim í áhöfn voru Páll Geirdal Elvarsson, stýrimaður og sigmaður, og Jón Tómas Vilhjálmsson, flugvirki og spilmaður.

Í upphafi athafnarinnar minnti Sturla Böðvarsson á að ekki væri alltaf logn og blíða eins og í gær þegar Landhelgisgæslumenn og aðrar björgunarsveitir ynnu störf sín og sagði hann þyrlurnar ákaflega mikilvæg björgunartæki. Þá sagði hann ríkja gott samstarf þeirra fjölmörgu aðila sem sinntu björgunarmálum.

Aukna þekkingu og þjálfun sagði hann vera mikilvæga fyrir alla sjófarendur og æfingar yrðu að vera sífellt á dagskrá. Í langtímasáætlun um öryggi sjófarenda sem nú væri hluti af samgönguáætlun væri gert ráð fyrir margs konar verkefnum er stuðluðu að auknu öryggi. Hann sagði að auk samgönguráðuneytis, Siglingastofnunar, útgerða og sjómanna kæmu ýmsir að málum er vörðuðu öryggi sjómanna, til dæmis Vaktstöð siglinga sem væri mikilvægur viðbragðsaðili, Fjöltækniskólinn með sína fjölbreyttu menntunarmöguleika og síðan slysavarna- og björgunarsveitir um land allt.

Gísli Viggósson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun Íslands, sagði frá ráðstefnu um öryggi sjómanna sem halda á næstkomandi miðvikudag, 27. september, í Fjöltækniskólanum. Ráðstefnan hefst klukkan 10 og gert ráð fyrir að henni ljúki um klukkan 16. Að henni standa samgönguráðuneytið, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands.

Eftir setningarathöfnina ræsti Sturla Böðvarsson siglingaforrit í tölvu Sæbjargar sem Eimskip gaf Slysavarnaskóla sjómanna en forritið var notað lengstum um borð í Mánafossi og var Steinar Magnússon, fyrrverandi skipstjóri Mánafoss, viðstaddur ásamt Eyþóri Ólafssyni öryggisfulltrúa Eimskips. Eimskip gaf einnig 20 feta gám sem nota á til slökkviæfinga á endurmenntunarnámskeiðum um borð í Sæbjörgu og að auki 100 þúsund krónur. Radíómiðun gaf vélbúnað sem hugbúnaðurinn er notaður á.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum