Hoppa yfir valmynd
22. desember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Gerð þjónustusamninga áfram á hendi heilbrigðisráðuneytis

Gerð þjónustusamninga verður áfram á hendi heilbrigðisráðuneytisins og flyst ekki til Sjúkratrygginga Íslands í bráð. Breyting þess efnis hefur verið samþykkt á Alþingi.

Gert var ráð fyrir því samkvæmt lögum um Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) að stofnunin annaðist alla samningsgerð um kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Í greinargerð með frumvarpi Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, sem nú er orðið að lögum segir um breytinguna og SÍ: „Lögin tóku gildi 1. október 2008 en gert var ráð fyrir að ákvæði IV. kafla laganna um samninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert kæmi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2009 og ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili eigi síðar en 1. janúar 2010. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert fjölda þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu við ýmsa aðila, svo sem líknarfélög, sjálfseignarstofnanir og einkaaðila, og hefur flutningur þeirra til Sjúkratrygginga Íslands tekið mun meiri tíma en ætlað var. Nauðsynlegt þykir því að fresta gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili um eitt ár. Hér er því lagt til að í stað 1. janúar 2010 komi 1. janúar 2011, en ákvæðið verði að öðru leyti óbreytt.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum