Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Úttekt embættis landlæknis á Heilbrigðisstofnun Austurlands

Starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands - mynd

Embætti landlæknis hefur birt niðurstöður úttektar á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Úttektin var unnin að frumkvæði embættisins og tók til atriða er varða stefnumörkun, stjórnun, vinnubrögð starfsfólks, gæðastarf og öryggismenningu, mönnun, húsnæði og aðbúnað. Úttektin náði ekki til hjúkrunarheimila.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hóf starfsemi sína 1. janúar 1999. Við tilurð hennar sameinuðust átta heilbrigðisstofnanir á Austurlandi í eina. Stofnunin veitir heilsugæslu- og sjúkrahúsþjónustu og rekur þrjú hjúkrunarheimili. Að auki heyra sjúkraflutningar svæðisins undir stofnunina. Líkt og fram kemur í úttektarskýrslunni var markmiðið með stofnun HSA m.a. að tryggja íbúum góða heilbrigðisþjónustu og styrkja þjónustusvæðið sem stofnunin nær til, t.d. með bættri mönnun, samvinnu og samnýtingu. Að sögn stjórnenda hefur verið unnið að því að gera HSA að meiri einingu og sameiginlegri stofnun með margar starfsstöðvar.

Í skýrslunni er dregin upp skýr mynd af starfsemi stofnunarinnar sem þjónar um 11.000 manns á 1.200 ferkílómetra svæði, allt frá Bakkafirði til Álftafjarðar. Á starfssvæði stofnunarinnar eru alls 11 starfsstöðvar og fjöldi starfsfólks er um 340 manns.

Úttekt embættis landlæknis beindist einkum að eftirfarandi spurningum:

  • Er stefnumörkun starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) skýr og sýnileg öllu starfsfólki?
  • Er stjórnun HSA í samræmi við nútímakröfur um góða stjórnun, s.s. straumlínustjórnun (e. lean management) eða aðra aðferðafræði?
  • Er vinnulag stofnunarinnar varðandi gæði og öryggi í samræmi við nútímaviðhorf um öryggismenningu, s.s. leiðbeiningar embættis landlæknis (Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu 2016) og Áætlun um gæðaþróun?
  • Hvernig er mönnun, húsnæði og starfsaðstaða?
  • Hver er árangur starfseminnar?

Í tilkynningu embættis landlæknis um úttektina segir: ,,Meginhlutverk HSA er að veita íbúum Austurlands og öðrum sem þar dvelja aðgengilega og eftir megni samfellda og alhliða heilbrigðisþjónustu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar, heilsuverndar og sálfræðiþjónustu sem og almenna sjúkrahúsþjónustu. Vilji er til þess að vinna enn frekar að heilsueflingu Þá hefur verið unnið að því að gera HSA að meiri einingu og styrkja heilsueflingu starfsfólks. Fjarlægðir og samgöngur innan svæðisins setja starfseminni ákveðnar skorður en ýmsar umbætur hafa verið gerðar hvað aðgengi að þjónustu, en mönnun lækna er áhyggjuefni. Með tilkomu fjarheilbrigðisþjónustu mun aðgengið aukast. Aðkoma HSA að Austurlandslíkaninu er jákvæð svo og aukin samvinna milli mismunandi fagaðila innan umdæmisins."

Helstu ábendingar embættisins að lokinni úttekt eru eftirfarandi:

  • Tryggja að fyrirliggjandi innleiðingaráætlun á fjarheilbrigðisþjónustu verði fylgt og full notkun verði tryggð á þessu ári.
  • Efla heilsuvernd, forvarnir og snemmtæka íhlutun einkum er varðar sálfélagslega þjónustu við börn og ungmenni.
  • Styrkja mönnun og samfellda þjónustu lækna.
  • Fullmanna þverfaglegt geðheilsuteymi fyrir börn, unglinga og fullorðna.

 Úttektarskýrslan á vef embættis Landlæknis

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum