Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Almenn komugjöld í heilsugæslunni óbreytt

Almenn komugjöld í heilsugæslunni breytast ekki, komugjöld barna á slysa- og bráðadeildir falla niður og gjald vegna vitjana lækna til barna fellur niður frá áramótum. Hámarksgreiðslur fyrir hverja aðgerð, eða skoðun, og þak vegna afsláttarkorts hækkar lítillega, eða um 400 til 2000 krónur miðað við útgjöld á einu ári. Þetta eru megindrættir reglugerðarinnar, sem heilbrigðisráðherra hefur gefið út og tók gildi um áramótin.

Breytingarnar fela í sér að vilji heilbrigðisráðherra stendur til þess að tryggja jafnt aðgengi að heilsugæslunni með því að halda óbreyttum komugjöldum þar, en auk þess hafði ráðherra almennt að leiðarljósi að auka ekki útgjöld barnafjölskyldna vegna heilbrigðisþjónustu, að lágmarka útgjaldaauka elli- og örorkulífeyrisþega og að stilla almennri hækkun komugjalda mjög í hóf þótt almennar verðbreytingar hafi í raun kallað á meiri hækkun gjalda, enda verðbólguhækkunin um 8% frá því gjöldum var síðast breytt. Reiknað er með að breytingarnar skili 150 milljón króna tekjuauka fyrir ríkissjóð.

Ný reglugerð felur í sér eftirfarandi:

  • Komugjöld á heilsugæslu hækka ekki
  • Börn verða áfram undanþegin gjaldi vegna komu á heilsugæslustöð
  • Gjald vegna komu barns á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa verður afnumið
  • Gjald vegna vitjana heilsugæslulækna til barna verður afnumið
  • Komugjald barna vegna heimsókna til sérfræðinga er óbreytt en börn greiða ekkert gjald vegna komu til sérfræðilæknis á göngudeildum sjúkrahúsa
  • Gjöld sem sjúkratryggðir greiða fyrir heilbrigðisþjónustu utan heilsugæslu hækka almennt um 5%
  • Gjald vegna bólusetninga og annarrar þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum ýmist hækkar eða í samræmi við hækkanir efniskostnaðar
  • Hámarksgreiðsla vegna komu til sérfræðilæknis hækkar úr 25.000 kr. í 27.000 kr. Þak vegna afsláttarskírteinis hækkar almennt úr kr. 25.000 í kr. 27.000
  • Þak vegna afsláttarskírteinis 70 ára og eldri, öryrkja og 67-69 ára sem áður nutu örorkulífeyris hækkar úr 6.100 kr. í 6.500 kr.
  • Þak vegna afsláttarskírteinis barna er óbreytt
  • Tilgreindur er nýr hópur aldraðra 67-69 ára sem ekki nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs og sjómanna 60-69 ára sem njóta óskerts ellilífeyris. Þessi hópur greiðir nú 80% af gjöldum sjúkratryggðra en greiddi áður fullt verð. Þeir sem eru 67-69 ára og ellilífeyrisþegar, 67-69 ára, sem njóta óskerts ellilífeyris greiða eftir breytinguna það sama og þessi nýi hópur sem hér er tilgreindur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum