Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Íslensk flugmál í brennidepli á flugþingi

Samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn Íslands boða til flugþings miðvikudaginn 4. október næstkomandi og fer það fram á Hótel Nordica í Reykjavík. Þar flytja innlendir og erlendir sérfræðingar níu fyrirlestra auk þess sem Sturla Böðvarsson ávarpar þingið í upphafi svo og dr. Assad Kotaite, fyrrverandi forseti ICAO, Alþjóða flugmálastofnunarinnar.

Yfirskrift flugþings er: Íslensk flugmál í brennidepli. Dagskrá þingsins er skipt í fjóra hluta: Kröfur samfélagsins til flugsins; tækifæri og þarfir flugsins; skipan flugmála á Íslandi og rekstur íslenska samgöngukerfisins. Erlendu fyrirlesararnir eru Kieran Daly, ritstjóri tímaritsins Flight International, sem fjallar um kröfur til nútíma flugþjónustu, Brian Pierce, aðalhagfræðingur IATA, sem ræðir um tækifæri og þarfir flugheimsins og Kurt Lykstoft Larsen, flugmálastjóri Danmerkur, sem skýrir frá þeim breytingum sem orðið hafa í flugmálastjórn Danmerkur.

Flugþing er opið öllum en óskað er eftir að þátttakendur skrái sig hjá Flugmálastjórn í síma 569 4113. Einnig er unnt að gera það á vef Flugmálastjórnar og þar er dagskráin birt í heild - sjá hér.

Daginn fyrir flugþing eða 3. október kl. 16 flytur dr. Assad Kotaite, fyrrverandi forseti ICAO, fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands. Mun hann fjalla um framtíð alþjóðlegs flugs og flytur hann fyrirlestur sinn á ensku. Dr. Kotaite gegndi embætti forseta fastaráðs ICAO í 30 ár og lét hann af því starfi í júlí í sumar. Hann hefur tvisvar áður komið til Íslands, í fyrra sinnið árið 1979 þegar hann sæmdi Agnar Kofoed-Hansen þáverandi flugmálastjóra, æðstu viðurkenningu ICAO fyrir störf sín að málefnum hennar og í síðan árið 1994 þegar hann lagði hornstein að nýbyggingu flugstjórnarmiðstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli ásamt Halldóri Blöndal, þáverandi samgönguráðherra.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira