Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Útboð undirbúið vegna áætlunarflugs til Vestmannaeyja

Samþykkt var í ríkisstjórninni í morgun tillaga Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að þegar verði hafinn undirbúningur að útboði á ríkisstyrktu áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Vegagerðinni yrði falin framkvæmd útboðsins eins og jafnan með útboð vegna áætlunarflugs.

Í framhaldi af tilkynningu Landsflugs síðastliðinn föstudag um að félagið myndi hætta áætlunarflugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur frá og með 25. september þykir ljóst að litlar líkur séu á því að aðrir flugrekendur hefji flug á þessari leið án ríkisstyrkja. Samgönguráðherra lagði því fyrir ríkisstjórn tillögu um að þegar yrði hafinn undirbúningur útboðs fyrir ríkisstyrkt áætlunarflug. Gera má ráð fyrir að slíkt útboðsferli taki sex til sjö mánuði en við útboðið yrði tekið mið af reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu samgönguráðherra að hafnar verði viðræður við flugrekstraraðila um að taka að sér áðurgreint áætlunarflug gegn fjárhagslegum stuðningi þar til samið yrði um flugið til lengri tíma í kjölfar útboðs. Miðað verður við svipaða þjónustu og verið hefur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira