Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkir til að efla nærþjónustu við langveik og ofvirk börn

Um þrjátíu sveitarfélög og samtök þeirra sóttu um styrki til tæplega áttatíu verkefna ætluð til að efla stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Umsóknarfrestur rann út 27. janúar.


Heilbrigðisráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélögin í landinu standa að átaki til að efla stuðnings- og nærþjónustu í heimabyggð fyrir langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Verkefnisstjórn skipuð fulltrúum þessara aðila auglýsti eftir styrkumsóknum í desember síðastliðnum og rann umsóknarfrestur út 27. janúar. Áhersla var lögð á að sveitarfélögin gætu sótt um styrki í samvinnu við félagasamtök og einstaklinga og eru margar umsóknanna byggðar á slíkri samvinnu.

Markmið með átakinu er að tryggja þjónustu í samræmi við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra, óháð því hvar þjónustan er flokkuð í stjórnkerfinu. Áherslan er lögð á börnin sem þurfa þjónustunnar með, en ekki á hlutverk hvers ráðuneytis um sig. Ráðuneytin þrjú leggja öll fé til þessa verkefnis í sameiginlegan sjóð og eru 80 milljónir króna til úthlutunar.

Verkefnisstjórnin mun fara yfir styrkumsóknir sveitarfélaganna á næstunni og verða ákvarðanir um úthlutanir kynntar strax og þær liggja fyrir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum